Þá er frábærri goslokahátíð lokið og þökkum við kærlega fyrir okkur.
Við vorum á 5 stjörnu hótelinu hjá Konný systir og hennar fjölskyldu, fengum sér herbergi og bíl til afnota ef við vildum enda komumst við ekki með bílinn með okkur til Eyja.
Mér skilst að það sé orðið upppantað með Herjólfi þessa helgi í mars, apríl.
Sem náttúrulega nær engri átt og Eyjamenn eiga orðið erfitt með að komast uppá land með bílinn sinn í sumarfrí því dallurinn er alltaf fullur.
Það er kominn tími á nýjan hraðskreiðari bát sem siglir frá Þorlákshöfn, því hver er bættari með bát frá Bakkafjöru, ferðalagið tekur þá alveg jafn langan tíma og það gerir í dag, bara lengri tími í bíl og styttri í bát. Hvaða máli skiptir það. Ég vil stærra skip og hraðskreiðara.
En aftur að Goslokahátíðinni. Við vorum nú á fullu allan tímann nema á nóttunni, fórum ekkert á næturflandur sem betur fer, því þá hefði ég verið meira útkeyrð en ég var eftir helgina.
Held þó að ég hafi verið svona útkeyrð á sunnudeginum vegna tveggja sjóferða og tveggja sjóveikistaflna frekar en eitthvað annað. Það var æðislegt veður á föstudeginum og við löbbuðum með Önnu, Snorra og Co uppá leikskóla til Steinu og þaðan niður á Stakkó þar sem fólk safnaðist saman fyrir skrúðgöngu sem fór út á Skans. Það voru skemmtiatriði og fullt af fólki sem maður hefur ekki séð lengi og fullt af fólki sem maður hefur séð nýlega.
Virkilega gaman. Tókum á móti Krafti sem kom úr hringferð í kringum landið á tuðrum til söfnunar langveikum börnum og börnin fengu svo flugdreka til að láta fljúga, mjög gaman.
Svo fengum við æðislegan mat um kvöldið hjá Konný og kom pabbi líka í mat, virkilega kósí og gott kvöld.
Svo snemma morguninn eftir drifum við systur okkur uppá dalfjall og sáum þar fullt af lunda og ísbjörnum (heitir það ekki það, þetta hvíta loðna sem er á fjöllum) og mikla þoku. Sigurjón Ingi sem vinnur með mér sagði að ég yrði að fara uppá Dalfjall því það væri svo flott hinum megin en ég sá það ekki fyrir þoku.
Svo var farið niður á Stakkó aftur eftir hádegi og þar voru skemmtiatriði, tívolítæki og tröll að skemmta okkur og sjálfum sér. Mjög gaman, enn og aftur fullt af fólki og gleði.
Um kvöldið fórum við svo í mat niður í Hásteinsblokk þar sem bræður Þráins buðu okkur í mat en þar gekk ekki eins vel að grilla og hjá Konný kvöldið áður því það byrjaði á því að gaskúturinn kláraðist og svo fór grillið bara ekkert í gang eftir að nýr kútur kom svo strákarnir fengu að skella kjötina á grill sem var búið að nota í húsi hinum megin á götunni. Addi spilaði á gítar að launum og smakkaðist maturinn mjög vel.
Svo löbbuðum við niður í Skvísusund á barnaskemmtun, þar sem lengsti tíminn fór í að bíða í biðröð eftir andlitsmálum (sjá mynd af ÁM á flickrinu hennar Konnýjar).
Hittum enn og aftur fullt af fólki og fórum svo heim áður en fylleríið byjaði (ef það hefur eitthvað byrjað, því mér fannst fólk svo stillt).
Svo á sunnudaginn um hádegi skelltum við okkur í siglingu með PH Viking í kring um Eyjuna okkar og var það æðisleg, hefði mátt vera sól en það var alla vega ekki þoka.
Svo var farið í Herjólf og brunað í bæinn, þreyttir og svangir ferðalangar.
Þetta er sagt þjóðhátíð níska mannsins því það er allt ókeypis þessa helgi (Ye, right. Það er aldrei allt ókeypis en það kostaði alla vega ekki inn).
En aðrir segja þetta hátíð brottfluttra Eyjamanna, sem er miklu frekar nær sanni.
Við uppgötvuðum að fósturdóttir Reynis skólastjóra býr í blokkinni okkar og svo hittum við þarna fleiri Eyjamenn sem búa á Völlunum svo við vorum að hugsa um að slá upp svona Vallarapartý ofar í götunni.
Þetta var í alla staði góð helgi og skemmtileg.
Þangað til næst,
Kristín Jóna