En ef ég vík þá að uppskrift dagsins. Mér finnst afar gaman að gera tilraunir með nautahakk og búa til eitthvað gott úr því. Mér finnst sömuleiðis voðalega gott að blanda saman fetaosti, döðlum og beikoni og nota það óspart tilraunum mínum. Hérna gerði ég tilraun með að blanda slíku gúmmelaði saman við nautahakk og útkoman kom skemmtilega á óvart. Öll fjölskyldan var sammála um að þessi tilraun hefði heppnast feykivel og ég mæli með því að þið prófið! ?
Uppskrift:
- 600-700 g nautahakk
- ½ lítill laukur, fínhakkaður
- 1 egg
- ½ dl brauðmylsna
- ½ dl mjólk
- salt og pipar
- annað krydd eftir smekk
- 180 g beikon, skorið í bita
- 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
- 120 g döðlur, saxaðar fremur smátt
- 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
- salt & pipar
- chiliflögur
- 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
- 1 1/2 msk tómatmauk
- 1 1/2 tsk paprikukrydd
- chili krydd eða annað gott krydd
Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og bætt saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restinni af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús eða hrísgrjónum og aioli sósu.
Einföld aioli sósa:
- 1 dl majónes
- 3 hvítlauksrif, pressuð
- 1 msk sítrónusafi
- salt og pipar
Öllu blandað vel saman og kælt vel áður en borið fram.