Hollustukaka

Já gott fólk þið sjáið alveg rétt, Kristin Jóna er að gera hollustuköku.  Það er ekki langt síðan ég hefði fussað og sveiað við svona einhverju en núna erum við að breyta hjá okkur mataræðinu og taka út allan sykur en næstum allan.  Það er ekki endilega svo létt en eftir 5 daga léttumst við bæði hjónin og ég held reyndar að það hafi mest verið bjúgur.  En þegar til kom þá held ég að sykurlaust fæði henti okkur betur en margt annað.  Við megum til dæmis alveg borða allt grænmeti og þar með taldar kartöflur.  Við megum borða alla ávexti og við megum borða brauð, bara sykurlaust.  Og ég fann mjög gott sykurlaust brauð og reyndar held ég flest brauð í dag séu sykurlaus alla vega hérna í Noregi.

Allur unnin matur er bannaður og allar tilbúnar sósur hvaða nafni sem þær nefnast því þar er laumað inn sykri án þess maður geri sér nokkra grein fyrir því og af hverju?

En alla vega breyttur lífstíll og betri og hollari matur og hressari Kristín vonandi.  En þá er það sko eftirréttirnir sem ég hef gert úr ís svo lengi og já ís er ekki leyfður alla vega ekki nema ég búi hann til sjálf og passi að hann sé sykurlaus en þá hugsaði ég elsku besta vanillusósan okkar hérna úti í Norge er til sykurlaus og núna eru eftirréttirnir úr ávöxtum með vanillusósu.

En ég rakst á uppskrift af hollustuköku og ákvað að vera jákvæð og prófa hana en hún er bara úr möndlum og döðlum og ekkert bökuð og ekkert hveiti og enginn sykur.  Það er auðvitað ekki kaka því kaka er bökuð úr hveiti og sykri og eggjum.  En jú ég ákvað að prófa og í dag keypti ég allt sem þurfti í hana og fór á fullt áðan að byrja að gera og græja.

Malið möndlur í matvinnsluvél.  Úps ég á enga matvinnsluvél og ákvað að það væri alveg hægt að nota blandarann en hann malar ekkert vel og þetta tók alveg eilífðartíma.  Ýtti á takkann, 2 sec. þá var hann hættur að mala svo ég þurfti að opna og hræra með skeið.  Ýtti á takkann og 2 sec. og aftur hættur.  Svona gekk þetta í 20 mín þar til ég var næstum búin að mala þetta vel en sem sagt þetta er ekki eins og það átti að vera enda á ég ekki matvinnsluvél.  Þegar ég bjó á Íslandi átti ég bara matvinnsluvél en ekki hrærivél svo ég ákvað hérna úti að hrærivél þyrftum við að eignast fyrir fimmtugt og okkur tókst það en þá hvarflaði ekki að mér að ég myndi kannski nokkrum árum seinna bara þurfa matvinnsluvél því ég myndi hætta að baka og fara bara að mauka í kökur.

En jæja þetta var ótrúlega sóðalegt og lengi gert en nú bíður kakan í frystinum og hlakka ég til að smakka hana á eftir.  Og já súkkulaðikrem gert úr engum sykri, það meikar engan sens en ég ætla að smakka sem betur fer er ég nýlega farin að borða avókadó svo það er nú í góðu lagi.

En hér kemur uppskriftin eins og ég gerði hana.

Botn
1 bolli möndlur (lagðar í bleyti í 2 klst. eða yfir nótt)
¾ bolli mjúkar döðlur, fjarlægið steininn
salt á hnífsoddi (æi ég gleymdi því)

Súkkulaðikrem
1 og ½ (c.a ¾ bolli) stórt fullþroskað avókadó
½ bolli kakóduft
¼ bolli kókosolía í fljótandi formi
¼ bolli mjúkar döðlur, fjarlægið steininn
Slatti af vanillusósu
salt á hnífsoddi ( gleymdi því aftur)

  1. Malið möndlurnar vel í matvinnsluvél á lægstu stillingu.  Eða hamist við þetta í blandara í hálftíma.
  2. Bætið döðlum og salti út í og hrærið þar til blandan myndar deigkúlu sem helst vel saman (ef deigið er of þurrt má bæta við 1-2 tsk af kókosolíu í fljótandi formi). Þrýstið niður í 23 cm smelluform og geymið í kæli á meðan þið útbúið krem.  Hjá mér myndaði þetta aldrei deigkúlu heldur þrýsti ég í formið bara einhverjum mulningi úr blandaranum.
  3. Setjið næst öll innihaldsefni fyrir súkkulaðikremið í matvinnsluvél eða blandara og blandið þar til kremið er orðið silkimjúkt.  Þetta gekk ekkert betur og blandari ekki nógu stór eða öflugur til að gera þetta í einu lagi en tókst á endanum.
  4. Smyrjið kreminu á botninn og geymið kökuna í kæli eða frysti í klukkustund áður en hún er borin fram eða frystið yfir nótt.
  5. Njótið með vanillusósu, kirsuberjum og bönunum.

Og þá er það spurning hvernig smakkast og hvernig lítur þetta út.

Ég elska að setja banana á allt sem heitir eftirréttur

Og þar sem nú er kirsuberjatími voru þau sett þarna með

Og að sjálfsögðu vanillusósa yfir allt.

Og viti menn, þetta er geggjað gott og ég held svei mér þá ég þurfi að eignast matvinnsluvél aftur svo ég geti haldið áfram að gera svona góðar og hollar kökur.

Þangað til næst,
ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.