29.6.2007
Við skruppum 4 ættliðir í pílagrímsferð til Stokkseyrar í gær, við höfum gert þetta undanfarin ár og þá aðallega til að bjóða ömmu í ferð þangað. Svo bættist mamma í hópinn í fyrra og þetta er bara mjög gaman.
Amma hefur svo gaman að koma á æskuslóðirnar sínar (og reyndar hafa hennar æskuslóðir breyst hvað minnst af öllum slóðum á Íslandi) og mamma var þarna líka talsvert mikið sem lítil stelpa.
Við Ástrós hlustum bara á þær tala um gamla tíma og reynum að læra eitthvað af þeim.
Við fáum yfirleitt ofsalega gott veður og það var einnig í gær nema á Stokkseyri, þar var ískalt og hávaðarok, svo um leið og við keyrðum yfir til Þorlákshafnar þá duttum við aftur inní sól og hita, skrítið.
Við heimsóttum Báru í Þorlákshöfn sem fær ekki oft svona merkilega heimsókn, 4 ættliðir og var mjög ánægð að sjá okkur og við hittum einnig vel á hana því Silja dóttir hennar var að koma frá Danmörku í frí en hún hefur búið þar í 10 ár. Svo var Jenný dóttir hennar líka í heimsókn svo við hittum vel á.
Það var verið að tala um auglit ofl. þarna í gær og Laufey amma og Sigmundur afi voru með svo brún augu en Jens maðurinn hennar Báru hann var bláeygður og Báru langaði svo í brúneygt barn og eignaðist 11 börn sem öll urðu bláeygð. Hún sagðist ekki hafa ætlað að gefast upp á brúnu augunum og svo hló hún. Skemmtileg kona hún Bára alltaf, kalla hana frænku þó hún hafi verið gift frænda mínum.
Svo enduðum við Mirra Skotta á að fara með Sveindísi, Helgu Rós og Eddu Sóley í Hellisgerði að sjá leikritið Dýrin í Hálsaskógi, frábært framtak hjá krökkunum að vera svona sýningu utandyra í sumar. Tek ofan fyrir ykkur.
Þangað til næst,
Kristín