Þó þú berir virðingu fyrir því gamla….

21.05.2016

þýðir ekki að þú sért á móti framkvæmdum.  En það virðist vera með svo marga að halda að ekki sé hægt að framkvæma og byggja nema rífa það gamla niður.

Ég var að lesa grein eftir Berg bakara í Eyjum þar sem hann lýsir því yfir að sjá gríðarlega eftir því að hafa ekki barist harðar á móti þeim sem telja að framfarir geti ekki orðið nema rífa það gamla niður.  Við erum að tala um miðbæinn í Eyjum sem hefur algjörlega misst allt sem hann hafði hér á árum áður.  Þar eru gömul hús rifin og ný og nýtískuleg byggð í staðinn.  Stundum má alveg rífa en við megum ekki breyta ásýnd bæjarins bara fyrir eina eða tvær verslanir.  Ég spyr líka af hverju gætu verslanir ekki verið í gömlu húsnæði?  Það er svo ótrúlega sjarmerandi að fara í sumar búðir hér í Noregi sem eru í gömlum húsum og þú nánast gengur á milli herbergja og upp stiga og þess háttar.

Eitt af því sem ég varð svo ástfangin af hér í Noregi er einmitt hvað bæirnir (margir alla vega) eru gamlir og það gamla nýtur sín.  Auðvitað hafa verið byggð ný hús og td. í Mandal var byggð risastór verslunarmiðstöð en það var gert risastóru bílastæði og bílastæðið sett undir húsið.  Reyndar var eitt stakt hús fjarlægt í heilu lagi og flutt eitthvað annað en það var ekkert gamalt hús heldur sjálfsagt innan við 30 ára.

Að ganga um miðbæ með sögu er ótrúlega skemmtilegt og ganga um gamlar hellulagðar götur sem hlykkjast og allt í einu kemur hús þar sem gluggarnir hafa verið stækkaðir aðeins en húsið að öðru leiti eins og í gamla daga og í þessu húsi er verslun sem er svo gaman að ganga í gegnum.  Rúmfataverslun, ungbarnaverslun með vagna og kerrur og þess háttar og síðast en síst búð full af alls konar punti til heimilisins, kertastjakar, hillur, styttur og já bara alls konar.  Dásamleg búð að skoða í, kannski flest of dýrt fyrir minn smekk en það er allt önnur ella.

Framfarir þurfa ekki að vera á kostnað þess gamla sem á að vernda.  Ekki bara eitt eða tvö hús sem byggt verður safn yfir heldur leyfa bænum að halda útliti sínu, aðstoða fólk við að viðhalda gömlu húsunum frekar en að aðstoða við að rífa þau gömlu.

Veita verðlaun fyrir fallegasta elsta húsið.  Veiti styrki til endurbóta.  Ekki bara nýbyggingar.

Þegar Arnfinn vinur okkur gekk með okkur í gegnum Mandal og sagði okkur sögu bæjarins og nánast þekkti hvern einasta stein og tré þá var eins og væri hnippt fast í okkur því við uppgötvuðum að þetta gætum við ekki, alls ekki með Hafnarfjörðinn sem við bjuggum þó í nærri 20 ár kannski að einhverju leiti í Eyjum en það er ekki af því að húsin standa heldur vitum við frekar hvar þau stóðu.  Og það er slæmt, sérstaklega ættu eyjamenn sem misstu svo mörg hús undir og hafa upplifað þessar breytingar á eyjunni sinni og bænum sínum að leyfa því sem stóð af sér eldgosið að halda sér og byggja frekar annars staðar.  Ég tek undir með Bergi það er engin ástæða að hafa verslun eins og Bónus í miðbænum, þangað gengur enginn út með 4 – 6 innkaupapoka og labbar með þá heim.  Það fara allir á bílum og þá skiptir engu máli hvar búðin er.  En að troða henni á pínulítinn stað og rífa niður gömlu húsin sem þar voru er ekki fallegt.

Hérna eru smá sýnishorn á miðbænum í Mandal, þarna eru nýleg hús inná milli en götumyndin var látin halda sér, auðvitað er til eitt og eitt ljótt hús og mistök gerð hér eins og annars staðar en við eigum að læra af þeim og ekki gera fleiri.

Þið sjáið á síðustu myndinni þar sem verið er að byggja verslunarmiðstöðina okkar að hún skemmir ekki götumyndina, hún er aðeins utan við þó hún sé í miðbænum.

Dettur í hug með ísfélagshúsið, af hverju ekki að breyta því bara í lista og menningarstöð eins og Bergur stakk uppá og verslunarsvæði, það er nóg plássið þar inni og mér finnst ekkert ljótt við þessar gömlu stóru byggingar sem bera svo mikla sögu í sér.

Verndum söguna okkar.

Þangað til næst,
Ykkar Kristin Jóna eða bara Stína á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.