20.8.2007
Ákvað í dag að fara og kaupa örbylgjuofn. Er búin að vera á leiðinni í hálft ár og ákvað að nú væri tími framkvæmdanna.
Við Ástrós Mirra skruppum í Elko og ákváðum að láta Þráin ekkert vita heldur koma honum á óvart.
Í Elko er til fullt af örbylgjuofnum og við ákváðum að fá okkur mann til aðstoðar. Ég sagði ofninn þurfa eitt að bera framar öðru, hann verður að vera stállitur, því Þráinn vill ekkert annað.
Við vorum leiddar að hillum með örbylgjuofnum og sáum strax einn mjög flottann, stállitaðan, með digital og grilli og kostar bara 13.900-
… ekki málið, við tökum hann segi ég. Eða passa ekki allir örbylgjuofnar í svona örbylgjuofnaskáp, spyr ég manninn um leið og ég vippa kassanum niður, jú, jú, ef þetta er svona skápur fyrir ofan ofn eða ísskáp. Ég segi ísskáp, já þá passar þetta, svarar hinn aðstoðarglaði maður í Elko.
Við Ástrós Mirra brunum heim og náum Þráni í baði og skellum ofninum á gólfið og brosum út að eyrum, þvílíkt ánægðar með okkur.
Humm, Þráinn fer (þegar hann var kominn uppúr baðinu) að lesa á kassann sem örbylgjuofninn er í og taka málin niður og fer svo að mæla skápinn. Úps, þessi ofn kemst ekki inn í þennan skáp. Ha, spyr ég ljóshærða konan hans, passa ekki allir örbylgjuofnar í alla örbylgjuofnaskápa?
… fór í fýlu. Allir hinir ofnarnir í Elko voru ekki eins flottir svo nú yrði að fara að kaupa bara eitthvað sem passar, ekki eitthvað sem mig langar í. Sit uppí rúmi og bíð eftir að Þráinn bjóðist til að fara og skila honum og finna einhvern annann örbylgjuofn sem passar í þennan litla skáp sem er í okkar innréttingu. Nei ekkert gerist, ég er enn í fýlu. Þá hringir Klara systir og Þráinn segir henni að það sé vart óhætt að tala við mig alveg strax því ég væri að jafna mig eftir þetta áfall. En að sjálfsögðu töluðum við systurnar saman og ég spurði (braut odd af oflæti mínu) Þráin hvort hann væri ekki til í að fara með ofninn, sem hann var alveg til í.
En svo reyndar kom hann og spurði hvort ég vildi ekki bara koma með honum og við gætum valið nýjan ofn saman. Jú, jú, litla glaða stúlkan ákvað að það hlyti að vera í lagi og Ástrós Mirra ætlaði að vera ein heima á meðan.
Við brunum í Elko (reyndar erfitt að bruna eitthvað í Smáranum þessa dagana vegna vegaframkvæmda) og inn með ofninn og sögðumst ætla að skila honum. Stúlkan spurði hvort eitthvað væri að honum og ég sagði, ekki annað en það að hann passar ekki í skápinn hjá okkur, við værum ekki einu sinni búin að taka hann úr kassanum því við hefðum séð málin þar.
Við förum inn í Elko að skoða aðra ofna, tveir hvítir litlir þarna sem Þráni leist misvel á og svo förum við hinum megin í hilluna og ég sýni Þráni ofninn sem ég hafði keypt og hann var alveg sammála að hann væri langflottastur en það þýddi ekki að tala um það. Hann fer að mæla þarna aðra ofna og segir þá alveg passa en mér finnst það eitthvað skrítið þeir virðast svo svipaðir á stærð og okkar, svo ég bið Þráin að mæla ofninn sem er til sýnis uppá hillu og … haldiði að málin séu ekki innan okkar marka. Bíðið nú við, hvaða mál eru þetta þá utan á kassanum? Jú, það eru málin á kassanum, vá hjálpar mikið.
Svo við fórum aftur heim með sama örbylgjuofninn og erum í þessum töluðu orðum að koma honum fyrir í allt of litlum skáp, eða þannig.
Þangað til næst,
Kristín Jóna, aldrei verið ljóshærðari.