Fór í bíó í gær með Þráni, Konný og Kollu og sáum við Mýrina. Við erum nú ekki vant bíófólk og komum í Smárabíó 15 mín. fyrir sýningu og þá var bara uppselt … en þeir í Smárabíó gátu selt okkur miða í Regnbogann kl. 20.30 svo við höfðum akkúrat tíma til að fara niður í bæ og leita að bílastæði og vorum einmitt komin þangað 15 mín fyrir sýningu en í þetta sinn með miðana með okkur.
Ég er búin að lesa bókina (fyrir allnokkru síðan) en ég var alls ekki að muna eitthvað eftir söguþræðinum og verð að segja að mér fannst myndin “Frábær” og vel gerð í alla staði. Hún náði mér algjörlega tilfinningalega í byrjun þegar litla stúlkan dó og mér leið ekkert sérlega vel. Ég á mjög erfitt stundum að horfa á myndir þar sem börn eru látin deyja og sorg foreldrana sýnd svona vel eins og hann Atli Rafn sýndi þarna ótrúlega flottur leikur hjá stráknum. Það tala allir um að Theódór Júlíusson sýni snilldartakta (sem hann gerir, því hann er frábær leikari) en ég hef ekki heyrt neinn tala um Atla Rafn, kannski af því að hann er þessi mjúka týpa sem ræður ekki við tilfinningar sínar en það er einmitt það sem veldur því að eftir myndina er hann í huga mér og enginn annar.
Ég hélt nú að það myndi eitthvað trufla mig að hafa Ingvar Sigurðsson sem Erlend þar sem Erlendur á nú ekki að vera neinn sjarmur en Ingvar er náttúrlega sjarmur númer 1 en hann er bara svo góður leikari líka að þetta truflaði ekki og svo sá ég að maður er eldast því Ingvar er á mínum aldri (vona að hann sé ekki fæddur 1970 og ég bara haldi að hann sé á mínum aldri, virðist oft lenda í því. Veit ekki hvort það sé af því að fólk fætt um 1970 sé svona fullorðinslegt eða hvort mér finnist ég svona mikið yngri en ég er) og lét Erlend mjög vel.
Ég var búin að heyra að fólki finndist vanta betri kynningu á persónur myndarinnar en ég er ekki sammála þær skýra sig algjörlega sjálfar. Þú þarft ekkert að vita allt um alla í bíómynd. Ég gæti trúað að það sem væri að trufla fólk er að það er búið að lesa allar bækurnar hans Arnaldar og þar af leiðandi búið að kynnast persónunum mjög vel í gegnum allar bækurnar. Arnaldur er ekki með mjög sterkar persónulýsingar í bók fyrir bók, heldur lætur hann mann kynnast persónunum betur og betur. Ef þú lest bara eina bók innan úr safninu hans þá er enginn grunnkynning á persónunum, þú verður eiginlega að vera búin að lesa fyrstu bókina líka. Svo þetta er ekki að trufla í myndinni.
Annað sem fólk talaði um er tónlistin, þessi karlakóramúsík væri orðin svolítið þreytandi í restina en mér finnst hún svo smellpassa við myndina að ég tók varla eftir henni. Algjörlega rétt valin tónlist, hefði nú verið hallærislegt að heyra allt í einu popp eða diskó.
Myndatakan frábær og staðsetningar á tökustöðum æðislegar. Hljóðið flott og ég gef myndinni ***** af ***** mögulegum, og er þá ekkert að miða BARA við íslenskar myndir, ég er bara að miða við mig og mína tilfinningu.
Takk fyrir mig.
Og annað mál, sá sýnt úr mynd “Borat” í bíó í gær sem Hafrún var að tala um að henni langaði að sjá og ég spurði hana nánar út í myndina og þá sagði hún að þetta væri svona mynd í anda AliG enda sami leikari og ég hefði ábyggilega ekkert gaman af henni. En ef hún er eitthvað á við sýnishornið sem ég reyndar skellihló af þá er ég sko til í að sjá þá mynd. Ha ha, Hafrún og þú sem hélst að þú þekktir mig svo vel. Maður kemur líklega öðrum endalaust á óvart.
Þá er bara eftir að skella sér í bíó og sjá Börn og vona að hún standi undir væntingum.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna