Já ég get svarið það, vinnan við að setja endalaust í peisinn (kamínuna) niðrí stofu, fara út og sækja meiri við, sækja við, í vinnuna til Þráins til að spara enn meira með því að fá ókeypis við, því viður er ekkert ódýr þó hann sé svo sannarlega ódýrari en rafmagnið til kyndingar, skagar ábyggilega uppí 30% starf.
Sko í nóvember þá rigndi alveg svakalega og varð rafmagnið þá frekar ódýrt, við eyddum 589 kwh sem kostuðu okkur 1017 nok fyrir utan línugjald og fleira, þetta er bara verð fyrir kílówattstundirnar. Reikningurinn endaði svo í um 1500 nok með línugjaldi og styrk frá ríkinu á móti þessum kostnaði. En svo kom desember með þessu líka fallega veðri og frosti allt að 16 gráðum og á degi 6 í desember vorum við búin að eyða sömu krónutölu og fyrir allan nóvember, það segir ykkur bara hversu svakalega mikið hærra verðið er fyrir kílówattstundina núna.
15. des í dag og við erum búin að eyða álíka mörgum kWh og fyrir allan nóvember því það þarf að kynda meira stórt hús en verðið er svolítið mikið hærra en 1017 því það stendur í 2717 núna svo eitthvað verður rafmagsreikningurinn fyrir desember en það verður bara að vera svo, því við ætlum ekki að slökkva á jólaljósunum, frekar slökkvum við á miðstöðvarofninum í svefnó yfir daginn og hitum svo herbergið seinni partinn með við, svo það verði hlýtt og gott þegar við förum að sofa.
Aldrei hefði mig grunað það að ég myndi horfa á rigningarspá með gleði í hjarta en það spáir hitatölum í næstu viku og rigningu með þeim og ég hlakka bara til að þurfa ekki að spá í hvort sé ódýrara að fara í sturtu kl. 7 eða klukkan 8 á morgnanna, eða klukkan 5 á daginn eða verður kannski bara að bíða með sturtuna til klukkan 10 í kvöld en svona er þetta hérna núna. Við erum með app þar sem við sjáum hvað rafmagnsverðið er í dag og hvernig það verður líklega á morgun og hvað við eyddum af því í gær.
Svona verður rafmagnsverðið okkar í dag. Þið sjáið að það rokkar ansi mikið upp og niður eftir tíma dagsins.
Þegar við gerðum samninginnn okkar við rafmagnsfyrirtækið þá var spotpris tæpir 7 aurar og nú finnst okkur ódýrt ef kWh fer undir 400 aura því hún á það til að fara uppí 800 aura og í norður Noregi gerðist það í gær að verðið fór í 1,5 krónu sem hefur aldrei gerst í Noregi áður.
Í gær eyddum við minna rafmagni en í fyrradag þar sem við slökktum á rafmagsofninum í svefniherberginu kl. 8 og þið sjáið hvað línuritið fer mikið niður þá en hvað gerðist klukkan 12, það skil ég ekki, nema það sé varmadælan sem þurfti að hafa svona mikið fyrir því að hita upp alrýmið okkar þar sem ég var ekki heima allan morguninn og gat því ekki hitað upp með við. Við getum ekki sleppt því að hafa hana í gangi en við höfum hana stillta núna á 22 gráður sem þýðir að eftir nóttina eru 17 gráður í húsinu ef það er ekki því kaldara úti, í morgun voru bara 15 gráður almennt í húsinu þar til við fórum að kynda með viðnum
Okkur vantar góða íslenska lopasokka, við erum búin að ganga þá alla í gegn svo ef einhvern langar að gleðja okkur þá væri þetta nú gjöf sem gleður. Sem betur fer eru lopapeysur til hér í bunkum og eru notaðar allan daginn, ég fer kannski úr lopapeysunni þegar ég horfi á sjónvarpið því þá ligg ég hvort eð er undir teppi.
Hérna sjáum við samanburð á árunum 2021 og 2022 og er bláa línan 2022. Þið sjáið að við erum að eyða svo miklu minna rafmagni núna, því við erum endalaust í spá í hvort við setjum í þvottavél núna eða á morgun eða verð ég að bíða með það fram í næstu viku? En samt mun ársreikningurinn verða talsvert mikið hærri.
Já íslendingar heima vita ekki hvað þeir hafa það gott og þó það þurfi að loka nokkrum sundlaugum næstu daga þar sem frostið heima á að fara í -20 gráður þá mun kyndingarkostnaðurinn ekki hækka um mörg hundruð prósent svo verið bara glöð og rífið af ykkur fötin þegar þið komið heim og farið öll í sturtu eins oft og þið viljið.
Knús og klem, ég þarf að setja í peisinn núna og svo þvo mér bara um hárið, ætla að spara sturtuna í dag.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna