Ég er búin að vera að hlusta á “Drauga fortíðar” frá því að þeir Flosi og Baldur byrjuðu með þættina og get ekki annað sagt en Flosi hefur fengið mig til að íhuga það að lesa Brennu Njálssögu og ýmislegt annað sögulegt sem ég hafði aldrei neinn sérstakan áhuga á. Held samt að núna hefði ég svo gaman að lesa þetta sérkennilega tungumál sem íslenskan var þá.
En í gær byrjaði ég að hlusta á viðtal hjá Snæbirni Ragnarssyni við Flosa Þorgeirsson og hafði ég mikið álit á Flosa áður þá jókst það til muna.
Hann tekst á við þunglyndi og kvíða með skynseminni sem er alveg frábært og væri auðvitað æðislegt ef fleiri gætu það. Ég tengi alveg þarna því ég á það til að fá heilmikil kvíðaköst en læt þau ekki stjórna mér heldur nota skynsemina til að róa mig niður (og eiginmanninn sem getur alltaf hjálpað mér að ná áttum þrátt fyrir að hann hafi ekki mikinn skilning á kvíða) Ég á nú ekki við mikið þunglyndi að stríða svo ég þarf sem betur fer ekki að tengja þar við Flosa en þó finn ég oft fyrir skammdegisþunglyndi og vill hanga meira í rúminu með eitthvað léttmeti að borða og hlusta og horfa á þá heldur en þegar sólin skín og blómin blómstra.
Ég er ekki alveg búin með viðtalið við hann Flosa því ég ákvað að treina mér það aðeins lengur, því þessa fallegu rödd er bara hægt að hafa í eyrunum allan daginn alla daga. En mig langaði á einum stað að blanda mér í viðtalið og segja eina uppáhaldssetninguna mína við hann og hún er svona: “Inn í hvaða leikrit fæddist þú?” Hvað er það sem skilgreinir þig sem manneskju, í gegnum hvað gekk fólkið þitt áður en þú fæddist, allt þetta hefur áhrif á þitt líf og hvernig þú tekst á við lífið seinna meir.
En svo fer hann að tala um alkahól og fíkn og þá varð ég svo sammála honum að mig langaði að garga. Hann segist hafa drukkið til að deyfa þessar þunglyndis og kvíðatilfinningar og notað vímugjafa til að hjálpa sér þar. Hann segir einnig að nú verði SÁÁ alveg brjálað því þau vilja meina að fíkn sé líkamleg en Flosi sagði að það gæti svo sem vel verið hjá mörgum, hann þekki það að sjálfsögðu ekki en hjá honum var svört hola í sálinni sem þurfti að deyfa og því drakk hann. Þegar hann síðan fer að vinna í sjálfum sér meira þá hættir hann að drekka því vín fór víst ekki vel í hann.
Ég var einu sinni að vinna með manni sem fór í áfengismeðferð, þetta var ungur maður, sem átti eignarhlut í hugbúnaðarfyrirtæki, fallega fjölskyldu, risastórt hús og marga bíla en hann var ekki á góðum stað í lífinu sjálfur og fór að drekka svo mikið að hann endaði í meðferð. Eftir meðferð kom hann til vinnu og ég fór að spjalla við hann um líðanina og þess háttar og þá sagði hann mér að hann væri ekki sáttur við að vera sagður alkahólisti því hann héldi að hann væri miklu frekar þunglyndur og því hefði hann leitað í áfengið. Bingó! Alveg það sama og Flosi sagði og frá því að þessi maður sagði mér þetta fyrir hartnær 25 árum hef ég verið þeirrar skoðunar að fyrst þurfi að huga að sálinni og sjá svo hvort alkahólisminn læknist ekki bara í framhaldinu. En jú þessi maður fékk ekki þá sálfræðihjálp sem hann þurfti hjá SÁÁ og framdi hann sjálfsmorð stuttu síðar.
Flosi missti pabba sinn af slysförum þegar hann var 8 ára og honum var sagt að pabbi hans væri dáinn og svo ekki orð meir. Enda á þeim tíma ekki talað við börnin. Er það furða að mín kynslóð sé stundum svolítið sérkennileg.
Ég held áfram að hlusta á Flosa í kvöld og þá er það spurning hvort ég sofni nokkuð því ég skelli svo mikið uppúr þegar ég hlusta á hann.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna