Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað um alls konar fólk, þe. af hverju sumir eru öðruvísi en aðrir oþh. en missti það allt út í gær en þá kom maðurinn minn mér svo mikið á óvart að ég held ég verði bara að skrifa um fólk eins og hann.
Við ætluðum að fara að skrapa límið af veggjunum í eldhúsinu (á milli skápa) og reyndar gerðum það, en byrjuðum á því að fá lánaða kerru og taka allt draslið úr stigaganginum eftir gömlu hurðarnar og losa okkur við það og þrífa og laga til á ganginum sem við og gerðum, og gangurinn er ekkert smá flottur. Ég reyndar bætti við blómum sem ég vona að hún Thelma á móti sætti sig við en hún er núna stödd í Suður-Ameríku í ferðalagi sem tekur hálft ár.
En aftur að eldhúsinu, við drifum í því, eftir að ruslinu var hent að fara að skrapa límið af veggjunum til að geta farið að flísaleggja upp á nýtt og mér fannst ég nú hálfmáttlaus og til lítils gagns en Þráinn notaði kíttisspaða og barði á hann með hamri og gekk að sjálfsögðu mun betur en ég var bara með handaflið og kíttisspaðann.
Ástrós Mirra hafði leyft vini sínum honum Aron Breka að gista og þau voru búin að vera að leika sér saman en eftir að hann fór þá vantaði Ástrós Mirru smá athygli svo ég var svona meira að sinna henni heldur en að hjálpa Þráni þannig að við tókum þá ákvörðun að við mæðgur og þá meina ég mæðgur því það eru ég Kristín, mamma og amma, Ástrós Mirra, dóttir og mamma og Silja litla dúkkan hennar Ástrósar, færum saman í Smáralindina að kaupa handboltaskó handa Ástrós. Svo við drifum okkur þangað og með Silju í vagninum sínum. Þetta var fín ferð hjá okkur mæðgum og við keyptum líka kótilettur í matinn og komum svo heim um fjögur leitið og þá var Þráinn enn á fullu svo við Ástrós ákváðum að skríða upp í rúm, hún að horfa á dvd og ég að lesa. Ég var svolítið þreytt eftir að hafa vakað kvöldið áður aðeins of lengi fyrir mig miðað við að Ástrós vaknaði kl. 7, svo ég var eitthvað að velta því fyrir mér að leggja mig en ég ætlaði að sjálfsögðu að elda matinn oþh. fyrir manninn minn því hann var búinn að vera svo duglegur en nei, nei, hann sagðist alveg geta eldað og ég skyldi bara leggja mig, sem ég og gerði og notabene hann eldaði æðislegan mat, bauð uppá bjór með og svo gekk hann líka frá eftir matinn. Það var semsagt farið með mig eins og prinsessu. Takk Þráinn minn.
Nú svo fékk ég mér annan bjór og söng hástöfum með í “Tökum lagið” enda æðislega góður þáttur í gær.
Svona var semsagt minn dagur og ég er ekkert svo sem farin að skilgreina fólk eða neitt þess háttar eins og ég upphaflega ætlaði mér en það kemur kannski seinna.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna