Já gott fólk það er víst ekki annað hægt að kalla þessa síðustu helgi sem var að líða annað en “vonbrigði ársins eða jafnvel aldarinnar”.
Við vorum búin að hlakka til hennar í marga mánuði, keyptum okkur miða á tónleikana með Beth Hart í ágúst 2023 og bókuðum hótelið á sama tíma, hótel sem var bara í 1 mín gang frá tónleikastaðnum, allt átti að vera fullkomið.
Þetta sumar verðum við Þráinn dáldið í sundur eða þannig, þar sem hann fer til Íslands með einkadótturinni og ég verð heima en svo fáum við dáldið af gestum hingað heim en ferðalög af minni hálfu verða engin nema dagsferðir. Svo nú átti aldeilis að njóta, taka eina frábæra helgi saman hjónin í Osló. Ákváðum að taka tvær nætur fyrir þessa tónleika og þó það kostaði á við flugferð með Icelandair til Íslands fram og til baka fyrir tvo að taka lest þangað og vera á hóteli. Því þetta var sko kósí helgin okkar.
Helgin byrjaði vel, lestin var bara 20 mín of sein og nóg pláss í kaffiteríunni svo við gátum splæst í dýrustu pizzuna og dýrasta vínið sem við höfum keypt. En það var sko alveg þess virði því þetta var bara byrjunin á frábærri helgi.
Við byrjuðum svo á að henda töskunum inná hótelherbergi sem við fengum reyndar svona bakatil með útsýni út í lokað port og bara hótelherbergi á 4 kanta, lítið herbergi en þó með baði og sturtu og fínu rúmi en ekkert borð eða stólar svo það varð bara að sitja á rúminu þegar við vildum spjalla saman. Ekki alveg það sama að vera um sextugt og sitja svoleiðis eða vera 25 ára. En ekkert mál, þetta var bara allt í lagi, við vorum á leiðinni út að hitta góða vini og fá okkur að borða saman. Sem við og gerðum, áttum yndiskvöld með þeim og fórum svo bara í háttinn og ætluðum auðvitað að reyna að sofa vel og fara svo út morgunin eftir og fá okkur góðan brunsh einhvers staðar, en æi það var grenjandi rigning í Osló og þá nennir maður nú ekki að rölta eitthvað til að leita sér að stað að stoppa á. Og meðan við erum að diskútera hvað við ætlum að gera þá fer ég að kíkja eftir fluginu hjá tengdamömmu sem átti að lenda um miðjan dag á Gardemoen og við ætluðum að sækja hana þangað og hún svo skella sér á hótel meðan við værum á tónleikunum. En eitthvað er skrítið og ég les aftur, aflýst, bíddu það er búið að aflýsa fluginu hennar og ég sendi skilaboð á son hennar sem ætlaði að keyra henni út á Kef og hann var þá akkúrat að banka heima hjá henni til að sækja hana, segir bara bíddu ég þarf að lesa! Og jú jú viti menn, fluginu var bara aflýst án nokkurrar skýringar og 81 árs gamalli konu sem þarf fylgd inn og út af flugvöllum var boðið næturflug til Frankfurt og þaðan daginn eftir til Osló. Eruði að djóka eða hvað? En alla vega tókst að finna flug daginn eftir með öðru flugfélagi en þá lendir hún eftir að við erum lögð af stað heim með lestinni. Bíddu og ástæðan fyrir því að hún er að koma akkúrat núna þegar við erum í kósíferðinni okkar er til að ég þurfi ekki að kaupa rándýra lestarferð til að sækja hana í Gardemoen. Svo hvað gera bændur þá, jú jú við eigum þessa dásamlegu vini sem búa rétt hjá Gardemoen sem sögðust geta sótt hana út á völl og keyrt henni alla leið suður til okkar á mánudaginn þar sem þau ættu erindi þangað. Oh my God þvílíka lukkan og dásamlegt hvernig hægt er að leysa hlutina með góðra vina hjálp. Svo þá er það í höfn, eða bíddu þarf að athuga hvort ég nái að afbóka hótelið og lestarferðina hennar og já hefðum við verið klukkutíma seinni með það, þá hefði það ekki tekist en sem sagt það tókst. Hjúkk.
Jæja þá ætlum við hjónin nú aldeilis að reyna að koma okkur út og finna út hvaða leið er best að labba á tónleikastaðinn “Rockefeller” og það gekk í sjálfu sér vel, en við ætlum aldrei aftur á þetta hótel, því það var sama hvaða leið við löbbuðum niður í bæ, við rötuðum aldrei aftur á hótelið og gengum alltaf í hringi. Jæja við löbbum og skoðum hvaða leið er best oþh. og kaupum okkur eitthvað að borða og bjór til að taka með uppá herbergi, ákveðum svo að taka smá kúristund áður en við förum að koma okkur í tónleikagírinn og finna út hvar við ætlum að borða kvöldmatinn. En þegar ég er lögst uppí rúm þá fer ég eitthvað að skoða betur og lesa um þennan tónleikastað, svona aðallega að athuga eru sæti, eru númeruð sæti, eru veitingar og þess háttar! En þá sé ég eitthvað um að tónleikarnir eru ekki á Rockefeller heldur Sentrum Scene, ha og við fengum aldrei neina tilkynningu um það og sko á Rockefeller opnar húsið kl. 20 og tónleikarnir hefjast klukkutíma seinna eða klukkan 21, en á Sentrum Scene opnar húsið kl. 19 og tónleikarnir kl. 20. Vá hefði ég ekki óvart verið að skoða þetta þá hefðum við bara labbað í rólegheitum þessa 1 mín. leið og komið kl. 20 en þá hefðu tónleikarnir verið að byrja á hinum staðnum. Svo ég þakkaði nú mínum sæla fyrir að þurfa alltaf að lesa aftur og aftur þegar við erum að fara eitthvað. Svo við skoðum á Google maps hvar þessi nýji staður er, og nota bene, tékkuðum ábyggilega 4 sinnum hvort þetta væri ekki rétt hjá mér þeir hefðu breytt um hús án þess að láta vita og jú jú þar áttu tónleikarnir að vera og húsið opna kl. 19.
Klukkan um 17 erum við búin að fara í sturtu og erum að hafa okkur til, með bjór í annarri og makeup í hinni, búin að setja Beth Hart á í Spotify og gírinn bara að verða góður og tilhlökkunin að koma, en það kom smá rispa í tilhlökkunina þegar allt fór í klessu með flugið hjá tengdó.
Ég er að setja á mig glossið og segi við Þráin eigum við ekki bara að fara að rölta út og finna stað til að fá okkur létta máltíð og vínglas þegar hann fær tölvupóst. Klukkan er 17, húsið opnar kl. 19 og tónleikarnir hefjast kl. 20.
ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ AFLÝSA TÓNLEIKUNUM.
Ha! Segi ég! Er hvað? Fer sjálf inná tónleikahaldarasíðuna og jú jú það stendur í smá letri þar, “AFLYST”.
What, 2 tímum fyrir tónleika, hvað gerðist, hvers vegna og og og? Við bara súnkum niður í rúmið og horfum hvort á annað og úti er grenjandi rigning og leiðinlegt veður og við bara, hvað eigum við að gera? Stóra skemmtilega helgin okkar er sko …. ég vissi bara ekki hvernig mér leið, langaði helst að pakka niður og fara heim, en það hefði kostað of mikið og og og og og svo endum við á að hringja í vini okkar sem sögðu okkur full samúðar að koma bara til þeirra, þau væru að fara að grilla og við gætum bara kósað okkur með þeim um kvöldið og gist hjá þeim. Sem við og gerðum, takk María og Stefán þið björgðuð okkur um helgina, þið björguðuð Steinu tengdó og dekruðuð svo við okkur öll, takk takk.
En fuck you Osló, fuck Beth Hart, fuck Rockefeller og fuck Sentrum Scene. Jú jú við getum fengið nýja miða á Beth Hart á fimmtudegi í febrúar. Jeah right, tökum sénsinn og fáum 2 daga frí í vinnu til að ferðast um hávetur, kaupum okkur dýra lestaferð og hótel og hver veit hver efnir sín loforð þá.
En nota bene, þetta er uppáhalds söngkonan hans Þráins og okkur er búið að hlakka svo lengi til að sjá hana life. Og hún er og býr í Ameríku svo hún er ekkert annan hvorn dag með tónleika í Noregi en núna var hún með tvenna tónleika eina í Trondheim og eina og Osló og hún var víst svo hás eftir Trondheim tónleikana að læknir ráðlagði henni að sleppa hinum, já tveimur tímum fyrir tónleikana. Eins og þetta hafi ekki verið vitað kvöldið áður eða klukkan 10 um morguninn og við þá getað reynt að finna okkur aðra tónleika, eða leikhús eða eitthvað annað að gera. En nei tilkynnum bæði aflýst flug 2 tímum fyrir flug og aflýstum tónleikum 2 tímum fyrr.
Eigum pantaða miða á Eivör í Osló í haust á sama tónleikastað og mig langar ekkert, var að athuga hvort hún myndi ekki vera líka í einhverjum öðrum bæ í Noregi svo við gætum bara frekað farið þangað. En við sjáum til, ég fer líklega ekkert til Osló þarna í millitíðinni, verð bara heima hjá mér og tékka á tónleikum hérna fyrir sunnan eða bara förum í bátsferðir á nýja bátnum okkar sem við vorum að kaupa og ætlum að njóta lífsins á í sumar og næstu sumur. Já og hefðum við sleppt þessari Oslóarferð hefðum við getað tekið þátt í Jónsmessunni hérna á bátnum en það er alltaf mjög mikið um að vera hjá bátafólki þann dag.
Ég er samt alveg að fara að jafna mig og er byrjuð að brosa aftur, enda við komin heim, Steina komin til okkar og sólin skín. Hlakka til að fá fullt af gestum og leika okkur hérna heima á “Nóa kóngi”.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Og já munum að lífið er núna!