Jæja þá erum við hjónakornin komin heim eftir þjóðhátíðina en Ástrós Mirra varð eftir hjá Konnýju og fjölskyldu.
Þetta var mjög góð þjóðhátíð og stoltust er ég af unga fólkinu okkar sem var upp til hópa mjög vel búið og sást ekki mikið vín á fólki. Það virtust allir vera að gera þetta svo skynsamlega. Til hamingu íslensku ungmenni.
Við héldum nú á föstudaginn að við kæmumst ekki því það var ófært þegar við komum á Bakka en það rofaði til og þeir byrjuðu að fljúga og áttum við að fara í vél nr. 16 svo er kallað út í vél nr. 14 og þá er farið að þykkna aftur upp svo við vorum ansi stressuð á því hvort þetta tækist og svo kom liðið úr vél nr. 14 aftur inn því það kom þokutappi og þeir fóru ekki í loftið. Við héldum að þá væri þetta búið en svo rofaði aftur til eftir klukkustund og við komumst.
Fórum svo að segja strax inn í dal og hittum alveg fullt af fólki sem við þekkjum og svo var drifið sig i kjötsúpu hjá Konný. Fórum svo á kvöldvökuna kl. 21 og þá var svona rigninarúði en við komum okkur samt fyrir í brekkunni. Ástrós Mirru leiddist frekar mikið þetta kvöld, henni fannst tónlistin sem var verið að spila “Ömurlega leiðinleg” (Maggi Eiríks og blús). Svo fórum við Ástrós, Konný og Sara heim eftir brennu kl. 01 og fengum okkur aftur kjötsúpu og fórum svo að sofa. Þráinn og Markús voru eitthvað lengur.
Á laugardaginn fórum við aftur inn í dal um miðjan daginn til að kíkja á barnadagskrána og var hún alveg ágæt, alla vega dönsuðum við Ástrós Mirra og hún horfði á brúðubílinn sem klikkar aldrei.
Nú svo um kvöldið var okkur öllum boðið í grill til Edda hennar ömmu Steinu og þar voru báðir bræður Þráins með sínar fjölskyldur svo þetta var mjög fjölskylduvæn þjóðhátíð. Skelltum okkur svo í dalinn um kvöldið og fylgdumst með kvölddagskránni (þá var þurrt í brekkunni) sem var mjög góð og toppaði Todmobil það rétt fyrir miðnætti. Geðveikt sánd og bassinn svo hátt stilltur að brekkan nötraði. Fyrir mér var þetta hápunktur þjóðhátíðarskemmtidagskránar. (Stuðmenn voru á föstudeginum og mér fannst ekkert varið í þá nema Stefán Karl.)
Jæja svo er að líða að miðnætti og þá fer þessi líka þokan að láta sjá sig og það endaði þannig að við sáum ekki stærstu bomburnar í flugeldasýningunni því þær fóru upppfyrir þoku. En að sjálfsögðu klikkar flugeldasýningin á Þjóðhátíð aldrei. Því hljóðið magnast svo í dalnum að það er alveg ótrúlegt. Ég elska flugeldasýningu með hávaða.
Jæja þá er það sunnudagurinn og við mætum inní dal eins og venjulega og þar er Benedikt búálfur í stærsta hlutverkinu og ég veit ekki hvort krakkarnir hlógu meira eða fullorðna fólkið, hann var æðislegur. Hann kom svo aftur fram á kvölddagskránni (ekki Benedikt búálfur heldur Björgvin Franz) og var sko ekki síðri, reyndar gleymi ég að segja frá Þorsteini Guðmundssyni sem var á laugardagskvölinu að skemmta og var geðveikt fyndinn, ég get endalaust hlegið að svona svörtum húmor en ætla ekki að hafa hann eftir hér. Kannski maður á mann ef þið blikkið mig.
Jæja við fórum í Humarveislu hjá Konný á sunnudagskvöldið og svo inní dal en Konný átti að fara á gæsluvakt en Markús tók vaktina fyrir hana svo hún gat aðeins slappað af, hún sá nefnilega um tvær sjoppur og átti að taka 2 x 6 tíma gæsluvaktir. Við skelltum okkur í brekkuna sem var orðin ansi ljót en allir með plast undir sér svo það skipti minna máli. Fín dagskrá og að mati Ástrósar Mirru mun skemmtilegri tónlist þarna kom hljómsvetin Hoffmann sem er þungarokkssveit og mín dama rokkaði þvílíkt í brekkunni. Ekkert blúskjaftæði fyrir þessa stelpu bara almennilegt rokk.
Ástrós var þvílíkt að brillera í brekkunni á sunnudagskvöldið, það var hópur að ungum krökkum fyrir aftan okkur sem tjáðu mér að hún væri flottasti krakki “ever” sem þau hefðu séð og henni voru gefin ljós um hálsinn og stjörnuljós til að hafa í brekkusöngnum og ég veit ekki hvað.
Hún reyndar notaði stjörnuljósið sitt þegar óopinbert þjóðhátíðarlag 21 aldarinnar var spilað því og langaði svo í nýtt, þá sé ég mann neðar í brekkunni sem ég kannast við vera að taka upp stór stjörnuljós handa sýnum börnum og segi Ástrós að fara til hans og segjast vera dóttir Þráins og spyrja hvort hún megi ekki fá eitt stjörnuljós. Hún kom að sjálfsögðu með ljósið til baka, maður verður bara að læra að bjarga sér.
Jæja brekkusöngurinn var fínn (þó ég vilji Árna í burtu) þekki reyndar nokkra sem fóru heim þá því það fólk vill ekki hampa Árna. En þó Árni kunni bara 10 lög þá tekst honum að fá brekkuna með sér og þegar hann endar síðan á þjóðsöngnum okkar og er búinn að lækka hann um einn tón þannig að allir geti sungið með þá finnst mér hann bara flottur og að standa þarna ein af 11 þúsund manna kór og syngja þjóðsönginn og sjá svo þessi 130 blys kveikt fyrir ofan okkur í brekkunni var “Ótrúlega flott” ég held að fólk geti ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta er magnað samspil ljóss og söngs. Síðan kom smá flugeldasýning og svo þjóðhátíðarlag 21 aldarinnar aftur og það var stórkostlegt, ég reyndar kann ekki allan textann í þessu lagi en hinir 10.998 kunnu hann og þetta er rosalega flott lag og passar vel við dalinn. (Lífið er yndislegt)
Nú svo fékk ég að vera frameftir þetta síðasta kvöld og var samt næstum því farin heim kl. 02 en hitti þá Guðrúnu vinkonu og Hregga manninn hennar og fór að þvælast með þeim og kom ekki heim fyrr en kl. 06, svaf til 10 og komin uppá flugvöll uppúr kl. 12 og heim fyrir kl. 16 og ekkert þunn. Áfram Kristín (kannski í æfingu eftir allt sullið á Tenerife). Er svo bara að slappa af í dag og þrífa og þvo þvotta, lesa góða bók og þess háttar og mæti svo kát og hress í vinnu á morgun.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna