Joik, það er alveg sama hversu lélegt joik atriðið er því er fagnað eins og ég veit ekki hvað.
Er þetta samviskubitið yfir því hve illa Norðmenn fóru með Samana hérna á árum áður eða hvað? Ég þjáist alla vega ekki af þessu samviskubiti og finnst tónlist samana leiðinleg, skil alveg að þeir viðhaldi sinni gömlu tónlist en af hverju ekki að koma sér til nútímans eins og aðrir. Ekki erum við íslendingar svo mikið að hampa vísnatónlist eða orgeltónlist þó hún hafi kannski verið einkennandi á 20 öld.
Sama er að segja með td. Þjóðhátíðarlagið, ef við værum endalaust að hampa tónlist liðinna tíma, þá væri ekki Lífið er yndislegt og Þar sem hjartað slær vinsælustu þjóðhátíðarlögin í dag.
Að sjálfsögðu eigum við aldrei að gleyma þessu gamla en megum heldur ekki láta unga fólkið í dag líða fyrir að við komumst ekki úr sporunum. Ég hef heyrt ný joik lög og að sjálfsögðu eru lögin aðeins nútímalegri alveg þangað til Joikarinn byrjar að þenja raddböndin (mig langaði að segja góla en þori því ekki). Þið munið sjálfsagt eftir norska eurovision laginu með hljómsveitinni Keiino ég hef bara aldrei getað hlustað á það lag alla leið. En allt í lagi með það, því ég þekki ekki þessa tónlist, skil að sjálfsögðu ekki orð (ef þetta eru orð) ekki frekar en í jóðli austurríkismanna og þjóðverja hérna í gamla daga. Við sjáum og heyrum nú ekki mikið að því í dag. Þannig að málið fyrir mér er að sjálfsögðu eiga samarnir að hampa sinni gömlu tónlist en ekki fara með hana í tónlistarþætti og keppnir, jesús það þorir nefnilega enginn að segja að þetta sé ekki fínt.
En kannski þetta sýni okkur bara að þó mér finnist íslendingar og norðmenn vera líkir þá eigum við ekki sambærilega sögu og þeir með samana.
Hvernig farið var með þennan þjóðflokk hérna í Noregi er svo skammarlegt og svo ótrúlega stutt síðan. Enn eru þeir að berjast eins og þjóð í þjóðinni fyrir því að halda sínu líkt og indiánar ameríku. Eru með mótmæli alla daga núna á norska þinginu þar sem reisa á vindmyllur á þeirra landi án þeirra samþykkis.
Hérna er linkur á seríu hjá NRK sem segir söguna þeirra sem við íslendingar þekkjum ekki nema að litlu leiti.
https://tv.nrk.no/serie/den-stille-kampen
Ég er samt ekki viss hvort þetta sér sú þáttarröð sem ég ætlaði að finna, ég á nú bara í erfiðleikum með að finna hana núna en mér finnst þetta hafi verið bland af leik og documentary. Bæti hér inn seinna ef ég finn þessa þætti því þeir eru magnaðir og segja sögu sem kannski margir vilja gleyma. Því hver vill muna að hann komi frá þjóð sem leit niður á hluta af sjálfum sér ef ég get orðað það svoleiðis. Í þáttunum sem ég sá um árið var fjallað um unga stúlku ca. 7 ára held ég bara og hún og systir hennar eru teknar með valdi heiman frá sér því þær áttu að fara í norskan skóla og heimavist og þeim var ekki leyft að tala sitt eigið tungumál hvað þá meira, markvisst var verið að reyna að breyta sömunum í norðmenn.
Veit ekki af hverju ég endilega þurfti að koma þessu frá mér nema bara af því að það var gamall sami að keppa í norske talenter og hann gat ekki sungið að mínu mati en komst áfram á joikinu.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna