Þetta gerist á hverju ári, ég held alltaf að það sé komið vor en svo er það ekki alveg en kannski handan við hornið. Það kom 7 stiga hiti og sól á mánudaginn sl. og við skelltum upp paviljonginu okkar og húsgögnum en þó ekki öllum púðum og pullum þar sem við vissum að það yrði rigning í vikunni. Það var þvílíkt dásamlegt að sitja úti í sólinni í 2 tíma en þá var þetta líka búið og orðið kalt. En þetta varð til þess að við fórum að ræða draum sem við höfum haft, en hann er að skipta út þessu paviljongi (sem eru járnsúlur með tjaldþaki og gardínum sem hliðum) og byggja varanlegt lítið opið hús þarna úti, en þá þarf að teikna það upp, gera kostnaðaráætlun og kaupa svona spítu hérna og hinsegin spítu á öðrum stað með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgir, þó erum við svo heppin í okkar sveit að vera með byggingavöruverslun þar sem þú getur fengið allt. Já ég held ég ljúgi engu þó ég segi að þú getir fengið allt sem þig vantar til að byggja, bæta og breyta þar.
En jú jú við spjöllum áfram um hvernig við myndum vilja hafa húsið og þar fram eftir götunum. Daginn eftir er ég að kíkja á netið eftir svona húsum en hef í raun aldrei áður séð eitthvað tilbúið sem okkur langar í þar til núna……
En þá fann ég þetta hús og það kemur bara tilbúið allt efni í það (bjálki) og þarf bara að reisa það á þeim stað sem okkur langar og við ætluðum nú ekki að vera fljótfær eins og við erum oftast eða ég sagði það en svo minntist Þráinn á að fljótfærnin okkar hingað til hefði yfirleitt verið góð en ekki bagaleg svo af hverju að bíða, það eru að koma páskar með löngu fríi sem gæti nýtst til að setja húsið upp ef það verður komið, þe. ef við pöntum strax svo við bara pöntuðum og erum að deyja út spenningi að fara að fá hús út í garð sem heldur vatni og ekki þarf að taka alla púða og pullur inn í hvert sinn sem rignir sem gerir oft.
Hlakka til að fara að bera á pallinn og húsgögnin sem Þráinn smíðaði til bráðarbirgðar fyrir mörgum árum og eru ekki að fara neitt annað en inn í nýja húsið.
Já ég sagði hlakka til að fara að bera á pallinn og húsgögnin en það er sko eitt af vorverkunum sem ég elska, háþrýstiþvo úti, bera á pallinn en svo má helst einhver annar koma og vinna í garðinum, mér finnst það ekki eins skemmtilegt.
En vorið er að koma og ég get ekki beðið. Enda á ég afmæli í apríl, trúlofunarafmæli í apríl, brúðkaupsafmæli í apríl og sambúðarafmæli í maí – finnst einhverjum skrítið að ég sé vorbarn, ég vel allar dagsetningar sem ég get valið um vor.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna vorbarn.