Sandkaka…

06.07.2016

Ég ætlaði að reyna að finna uppskrift af gamaldags sódaköku eins og ég bakaði alltaf hérna einu sinni og man alltaf að Sigmundur afi sagði sódakökuna mína þá bestu sem hann hafði smakkað en uppskriftina fékk ég úr eldgamalli Viku hjá mömmu en nú er þetta týnt og ég ekki bakað sódaköku í 15 ár held ég.  Ekki veit ég af hverju en núna fékk Þráinn þá hugmynd að ég bakaði sandkökur og setti í frystinn þar sem við erum að reyna að vera skynsöm í matarinnkaupum og ég er nú komin í sumarfrí en hann ekki og þá upplagt að byrja að gera eitthvað svona sniðugt.

Ég googla og finn engar sódakökur svo það er líklega ekki lengur til en fann hérna eina gamla uppskrift af sandköku á netinu og ætla að prófa hana.

athugið að minnska sykurinn, hún er of sæt svona þessi kaka (skrifað eftir að hafa borðað eina köku)

Sandkakan
250 g smjör, mjúkt
250 g sykur
5 egg
250 g hveiti, pilsbury´s
1/2 tsk. lyftiduft

 

Hitið ofninn í 175°C. Penslið formin með smjöri. Hrærið saman smjör og sykur þar til það er ljóst og létt. Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel saman. Ef blandan skilur sig, sem gerist oft, er ráð að setja smávegis af hveitinu út í og hræra áfram. Sigtið hveiti og lyftiduft saman og bætið út í. Hrærið saman í 2-3 mín. Jafnið deiginu í formið og bakið kökuna í um klukkutíma. Fylgist með í lok bökunatímans og takið kökuna út þegar prjóni sem stungið er í hana er hreinn og kakan farin að losna í forminu. Passið að ofbaka ekki, það heyrist svona hvisshljóð í kökum sem eru í bakstri, það er best að taka formkökur út úr ofninum þegar þetta hljóð er nýhætt að heyrast.

Ég hinsvegar lærði alltaf að þegar þú bakar formkökur þá eru þær bakaðar fyrstar því þær fara inní kaldan ofn svo ég ætla að breyta þessari uppskrift þannig en að öðru leyti lítur þessi uppskrift vel út, vantar reyndar kartöflumjölið sem mig minnir að hafi verið í minni gömlu uppskrift en þar sem ég á það ekki til þá er ég bara fegin að það er ekki notað hér.

 

 

 

 

 

 

 

ps. ég tvöfaldaði uppskriftina, minnkaði um 2 egg og bætti við norskri vanillusósu til að þynna aðeins degið, þið heima á Íslandi gætuð bara notað mjólk en ég fékk í 3 form af tvöfaldri uppskrift og fyrsta smökkun, mjög góð og svolítið sæt, þið sem ekki viljið mjög sætt minnkið bara sykurinn.

Þangað til næst,

Ykkar Stína á Nesan

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.