Sex í pottinum

Já það er dásamlegt hvernig hægt er að misskilja hlutina sérstaklega þegar maður er í öðru landi, kemur reyndar sjaldnar fyrir núna eftir allan þennan tíma en það kemur þó fyrir.

Ég ætla að segja ykkur nokkrar sögur og sú fyrsta er frá næstsíðasta degi ársins en við vorum með gesti hérna um áramótin og tókum svona míní gamlárs þann 30. des með grilluðum hamborgara og pottapartý, það var reyndar dáldið þröngt í pottinum því við erum öll fullvaxin og sumir vel það en ég sagði að það hefði staðið á umfjölluninni um pottinn að hann væri fyrir sex. Og jú Norðmenn nota orðið sex fyrir kynlíf svo úr þessu spannst mikil gleði og grín. En ég lýg engu um það að þessi pottur er fyrir sex, hvernig sem norðmennirnir ætla að túlka það. Og jú við vorum 6 fullorðnar manneskjur saman í pottinum og gott að enginn var hræddur við snertingu því það var þröngt en gaman.

Önnur mismæli eru þau að hérna má maður ekki tala um að vera kátur því þá ertu graður og hvort notið þið meira orðið glaður eða kátur þegar þið eruð að lýsa hvernig ykkur líður? Ég nota greinilega orðið kát(ur) miklu meira og hef lent í óþægindum út af því. Ég var að fara að vinna ljósmyndaverkefni með einni konu hérna úr dalnum og það var snjór og við ætluðum uppá heiði svo ég spurði hvort ég mætti ekki bara vera samferða henni á hennar bíl og jú jú auðvitað mátti ég það. Svo þegar við erum rétt lagðar af stað þá sagði ég henni að ég hefði orðið svo kát þegar hún hringdi og bauð mér þetta verkefni (og sagði það á norsku að sjálfsögðu). Hún leit á mig og sagði hissa og með stórum augum, ha varðstu kát þegar þú heyrðir i mér? (sé hana ennþá fyrir mér) skíthrædd um að ég ætlaði að reyna við hana en ég bara svona svaka glöð.

Og svo við höldum áfram með svona upprifjanir þá er einn besti brandarinn þegar Þráinn var ennþá aleinn hérna í Noregi og varð lasinn og komst ekki í vinnu og hringdi í Arnfinn vin sinn og sagði að hann kæmist því miður ekki í vinnu í dag því hann væri svo lasinn og lægi undir sæng. (ligger under sengen, sem þýðir sko rúm á norsku en ekki sæng) og Arnfinn spyr af hverju liggur þú undir rúmi þá, nú því ég er svo lasinn sagði Þráinn og þá ligg ég undir sæng, ha segir Arnfinn, undir rúmi? Já segir Þráinn, ég er ábyggilega með hita og ég beinverki og ligg því undir sæng.
Þessi orð er ansi ruglandi fyrir nýflutta en þau eru svona: Sæng/Dyne – Rúm/Seng – Dýna/matress – Herbergi/Rúm.

Eigið góðan fimmtudag, við biðjum að heilsa héðan úr snjónum, skellum okkur kannski bara tvö í pottinn um helgina svo það verði enginn misskilningur.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

2 thoughts on “Sex í pottinum

  1. Svo dásamlegir þessir pistlar þínir Kristín, nú er ég búin að lesa 3 í röð og brosa og hlæja upphátt….ég talaði einmitt um að barnið (þá 4ára) væri svona agalega kát í góða veðrinu…hahaha
    Kveðja frá Stavó

    1. Ha ha já þetta er óþægilegt, þegar orðin eru næstum eins en þýða alls ekki það sama. Það er gott ef fólk getur hlegið að mér, þá er tilganginum náð. Lífið er of stutt til að taka því of alvarlega.

      kveðja úr sveitinni
      Kristín

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.