31.12.2015
fögnum árinu 2016? Ég veit að ég fagna nýju ári meira en ég kveð það gamla, það er bara einhvern veginn þannig. Ég vil ekki dvelja við það sem er liðið heldur hlakka til þess sem kemur og tilhlökkun er einhver frábærasta tilfinning sem til er. En áður en ég segi ykkur hvers ég hlakka til á árinu 2016 þá ætla ég aðeins að renna yfir árið 2015 sem byrjaði ekki vel þar sem ég beinbrotnaði í fyrsta sinn á ævinni þann 27. des. 2014 og byrjaði þar með árið 2015 í gifsi.
Átti að vera frá vinnu alveg í 6 vikur en samviskan mín leyfði það ekki svo ég reyndi að taka smá þjónustu en það gekk ekki vel þar sem ég var brotin á hægri hendi og ekki svo hraðvirk með einni og það vinstri á lyklaborðinu. Fékk smá ákúrur frá yfirmanni að geta bloggað en ekki unnið og það varð til þess að ég fór að hugsa hver staða mín væri inni á þessum vinnustað sem ég var á og þetta endaði með því að ég sagði bara upp eftir að minn ástkæri eiginmaður sagði að ég ætti betra skilið en að vera að vinna þarna og fá litlar sem engar þakkir fyrir (nema frá kúnnunum sem ég elska og veit að flestir elskuðu mig líka). Eftir sem sagt 19 ár í starfi sagði ég upp og upplifði svo ótrúlega mikið frelsi að það var eiginlega undarlegt, ég hef ekki saknað vinnunnar einn dag en ég hef sko saknað vinnufélaganna mikið og oft. Ég fékk ekki einu sinni “takk” frá framkvæmdarstjóranum, reyndar bara ekki orð, reyndar bara eins og ég hafi ekki verið til og það hefur valdið sárindum. En lífið eftir Wise er svo miklu skemmtilegra að ég eiginlega í dag vil bara þakka fyrir þessa miður skemmtilegu framkomu því án hennar væri ég líklega ekki hætt.
En svona vinnufélaga eins og tóku þátt í þessu verkefni með mér er auðvelt að sakna og ég vann með nokkrum í ansi mörg ár en einhvern veginn er nú eins og fjarlægðin dragi smá úr söknuðinum til þeirra.
En árið byrjaði samt eiginlega frekar á óvissuferðinni sem ég bauð eiginmanninum mínum uppá í tilefni þess að hann varð fimmtugur, ég var drullustessuð að ég kæmist ekki í þessa ferð út af handleggsbrotinu en það gekk upp en ég þurfti smá hjálp frá Þráni við að pakka svo hann var búinn að fatta að það væri ferðalag í vændum. En sko ég sem get aldrei beðið og á mjög erfitt með að eiga eitthvað án þess að ræða og diskutera við Þráin átti ótrúlega magnaða þagnarstundir í 3 mánuði því ég pantaði ferðina með góðum fyrirvara. En sem sagt við Ástrós Mirra buðum afmælisbarninu til Gdansk yfir helgi og áttum við æðislegar stundir þar saman við göngur um bæinn, góðan mat og kózí. Þráinn vissi ekki fyrr en á flugvellinum hvert hann var að fara og held ég barasta að kallinn hafi verið ánægður með sína þarna.
Næsti stóri viðburður ársins var partý aldarinnar sem haldið var í tilefni þess að Þráinn 50 ára og Hadda og Grímur 40 ára áttu öll afmæli á fyrstu dögum ársins og í byrjun febrúar slógu þau saman í partý sem var alveg hrikalega skemmtilegt.
Eftir afmælispartýið skrapp ég ein til Íslands og þá var ég ekki búin að segja upp hjá Wise en tók mér bara frí til að fagna því að afi minni hefði orðið 100 ára. Það var ljúft að hitta allt fólkið sitt og njóta samvista við það.
Ég leigði mér líka stúdeo í febrúar og tók nokkrar skemmtilegar myndatökur.
Amma Steina kom með mér til Mandal í febrúar og var æðislega gaman að geta sýnt henni fallega bæinn okkar.
Marsmánuður virðist hafa verið uppfullur af æðislegum myndatökum hjá mér en lítið finn ég annað þar í upprifjuninni.
Í apríl mætti Klara og sólin skein á hana eins og henni væri borgað fyrir það, en það er góðlátlega gert grín að því að Klara virðist ekki einu sinni mega tala um það að koma til okkar að þá flytjum við, hún er sem sagt búin að koma 3svar eða 4 sinnum og við flytja 3svar sinnum og erum að fara að flytja aftur og hún kemur svo í mai en ef þetta eru álög þá ætlum við að leysa okkur undan þeim við það að kaupa hús og ákveða að það gildi annað um það.
Mars og apríl fóru í það að klára vinnuna í wise og byrja að byggja upp Mirra Photography og vinna að myndatökum og þess háttar.
Ég fékk reyndar opinberlega þann vafasama titil að vera Idiot og tók því bara þegjandi.
Ég var einnig með skemmtilegar myndatökur í apríl og þessi mynd svolítið uppáhald hjá mér
Mai mánuður var ansi viðburðarríkur, ég var á fullu að setja inn myndir á FineArtAmerica þar sem hægt er að kaupa púða, töskur, strigamyndir ofl. með mínum myndum. Er sjálf búin að panta og gefa bæði púða og töskur og allt kemur svo ótrúlega flott út.
Og svo mætti Óli Boggi og tók okkur stelpurnar í gegn og aðallega Mirruna mína sem fékk alveg nýtt look
En Óli kom sko ekki aleinn heldur kom hún Petra mamma hans með honum og á sama tíma mættu Inga, Óli og allt gengið úr Sandefjord og með Gerði mömmu Ingu með og hún og Petra skemmtu sér mjög vel saman.
Eins og flestir vita sem þekkja mig þá tek ég ekki mikið af point and shoot myndum og virðist ekki finna neina mynd af þeim vinkonum saman en við skelltum okkur líka í dagsferð til Stavanger þar sem Óli og Anna Svala hittust í fyrsta sinn eftir að Anna Svala flutti til Noregs og þarna kynntumst við þeim Önnu Svölu og Þresti sem eru orðin góðir vinir okkar hér í Noregi.
Fleira gerðist nú í mai því þá var Eurovision eins og alltaf en núna hélt ég kannski að Noregur myndi vinna en svo var ekki samt áttum við besta lagið sem ég hlusta á mjög reglulega en alveg búin að gleyma vinningslaginu. En ég verð víst að átta mig á því að ég er ekki með yngsta fólkinu sem hlustar á Eurovision og því kannski eðlilegt að mitt lag nái ekki að sigra.
Ég pantaði mér markaðsefni og þar á meðal voru tveir bolir fyrir mig og aðstoðarmanninn minn því næsta verkefni var brúðkaup, það fyrsta sem ég tek fyrir ókunnugt fólk og ég verð að viðurkenna að það var talsvert stress í gangi fyrir það.
En eftir að hafa klárað þetta brúðkaupsverkefni með stæl og skoðað myndirnar þá varð ég nú bara ansi ánægð og þetta er mín uppáhaldsmynd úr þessari myndatöku.
Líka mjög gaman að myndunum sem Þráinn tók af mér að taka brúðarmyndirnar.
Annað stórt verkefni sem ég vann að í mai var að mynda allar brýr í Mandal og það var stundum heilmikil ævintýri að finna þær því Norðmenn kunna ekki að merkja áhugaverða staði, hér er bara ætlast til að manni sé sýnt allt af heimamönnum en mér tókst þetta og hér er ljósmyndablogg um allar brýrnar í Mandal.
Í júní fórum við hjónakornin með lestinni til Osló og áttum það mjög notarlega helgi á hóteli og einungis gangandi um miðbæinn. Osló er ekki mín uppáhaldsborg, finnst hún frekar skítug og allt of mikið af framkvæmdum en við fundum alveg smá parta með engum útigangsmönnum og engum framkvæmdum. En mikið er gaman að ferðast með lest og vera bara gangandi í fríi, það er bara einn galli á því og það er að þá kemst maður ekki allt sem manni langar nema þá að taka taxa sem var nú ekki uppáhaldið mitt þarna í Osló einhver indverji sem keyrði tómar krókaleiðir og endaði svo með okkur á snarvitlausu hóteli og við þurftum að ganga í bæinn sem við hefðum þá getað gert í upphafi, held það hafi verið álíka langt fyrir utan að við vissum ekkert hvar við vorum þegar hann stoppaði loksins. Passið ykkur á leigubílstjórum sem tala mikið þeir eru víst bara að dreifa athyglinni til að svína á ykkur, alla var mér sagt það.
Við fundum götuna hans Þráins samt í Osló
Önnur stórfrétt frá júní var að frú Kristin Jóna keypti sér nýja sandala, þeir verða vonandi orðnir fínir eftir næsta sumar því í sumarlok voru þeir enn að meiða mig og það skýrir einmitt af hverju ég kaupi mér helst ekki nýja skó, því þeir eru bara alltaf vondir við mig en þeir gömlu yfirleitt ljúfir sem lamb og mjúkir eftir því, enda búnir að fá að aðlagast mér í einhvern tíma.
Meira sem gerðist í júní var afhending á afmælisgjöf Steinu og bræðra Þráins en þau gáfu honum miða á Sting tónleika (og fyrir mig líka) ásamt hótelgistingu í Kristiansand.
Þetta voru geggjaðir tónleikar með íslensku yfirbragði þe. grenjandi rigningu og þarna var ég handtekin í fyrsta sinn, reyndar bara af gæslumanni en handtekin samt og gert að eyða út öllum myndum af kortinu mínu og skilja myndavélina eftir í eftirlitsskúr, það gekk ekki vel að fá hana til baka heldur því óviðkomandi áttu ekkert að fá að koma þangað, þetta var eitt allherjarklúður og furðulegt hvernig staðið var þessu öllu saman. Það mátti ekki taka myndir á stóra myndavél en símar allt í lagi en vita menn ekki að símarnir eru margir komnir með svo flottar myndavélar að það nálgast þessar stóru, eins mátti ekki vera með regnhlíf þarna en við fengum samt að fara með hana inn á svæðið, skildum ekkert af hverju hún var bara ekki tekin af okkur við innganginn fyrst þetta var svona en þetta var allt saman aukaatriði því tónleikarnir voru æðislegir og þegar ég kom heim þá gat ég auðvitað endurheimt allar myndirnar af kortinu mínu því tæknin er svo flott.
Júlí mánuður var merkilegur að mörgu leiti, en aðallega vegna þess að ég bakaði kleinur í fyrsta sinn og heppnaðist svona líka vel og var endurtekið aftur fljótlega en svo bara ekki söguna meir en ég get lofað ykkur því að það verða bakaðar kleinur á Nesan 7 og flatkökur líka því ég lærði líka að baka þær á árinu sem er að líða.
Það er núna eins og ég hafi ekki tekið myndir á þessu tímabili en það er nú aldeilis ekki rétt því ég tek myndir í hverjum mánuði alveg helling en þó hefur desember verið í mikilli ládeyðu en samt ekki án mynda.
Til dæmis var Tall Ship racing í Kristiansand og við hjónakornin skelltum okkur í bíltúr og tókum myndir af þessum mögnuðu skipum sem sigla langar leiðir um höfin blá áður en þau koma hingað. Gaman að sjá svona mikið af fallegum skipum.
Við hjónin fundum einnig fossinn Rafoss sem við vorum búin að leita lengi að og hann er alveg flottur á sinn hátt en fólk sem er vant Gullfossi, Skógarfossi og Seljalandsfossi finnst nú ekki mikið til hans koma.
En við fórum einnig í sumarfrí í júlí og þar heimsóttum við nokkra staði hér á suðurlandinu en öllum ferðum til norður noregs var frestað, sumarfríið einhvern veginn rauk frá okkur og kannski frestaðist allt líka vegna þess að það var aldrei þurrt nema 2 daga í röð og við ætluðum í tjaldferðalag. En þá eigum við það bara eftir og stefnum á það á næsta ári.
Staðirnir sem við heimsóttum í fríinu voru æðislegir og þarna fórum við á eyju sem er ekki með neina bíla en þarna býr fólk samt og er mikið af húsum til leigu yfir sumartímann, þarna er líka verslun og veitingarstaður en engir bílar, bara bátar, elska svona staði.
Eyjan Lyngør er svo falleg.
Við tjölduðum í Hove camping og gengum uppá Trogfjell og kíktum við á gamalli lestarstöð sem ég á eftir að heimsækja aftur og taka myndir eða vera með myndatöku á.
Svo var fullt af gestum í júlí en Inga og Óli komu með vini sína frá Íslandi, þau Jónínu og Robba með sér, þau leigðu sér bara hús hérna í nágrenninu og áttum við frábæra daga saman með mikilli gleði og strákarnir að veiða lax í Mandals Elve.
Arnfinn átti afmæli og var það skemmtilegt garðpartý sem við tókum þátt í.
svo kom ágúst með fleiri gestum og mörgu skemmtilegu en þá mættu Óli Boggi, Anna Svala og Þröstur á Skeldýrsfestivalinn sem er alltaf aðra helgi í ágúst og er okkar þjóðhátíð. Þetta var geggjuð helgi sem endaði á seinna partýi ársins hjá Arnfinn og Hege. Mikið fjör og mikið gaman með skemmtilegu fólki. Húmorinn var í betra lagi og mikið sungið og trallað.
Ég fékk líka verkefni hjá nágrönnum okkar að taka myndir af vörunum sem þau eru að selja og það var mikil áskorun því þetta er það erfiðasta sem ég hef myndað þar sem allt glampar í þessum kristöllum.
Í ágúst náði ég dóttirinni í æðislega myndatöku
og síðustu helgina í ágúst skruppum við Mirra til Sandefjord og hittum þar vini okkar og ég skellti í 5 myndatökur þá helgi með dyggri hjálp frá Ingu vinkonu. Alltaf svo gott að koma til þeirra en vegna mikils gestagangs hjá þeim þá voru ferðir til Stavanger eitthvað færri þetta árið en ég hefði viljað en ég hlakka nú mest til að sýna þeim svo nýja húsið og umhverfið, vona að þau láti ekki bíða lengi eftir sér á nýju ári.
Í september fór ég til Stavanger með Höddu og tók myndir af yfir 40 manns sem voru á linkedin námskeiði og við fengum hana Nölu eða kannski var hún komin aðeins fyrr en alla vega tók ég myndir af henni í september.
en svo urðu heldur betur ský á lofti því í september veikist hann Siggi stjúpi minn og hann lést svo eftir rétt um 2 vikna veikindi, þá kominn með krabbamein um allt. Í hönd fóru ótrúlega erfiðir tímar, verst var að vera svona í burtu en ég komst alls ekki strax til Íslands því ég átti tíma í aðgerð þar sem verið var að taka ber úr brjóstinu á mér sem var góðkynja. Þetta er annað berið sem er tekið hjá mér og úr sitthvoru brjóstinu og bæði góðkynja en ég heppin að þau eru bara fjarlægð sem ég er ekkert að láta það angra mig að ég sé með eitthvað sem ekki á að vera þarna.
Um leið og ég fékk ferðaleyfi fór ég heim til Íslands til að vera hjá mömmu minni sem átti um sárt að binda vegna fráfalls Sigga. Mikið var gott og ljúft að geta verið hjá henni í þessar vikur sem ég var og mikið var ég fegin þarna að vera ekki í fastri vinnu einhvers staðar og geta bara ráðið mér sjálf. Eina sem kallaði mig til baka á þeim tíma sem ég fór var brúðarmyndatakan sem búið var að bóka hjá mér.
En nú renna saman september og október þar sem ég var á Íslandi en ég gerði mér nú tvisvar ferðir á Þingvelli, skrapp í dagsferð til Eyja og villtist út um allt land eins og þeir sem eru fésbókarvinir mínir fundu nú fyrir.
Má til með að sýna þessa yndislegu mynd af mömmu og Sigga sem mynd þessa mánaðar.
Jarðarförin hans Sigga var ein sú fallegasta sem ég hef farið í og yndislegt hvernig presturinn nálgaðist hann og sagði frá honum með okkar orðum, engin helgislepja heldur bara eins og það var. Hann byrjaði á þessum orðum “Í fréttum var þetta helst” og einhverjum í kirkjunni brá og fannst hann vera að segja að hann ætlaði að lesa fréttir af Sigga en þarna var hann að vísa til þess að Siggi var fréttasjúkur og helst mátti ekki trufla þegar fréttirnar voru þannig að með þessum fáu orðum lýsti hann honum svo vel.
En ég kom aftur heim um miðjan október og tók brúðarmyndir af vinum okkar Viðari og Tonju, það var mikið gaman að fá að taka þátt í brúðkaupinu með þeim.
Svo var allt í einu kominn nóvember og Mirran okkar 15 ára en í þessum mánuði kom hún í starfskynningu til mín sem var okkur báðum talsvert lærdómsríkt. Hún stóð sig mjög vel, við vorum með nokkur spennandi verkefni, ss. taka myndir af skartgripum, taka stockmyndir af Söndru að lita og teikna, ég fékk förðunarfræðing til að mála mig eins og dúkku og Ástrós Mirra sá algjörlega um að stilla ljósunum og græja allt í stúdeoinu og síðan taka myndinar af mér.
Ótrúlega skemmtilegt verkefni og já eitt til viðbótar þá fékk hún það verkefni að fara með myndavélina út og mynda Mandal með sínum augum. Það verkefni kom mér svo á óvart og gerði mig svo stolta af henni.
Hér getið þið skoðað ljósmyndabloggið hennar úr göngutúrnum um Mandal.
Anna Svala og Þröstur mættu einnig í nóvember og við skelltum okkur á Beatles tónleika með ýmsum flytjendum frá Noregi en þar á meðal var Eiríkur Hauksson okkar íslendinga. Þetta var virkilega skemmtilegt og við stóðum okkur vel í salnum því Eiríkur heyrði vel að það voru íslendingar á staðnum.
Svo var farin stelpuferð til Köben í tilefni afmælis hennar Mirru og fóru Hadda og Sunna með okkur og áttum við skemmtilega helgi þarna en Köben var í viðhaldi eins og Osló fyrr á árinu og var það svekkjandi.
Jæja Óli Boggi kom og klippti okkur og strípaði einu sinni enn, svo fór hann til Stavanger en við sóttum hann svo og áttum Thanks giving þar og borðuðum þá bestu máltíð sem ég hef nokkurn sinnum smakkað.
Auðvitað mikið af myndum teknum af Mirra Photography og mörg verkefni unnin sem ekki eru nefnd hér, mikið gert af því að búa til jólakort, setja myndir á vefi þar sem þær eru til sölu og alls konar svoleiðis vinna. Og svo kom desember…
Og hvað er að frétta þar, jú jú við gerum tilboð í hús og erum að flytja í janúar, við undirbjuggum jólin, fengum Maddý tengdó í heimsókn og bara höfum haft það huggulegt með engum snjó nema einn dag og sem betur fer komst ég út þá og jú jú gott fólk ekki má nú gleyma því að Kristín Jóna fékk bara alveg óvart vinnu við ræstingar í skóla og elliheimili hér í Mandal, byrja kl. 6 á morgnanna og vinn til 9 í 3 daga en til 11 í tvo daga. Dásamleg vinna sem hentar svo vel með ljósmynduninni. Hef samt lítið getað hugsað um annað en að við erum að flytja og ég hlakka svo til. Við ætlum að hætta að vera miðbæjarrottur og fara út í sveit eða í lítið þorp hér aðeins inní dag. Mandals áin rennur í garðinum okkar, höfum eina brú við garðsendann sem var byggð 1850 ca. og já bara dásamlegt umhverfi og húsið verður æði þegar við erum búin að gera það að okkar. Við fórum í desember í laufabrauðsgerð með Höddu og fjölskyldu, skruppum til Stavanger í dagsferð og fengum að borða Pinnekjøt að hætti norðmanna og var gaman að fá að smakka það. Svo komu bara jólin en skugga bar á þau þar sem Þráinn er búinn að vera veikur síðan á þorláksmessu, hann varð hitalaus í tvo daga en sló svo niður aftur og er enn veikur og veit hreinlega ekki hvort hann komi með í áramótapartýið hjá Fjólu og Robert í kvöld
En árið 2016 byrjar sem sagt á flutningum en er annars opið fyrir mörgum skemmtilegum stundum við leik og störf sem við hlökkum öll svo mikið til.
Skál og gleðilegt nýtt ár.