Skrítið hvað maður er alltaf til í að fara og kaupa og kaupa eitthvað. Og þá er ég ekki að meina föt því það er ekki minn kaupahéðinn heldur miklu frekar eitthvað til heimilisins. Enda er það nú þekkt að ég er með áráttu sem ég hef reyndar náð að halda niðri í nokkur ár en þessi árátta náði hámarki sínu þegar ég vann á Tanganum í gamla daga.
Þessi árátta er í alls konar plast heimilisdót frá Curver, þvottabalar, uppþvottagrindur, óhreinatauskörfu osfr.
En sem sagt það er þessi kaupaárátta sem er pínulítið að stríða mér þessa dagana og það er ekki síst henni Hafrúnu sem vinnur með að kenna, hún er nefnilega búin að kaupa sér íbúð (eftir skilnað og sölu á húsi) og þá þurfti hún endilega að kaupa sér nýjan sófa í stofuna og nýtt rúm og nýja hillu í stofuna og skrifborð handa Emil og svo og svo og svo….
Og svo þarf ég að hlusta á þetta og þykjast ekki vera neitt afbrýðisöm út í hana að vera að þessu á meðan ég hreinlega engist sundur og saman og öfunda hana ekkert smá, enda datt það út úr mér í dag að ég væri nú bara til í að giftast henni, bara svona rétt á meðan hún stendur í þessu kaupaveseni.
En ég er þó með eitt í bakhöndinni….. Þráinn er búinn að vera að vinna í velborgaðri aukavinnu og svo verður alveg oggolítill afgangur af sölunni á íbúðinni í Eyjum (reyndar bara af því að við vorum búin að borga í nýju þaki og málningu) svo mér sýnist að við gætum kannski bara keypt okkur nýtt sófasett fyrir jólin. Jibbý, þá get ég farið að kaupa eitthvað eitthvað eitthvað…. skiptir engu máli bara kaupa og kaupa.
Má reyndar kaupa rúllugardínur fyrir pabba á morgun til að senda með bílnum til Eyja en hann fer á sunnudaginn því pabbi er alveg öruggur á því að hann fái þann úrskurð hjá lækninum á miðvikudaginn og það væri náttúrlega rosalega gott fyrir hann því hann ætlar að reyna að flytja inn í nýju íbúðina þá líka.
En semsagt ég má kaupa fyrir hann og eitthvað smá fyrir Konný en vitiði hvað…. það er ekki það sama svo þetta er greinilega ekki bara að kaupa heldur að kaupa eitthvað handa sjálfum sér og við höfum missjafnan smekk á hvað er gaman að kaupa sumar konum vilja bara skó og aftur skó en mig langar í nýtt sófasett, nýja hillu í stofuna, úps en þá þarf ég að fá nýtt borðstofusett til að það passi við hilluna, og svo langar mig í ferðatölvu og nýtt sjónvarp svona með flatskjá, já og svo langar mig í í í í í í ….
Gott að ég er bundin yfir Ástrós Mirru og Kristófer Darra núna svo ég hlaupi bara ekki af stað í innkaupaferð.
Man hvað maðurinn sagði úti í Halifax þegar við vorum þar, hann sat alltaf á barnum meðan konan hans og vinkona versluðu og versluðu og tautaði “Já og þetta kostaði ekki neitt”.