Sumir dagar…

09.03.2017

Já sumir dagar eru bara erfiðari en aðrir og dagurinn í gær var þannig dagur.

Hann byrjaði á því að vakna auðvitað og græja Óla Bogga í flug en fyrst keyrðum við Þráni í vinnu korter yfir 5 já hann varð bara að hanga þar til sex því það var -12 og engan veginn hægt að hjóla í vinnuna og Óli átti að mæta á flugvöllinn korter yfir 6 og það tekur okkur jú klukkutíma að keyra þangað.

Ég var nú fyrst búin að ákveða að fara bara á náttbuxunum en hætti við svo ég gæti nú labbað með stráknum inní flugstöð en ég er bara orðin of gömul eða föst í venjum til að láta ókunnugt fólk sjá mig á náttbuxunum úti í bæ.  Ég veit alveg að unga gerir það en það passar mér ekki.

Jæja umferðin var engin og við komin á réttum tíma út á völl og Óli tékkar sig inn og þá hittum við Olgu og Frikka sem eru að skutla Alexiu í flug til Íslands.

Ég stoppaði nú stutt á vellinum því ég var bara svo óstjórnlega syfjuð og gat bara ekki beðið eftir að komast heim og skríða aftur í bólið.  Ég sef svo lítið og illa þegar ég þarf að vakna snemma, ég var ekkert stressuð en það er samt eitthvað sem truflar.  Kannski það að í 3 ár vaknaði ég aldrei við klukku, ég bara fór í vinnu þegar ég vaknaði, var hvort eð er alltaf 1-2 tímum á undan vinnufélögunum sem voru þá á Íslandi svo það gerði lítið til þó ég svæfi lengur eða styttra.  Draumalífið væri það að fá alltaf að sofa þar til maður vaknaði sjálfur en ég veit að þá færi ég að sofa 11 og vaknaði 7 það er bara mín klukka.

En alla vega ég hoppa út í bíl og það var svo mikið frostið að þó bíllinn hafi verið að keyra (eða sko ég keyrði hann) í klukkutíma þá var hurðin frosin að utan og ekki hægt að stinga lyklinum í skrána.  En ég setti bílinn í gang og þurfti bara að bíða í 1 mín þar til hurðin þiðnaði og ég gat lokað henni.

Af stað heim og dreymdi rúmið mitt, mat já ég er orðin glorhungruð og syfjuð jesús minn, ætlar þessi leið aldrei að taka enda.  En jú jú ég keyri fram hjá kennileitunum sem segja mér að nú styttist þetta og verð alltaf glaðari og glaðari því nú er ég alveg að komast í rúmið með ristað brauð og næs.

Þegar ég er alveg að komast heim, mæti ég Mirrunni minni sem er á leið í rútuna í skólann og svo tek ég beygjuna heim og ýti á takkann fyrir bílskúrshurðina og þá hringir síminn.

Ég sé að það er Þráinn og hugsaði að hann væri að tékka á hvort meistarinn hafi ekki komist í flugið sitt og það allt en eitthvað hljómar kallinn skringilega og ég þarf að hafa mig alla við að hlusta því ég er svo syfjuð en hann er alla vega að spyrja hvort ég sé komin heim og eitthvað datt og hendin og og og loksins fatta ég hvað hann er að segja.  Eric er að keyra hann heim því hann datt í vinnunni og setti hendina fyrir sig og hún er greinilega ekki í lagi svo hann ætlar að kíkja á læknavaktina og láta athuga þetta.

Ok, úff ég er ekkert að fara að leggja mig en gat samt fengið mér smá skonsubita og kaffibolla áður en hann hringdi á læknastofuna okkar og fékk tíma eftir hálftíma.  Ok, út í bíl keyra í Mandal og uppá læknastofu.

Ég spurði Þráin á leiðinni hvort hann héldi hann væri brotinn en hann sagði ekki.  Ég mundi þá líka eftir því þegar ég brotnaði að ég var eiginlega viss um að ég væri nú ekki brotin það hlyti að vera sárara.

En Þráinn bað lækninn að kíkja á sig og spurði hvort hann gæti ekki vafið sig og gefið sér sterkar verkjatöflur og svo myndi hann sjá hvernig hann yrði eftir 2 daga.

 

Nei.

 

Það er mjög erfitt að sjá hvort einhver er brotinn og því verður þú að fara á sjúkrahúsið í Kristiansand og í röntgen.  Það er eina leiðin til að vera viss.

Og við af stað aftur.  Ég sagði að þetta væri rétt hjá lækninum og bara betra að klára þetta núna heldur en að þurfa að fara aftur í þennan pakka eftir 2 daga.

Jæja það þarf aldrei að bíða neitt að ráði á sjúkrahúsinu í Kristiansand og hann var kominn í röntgen ca. 15 mín eftir að við mættum á svæðið.  Sá sem myndar má aldrei segja neitt en Þráinn spurði hvað heldur þú, heldurðu að ég sé brotinn og hann svaraði þannig að já líklega væri Þráinn úlnliðsbrotinn.

Eftir myndatökuna tók við pínu löng bið eftir lækni á bráðavaktinni en meðan við biðum komu að minnsta kosti 3 ef ekki 4 sjúkrabílar inn svo það var talsverð traffík.

En við sátum þarna og biðum og rifjuðum upp mitt úlnliðsbrot sem var reyndar mjög slæmt og þurfti talsverða aðgerð að koma brotinu saman og teyja á eitthvað sem var sárara en allt annað sem ég hef upplifað.  Nota bene Ástrós Mirra var tekin með keisara svo ég hef ekki þá reynslu.

En við gátum hlegið að 2 ára gömlum meiðslum og einhverju öðru sem okkur datt í hug þarna en það er greinilega ekki algengt að fólk sitji þarna og hlægi því það var horft talsvert á okkur en mér finnst maður ekkert þurfa að setja upp heilagleikann við að labba inn á sjúkrahús því þarna eru manneskjur og ekkert er betra fyrir sálina en hlátur.

Jæja ég er að drepast úr hungri og búin að vera að spá í hvort ég eigi að hlaupa í kaffiteríuna og kaupa eitthvað en vil ekki missa af kallinum þegar hann verður kallaður inn, en á endanum geri ég það og viti menn þegar ég kem til baka er hann horfinn svo ég æði bara inn þar sem ég held að hann sé og finn hann strax og þar er læknir að kíkja á myndirnar og segja honum að hann sé jú brotinn og þurfi gifs í 5 vikur.

Ha ha ha það var nú eins gott að læknirinn í Mandal hlustaði ekkert á víkinginn minn sem vildi bara láta vefja sig og bíða í 2-3 daga.

En þarna fór hjúkkan að vefja hann með einhvers konar teyjubindi sem breytist síðan í gifs greinilega, engin aðgerð bara leggja hendina á bekkinn og vafinn.  Tók 15 mín að græja þetta en ég hef sko vinninginn því ég var næstum lögð inn og sett í skurðaðgerð en með teygjum og klemmum og togum lækna tókst þeim að setja brotið mitt saman.

Þetta er sko keppni sem ég vann, nei djók ég er mjög fegin að þetta var minna og einfaldara brot hjá Þráni og gifsið hans svo létt að hann heldur því alveg uppi á meðan mitt var svo þungt enda úr gifsi að ég þreyttist svo í hendinni að halda henni uppi.

Ég gleymdi að segja ykkur að ég var svo svöng að ég sat bara og hámaði í mig rúndstykki með skinku og osti meðan verið var að vefja kallinn og tók því bara 2 myndir af aðförunum.

En jæja þetta gekk fínt og aftur eins og með mig engar verkjatöflur gefnar, því það má ekki deyfa sáraukann því þá er hætt við að fólk fari og beiti hendinni vitlaust og brotið grær ekki eins vel.

Jæja við rennum af stað heim og viti menn það byrjar að snjóa og snjóar stanslaust alla leiðina en við komumst án áfalla heim og ég bíð kallinum eitthvað að borða eða dekur en hann afþakkar og segist alveg geta smurt brauð, ég er nú ekki á því að þetta sé svona auðvelt með einni og það vinstri en hann er með fullan mátt í fingrunum og hreyfigetu sem ég hafði ekki svo þetta er víst að ganga miklu betur hjá honum.

Ég ákvað að leggja mig enda orðin dauðþreytt eftir þennan morgun. Og ég fegin að hafa ekki verið allan þennan tíma á náttbuxunum, ha ha ha.   Svo þegar ég fer aftur á fætur kl. 14 eða þar um bil þá eru fréttir af því að Ástrós Mirra ætlar til Krs að hitta Sunnu svo þær geti farið saman í ræktina en svo koma fleiri fréttir, það er allt í vitleysu á E39 flutningabílar útaf og lokað hér og þar og þetta endaði hjá Mirrunni sem 3 tíma rútuferð, engin rækt, Sunna búin að bíða eftir henni hálflasin í Krs allan tímann svo þær fengu sér MC Donalds og svo aftur heim en nú tók Mirran lestina og komst heim kl. hálfátta, þá var þetta ævintýri búið að standa frá klukkan 14.

Fréttamiðlar og samfélagsmiðlar voru yfirfullir af reiðu fólki sem borgar skattana sína og vegtolla og er á nagladekkjum en kemst ekki milli bæjarfélaga vegna vegakerfisins.  Spurning hvað hægt sé að gera, ég hef engin svör en vonandi vaknar einhver háttsettur og fer í málið.

Sem sagt viðburðaríkur dagur að kveldi kominn og við bara í winter wonderland sendum kveðjur til allra.

Ykkar Kristín á Nesan 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.