Að vera háður …..

Þráinn fluttur til Noregs og við mæðgur bara tvær að bjarga okkur heima.

Ég er búin að sjá það út núna síðustu vikur hvað maður er ofboðslega háður honum Þráni.  Hvað maður er líka orðinn háður því að hann geri þetta og ég geri hitt, svo þegar hann er ekki þá ÚPS allt í einu verð ég að gera allt sjálf.

Dæmi um það eru þessar sögur sem ég var reyndar búin að setja á fésið:

#1  –  Fann vel fyrir grasekkjunni í mér í dag. Er að fara að sækja Mirruna niður í Ljósheima og smá snjóbylur kominn í Hafnarfirði þegar ég uppgötva að rúðuþurrkurnar virka ekki. Ég ákveð að það borgi sig ekki að keyra í bil og engar þurrkur. Sný við heim en uppgötva þá að veðrið virðist vera að ganga niður svo ég ákveð aftur að fara niður í Ljósheima og þegar ég er komin til móts við N1 í Hafnarfirði þá er aftur kominn éljagangur og engar rúðuþurrkur svo ég ákveð að á N1 hljóti að vera karlmenn sem geti aðstoðað mig við að athuga hvort það sé farið öryggi hjá mér en Nei, starfsmaðurinn þar benti mér að fara á smurstöð en þær eru ekki opnar á laugardögum svo ég aftur út í bíl og andskotinn ég get ekki verið rúðuþurrkulaus í einhvern tíma og hringi bara til Norge í Eiginmanninn sem hafði bara ekki hugmynd um hvað öryggin væru í bílnum. Já nú voru góð ráð dýr …. eða ekki. Grasekkjan fór í hanskahólfið og sótt helv. manualinn og fór að lesa sér til. Fann hvar öryggin eru og fann út hvaða öryggi var farið, ákvað að gera þetta einfalt og rífa út öryggið fyrir útvarpið því það er alveg hægt að keyra í kafaldsbyl með ekkert útvarp og skipti um öryggi og viti menn (og konur) þurrkurnar í gang. Svo ég keyri niður í Ljósheima, sæki Mirruna og við í Elko að sendast fyrir Konný systur. Þá allt í einu eru þurrkurnar aftur dottnar úr sambandi og kominn kafaldsbylur aftur. Nú hvað átti ég þá að rífa úr sambandi? Humm – airbags þarf ekki að hafa farþegamegin ef enginn er farþeginn nema dóttirin í aftursætinu svo enn var rifið úr öryggi og skipt um. Við komumst heim og á morgun verð ég að finna út hvar getur maður keypt öryggi svo ég geti sett ný í staðinn fyrir þessu ónýtu og síðan er það seinni tíma vandamál (Þráinn kemur nú heim á föstudaginn) að finna út af hverju rúðupissið drepur öll öryggi hjá okkur.

#2  –  Jæja enn og aftur reyndi á grasekkjuna áðan. Við mæðgur í letistuði og leigðum okkur mynd, hún er öll hoppandi og skoppandi og hleypur yfir 6 kafla. Ég hringi að athuga hvort annað eintak sé inni en svo er ekki svo við megum koma aftur á morgun og fá aðra mynd.  Flott tek diskinn úr spilaranum en enginn diskur á sleðanum!!!!!!! Hvar er diskurinn? Hristi spilarann og enn enginn diskur.  Ok, áður en ég veit af er Mirran mín búin að sækja skrúfjárn og við byrjum að skrúfa sundur spilarann. Reynum að hringja í Þráin á Skype en hann ekki online svo við klárum verkið. Spilarinn í sundur og með afli náðist að taka hann í sundur og diskurinn datt út. Við skrúfuðum saman aftur og allt í lagi á þessu heimili. Held ég sé að virkilega farin að finna fyrir gamla jaxlinum sem gat allt sjálf áður en ég eignaðist mann sem gat flest betur.  Ok, aftur í leti og nú er það idolið………………..

Svo eins og þið sjáið þá rifjast upp gamlir taktar með því að hafa bara sjálfan sig til að stóla á en auðvitað er það samt ekki þannig að ég hefi engan til að stóla á, en málið er bara svolítið þannig að Þráinn minn á ekki auðvelt með að biðja annað fólk um greiða en mikið er hann alltaf duglegur að hlaupa til ef einhver biður hann um greiða og það er kannski þess vegna sem ég kann ekki lengur að biðja annað fólk að hjálpa mér en ég fékk nú að heyra það í vikunni frá honum bróður mínum Aron að framvegis ætti ég ekki að stóla á einhverja sölumenn í tölvubúðum með ráðleggingar og þess háttar enda búin að láta þá rýja mig innað skinni á meðan hann hefði verið 20 mín með að benda mér á rétta hlutinn sem hefði kostað 3sinnum minna.  Og já hann bætti því meira að segja við, að framvegis myndi hann móðgast ef ég leitaði ekki ráða hjá honum, því hann væri bara eins og ég með myndatökurnar, honum finnst gaman að því og vill fá að hjálpa.
Aron er svona eins og Þráinn segir alltaf já þegar hann er beðinn um aðstoð og það er bara yndilsegt að eiga svoleiðis bróður.  Hann er þvílíkt búinn að hjálpa okkur Ástrós Mirru að koma netinu almennilega í tölvuna hennar en það gekk erfiðlega án hans.
Takk fyrir okkur Aron.
Konný systir er í tækniskólanum í ljósmyndanámi og ég ætla að taka sömu verkefni og hún fær í ljósmyndaáfanganum og er núna svo uppfull af hugmyndum um myndir sem eiga að sýna hvaðan ég kem að ég get bara ekki beðið eftir að það birti.  Ansk. Djöf. myrkur allaf hérna gjörsamlega óþolandi.  Ég veit líka svo sem að þessi mánuður og sá næsti eru mér erfiðastir enda jólin búin og allt bara venjulegt aftur með meira myrkri og leiðindaveðrum alla daga.  En í mars fer að birta og þá fæ ég vor í hjartað.  Hlakka til vorsins enda er ég vorbarn.

Jæja þangað til næst;
Ykkar Kristín Jóna

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.