Gervigreindin

Featured Post Image - Gervigreindin

Já ég veit það eru margir sem eru skíthræddir við hana en ég held við þurfum alls ekki að óttast eina sem við þurfum að gera er að vera á varðbergi, hún veit ekki allt, kann ekki allt og getur ekki allt. En hún getur margt og getur hjálpað okkur, ég hef oft notað hana til að laga til enskan texta fyrir mig, hef reyndar ekki prófað að láta hana blogga því það er ekki það sama og bloggið mitt kemur frá mér og er á mínu ástkæra, ylhýra tungumáli sem ég þykist nú kunna ágætlega ennþá. Neita því samt ekki að mér hefur farið aftur, sem er að sjálfsögðu eðlilegt eftir 12 ár í útlöndum.

Eins hef ég notað AI til að fá að vita eitthvað um eitthvað sem mig langar til að vita. Ég las hérna í norskum fjölmiðlum nýlega að heilbrigðisyfirvöld væru að mæla með því að fólk spyrði AI fyrst hvað mögulega gæti verið að því áður en það færi til læknis því oft gæti það flýtt fyrir eða hreinlega að þú getir sleppt lækninum þegar þú færð svarið hjá henni AI.

En auðvitað þarf stundum að nota eigin dómgreind til að greina hvort þetta sé ekki alveg rétt sem hún segir við megum ekki gleyma því að AI er búin til af fólki.

Ég var að prófa að láta hana búa til myndir fyrir mig og ég tek það fram að mig langar ekki að myndirnar séu raunverulegar, vil ekki að einhver haldi að ég sé að þykjast hafa tekið einhverja mynd sem ég ekki tók, en það sem er svo skemmtilegt er að Konný systir hefur málað eftir alla vega einni mynd sem ég fékk AI til að búa til og kannski hún máli fleiri seinna. Mér finnst alla vega gaman að vita af því að ef fæturnir munu einhvern tíma svíkja mig þá gæti ég kannski framleitt myndir án þess að labba út um allt.

Þessar myndir bjó ég til í fyrravetur og getiði nú hver þeirra er fyrirmynd málverks eftir Konný?

Þessar var ég svo að dunda við að búa til í gær og morgun þar sem það rignir eins og borgað sé fyrir það.

Og svo fór ég alveg allt aðra leið og bjó til þessar tvær.

Ég á örugglega eftir að æfa mig meira þegar veðrið er ekki gott því það er með þetta eins og allt, ég og AI þurfum að læra á hvor aðra og finna hvernig við vinnum best saman.

Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.