12.07.2016
Fyrsti dagurinn í sumarfríi hjá Þráni í gær, ótrúlega gott að hafa kallinn líka heima að gera ekki neitt nema það sem mann langar til.
Hann dreif sig nú og keypti sér veiðileyfi í ánni og nú má hann fara út í á hvernær sem er dagsins og hvaða dag sem er, vera lengi vera stutt, veiða mikið, veiða lítið en mest af öllu hafa gaman af og hitta aðra kalla sem líka hafa gaman af að veiða. Já ég sagði kalla því ég þekki svosem enga konu sem hefur gaman af því að veiða, margar þeirra fara með köllunum sínum en án þeirra færu þær líklega ekki svo þetta er kallasport sem hefur ekkert með það að gera hvort við getum það eða ekki, nema þá af því þetta kostar svo mikið á Íslandi þá kannski velja konur það síður. En alla vega þá keypti minn maður sér passa í ána sem gildir allt sumarið, hann fær einhver afslátt því áin rennur í garðinum hjá okkur en samt… hann borgar sama fyrir allt sumar hér eins og veiðileyfið kostar sólarhring í ágætri á á Íslandi. Þetta er nú meira ruglið hvað það kostar mikið þar. Hér kostar sem sagt sólarhringurinn fyrir þann sem ekki býr á Nesan heilar 300 nkr. sem er undir 5000 isk. og meira að segja færðu 100 nkr. til baka þegar þú skilar inn hvað þú veiddir og hvar.
Elska allt svona hérna í Noregi, lífið er ekki bara fyrir ríka fólkið.
En þá að þessu einkaleyfi, ég lá í sófanum í gær og nennti engu enda í fríi og langaði nú bara að einhver annar fengi hugmynd hvað á að vera í matinn oþh. en það gerðist ekki neitt. Hefði getað fengið mér brauð með smjöri sjálf en það var ekki það sem ég vildi. En meðan ég ligg í sófanum, sötra hvítvín og horfi á gamla Voiceþætti þá byrjar að mótast uppskrift í hausnum á mér og nota bene þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem sófinn hefur þessi áhrif en það er verst þegar þetta kemur þegar ég er löt og vill að einhver annar sjái um heimilisverkin.
En mig er undanfarið búið að dreyma svolítið mikið um kartöfluvagninn í Mandal, hann er ábyggilega farinn að vera á kvöldin og nóttunni um helgar núna þegar ferðamennirnir streyma í bæinn en hann er auðvitað ekkert hérna í sveitinni svo ég verð bara að láta mig dreyma en sá draumur breyttist í uppskrift í gær.
Ég hef aldrei getað keypt stórar og góðar bökunarkartöflur hérna og því mjög erfitt að ætla að gera sjálfur svona bakaðar kartöflur með jukki í og þá byrjar uppskriftin að mótast.
Skræla og sjóða kartöflur, stappa þær saman með smjöri og engu öðru. Steikja beikon, lauk og papriku á pönnu og bæta svo gulum baunum við í restina og láta kólna meðan kartöflurnar sjóða.
Setja stappaðar kartöflur í skálar, passlegan skammt fyrir einn og taka helminginn af steikta jukkinu og setja í skálarnar og blanda létt saman við kartöflustöppuna. Setja svo aðeins meira yfir og hella hvítlaukssósu þar yfir og setja svo rifinn ost ofan á allt og baka í ofni í 10 mín eða þar til osturinn er bráðnaður. Passa sig svo því skálarnar eru heitar og maturinn svoooooo ljúffengur að auðvelt er að borða yfir sig. Vitiði þetta er sjúklega gott og jafnast alveg á við bakaða kartöflu með jukki.
En nú eru líkur á því að allir fari að herma þar sem þetta hljómar svo vel og því var ég að spá í hvort ég ætti að sækja um einkaleyfi þannig að ef einhver ætlar að opna keðju kartöfluvagna með þessari uppskrift þá fái ég alltaf krónur í vasann, en vitiið hvað, nei ég nenni því ekki og verð bara ótrúlega glöð ef einhver vill njóta og prófa þetta sjálfur.
Því miður eru engar myndir af þessu því spennan var svo mikil að prófa og svo allt étið upp til agna. En næst skal ég koma með myndir.
Einn góður matreiðslumeistari sagði það vera einkenni á góðum kokki að geta búið til mat án þess að finna uppskriftir frá öðrum og ég ætla bara að taka það til mín, því ég held ég sé frekar svona creative en almennt gengur og gerist en gallinn á mér er að ég gleymi svo oft svo ég gerði, þess vegna væri ráð að blogga um það eins og núna svo það sé til á prenti.
En hvað ætti maður að láta réttinn heita?
Þangað til næst,
Kristin á Nesan
ps. leyfi ykkur bara að sjá hvernig víkingar elduðu mat í gamla daga í staðinn.