1.10.2007
Jæja það er ekki svo lítið að gerast lengur. Mikið búið að vera að gera í vinnunni, hjálpa ömmu að flytja um síðustu helgi sem endaði þannig að amma var flutt á bráðamóttökuna, hún var þó bara inni í einn sólarhring, svaf svo í nýju íbúðinni og lenti svo aftur uppá spítala í dag og liggur á hjartadeildinni núna.
Nú biðjum við til Guðs að þetta sé bara vegna mikils álags á hana undanfarið og að hún jafni sig fljótt og vel.
Það kom einn að skoða í dag og annar ætlaði að koma í kvöld en það klikkaði eitthvað. Við skoðuðum tvær íbúðir og erum alveg steinhissa hvað allt er eitthvað sjabbí og úr sér gengið sem fólk býr við. Önnur íbúðin var í Breiðvanginum og blokkin er hreinlega ógeð, skrítið fólk sem labbaði þarna inn og allt eftir því. Móða á milli glerja á öllum herbergjum osfrv.
Þetta var skárri íbúðin. Hin var hreinlega hreisi, Þráinn sagði að eldhúsinnréttingin væri verri en á verkstæðum og svo allt hitt eftir því. Þar var leigjandi sem sýndi og hún sagði að það væri svo hljóðbært og þar sem íbúðin væri á miðhæð þá heyrði hún hreinlega allt bæði fyrir ofan og neðan. Fólk væri mikið úti á svölum að reykja og það heyrðist náttúrulega inn og svo væru oft partý í húsinu. Það lá við að við hlypum út og heim og tækjum okkar af sölu.
En núna held ég að við ætlum að fara að skoða á Völlunum þar eru blokkirnar alla vega ekki að hrynja úr elli og slæmri smíði og allt nýtt í íbúðunum. Skildi vera hægt að kaupa heila blokk og flytja fólkið í okkar blokk með okkur?
Alla vega meira að gera en síðast og já síðast en ekki síst, ljósmyndaklúbburinn gengur vel, þemað núna er BÖRN í tilefni þess að Auður sem vinnur með mér varð amma á laugardaginn, til hamingju með prinsessuna Auður og Snorri. Og ég ætla að vera í fríi á miðvikudaginn og fara með bekknum hennar ÁM til Þingvalla, jibbý. Þemað er Börn og ég fer með 23 börn á Þingvelli, hlýt að fá góðar myndir þar.
Þangað til næst,
Kristín Jóna