Mirrublogg árið 2004
Kristínu Jónu 22.1.2004 00:00:00 Með pest
Jæja þá höngum við mamma heima því ég er með einhverja pest, ég gubbaði í nótt og líka í fyrrinótt svo mamma og pabbi þorðu ekki að láta mig á leikskólann en ég er ekkert lasin, ekki þannig. En við mamma gerðum einn frábæran hlut í dag. Þannig var að ég spurði mömmu hvort ég mætti elda fyrir hana í stofunni, (það þýðir að ég kem með allt dótið mitt og legg á borð og elda) og mamma sagði já, svo var hún eitthvað að uppfæra heimasíðuna mína og lítur svo inní stofu þegar ég er alveg að verða búin og þá var ég búin að leggja svo fínt á borðið og svo mikið alls konar bolla, diska, plat ávexti ofl. svo þá spyr mamma hvort við ættum ekki að bjóða honum pabba bara í hádegismat í stofunni fyrst hann ætlaði að koma heim, og við gerðum það.
Við smurðum brauð og skárum í litla bita og gerðum litlar flatkökur og ýmislegt svoleiðis og svo þegar pabbi kom varð hann heldur en ekki hissa að sjá þetta allt og sjá að þetta var ætt líka ekki bara plastdótið mitt, hann borðaði sig alveg saddan og ég og mamma líka. Þetta var sko skemmtilegt. Ég held að mamma mín fái mömmuviðurkenninguna í þessari viku, því við fórum í sund í gær, ég er alltaf að biðja um það en það er annað hvort ekki tími eða það er svo kalt, en í gær sagði mamma bara já, ok drífum okkur í sund og við gerðum það og ég skemmti mér mjög vel að hoppa útí og busla.
Það hringdi síminn í morgun hjá mömmu og henni tjáð að ef við vildum þá kæmist ég í fimleikahóp hjá Björkunum á sunnudaginn kl. 11, við vorum nefnilega búnar að sækja um en það var allt uppfullt og kominn biðlisti svo okkur hlakkar mikið til. Nú ekki meira í bili nema að minna ykkur á að skrifa í gestabókina mína, ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 25.1.2004 00:00:00 Slys
Nú ætla ég að segja ykkur fréttir sem eru ekki góðar, pabbi minn var að slasa sig, hann datt niður af rosa hárri brú (4 metrar) og lenti í grjóti fyrir neðan eftir að hafa snúist í heilan hring í loftinu.
Hann fór með sjúkrabíl uppá spítala og þar var hann myndaður og skoðaður af mörgum læknum og niðurstaðan var að neðsti hryggjarliðurinn hjá honum er brotinn, æi, og hann má kannski ekkert vinna í 9 – 12 vikur (hvað sem það þýðir nú) og læknarnir sögðu að hann væri ótrúlega heppinn að hafa ekki slasað sig meira, en þetta er samt mikið. Samt fékk hann að koma heim með mömmu á föstudagskvöldið og hann togaði sig upp stigann því hann ætlaði sér að koma heim og vera þar að jafna sig.
Ég er voða góð við hann og verð að passa mig mikið að koma ekki mikið við hann eða óvart að sparka í hann þegar ég er að fíflast og svoleiðis.
En svo annað skemmtilegra, ég fór í fyrsta tímann í fimleikum áðan og það var rosa skemmtilegt og ég ætla að halda áfram og verð í tímum kl. 11 á sunnudags-morgnum. Fimleikafélagið mitt heitir “Fimleikafélagið Björk” og ég er í rauða hópnum, eins og ég er á rauðu deildinni í leikskólanum, sniðugt.
Jæja sjáumst. Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 31.1.2004 00:00:00 Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð
Jæja gott fólk, það er nú búið að ýmislegt í gangi hjá okkur í þessari og síðustu viku, það byrjaði nú reyndar með því að mamma fór með mig í höfubeina- og spjaldhryggsmeðferð sem er að skila heilmiklum árangri núna, mömmu finnst ég miklu meðfærilegri og rólegri en þó hef ég engan veginn tapað fjörinu sem einkennir mig enda væri það nú ekki skemmtilegt.
Nú svo datt pabbi minn og meiddi sig mikið en hann er nú svo duglegur að ég og mamma erum alveg bit. Að síðustu fór mamma með mig til barnalæknis af því að ég er alltaf að kvarta um í maganum og hann heldur að ég geti verið með svokallað maga migreni og skaffaði mér pillur sem ég er rosa dugleg að taka, skelli bara einni á tunguna og drekk með. Frábær finnst ykkur ekki?
Já og svo byrjaði ég í fimleikum á síðasta sunnudag og fer aftur á morgun og það var ofsalega gaman og ég hafði svo gott af því að komast út og fá útrás með hinum krökkunum, ég sýndi strax efni á tvíslá því ég sveiflaði bara upp fótum og fór næstum því í hring, kannski ég endi bara í áhaldafimleikum eins og Sara Rún frænka mín.
Jæja, í dag erum við mamma að fara suður í Sandgerði í Bröns saumaklúbb hjá Sigrúnu ömmu nr. 5 og þar verða allar konurnar úr ættinni sem geta mætt en ég held reyndar að ég verði eini krakkinn en ég er þó alla vega í réttum flokki, þ.e. ég er stelpa svo það hlýtur að verða allt í lagi, því pabbi minn getur ekki hugsað um mig svona langan tíma því hann þarf að passa bakið sitt og hvíla sig mikið.
Kveðja frá Hafnarfirði Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 9.2.2004 00:00:00 Komdu þá að leika
Hæ, hæ, hæ!
Voruð þið farin að sakna frétta af mér? Það er nú búið að vera heilmikið að gera hjá okkur síðan síðast. Pabbi er náttúrlega búinn að vera heima að jafna sig en ég og mamma höfum haldið okkar striki og farið í vinnu og leikskóla.
Ég spyr pabba á hverjum degi þegar ég kem heim, hvort hann sé betri í bakinu og fyrst þegar ég spurði hann þá sagði hann “Já” og þá sagði ég “Gott, komdu þá að leika” en þá sagði pabbi mér að þó hann væri betri, væri hann ekki nógu góður til að leika við mig.
En eins og ég sagði ykkur áður þá er ég byrjuð í fimleikum og það er voða gaman nema síðast, í gær, þá bauð ég Önnu Dögg með því hún gisti hjá okkur og við vildum ekki skilja hana eftir einhvern staðar á meðan svo ég bauð henni sem sagt með, en í fyrsta lagi var ofboðslega kalt í salnum og svo vorum við í einhverjum litlum sal með engum tækjum og áttum að hlaupa um og fara í alls konar leiki sem var í rauninni mjög gaman nema ég hljóp tvisvar á og varð svolítið lítil í mér eftir það, svo þegar Anna Dögg var klukkuð þá varð hún svolítið móðguð og vildi ekki halda áfram svo mamma bara fór með okkur út þegar tíminn var hálfnaður. En það var allt í lagi því þá fengum við að fara með mömmu á hljómsveitaræfingu og þar fengum við að heyra spilað mjög hátt og pabbi var að syngja og svo fór mamma að syngja líka en ég og Anna Dögg fengum okkur að borða banana og sleikjó. Svo þegar trommarinn fór í smá pásu þá settist ég við trommurnar og tók upp báða kjuðana og taldi inn, einn, tveir, þrír og byrjaði síðan þennan fína trommusóló. Alla vega fannst mömmu og pabba ég mjög efnileg.
En svo fórum við afmæli til Kristófers Darra og Alexanders Ísaks en þeir héldu saman uppá afmælin sín, og það var voða gaman mikið af krökkum og mikið af skemmtilegu dóti hjá Kristjófer, sérstaklega smíðasettið hans,ég er mjög spennt fyrir því.
Jæja ekki meira í bili en það er nokkrar nýjar myndir of þar á meðal myndir af mér að mála listaverk og eins myndir af mér, Önnu Dögg og mömmu í rúminu mínu, þegar mamma var að lesa fyrir okkur.
Bless bless, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 10.2.2004 00:00:00 Feel
Hæ smá viðbót frá í gær, mamma er alveg að missa sig vegna þess að ég er farin að syngja Feel með Robbie Williams með henni og pabba, syng eins og ekkert sé textann “I, just wanna feel, real life, feel the home that I live in” og hvað með það, eins og maður geti ekki alveg sungið á útlensku ef maður vill. Ég var nú með mömmu í baði um daginn og tók þá sturtuhausinn og notaði fyrir míkrafón og söng á minni eigin útlensku og rétti svo mömmu sturtuhausinn og bauð henni að syngja og hún byrjaði á íslensku en þá sagði ég: “Nei, mamma syngdu á útlensku eins og ég” og mamma varð að syngja á minni útlensku til að gera mig ánægða. Svo þetta er nú ekki neitt mál.
Kv. Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 17.2.2004 00:00:00 Lína langsokkur eða álfadís
Það er að koma öskudagur svo við mamma skelltum okkur í bæinn í dag og keyptum öskudagsbúning handa mér. Fyrst talaði ég um að vera kisa , en svo stakk mamma upp á Línu langsokk og ég tók mjög vel í það og var alveg með það á hreinu þegar við komum í búðina en Vááááá, búðin var full af öskudagsbúningum og troðfull af fólki líka, en við mamma byrjuðum að skoða Línu langsokk búninga og þá sé ég allt í einu Bubba byggir búning og sagðist vilja fá hann, mamma skoðaði pakkann og sá að það fylgdi ekki með hjálmurinn á myndinni og ekki beltið með verkfærunum svo það sem eftir var, var bara smekkbuxur og bolur, svo hún sagði mér bara að það væri ekki til nógu stór á mig. Svo við þurftum að byrja upp á nýtt, mamma vildi helst kaupa Línu langsokk búning því hann er svo vandaður en þetta endaði eins og þið sjáið í myndaalbúminu mínu, Álfadís!
Kristínu Jónu 27.2.2004 00:00:00 Harmafiskur
Vá, þá er bollu- sprengi- og öskudagur búinn og þetta voru svo skemmtilegir dagar og mikið búið að vera að gera í þessari viku. Mamma er reyndar búin að vera að vinna voðalega mikið og leikirnir mínir hafa víst breyst aðeins á leikskólanum ég er víst farin að vera meira kallinn, því mamman er alltaf í vinnu.
Á leikskólanum mínum mátti koma í búningum á öskudaginn og þar var opið á milli deilda og kötturinn sleginn úr tunnunni og brjálað fjör. Það er ein önnur stelpa á leikskólanum sem heitir Ástrós og hún er annarri deild en viti menn við tvær vorum í eins álfkonu prinsessubúningi, og bara við tvær, fyndið finnst ykkur ekki? Ég borðaði heilmikið saltkjöt á sprengidaginn en var ekki alveg að skilj þetta “sprengi” dæmi og sagði við mömmu að ég gæti alls ekki látið magann í mér springa.
Pabbi keypti harðfisk áðan (ég reyndar segi harmafisk) og ég er að verða búin með pakkann og var að segja mömmu minni að ég væri “brjáluð í harmafisk með smjöri”.
Kolla frænka er alltaf að passa mig núna þegar mamma og pabbi eru á hljómsveitaræfingu en þær eru núna tvisvar í viku og svo verða fimm æfingar í þarnæstu viku sem endar með árshátíð þann 13. mars nk. og þá hætta mamma og pabbi að vera alltaf upptekin á laugardögum en ég fyrirgef þeim þetta því þeim finnst þetta svo skemmtilegt.
Jæja, þangað til næst, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 1.3.2004 00:00:00 vorið að koma
Jæja þá er mars kominn og þá styttist í vorið, ég bíð spennt eftir því vegna þess að þá fæ ég nýtt hjól og svo förum við að fara í sveitina, ég var að spyrja mömmu um daginn, “Hvenær kemur sumarið svo við getum farið í sveitina?” og þá sagði mamma mér að fyrst kæmi vorið og svo kæmi sumarið.
En vitiði hvað ég fékk að gera í dag? Ég fékk að fara í strætó í dag, húrra, ég er búin að vera að spyrja mömmu og pabba í marga daga hvort ég mætti ekki fara í strætó og í gær sagði pabbi, veistu Ástrós, á morgun þegar þú ert búin í leikskólanum þá skulum við fara saman í strætó og við gerðum það áðan. Það var mjög skemmtilegt, mamma sagði að það væri eins og ég væri búin að búa í einhverri kúlu síðan ég fæddist, því allt í einu sá ég hús, rólur, hunda og svo margt annað sem ég ætti að sjá á hverjum degi en það greinilega lítur öðruvísi út úr strætó en úr okkar bíl.
Ég hringdi í Ömmu Steinu áðan og hún greinilega þekkti mig ekki og spurði “Hver er þetta?” og ég svaraði: ” Þetta er ég, Ástrós!” og var alveg hissa á að hún amma mín skyldi ekki þekkja mig í símann en amma sagði mömmu að ég væri svo fullorðinsleg að hún hélt bara að þetta væri Sunneva en hún er að verða 10 ára og ég er bara 3 ára.
Hvað heitir Guð? Spurði ég mömmu í matartímanum, hún svaraði að hann héti bara Guð. Þá sagði ég, en hvað heitir aftur strákurinn hans?
Góða nótt öll sömul og Guð veri með ykkur.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 13.3.2004 00:00:00 Stóri dagurinn hjá mömmu og pabba
Jæja, þá er stóri dagurinn eða réttara sagt kvöldið hjá mömmu og pabba því í kvöld er hin margumtalaða árshátíð þar sem hin frábæra hljómsveit The Maritech Group mun spila fyrir dansi, fyrir nú utan það að mamma er í stjórn starfsmannafélagsins og hefur þurft að undirbúa árshátíðina að öðru leiti líka, ásamt fleira fólki, en ef þið þekkið mömmu mína þá þarf hún svolítið að fylgjast með öllum endum og vera viss um að allir muni skila sínu verki rétt og vel, þess vegna er hún svolítið þreytt en það hefur nú ekki bitnað mikið á mér en þó örugglega eitthvað.
En nóg um mömmu því ég er að deyja úr spenningi að fá að fara til Önnu Daggar í dag og vera með henni í allan dag og svo ætlar mamma hennar að setja dýnu á gólfið í herberginu hennar og finna til sæng og kodda (það verður nú samt mín sæng) svo ég geti sofið í sama herbergi og Anna Dögg og þetta er sko ekki minna spennandi en þessi árshátíð hjá mömmu og pabba og ég er þvílíkt búin að bíða eftir laugardeginum og leit meira að segja út um gluggann kl. 8 í morgun og sá að það var farið að birta til og sagði þá við mömmu, jæja nú ættu allir að vera vaknaðir svo við getum farið að fara til Önnu Daggar! En mamma sagði að við gætum ekki farið alveg strax en það er svo erfitt að bíða…… Þangað til næst, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 16.3.2004 00:00:00 Ég er hætt með SNUDDU og hananú!
Ég er hætt með SNUDDU og hananú!
Ég fór með Önnu Dögg og mömmu hennar í Húsdýragarðinn um helgina þegar ég var hjá þeim í pössun og mamma notaði tækifærið þegar hún frétti það og fór að ræða aftur um Guttorm og snuddur, og ég var nú bara nokkuð jákvæð. Svo þegar hún sótti mig í leikskólann í gær þá var svo gott veður og mamma spurði mig hvort við ættum ekki að skella okkur í húsdýragarðinn og færa honum Guttormi snuddurnar mínar og ég sagði JÚ, við skulum gera það.
Nú svo var farið og ég hengi þær á tréið en mömmu fannst ég vera svolítið stressuð í garðinum og hélt að það væri út af snuddunum en líklega hefur það bara verið að því að ég var eins og kálfur á vorin, glöð að skoða dýrin í góðu veðri.
Ég var bara mjög góð að fara að sofa í gær, þá var pabbi einn með mig en núna þá fór mamma með mig uppí og las og svo lá ég í smá tíma og var aðeins að kalla á mömmu og sagði henni að það væri ekki rétt að Guttormur hefði allar snuddurnar en mamma sagði að þær væru best geymdar hjá honum því ég væri svo stór og svo sofnaði ég bara án SNUDDUNNAR minnar.
JÁ ÉG ER SKO ORÐIN STÓR OG SVO ER ÉG AÐ FARA Á BLÁU DEILDINA BRÁÐUM EÐA ALLA VEGA Í SUMAR.
Ykkar stóra Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 21.3.2004 00:00:00 Hjól
Hæ hæ, þá er heil vika síðan ég hætti með snuddu og það gengur æðislega vel. Þetta er búin að vera mikil gjafavika hjá mér, því amma Maddý og Svavar afi gáfu mér tvíhjól á miðvikudaginn og mamma og pabbi hjálm, því maður verður alltaf að vera með hjálm þegar maður hjólar á alvöru hjóli. Amma sagði að ég hefði fengið hjólið af því að ég er orðin svo stór og dugleg. Það var nú eins gott að ég var hætt með snuddu, því annars hefði ég kannski ekki fengið hjólið. En ég hjóla og hjóla núna út um alla íbúð og svo er pabbi búinn að fara með mér í gamla skólann hennar mömmu sem er rétt hjá langafa og langömmu og leyfa mér að hjóla þar, svo leyfði mamma mér að hjóla úti á bílaplani á föstudaginn en það voru engir bílar þar þá, þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Svo kom amma Steina á föstudaginn og var hjá okkur alla helgina, það var mjög gaman og hún gaf mér bók sem heitir Busla og er um stelpu sem er mikil buslukollur eins og ég kannski!
Á föstudaginn kom Kristófer líka til okkar og svaf hjá okkur eina nótt en hann hefur aldrei sofið hjá okkur áður, það var líka mjög skemmtilegt því hann er mjög skemmtilegur, hlær svo mikið og svo finnst honum ég alveg frábær, hermir allt eftir mér og horfir á mig með aðdáun þegar ég er að prakkarast eitthvað.
Nú svo vorum við með matarboð í gærkvöldi og allir afkomendurnir hennar ömmu Steinu komu í mat og það var mjög gaman en ég fór ekki að sofa fyrr en kl. 22 og var þá gjörsamlega búin að vera. En hvað haldiði að ég hafi sofið lengi frameftir í morgun? Já, ég vaknaði kl. 7 eins og venjulega, þannig að ég fór dauðþreytt í fimleika en hamaðist þar eins og venjulega og hef samt ekkert lagt mig í dag, en nú kl. 17 er ég orðin ansi framlág, þannig að mamma reiknar nú með að ég fari snemma að sofa í kvöld.
Eeeen, af því að ég sagði nú áðan að þetta væri búin að vera mikil gjafavika þá má alls ekki gleyma að segja frá því amma Auður kom hérna (og Siggi afi með) og hvað haldiði að hún hafi verið með í poka…. eina frábæra litskrúðuga peysu ásamt húfu handa mér.
Takk allar ömmur fyrir að vera mér svona góðar og fyrir að elska mig svona mikið, ég held ég sé nú afskaplega heppin stúlka og rík að eiga ykkur öll.
Ykkar þakkláta stelpa Ástrós Mirra
og mamma hennar og pabbi, þau kunna nú líka að meta þetta.
Kristínu Jónu 25.3.2004 00:00:00 Besti vinur minn
Í dag fékk loksins besti vinur minn ´á leikskólanum að koma að heimsækja mig, og það var alveg frábært, við meira að segja lokuðum hurðinni svo mömmur okkar og pabbi minn væru ekki að skipta sér af okkur. Aron Breki var mjög hrifinn af herberginum mínu og sérstaklega rúminu af því að það er svo hátt og gaman að leika þar undir.
Svo vildum við fara saman í bað en það stóð víst ekki til boða núna en kannski seinna, alla vega vildi Aron Breki ekki fara heim og ég vildi ekki að hann færi en það var víst kominn kvöldmatur svo …..
Þetta var sem sagt mjög góður dagur.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 31.3.2004 00:00:00 Rifist við vin sinn
Þá er apríl að koma og vonandi vorið segir mamma en ég sagði henni að ég vildi hafa sumar og snjó, því það er svo gaman að leika í snjónum.
Ég lenti í smá erfiðleikum í gær, ég hafði verið að leika mér í leikskólanum með Aron Breka og eitthvað slóst uppá vinskapinn og þegar mamma kom að sækja mig hljóp ég til hennar og sagði með grátstafinn í kverkunum “Mamma hann Aron Breki var ekki að gegna mér!” og þá kom Aron Breki hlaupandi til mín og sagði “En ég var að gegna þér” og þá gjörsamlega trylltist ég og sagði “nei, þú gerðir það ekki” og þá grét hann á móti “Jú, víst” og þá ætlaði mamma að reyna að tala við mig en ég var alveg tjúlluð og það mátti enginn tala við mig eða horfa á mig eða neitt. Mamma var alveg steinhissa, hún sagði að hún vissi alveg að ég hefði skap en þarna var ég alveg stjórnlaus. En jæja svo sjatlaðist það og við mamma fórum heim, ég jafnaði mig nú ekki alveg strax en þó… ég var allavega í góðu skapi þegar ég vaknaði í morgun og dagurinn í dag mikið betri en í gær, nema ég vildi ekki sækja pabba í vinnu því ég var upptekin við að elda cerios í herberginu mínu.
En eitt var mamma mjög hissa á (og samt ekki, því við erum svo góðir vinir) og það er að um leið og mamma hans Arons Breka kom að sækja hann þá spurði hann hana hvort hann mætti ekki heimsækja Ástrós Mirru, þannig að hann var nú ekki að erfa þetta við mig.
En nú erum við mamma byrjaðar með stimpilgjöf og verðlaun. Mamma stiplar á blað á ísskápnum þegar ég er dugleg að klæða mig á morgnanna og eins ef ég er góð eftir leikskóla þá fæ ég aftur stimpil og þegar ég er búin að fá 5 fæ ég verðlaun og vitiði hvað ég get fengið tvo stimpla á dag, þannig að ég verð að passa mig. Mamma var að segja mér það í dag, að ég mætti ekki gleyma mér, og ég ætla að reyna en ég er náttúrulega dálítið ákveðin og vil ráða svo þetta verður erfitt fyrir mig.
Sjáumst með hækkandi sól og betra skapi.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 4.4.2004 00:00:00 Vorið er komið
Vorið er komið og grundirnar gróa og við fórum í sveitina um helgina og það var frábært, ég er búin að eiga góða helgi með mömmu og pabba og er alveg búin að jafna mig á erfiða skapinu í síðustu viku, enda heldur mamma að það hafi verið of mikill sykur í þeirri viku og nú fæ ég ekki neinn sykur, Sleikjó er víst alveg út úr myndinni.
En alla vega mamma er byrjuð með svona stimpil tvisvar á dag og svo þegar ég er komin með 5 stimpla þá fæ ég verðlaun og síðast þegar ég fékk verðlaun þá fékk ég dýraóróa og barbie nærbuxur og ég er nú yfirleitt ekki að spá í fötin sem ég er í, en Vá, bleikar barbie nærbuxur, ég sagði mömmu að ég ætlaði sko að sýna Aron Breka þær þegar ég kæmi í leikskólann. Nú fer ég að fá verðlaun nr. 2 en þá er mamma líka að spá í að fjölga stimplunum sem ég þarf til að fá verðlaun og nokkuð ljóst að næstu verðlaun verða ekki sleikjó.
Í gærkvöldi vorum við pabbi, mamma og ég með partý og horfðum á söngkeppni framhaldsskólanna og ég dansaði eins og óð væri (enda fékk ég smá kók) en það var voða gaman en vitiði hvað, ég svaf bara til 7 í morgun þrátt fyrir að hafa vakað til 10 í gærkvöldi.
Silja Ýr frænka mín er í heimsókn hjá okkur núna, en Konný mamma hennar og Sara Rún voru um síðustu helgi og svo er Már afi að koma á morgun, það er sko gestkvæmt hjá okkur þessa dagana. En svo ætlum við að fara að mála allt hjá okkur um páskana svo þá verða ekki gestir en þá verður Amma Steina í sumarbústaðnum okkar í staðinn.
Gleðilega páska með kveðju frá Ástrós Mirru
Kristínu Jónu 10.4.2004 00:00:00 Bráðum á ég afmæli
Jæja, þá styttist nú í afmælið mitt aðeins 4 dagar eftir og ég á orðið erfitt með að bíða. Mamma og pabbi eru nú líka orðin spennt, þau eru svo eitthvað að hugsa um kökur og brauð og hvað þurfi að hafa og hverjum eigi að bjóða og hringja í alla oþh. en ég hef nú ekki nokkrar áhyggjur af því, ég vil bara fá að fara nýja kjólinn minn, sem mér finnst æðislegur, ég dansa í hringi og sveifla kjólnum utan um mig þegar ég dansa í honum, mamma og pabbi hafa aldrei séð mig láta svona með föt en ég hef heldur ekki átt bleikan kjól með pallíettum áður svo…. já og svo vil ég fá veislu og ég held ég vilji fá fullt af pökkum en meðan mamma skrifar þetta þá man hún allt í einu ekkert eftir því að ég hafi talað um pakka, þannig að líklega eru það bara mamma og pabbi sem vilja að ég fái fullt af pökkum eða er okkur kannski öllum sama. Viljum bara fá að fara í fín föt og bjóða til veislu? Já, líklega.
Og þó, ef þið komið í afmælið mitt komið þá með pakka til öryggis því það væri nú leiðinlegt ef þið væruð ekki með pakka og svo myndi ég samt kannski vilja fá pakka. Úps, þetta er nú orðin einhver steypa hjá mér og ég segi bara enn og aftur “ÉG HLAKKA SVO TIL AÐ EIGA AFMÆLI OG VERÐA 4 ÁRA” eða var það 17 ára sem ég verð núna og er það núna sem ég fæ “HESTINN”? Æi, vitiði hvað ég er að verða hálf ringluð á þessu öllu. Hlakka bara til að sjá ykkur í afmælisveislunni minni og þið hin kíkið bara svo á myndir úr veislunni þegar hún er búin.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 12.4.2004 00:00:00 páskarnir á enda
Og þá eru páskarnir á enda og venjulegur leikskóladagur á morgun! Mamma spurði mig áðan hvað pabbi gerði í vinnunni og ég svaraði “hann vinnur” og mamma sagði þá, “Já, hann vinnur og er að smíða, hann er smiður.” Þá sagði ég “Já og er húsbóndinn”. Svo fór mamma eitthvað að spyrja hvað hún gerði í vinnunni og ég svaraði eins, “vinnur” og mamma fór þá eitthvað að útskýra hvað hún gerði þar, ynni á tölvu oþh. “Já og talar við Maríu” sagði ég þá.
Þetta eru nú búnir að vera meiri páskarnir, mamma og pabbi eru búin að mála stofuna, eldhúsið og holið, skipta um gólflista, búa til gerefti á gluggana og ég veit ekki hvað og hvað, þetta er bara eins og ný íbúð hjá þeim, og aðallega pabba, mamma segist nú gera minnst því pabbi málar (mamma fær að skera með í hornunum og mála ofninn og þrífa eftir pabba) og pabbi neglir og pabbi gerir eiginlega allt. Ég fór til Önnu Daggar á föstudaginn langa með hjólið mitt og við vorum að leika okkur úti allan daginn, meðan mamma og pabbi máluðu og svo fór ég og svaf hjá Auði ömmu og Sigga afa því það var svo mikill hugur í foreldrunum að þau gátu ekki stoppað. En semsagt nú er allt orðið svo fínt hjá okkur, bara eftir að klára gereftin og kaupa fleiri nýjar gardínur því við vildum sko ekki setja upp gömlu rimlagardínurnar sem fylgdu íbúðinni upp aftur og hentum þeim á haugana.
Við hittum samt fullt af fólki um páskana þó við værum í svona mikilli vinnu, því við eigum svo góða að og okkur var boðið tvisvar í mat, fyrst á skírdag til Klöru, Sigga, Alexanders og Kristófers og þar voru öll systkyni mömmu nema Konný ásamt mökum og börnum svo það var voða gaman, svo var okkur boðið í mat í gær (páskadag) til Önnu og Adda en í boði Önnu og Snorra, skrítið, nei, þau héldu semsagt matarboðið heima hjá Önnu og Adda því þar er svo mikið pláss, og þar voru amma Steina og Eddi vinur hennar líka og Anna Dögg og Sunneva. Hún var nú eitthvað að reyna að kenna okkur boðskap páskanna en við vorum ekki alveg að skilja þetta, Jesú steig til himna! Flaug hann eða hvað? Kannski Sunneva reyni að útskýra þetta betur um næstu páska þá kannski skiljum við Anna Dögg þetta betur.
Ég fékk eitt páskaegg og mamma spurði mig áðan hvað það hefði verið stórt og ég sýndi með hendinni alveg eins og það var, engar ýkjur hjá mér, mömmu fannst það víst svo gott, sérstaklega af því að ég fékk víst ekki mjög stórt páskaegg en það var sko alveg nóg fyrir mig.
Jæja þá er best að skella sér í bólið svo ég verði hress á morgun á leikskólanum því ég er ekki búin að hitta krakkana og fóstrurnar svo lengi og hlakkar til þess núna.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 24.4.2004 00:00:00 Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, það var aldeilis að sumarið kom með stæl núna. Við mamma skelltum okkur í skrúðgöngu hér í Hafnarfirði í þessu líka blíðskaparveðrinu, mamma vissi sem var að ég gæti ekki labbað svona mikið (ég er nefnilega ekki dugleg við að labba) svo við tókum kerruna mína með og mamma sem sagt ýtti mér á undan sér að heiman og uppá Jófríðarstaði þar sem skrúðgangan byrjaði og svo var labbað niður í bæ og þaðan uppá Víðistaðatún sem er nú dágóður spotti, en vitiði af því að veðrið var svo gott og lúðrasveitin svo skemmtileg (hún spilaði svona brasilísk salsa trommu eitthvað mjög skemmtilegt) þá var þessi göngutúr enga stund að líða, og svo var hoppukastali og vöfflur ofl. á Víðistaðatúni í boði skátanna. Það var bara allt í lagi nema að við hittum enga krakka í leikskólanum mínum en mamma var að vonast til að ég myndi hitta eitthvað af þeim, en svona er þetta. Svo löbbuðum við mamma aftur heim en stoppuðum í pulsuvagninum og fengu okkur þessar fínu pulsur. En vitiði hvað, þegar við vorum komin að brekkunni á Suðurbrautinni þá gat mamma ekki meir og sagði mér að labba og vitiði hvað, ég held ég hefði þurft að geta haldið á henni upp stigann heima, hún var svo þreytt. Aumingja mamma búin að ýta mér allan tímann í kerrunni, en hún var nú fljót að jafna sig.
Jæja í gær kom Anna Dögg í heimsókn til mín og við vorum að leika okkur saman, hún var mamman og ég var barnið og svo vorum við undir borðstofuborði og Anna Dögg að reyna að klæða mig í dúkkuföt, hún talaði eins og smábarn en ég ekki, samt var hún mamman, humm… en jæja, allt í einu sný ég uppá mig og segi við hana “En ég er í fötum” og vildi greinilega ekki að hún væri að klæða mig meira í dúkkuföt, þá stóð hún upp og sagði með þjósti, “þá færð þú ekki koma með mér í bæinn, þú getur bara verið heima” og strunsaði inn í herbergi og ég náttúrulega á eftir og sagðist vilja vera mamman en hún hélt nú ekki, þá spurði ég hvort ég mætti vera pabbinn og þá sagði hún það vera í lagi en ég yrði að koma með mömmunni því pabbar gerðu það alltaf, og svo fórum við inní herbergi. Svo vildum við horfa á vídeó og gátum ekki komið okkur saman um hvaða spólu ætti að horfa á en af því að ég hafði pínulítið orðin undir í mömmuleiknum ákváðu mamma og pabbi að byrja á minni spólu og þá sneri Anna Dögg uppá sig og vildi ekki horfa. En það var allt í lagi hún fór bara inn í herbergi að leika sér meðan ég horfði á litlu risaeðlurnar, en hvað haldiði, Anna Dögg kom svo og stóð í dyrunum að svefnherberginu okkar og var að kíkja á myndina en vildi greinilega ekki láta mig sjá það. En svo borðuðum við kvöldmatinn og settum svo ávaxtakörfuna á og þá vorum við báðar glaðar.
Bless í bili, ykkar Ástrós Mirra, og munið nú að skrifa í gestabókina mína. Kristínu Jónu 28.4.2004 00:00:00 Bangsimonbjalla
Hæ, það var frábært veður í dag og mamma kom með hjólið mitt niður í leikskóla og var búin að kaupa rauða körfu og rauða bangsimonbjöllu á það, og ég fékk að hjóla svolítið í leikskólanum og svo hjólaði ég heim, það er svolítið erfitt því það er allt uppí móti en það tókst. Svo þegar við vorum nýkomnar heim þá komu Davíð og mamma hans og hann líka á hjóli, svo við fórum að hjóla saman á planinu fyrir utan heima og mömmurnar settust í sólina. Svo komum við Davíð og fórum að týna blóm handa þeim og okkur sjálfum og vitiði hvað við fundum svo? Við fundum risastóran ánamaðk og hann var mjög skemmtilegur, Davíð var pínu hræddur við hann og þorði ekki að halda á honum en ég hélt sko á honum og fór svo að bauka við að koma honum aftur ofaní jörðina, sem tókst misvel, það endaði með því að mamma fann góða holu í mosanum sem ánamaðkinum leist vel á og hann dreif sig niður. Þetta var nú aldeilis skemmtilegt.
Í gær fórum við að heimsækja langafa og langömmu og þeim fannst ég nú bara hafa stækkað síðan þau sáu mig síðast og svo fannst þeim ég líka hafa þroskast. Ég var búin að vera heillengi að leika mér og spila við Kollu þegar ég sagði allt í einu: “Ég er ekki búin að fá neina kúlu ennþá!” Þetta fannst nú langafa sniðugt hjá mér og að sjálfsögðu gaf hann mér kúlu og ég fékk mér bara tvær og bað ekki um meira, það fannst mömmu minni frábært.
Ég er alltaf að biðja mömmu að gefa mér hest, en hún segir að hún geti það ekki og segir að ég verði bara að biðja pabba hans Kristófers að leyfa mér að fara á hestbak, en vitiði að “hesturinn minn ” heitir Herjólfur og er pínu lítill og kemst fyrir í vasa, svo ég skil ekki af hverju ég má ekki eiga hest. Svo sá ég fugl áðan hjá konu í blokkinni okkar og spurði mömmu hvort ég mætti ekki kaupa svona fugl í búðinni og nú segir mamma bara að allar beiðnir um dýr verði að fara í gegnum pabba, ég skil það ekki, mér finnst þetta ekki mikið mál, svo langar mig nefnilega líka í naggrís, og mig langar alveg óskaplega mikið í hund og ég geri mikið af því að setja dót í poka, td. þvottapoka og læt mömmu binda band fyrir með nógu löngum spotta til að draga pokann og þetta er þá jafnvel hundurinn minn, svo þið sjáið að mig langar virkilega mikið í hund og líka öll önnur dýr.
En þangað til næst, ykkar Ástrós Mirra
Ps. Það eru nýjar myndir í myndaalbúminu mínu og ein af ánamaðkinum mínum.
Kristínu Jónu 6.5.2004 00:00:00 Að læra að gegna
Þá er maí kominn með kulda og sól, þetta er mjög erfitt veður fyrir litla krakka sem halda að það sé komið sumar en svo er það ekki. Fyrsta maí sl. voru mamma og pabbi búin að vera saman í 22 ár en þau héldu nú ekkert sérstaklega uppá það nema með því að fara í sveitina með mig og Önnu Dögg.
Ég var í pössun hjá Önnu Dögg aðfararnótt 1. maí og svo kom pabbi að sækja mig um morguninn og eftir hádegi skelltum við pabbi okkur í Húsdýragarðinn og þar var voða gaman því bæði hittum við Önnu Dögg og mömmu hennar og svo var Brúðubíllinn þar og ég fékk að fara í lestina og allt. Svo fórum við pabbi heim og þá var mamma búin að pakka niður í sumarbústaðarferð og svo sóttum við Önnu Dögg sem vildi fara með okkur í sveitina. Og við vorum í sveitinni í einn sólarhring, fórum í sund á Selfossi og grilluðum og höfðum það gott en veðrið var ekki nógu gott því það meira að segja snjóaði áður en við fórum heim.
Í gær fórum við mamma í bankann fyrir Kollu frænku sem er að fara til Danmerkur á morgun og sækja gjaldeyrir fyrir hana og á leiðinni var ég að syngja “Langalangafi vaskur var, í víking sigraði allstaðar” og þá fór mamma að segja mér að langafi minn hefði siglt um öll heimsins höf þegar hann var ungur og þá spurði ég strax hvort hann hefði getað gengið þá og mamma sagði að hann hefði getað það, fæturnir hefðu ekki orðið svona lasnir fyrr en hann var gamall. Svo sagði mamma mér líka þegar langafi þurfti að labba úr Flekkuvíkinni til Hafnarfjarðar til að fermast því það voru engir bílar þá og þá spurði ég hvort hann hefði verið leiður yfir því en mamma sagði að honum hefði ekki fundist þetta neitt mikið, því hann hefði verið svo vanur að labba mikið. Þegar mamma var búin að segja mér tvær sögur af langafa bað ég hana að segja mér sögu af langömmu og þá sagði hún mér að þegar langamma hefði verið lítil stelpa þá hefði hún leikið sér í fjörunni á Stokkseyri og týnt kuðunga og skeljar. Svo fór hún að læra að synda og þá var ekki til nein sundlaug og hún lærði að synda í ísköldum sjónum, já svona var þetta í gamla daga, engir bílar og engar sundlaugar.
Það er gaman þegar mamma segir mér svona sögur, og við mamma eigum oft mjög góðar stundir í bílnum, þá slekkur mamma á útvarpi Latibær og við spjöllum saman. Mamma er alltaf að tala um það núna hvað henni finnist ég vera að þroskast mikið núna, það er ábyggilega satt og ég er alltaf að reyna að gegna betur en gleymi mér bara stundum.
Í dag þegar mamma sótti mig ætluðum við að leyfa Aron Breka að koma heim með okkur en hann vildi það ekki, ég held að hann sé feiminn við mömmu mína, hann sagði reyndar að hann ætlaði aldrei að koma aftur í heimsókn til mín en ég held að hann hafi nú ekki verið að meina það, kannski fæ ég bráðum að fara í heimsókn til hans og sjá nýja rúmið hans.
Jæja ætli þetta sé ekki gott í bili og endilega skrifið í gestabókina mína, okkur finnst það svo skemmtilegt. Ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 9.5.2004 00:00:00 Lítil frænka
Ég var að eignast litla frænku í dag, Sigrún, Aron, Þorvaldur Ingi og Victor voru að eignast litla stelpu sem var 17,5 mörk og 53 cm. Hún átti ekki að vera tekin með keisara fyrr en 19. maí nk. en hún hefur ákveðið að þar sem svo margir áttu tengingu við þennan dag þá vildi hún fá sinn eigin sem er í dag, 9. maí og mæðradagurinn þar að auki. Það er svolítið sniðugt því Victor er fæddur á Valentínusardaginn svo börnin þeirra Arons og Sigrúnar velja sér svona sérstaka daga. Þessi litla stelpa er ábyggilega rosalega sæt og mikil bolla og okkur hlakkar svo til að sjá hana.
Til hamingju með stelpuna, elsku Sigrún, Aron, Þorvaldur Ingi og Victor. Kristínu Jónu 12.5.2004 00:00:00 Það er komið sumar
Það er komið sumar, sól í heiði skín, vetur burtu farin, tilveran er fín….. svona söng Pálmi Gunnarsson og svona gátum við sungið um síðustu helgi þegar við vorum í sveitinni okkar, það var aldeilis frábært veður og við áttum mjög góða helgi ég, mamma og pabbi saman.
Pabbi átti að fara á æfingu á föstudagskvöldið svo við ætluðum bara að sjá til á laugardeginum hvort við myndum fara í sveitina, en svo var veðrið svo æðislegt á föstudeginum að mamma fór að versla fyrir helgarferð og ætlaði að hafa allt tilbúið en síðan er hringt í pabba um kl. 6 og æfingunni frestað svo við skelltum bara dótinu í bílinn og brunuðum út úr bænum. Ég sofnaði á leiðinni og svaf til morguns, var hálf hissa þegar ég sá að ég var komin í sveitina, vaknaði reyndar kl. 6 en við mamma skelltum okkur framúr og fórum út í sólina kl. 7 og lékum okkur saman, svo fór ég inn að horfa á barnaefnið, svo skelltum við okkur í göngu og tókum síðan saman sunddótið okkar og fórum í heimsókn til Auðar ömmu og Sigga afa í þeirra sveit og skelltum okkur svo í sund í Reykholti, komum svo heim seinni partinn og fórum út að leika og grilluðum svo og og og þá var ég gjörsamlega búin enda hafði vaknað snemma og lagði mig ekkert allan daginn en hafði svona mikið að gera.
Svo á sunnudaginn komu Amma Steina og Eddi í heimsókn en þau voru uppá landi, amma mín var að syngja á kóramóti og Eddi var á kokkaþingi. Svo endaði helgin í mat hjá Önnu Dögg og fjölskyldu, sem sagt frábær helgi.
Nú svo eins og þið vitið eignaðist ég frænku á sunnudeginum og núna getum við mamma varla beðið eftir að fá að sjá hana en hún og Sigrún mamma hennar komu víst heim í dag, við erum búnar að sjá myndir af henni og hún er algjör dúlla.
Um næstu helgi ætlar Kristófer að vera hjá okkur því mamma hans er að fara á Árgangsmót í Vestmannaeyjum en Alexander verður í skátaútilegu svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af honum. Nú svo er Eurovision á laugardaginn og ég verð að fylgjast með Jónsa því ég er farin að syngja lagið hans á fullu.
Síðan ætlum við að skella okkur austur í Sólheima í Grímsnesi á fimmtudaginn (Uppstigningadag) og sjá uppfærsluna þeirra á Latabæ, ég hlakka mikið þess.
Jæja, heyrumst síðar og munið að skrifa í gestabókina mína, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 16.5.2004 00:00:00 Í höfuðið á Valda sem vinnur með pabba
Hæ, hæ, allir vinir mínir þarna úti! Það er sko búið að vera heilmikið að gera hjá mér um helgina og alveg ofboðslega gaman. Til að byrja með kom Kristófer Darri á föstudaginn að sækja mig í leikskólann því hann átti að vera hjá okkur alla helgina, það var mjög gaman því við erum ofsalega góðir vinir. Mamma sagði að það hefði nú verið skrítið á föstudagskvöldið að við vorum bæði sofnuð fyrir klukkan hálf níu en hún hafði eitthvað búist við því að það þyrfti nú að hafa meira fyrir tveimur börnum en einu.
Nú svo á laugardaginn keyrðum við pabba í rútu því hann var að fara í GoKart með vinnufélögum sínum, en svo fórum við að heimsækja langafa og langömmu og það var gaman. Svo fórum við heim að búa til köku fyrir júróvisionpartýið okkar en við Kristófer fengum að hjálpa til við að búa kökuna og í júróvisionpartýinu okkar vorum við Kristófer, mamma og pabbi, en það var bara svo gaman. Reyndar vorum við Kristófer orðin svolítið þreytt og vorum eitthvað að pirra mömmu og pabba en svo skelltum við okkur bara í rúmið fyrir stigagjöf svo það endaði bara fínt.
Nú í dag, hringdi mamma hans Arons Breka og bauð mér í heimsókn og ég skellti mér á hjólinu til hans og var frá hádegi fram eftir eftirmiðdegi en svo komum við öll heim til mín og við lékum okkur meira saman ég og Aron Breki besti vinur minn. Ég fór út að hjóla með þeim og mamma fékk nokkrar myndir frá þeim til að setja á mína síðu svo þið getið séð okkur. En ég gleymdi að segja ykkur að Kristjófer var farinn þegar við Aron Breki komum heim svo ég missti af að kveðja kónginn en við vorum að leika kónginn og prinsinn um helgina. Svo vorum við líka með sitthvorn hundinn í bandi og mamma spurði Kristófer hvað hans hundur héti og hann svaraði að hann héti “Klara” og þá sagði ég “Pabbi, þá heitir minn Valdi eins og hann sem vinnur með þér”. Mamma skilur ekki alveg samhengið, Kristófer skírði í höfuðið á mömmu sinni og þá skírði ég í höfuðið á Valda sem vinnur með pabba, mér finnst þetta nú alveg rökrétt.
Jæja þangað til næst, ykkar vinkona Ástrós Mirra og munið að kvitta fyrir ykkur.
Kristínu Jónu 24.5.2004 00:00:00 Áfram Latibær – áfram Sólheimar
Áfram Latibær, Áfram Sólheimar þar sem lífið er alltaf betra í dag en í gær, ég segi Áfram Sólheimar og stend við það, frábær sýning hjá þeim á leikritinu Latibær. Ég, mamma, Anna Sif, Anna Dögg, Sara vinkona hennar og Kolla vinkona mín fórum á uppstigningardag austur á Sólheima til að sjá sýninguna þeirra og það var sko gaman. Ég meira að segja hitti Íþróttaálfinn og tvær Sollur stirðu, en það voru 5 Sollur Stirðu, 2 Siggi sæti, 2 Hallur hrekkjusvín, 2 bæjarstjórar og allt eftir því, mjög skemmtilegt og krakkarnir sem eru að leika í sýningunni skemmtu sér líka vel. Ég segi áfram Sólheimar!
Við fórum um helgina á Gjábakka í rigningu og roki en þar sem við vorum að fara í fermingu á laugardaginn í Skálholtskirkju drifum við okkur á föstudaginn upp í bústað. Ég fór í sparifötin á laugardaginn og mamma og pabbi voru alltaf að segja mér að það mætti ekki tala í kirkju nema að hvísla og maður yrði að sitja alveg kjur og allt eftir því, og vitiði hvað, ég gat það, ég reyndar talaði pínulítið en það var ekki hátt svo mamma segir að það hafi verið allt í lagi. Þetta var rúmlega klukkutíma athöfn svo mamma og pabbi voru mjög stolt af mér í kirkjunni. Svo var veisla á Iðufelli og þar hitti ég fullt af skyldfólki mínu sem ég sé ekki mjög oft. Ég hitti náttúrulega Danna sem var að fermast og bróðir hans Magga og systur Ólöfu en þau eru svo að flytja til Danmerkur eftir hvítasunnu svo ég hitti þau ekki aftur á næstunni. Svo hitti ég Sunnevu frænku mína en við erum óttarlega líkar títlur segja mömmur okkar, hlupum um hlæjandi og skríkjandi og eins og þið munið var ég svo stillt í kirkjunni að þið getið ímyndað ykkur fjörið í mér í veislunni. Svo hitti ég frænda minn “Bóndann” sem ég hlakka mikið til að fara í heimsókn til, því hann á hunda, kanínur, hesta og svo ræktar hann grænmeti.
Jæja, svo fórum við í heimsókn til Auðar ömmu í hennar sveit og svo vorum við að dunda okkur á Gjábakka á sunnudaginn við að setja niður tré sem Siggi afi gaf okkur. Á föstudaginn áður en við fórum uppí sveit skruppum við í Rúmfatalagerinn og pabbi sleppti sér algjörlega, hann keypti flugdreka, krikket og tennis og frísbí ofl. og svo var mamma búin að kaupa trambolín sem er líka buslulaug en bara fyrir krakka 6 ára og yngri, svo ég á sko mikið af dóti til að leika með úti í sveitinni minni, svo krakkar endilega heimsækið mig í sveitina til að leika með þetta skemmtilega dót í sumar.
Hlakka til að sjá ykkur í sumar, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 31.5.2004 00:00:00 Hvítasunnan
Þá er hvítasunnan að klárast og þetta var aldeilis fín helgi hjá okkur í sveitinni. Við drifum okkur af stað á föstudaginn, þegar pabbi var búinn að skipta um dekk á bílnum okkar.
Á laugardaginn skelltum við okkur í sund í Ljósafosslaugina og vá, það var sko aldeilis munur að sjá allt þar núna á móts við í fyrra. Þeir Birgismenn eru búnir að taka allt í gegn og reka laugina núna, það er sko aldeilis munur fyrir okkur að geta farið í sund í 10 mín. akstur í stað 60 mín. Þegar við vorum að koma úr sundi hringdi mamma hans Arons Breka og þá var hann búinn að vera að spyrja um mig og vildi fá mig í heimsókn en við ákváðum að þau kæmu bara í sveitina til okkar og það gerðu þau og það var mjög gaman, sérstaklega fyrir okkur Aron Breka en líka fyrir mömmu og pabba míns og mömmu og pabba hans. Meðan þau voru öll í heimsókn komu Auður amma og Siggi afi með fleiri tré handa okkur, hann Siggi afi er sko aldeilis duglegur að gefa okkur tré, við eigum ábyggilega eftir að skíra “Skóginn okkar” Siggaskógur.
Nú og svo komu Hugrún og Baldur í grill til okkar um kvöldið og áttum við góða stund með þeim, þau skruppu bæði á hestbak með mér og náði mamma fínu vídeói af Baldri og mér en Hugrún slapp. Það eina sem skyggði á daginn var rokið, það var 20 stiga hiti og ábyggilega 20 metrar á sec. vindurinn líka og eins á sunnudaginn, þá var svona gott veður en rok.
Jæja á sunnudaginn, skuppum við að skoða Laugarvatnshellinn en þar bjó fólk einu sinni, fólk sem átti ekki hús, mér fannst það skrítið. Nú svo kíktu Klara (stóra) og Alexander og Kristófer í heimsókn en við gátum bara ekki verið nógu mikið úti að leika í þessu roki.
Jæja svo enduðum við daginn á að kíkja í kvöldkaffi til Auðar ömmu og Sigga afa í þeirra sveit og þegar við vorum að koma heim var farið að ligna og rigna, það var svo sem auðvitað.
Í morgun þegar við vöknuðum þá var rigning en um hádegið var að gera þetta líka fína veður en þá þurfti pabbi að fara á hljómsveitaræfingu og við mamma drifum okkur þá heim, ég sofnaði í bílnum og svaf í 3 og hálfan tíma í dag, enda er ég ekki sofnuð núna kl. 21.30 þegar mamma skrifar þetta.
Jæja gott fólk, þangað til næst
Kristínu Jónu 6.6.2004 00:00:00 Skugga Már
Rosaleg fín vika sem er að líða núna, ég fékk að heimsækja Aron Breka einn eftirmiðdaginn og við vorum að leika okkur saman. Svo fórum við mamma í húsdýragarðinn á fimmtudaginn á meðan við biðum eftir að pabbi myndi klára að vinna og svo var íþróttadagur á föstudaginn í leikskólanum mínum og ég fór á hestbak þar, það var alveg frábært. Nú síðan enduðum við í sveitinni okkar á föstudaginn og hittum þar afa Már og Skugga Már, hann heitir það reyndar ekki en ég kalla hann þetta, líklega vegna þess að þetta hljómar svo líkt og Siggi Már en hann er með mér á leikskólanum mínum. Ég var mjög glöð að sjá Skugga og afa auðvitað líka og fór strax að leika við Skugga.
Á laugardagsmorguninn skelltum við okkur í sund en Már afi ætlaði ekki með því hann getur ekki verið með heyrnartækið á sér í sundi og vildi ekki verða heyrnarlaus en hann lét undan okkur og fannst bara mjög gaman, hélt reyndar að hann kynni ekki lengur að synda en auðvitað er það eins og að hjóla, maður gleymir því aldrei. Nú svo fóru pabbi, afi og Skuggi niðrað vatni að veiða og á meðan gróðursettum við mamma nokkur tré og settum svo upp krikketið sem pabbi keypti um daginn handa mér, mér fannst það skemmtilegt. Svo grilluðum við æðislegan mat (það er mamma sem segir það því mér finnst ekkert gott nema bjúgu og kjúklingurwurst) og fengum svo gesti eftir matinn, Sigrúnu sem vinnur með mömmu og Óla manninn hennar og strákana þeirra Skúla og Ými ásamt skólafélaga Skúla, þeir spiluðu kriket við mig og ég og Skúli stálumst aðeins í burtu meðan mamma, pabbi og gestirnir spjölluðu saman og skoðuðu bústaðinn okkar.
Í dag, fórum við í göngu í Þrastarskógi og fengum svona líka æðislegt veður sól og hita. Það var mjög gaman að labba þarna og við eigum eftir að koma aftur því það eru svo margar gönguleiðir. Eftir gönguna fórum við á Minni Borg og keyptum ís hjá Hildi og keyrðum svo Laugarvatnsrúntinn heim í bústað. Þá lagði ég mig og pabbi líka en afi og mamma voru frammi að lesa í rólegheitum og svo kl. 17 eldaði mamma pizzu, bakaði brauð og kom með köku sem átti að vera sambland af kaffi og kvöldmat, pizzan var kvöldmaturinn en brauðið og kakan kaffið eða eftirrétturinn. Nú svo pökkuðum við saman en skildum afa og Skugga eftir því þeir eru að fara með Herjólfi á morgun aftur til Vestmannaeyja, góða ferð afi Már og Skuggi Már, ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 1.7.2004 00:00:00 Tívolí
Hó, hó, hó, þá er júlí kominn og ég er búin að fara í Tívolí, æðislegt ég fékk að fara í risastórt parísarhjól með mömmu og pabba og svo fór ég tvisvar alein í járnbrautarlestina, og ég víaði meira að segja þegar hún keyrði niður og í hring. En ég vildi nú ekki fara heim og fannst mamma og pabbi vilja stoppa allt of stutt en reyndar var að koma rigning og svo vorum við ekki búin að borða mat þannig að við urðum víst að drífa okkur heim.
Svo var alveg ofboðslega gott veður í dag og þegar ég kom heim af leikskólanum mínum þá leyfði mamma mér að hjóla fyrir utan húsið okkar og þegar ég var að því, kom hún Sóley sem á heima á hæðinni fyrir neðan okkur og er 6 ára og ég og hún fundum risa kónguló og vorum að leika að henni. Svo þegar mamma ætlaði að fara að sækja pabba þá vildi ég alls ekki fara með henni og Sóley spurði mömmu sína hvort þær gætu passað mig meðan mamma færi þá sagði mamma hennar að það væri allt í lagi og ég fór með Sóley inn til hennar að leika. Svo þegar mamma og pabbi komu þá fórum við Sóley út og fundum aftur risa kónguló og margar litlar og svo fundum við járnsmiði og bjöllur og fullt af öðrum skordýrum, það var sko gaman. Við meira að segja lékum okkur við stóru kóngulóna og sátum á móti hvor annarri og lokuðum með því að hafa fæturnar á móti og svo vorum við með strá og vorum að stríða kóngulónni. Þegar mamma vildi að ég kæmi upp að borða þá sagði ég að Sóley segði að ég mætti borða hjá henni og ég ætlaði bara þangað að borða en mamma hennar sagði að það væri ekki hægt því þau væru ekki með nægan mat og mamma mín var hvort sem er með mat handa mér, en þá fór ég að gráta því ég vildi ekki að þessi dagur myndi taka enda.
Núna er mamma búin að baða mig og er að reyna að fá mig í náttfötin og í bólið en það gengur ekki alveg nógu vel, miðað við það að ég er alveg gjörsamlega útkeyrð af þreytu, ekkert búin að sofa á leikskólanum og búin að vera á fullu eftir leikskóla líka. Ég hlýt að detta útaf um leið og mamma byrjar að lesa.
Góða nótt, ykkar Ástrós Mirra
ps. skrifið mér nú kveðju í gestabókina.
Kristínu Jónu 4.7.2004 00:00:00 Nes við Nátthagavatn
Hæ, hæ, við fórum á föstudaginn í boð til hennar Maríu sem vinnur með mömmu í nýja sumarbústaðinn hennar Nes við Nátthagavatn og það var rosa gaman. Bæði var fullt af krökkum og það mátti veiða, vaða og hoppast og skoppast út um allt. Þar er líka skógur og eins gott að vara sig á úlfinum og labba eftir stígnum, eða það sagði pabbi alla vega. Svo voru þarna 3 hundar, einn sem er óþekkur og gegnir ekki þegar kallað er á hann og svo Moli og Bangsi hundarnir hennar Maríu og þeir voru voða skemmtilegir og fóru í fótbolta og allt.
Ég þurfti að skipta þrisvar um skó, stígvél, gúmmískó og sokka og sokkabuxur því þarna er vatn sem er hægt að vaða í og veiða og ég blotnaði svolítið. Við fórum svo í okkar sveit þegar allir voru búnir að grilla og borða matinn sinn og eftirréttina sem líka voru í boði. Þetta var frábært kvöld og ég steinsofnaði áður en við komum að afleggjaranum á Nesjavelli en við fórum þá leiðina á Þingvelli.
Nú svo áttum við ágæta helgi á Þingvöllum, ég fór í sund og að veiða með pabba og ég fékk fisk í hverju kasti og þurfti að kyssa þá alla bless því þeir voru svo litlir að pabbi vildi sleppa þeim til mömmu sinnar. En það ringdi alla helgina á Þingvöllum svo við fórum bara snemma heim í dag og erum búin að vera í leti og horfa á DVD. Við horfðum saman á “Free Willy”og vitiði hvað ég var með svo mikinn sorgarsvip í restina og var alveg að fara að gráta þegar myndin endaði og mamma var svolítið hissa því hún hélt að ég hefði ekki vit á því en þetta finnst henni vera mikið þroskamerki.
Jæja, næsta vika er síðasta vikan í vinnu og leikskóla hjá okkur og ég er að fara til augnlæknisins að athuga með að fá ný gleraugu því hin eru eitthvað að angra mig, og svo er ég að fara til barnalæknis á miðvikudaginn sem er hluti af 3 1/2 árs skoðuninni og þá ætlar mamma að panta enn einn tímann fyrir mig og láta skrapa af mér þessar frauðvörtur sem eru að dreifa sér út um mig alla.
Svo munið þið bara hvar við verðum í sumarfríinu okkar og komið í heimsókn og endilega skrifið í gestabókina mína, ég er farin að sakna þess að fá ekki línu frá ykkur. Þið vitið að mamma geymir þetta allt þangað til ég verð fullorðin svo ég á eftir að geta lesið þetta þegar ég er stór.
Ykkar Ástrós Mirra Skotta Langsokkur.
Kristínu Jónu 8.7.2004 00:00:00 Byrjuð á bláu
Hæ, hó og hó hó.
Vitiði hvað? Ég fór til augnlæknis um daginn því ég er eitthvað svo pirruð á gleraugunum mínum þessa dagana að mamma og pabbi voru farin að halda að þau væru ekki nógu góð ennþá. En eftir að ég byrjaði á bláu deildinni á Smáralundi er ég svo ofboðslega þreytt að ég held mér ekki uppi allan daginn. Sko á bláu er nefnilega ekki sofið eftir hádegi og svo erum við mamma búnar að vera að vakna kl. 06.30 til að keyra pabba í vinnuna og svo sækjum við hann kl. 17.00 og þá sofna ég jafnvel í bílnum og næ svo ekki að sofna um kvöldið fyrr en kl. 22-23 og er náttúrlega alveg ómöguleg á morgnanna.
En jæja þarna um daginn átti ég að mæta hjá augnlækni og við höfðum farið kvöldið áður í okkar bústað og grilluðum með Konný, Markúsi, Söru Rún og Þórunni frænku hennar þannig að ég var mjög þreytt þennan dag, en jæja við erum hjá augnlækninum og eins og þið vitið þá er fyrst byrjað að fara til Úrsúlu sem er sjóntækjafræðingur og hún setur á mig svona sjóræningalepp fyrir annað augað og spyr svo hvort ég sjái myndir á veggnum, og það gekk mjög vel, svo fékk ég dropa í augun og var mjög dugleg og beið í 10 mín. og fór þá í tæki sem ég sé stjörnur og konan tekur myndir af augunum mínum og það gekk líka mjög vel. Svo átti ég að fá aftur dropa í augun en þá var ég ekki eins viljug en það tókst samt og þá átti ég að bíða í 20 mín. og úps, þá fór nú aðeins að síga á mig svefnhöfgi og svo fórum loksins inn til Gunnars augnlæknis og hann setti mig fyrir framan tæki, svona þar sem ég set hökuna á eitthvað stykki og hann lýsir með ljósi inn í augun á mér og meðan hann er að lýsa í augun mín og tala við mig fer hausinn að detta aðeins og augun að lokast. En mamma og Gunnar reyndu eins og þau gátu að halda mér vakandi, töluðu um ísinn sem ég átti að fá þegar þetta væri búið og hvernig hann ætti að vera á litinn (það var bleikur að sjálfsögðu, því ég elska bleikt) og eitthvað tókst nú Gunnari að sjá út úr þessu en vill samt skoða mig aftur á morgun áður en hann segir að ég þurfi aðeins sterkari gleraugu en kannski þarf ég þess ekki. Hann sagði líka að það væri ekkert óeðlilegt við það að sjónin virtist breytast hjá svona litlu barni því oft er erfitt að sjá þetta út í upphafi. En vitiði hvað, ég fékk aldrei ísinn, því ég sofnaði í sófanum hjá augnlækninum meðan mamma var að borga.
En á morgun á ég að fara aftur til augnlæknisins og þá kemur í ljós hvort ég þurfi breytt gler í gleraugun mín, en ég held að mamma ætli að kaupa ný, því henni finnast þessi vera orðin of lítil á mig. Svo á ég líka að fara á morgun til barnalæknis sem er liður í þriggja og hálfsárs skoðuninni á heilsugæslustöðinni, þannig að það verður mikið að gera hjá okkur mömmu eftir vinnu á morgun, svo ætlum við náttúrulega að skella okkur austur í bústað um helgina en svo erum við byrjuð í sumarfríi og ætlum að byrja á því að láta tengja krókinn á bílinn okkar og drífa okkur svo í smíða nýjan pall.
Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 22.7.2004 00:00:00 Skvísugleraugu
Til hamingju með 5 ára afmælið Birta mín og takk fyrir mig í dag, það var voða gaman í afmælinu hjá þér, hlakka til að sjá þig á morgun í systkynaútilegunni sem við erum öll að fara í, þe. systkynin hennar mömmu minnar. Við ætlum að fara á Seljavelli og vonum að það verði gott veður en það er víst alltaf rigning hjá Konna og Drífu í útilegu svo við vitum ekki hvernig þetta fer
En við erum nú búin að eiga fínt frí það sem af er, það er búið að vera heitt og sól næstum alla dagana. Pabbi minn er búinn að smíða rosa flottan pall við bústaðinn og ég og mamma og Kolla vorum bara að dunda okkur í bústaðnum á meðan, svo skruppum við í bæinn og hittum Konný, Söru Rún og Þórunni frænku hennar og fórum sama stelpurnar í fjöruferð í Flekkuvík og það var mjög gaman ég var nú eins og 3ja ára að verða 9 þegar ég var með stelpunum, hélt að ég væri jafn gömul þeim, mömmu fannst það fyndið. Nú svo fórum við í sund í Reykholt og síðan í dýragaðinn í Slakka en þar var gaman því þar fékk ég að halda á hvolpi og litlum kettlingi og vitiði að mig langar svo í svona kettling og svo langar mig líka í litla mús.
Ég fór í gær og fékk ný skvísugleraugu rosalega flott og ekki svona barnagleraugu heldur með venjulegum spöngum og við mamma sömdum um það að ég myndi fara vel með þau og ég ætla alltaf að setja þau í hulstrið þegar ég tek þau af mér og pússa þau líka vel.
Jæja gott fólk, mamma er ekkert sérstaklega upplögð núna að skrifa meira fyrir mig í bili, sjálfsagt orðin svona værukær af að vera í sumarfríi svo ég ætla að kveðja í bili og segi ykkur frá útilegunni seinna.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 8.8.2004 00:00:00 Allt að gerast
Þá erum við mamma komnar frá Vestmannaeyjum. Við fórum þangað með flugvél á mánudaginn með öfugri umferð þ.e. það voru allir að koma af þjóðhátið uppá land þegar við fórum til Eyja. En fyrsta flugferðin mín gekk vel mér fannst það mjög skemmtilegt, miklu skemmtilegra en að fara með Herjólfi. Við höfðum það mjög gott í Vestmannaeyjum, gistum hjá ömmu Steinu og vorum mikið hjá Konný, Söru og Silju.
Svo fékk ég að fara á róló en mamma var nú ekki ánægð með starfsfólkið þar, stelpurnar sem eru að vinna þar sitja bara og gera ekki neitt, svo sagði ein þeirra við Silju Ýr að ég væri svo mikil frekja en það var víst vegna þess að ég var alltaf að biðja hana að ýta mér í rólunni, það var öll frekjan. En ég hafði samt voða gott af því að fara aðeins á róló svo ég yrði nú ekki þreytt á henni mömmu minni. Nú svo fórum við að heimsækja vinkonu hennar mömmu sem var að eignast lítinn strák sem er ekki búið að gefa nafn en ég stakk uppá því að hann fengi nafnið “Lalli” en mömmu hans fannst það ekkert skemmtilegt nafn. Svo heimsóttum við líka Má afa og Skugga og Skuggi er alltaf jafn hrifinn af mér en ekki mamma af honum, mamma vill ekki að hundar séu að flaðra uppum hana en mér finnst Skuggi alltaf skemmtilegur. Mamma var að kenna Má afa á tölvu og hann ætlar að vera duglegur að æfa sig.
Jæja í Vestmannaeyjum fékk ég að gefa gæsunum hans Valgeirs en hann ræktar gæsir, það voru rosa læti í þeim þegar þær voru að sníkja af okkur brauð og einn unginn hafði laumast út úr girðingunni og við björguðum honum greyið litla hann hefði getað farið sér að voða ef við hefðum ekki komið.
Nú, nú, svo flugum við í gær, laugardag aftur frá Eyjum að Bakka og pabbi kom að sækja okkur en hann var sko farinn að sakna okkar því hann var einn heima meðan við vorum í Vestmannaeyjum.
Og svo skelltum við okkur beint í 5 ára afmæli hjá Þorvaldi Inga hans Arons frænda og beint þaðan í 4 ára afmæli hjá Önnu Dögg en það var dálítið mikið fyrir litla stelpu allt þetta ferðalag og tvö afmæli svo við fórum frekar snemma heim og í dag erum við öll þrjú að njóta þess að gera ekki neitt nema hanga saman heima og það er sko bara gott.
Á morgun fer mamma í vinnu og þá ætlar amma Steina að passa mig og svo byrjar leikskólinn eftir viku. En á næsta laugardag er rosalegt partý hjá mér í sumarbústaðnum okkar, það er að segja öll börn sem eiga Laufey ömmu og Konna afa fyrir langömmu og langafa eru boðin í pylsupartý og skemmtilegheit, og það verður vonandi gott veður því við verðum að vera úti og mamma og pabbi ætla ábyggilega að stjórna einhverjum leikjum eða þá að við gerum það bara sjálf en alla vega ætlar pabbi að grilla pylsurnar. Hlakka til að sjá ykkur frændur og frænkur á laugardaginn.
Kristínu Jónu 13.8.2004 00:00:00 Frænku og frændadagur
Á morgun 14. ágúst
er frænku og frænda dagur í sveitinni.
Það verður frábært fjör í bústaðnum okkar því við erum búin að bjóða öllum krökkum sem eiga Laufey og Konna fyrir langömmu og langafa í pylskupartý. Við eigum von á fólkinu uppúr hádegi og ætlum að grilla kl. 14-15 og svo ætlum við að vera með trampólín, frisbie, krikket, sandkassa, rólur og ætlum að fara í alls konar leiki eins og Köttur að elta Mús ofl.
Vá, það stefnir í frábæran dag og við erum sko búin að hafa þá marga núna undanfarið því í gær td. fórum við í Nauthólsvíkina og það var bara eins og á Spáni eins og þið sjáið á myndunum sem mamma tók af okkur.
En sem sagt, hlakka til að hitta krakkana á morgun og bið að heilsa í bili.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 16.8.2004 00:00:00 Lasin heima
og ég er lasin heima. En helgin er búin að vera viðburðarrík, það byrjaði á föstudaginn að pabbi var að vinna fyrir Adda bróður sinn og við mamma biðum heima hjá Adda svolítið lengi eftir honum því við vorum að fara í sumarbústaðinn. En svo kláraði pabbi rétt eftir kvöldmatarleitið og við drifum okkur af stað í sveitina.
Strax á laugardagsmorguninn fór mamma svo að undirbúa “Frænku og frændamótið” sem átti að hefjast uppúr hádegi og svo komu Aron, Sigrún, Victor og Klara Rún um 12.30 og ég, Victor og Aron fórum í fótbolta.
Nú svo fór að streyma að fólkið sem ætlaði að koma að þau eru: Klara og Kristófer Darri, Linda og Emilie, Kolla frænka, Laufey, Eyrún Björg og Katrín Linda. Svo kíktu Amma Steina og Eddi við og svo komu Inga, Werner og Loftur en Inga er vinkona mömmu sem býr í Þýskalandi og Loftur er frændi hennar, við látum bara sem hann sé frændi minn líka.
Jæja þetta var nú aldeilis fríður hópur og rosa gaman að fá allt þetta fólk í heimsókn í sveitina enda var veðrið alveg frábært, glampandi sól og blíða. Mamma hafði nú ætlað í skipulagða leiki með okkur en sá að við vorum aðeins of ung til þess svo það verður bara næst, en við krakkarnir skemmtum okkur mjög vel. Kristófer og Victor voru á fullu í heyskap og ég var eitthvað að atast í þeim, svo voru Eyrún, Katrín og Emilie meira í tjöldunum og sandkassanum og Loftur sem reyndar segist heita “Spiderman” var á fullu út um allt. Svo grillaði pabbi pylsur og mamma bauð uppá ávaxtakörfu og Laufey frænka kom með gúrku og tómata og svo endaði það á að allir fengu íspinna.
Þetta var sko frábær dagur þó svo að ég væri lasin því ég var orðin lasin þarna og er enn.
Svo í gær á sunnudaginn varð langamma mín 85 ára og í því tilefni hittust allir sem gátu á veitingarstaðnum “Við hafið bláa” og fengu sér kaffi og meðþví og það var rosa gaman líka, gaman að hitta allt fólkið aftur og amma var voða glöð, langafi fékk þennan fína hjólastól og skemmti sér bara vel. Ég fékk að fara ofaní fjöruna þarna og svo vorum við Kristófer Darri eitthvað að spóka okkur saman. Svo gaf ég langömmu blómakrans um hálsinn.
En vitiði hvað, ég ætla bara ekki að hafa fleiri orð um þessa helgi heldur bjóða ykkur að skoða myndir frá henni í myndaalbúminu mínu og vitiði hvað ég ætla að segja næst? Já, auðvitað munið eftir að skrifa í gestabókina mína.
Kristínu Jónu 21.8.2004 00:00:00 Verðlaun
Ég fékk tvenn verðlaun í gær, ein frá Bolla lækni og ein frá mömmu og pabba, báðar vegna þess að ég er algjör nagli þegar kemur að læknum oþh. Ég fór nefnilega í gær til Bolla læknis til að láta skrapa af mér allar frauðvörturnar og þetta var orðið svo mikið að Bolli sagði að næst ætti að taka þetta í tvennu lagi á svona litlum börnum, því annars væri þetta svo mikið álag.
En sem sagt við mamma mættum þarna kl. 11.15 og þá kom hún Sirrí og setti krem á allar vörturnar og hún og mamma voru alltaf að finna nýjar og nýjar vörtur. Nú svo áttum við mamma að bíða í tvo tíma á meðan deyfingarkremið væri að virka og svo mættum við aftur, áttum að mæta kl. 13.30 en vorum komnar kl. 13.15 eins og mamma er vön (þe. vera tímanlega). Nema mamma fattaði ekkert að tilkynna okkur aftur í afgreiðsluna því við vorum þarna rétt áðan, en svo líður tíminn og ég er farin að vera pirruð og þá stóð mamma upp og spurði hvort það væri mikil seinkun til Bolla og konan leit upp alveg hissa og sagði að það væri engin seinkun og spurði um nafnið okkar og úps, svo sagði hún að við hefðum átt að tilkynna okkur því Bolli væri búinn að vera að bíða eftir okkur og annar sjúklingur kominn inn.
Ooh, mamma var ekkert sérstaklega glöð með þetta, hver kemur til læknis og lætur deyfa sig og mætir síðan ekki í aðgerðina tveim tímum seinna? Og sérstaklega með barnið sitt! En alla vega svo kom Bolli loksins og ég var látin hátta úr öllu og svo byrjaði hann bara að skrapa vörturnar mínar af og þá brá mömmu hvað kom mikið blóð, en það heyrðist ekki múkk í mér en ég kipptist til nokkrum sinnum sem sagði mömmu að ég fyndi nú alveg fyrir þessu. Og svo neyddist Bolli til að plástra mig en hann gerir það ekki venjulega, því það er bara verra en það blæddi svo mikið. Og ég grét ekkert og svo fékk ég að velja mér verðlaun og valdi mér perlufesti.
Svo sofnaði ég á leiðinni heim og þegar ég vaknaði þá þurfti mamma að taka af mér plásturinn og það var sko miklu verra heldur en hitt og þá grét ég svolítið því húðin var svo viðkvæm eftir aðgerðina og svo fór mamma að RÍFA af mér plástrana sem voru risastórir. En þegar pabbi kom heim úr vinnu var hann búinn að kaupa handa mér pakka með hring, eyrnalokkum, armböndum og rosaflottum skvísuhönskum svo ég var aldeilis fín.
En vitiði hvað pabbi keypti meira? Hann keypti risastórt nef svona eins og Gosanef og við vorum að leika okkur í gær að máta það (þið sjáið það í myndaalbúminu okkar) En þetta vörtuvesen er þá vonandi búið hjá mér og kroppurinn getur farið að jafna sig, því ég var komin með svo mikið exem út af þessu líka.
En í dag er “MENNINGARNÓTT” veit ekki hvernig nótt getur verið um dag, en hvað um það, við ætlum að búast til borgarferðar og skoða eitthvað af því sem er í boði og skemmta okkur vel.
Kristínu Jónu 24.8.2004 00:00:00 Menningarnótt
Og þá er menningarnóttin afstaðin. Við tókum hana sko með trompi, vorum mætt í ráðhúsið kl. 14.30 og vorum í bænum til miðnættis. Þetta var alveg frábær dagur og frábært kvöld, því veðrið var svo gott og við hittum svo ofsalega mikið af Vestmannaeyingum en þeir voru heiðursgestir á menningarnótt og stóðu sig með prýði.
Við skemmtum okkur rosa vel, ég fékk að fara á hestbak “LOKSINS” og það var æðislegt, ég meira að segja var næstum búin að ríða niður Ólaf Ragnar Grímson, forseta og Frú Dorit Mussayef (mamma veit ekki hvernig það er skrifað nafnið hennar) en alla vega þá stökk Ólafur í veg fyrir hestinn minn og Dorit ætlaði á eftir en var næstum dottin um hann, og ég kippti mér nú ekki upp við þetta.
Nú svo hitti ég mjög skemmtilegan trúð og ég og ein stelpa vorum hálfgerðar grúbbpíur hjá honum, og hann var alveg sáttur við það. Svo steinsofnaði ég uppá Austurvelli meðan mamma og pabbi nutu tónleikanna með Egó og horfðu á flugeldasýninguna og ég rumskaði ekki einu sinni við hana.
Síðan þegar við komum heim um nóttina var mér bara skellt uppí rúm og Silju inní stofu (hún var hjá okkur um helgina) og mamma og pabbi skruppu til Kötu og Gauja í garðpartý að hætti Vestmannaeyinga og voru þar að syngja og spila til klukkan að verða sex um morgunin, þannig að við vorum nú frekar lúin á sunnudaginn en við skelltum okkur samt í matarboð til Adda og Annanna og það var voða fínt nema Anna Dögg var eitthvað að setja sig á háan hest af því að hún er orðin 4 ára en ég ekki, en hún skal sko bara bíða, því ég verð bráðum 4 ára líka.
En nóg í bili.
Ykkar Ástrós Mirra skotta langsokkur.
Kristínu Jónu 27.8.2004 00:00:00 Nýr frændi
Við vorum að eignast lítinn frænda, hann fæddist í nótt kl. 00.40 og var 16 merkur og 53,5 cm. Hann heitir Óskar Orri Snorrason og er strákurinn þeirra Snorra, Önnu og Sunnevu. Til hamingju með hann krakkar og kíkið á myndir af honum hér.
Kristínu Jónu 28.8.2004 00:00:00 Bleikt
Jæja þá er það bara orðið bleikt og flott eða hvað finnst ykkur? Við mamma ákváðum að nú færi græni liturinn að víkja og sá bleiki að koma sterkur inn í staðinn og við byrjuðum á heimasíðunni minni og tókum svo herbergið mitt í gegn en það á eftir að bæta við bleikum lit þar.
Það sem við gerðum í dag var að kaupa innvols í fataskápinn minn en þar voru engar skúffur eða grindur. Við keyptum það í IKEA og pabbi smíðaði í kring svo nú eru rosa fínar skúffur og grindur og nægt pláss fyrir öll fötin mín.
Svo sagaði pabbi neðan af rúminu mínu svo nú er það í eðlilegri hæð og stendur undir glugganum.
Svo keyptum við bleika mottu, bleikan náttlampa og bleikan dótakassa (keyptum reyndar líka grænar, turkísbláan og hvítan) og eru þeir á hjólum og eru geymdir undir rúmi. Svo ætlar mamma að bæsa rúmið mitt og kannski skenkinn og eitthvað fleira ef vel tekst til.
Ég er reyndar að bíða eftir að þau máli herbergið bleikt en við ákváðum að láta það bíða aðeins, enda er svo margt í IKEA sem passar bæði við þennan græna lit okkar og bleika.
Kristínu Jónu 29.8.2004 00:00:00 Fjölskylduferð
Og þá er fjölskylduferðin hjá Maritech líka búin, hún var sko vel heppnuð, ég fékk að fara tvisvar á hestbak og stóð mig eins og hetja, pabbi fór ekkert með mér, bara maðurinn sem á hestana. Svo voru grillaðir rosa góðir hamborgarar og pylsur og allir fóru að veiða en enginn fékk neitt.
Svo voru krakkarnir málaðir og ég var máluð eins og kisa að eigin ósk, en svo var Caroline að tala við stelpuna sem málaði okkur og hún talaði við hana á útlensku og ég sagði “Ertu að tala útlensku?” og Caroline svaraði “Já” og þá spurði mamma mig hvort ég vissi hvaða tungumál hún hefði verið að tala og þá svaraði ég að bragði “Norsku” og Caroline varð eitthvað hissa og þá sagði ég henni að mamma eins stráks í mínum leikskóla talaði líka Norsku. Mamma útskýrði fyrir Caroline að ég kallaði allar útlenskur “Norskur”. En hún Caroline var að tala frönku en ekki norsku, fyrir ykkur sem ekki þekkið hana.
Svo þegar fjölskylduferðin var búin komum við í Mosó og kíktum til Hugrúnar og Baldurs (og Lukku) og áttum góða stund þar, ég hoppaði á risa trampolíni og mamma með mér smá (hún varð sjóveik) og svo skoðaði ég kanínurnar þeirra og lék mér við Lukku. Jæja, kíkið á myndirnar og kvittið fyrir ykkur en ég er farin að sofa.
Kristínu Jónu 3.9.2004 00:00:00 Mamma alein heima
Og þá er september kominn og ég er núna uppí bústað með pabba mínum og við ætlum að hafa það alveg rosalega skemmtilegt saman en mamma ætlar að vera alein heima að passa húsið. Hún segist nú reyndar ætla að njóta þess að vera ein og bæsa rúmið mitt, annað ekki. Hún hefur víst greyið aldrei verið ein heima síðan ég fæddist svo það er kannski kominn tími á hana.
En ég stakk uppá því við pabba að við færum að veiða, svo gætum við leikið Rauðhettu og svo gætum við leikið Úlfinn og músina, við gætum farið í krikkett, fótbolta ofl. Pabbi verður kannski bara þreyttur þegar við komum til baka eftir svona ferð, eða hvað haldið þið.
En vitiði hvað? Við fórum að skoða Óskar Orra í gær og hann er alger “mús” (það er sko hrósyrði hjá okkur mömmu) en hann bara drakk og svaf meðan við vorum í heimsókn, við verðum víst að bíða eitthvað eftir því að geta farið að leika við hann, en mér finnst hann sætur, ég sagði mömmu það.
Jæja, þangað til næst.
Ykkar Ástrós Mirra sveitarstelpa.
Kristínu Jónu 10.9.2004 00:00:00 Pabbi í nýrri vinnu
Hæ hæ, þetta eru nú meiri skrýtnu helgarnar hjá mér núna, um síðustu helgi fór ég með pabba í sumarbústaðinn okkar og við höfðum það alveg frábært, vöknuðum snemma og fórum að veiða en komumst svo að því að það má ekki veiða í Þingvallavatni eftir 1. sept. svo það var eins gott að við veiddum ekki neitt. Svo fórum við í Selasundlaugina en það er sundlaugin á Selfossi og svo fórum við að heimsækja Ásu langömmu í hennar bústað.
Á sunnudaginn komum við svo heim uppúr hádegi en þá var mamma búin að bæsa rúmið mitt og það orðið þurrt svo okkur var óhætt. Mömmu leiddist ekki neitt segir hún, var bara að bæsa og lesa og lesa og bæsa, ég held samt að henni hafi leiðst og hún saknað okkar pabba helling.
En vitiði hvað? Núna var pabbi að fara til Vestmannaeyja með Herjólfi til að fara á árgangsmót í Vestmannaeyjum en það eru 25 ár síðan hann fermdist (getur það verið svona langt). Mamma frétti að það væru alla vega 7 árgangar með mót í Eyjum um helgina og allt af því að Logarnir eru að fara að spila á balli á laugardagskvöldið, það verður ábyggilega gaman hjá pabba mínum.
En það verður nefnilega gaman hjá okkur mömmu líka, við erum búnar að bjóða Kollu frænku að koma og gista hjá okkur og svo ætlum við að hafa stelpukvöld, annaðkvöld með snakki og nammi, jibbý, ég held að það verði sko gaman hjá okkur.
Pabbi minn er byrjaður í nýrri vinnu og núna þurfum við að vakna kl. 06.30 alla morgna og drífa okkur af stað uppúr kl. 07.00 til að keyra pabba og svo förum við mamma aftur í Hafnarfjörðinn og ég fer á leikskólann og svo fer mamma í vinnuna sína og er komin þangað kl. 08.00. Það er allt í lagi því hún má alveg mæta svona snemma og henni leiðist ekkert í bílnum því hún hlustar bara á morgunútvarpið á meðan. Svo hættir mamma að vinna eitthvað fyrir kl. 15.00 og sækir mig og svo sækjum við pabba sem er búinn að vinna kl. 15.45 og erum öll komin heim kl. 16.00 nema við förum á eitthvað flakk og núna kemur pabbi bara með á flakk, en á mánudaginn þá vorum við komin svona snemma heim og ég fór bara að leika mér og horfa á vídeó en mamma og pabbi vissu ekkert hvað þau ættu að gera því þau eru svo óvön að koma saman heim svona snemma en vitiði hvað? Þau geta vel vanist því.
Hlakka til að segja ykkur hvernig helgin verður hjá mér og hvað við gerum á stelpukvöldinu mínu.
Ykkar Ástrós Mirra
Ps. Ef þið eruð að velta fyrir ykkur af hverju mamma er hætt að setja þessar sniðugu myndir með í skrifin mín, þá er það vegna þess að svoleiðis forrit eru víst svo gjörn að setja vírusa í tölvunar hjá manni svo nú verðið þið bara að nota ímyndunaraflið þegar þið lesið sögurnar mínar.
Kristínu Jónu 12.9.2004 00:00:00 — Shrek 2 —
— Shrek 2 — það er sko æðisleg mynd, ég fór með mömmu og Kollu frænku á hana áðan og mér fannst hún mjög fín, reyndar fannst mömmu hún frábær, frábær því það var svo töff tónlist í henni og svo flottar senur þar sem músíkin var að skipta öllu máli og ég var ekkert að skilja. T.d. kom eitthvað rosa flott “James Bond” theme þegar Gosi spýtukall var að hjálpa Shrek að vinna kærustuna aftur og þá skellihló mamma en ég sá ekki hvað það var sem henni fannst fyndið. Mamma er alveg viss um að pabbi muni fíla þessa mynd vel. Við tökum hana kannski á DVD einhverntíman og horfum á hana saman, gaman.
Við áttum ágætt kvöld í gær, við stelpurnar saman, ég mamma og Kolla nema allar voru svo þreyttar að við vorum allar sofnaðar fyrir kl. 23 á laugardagskvöldi, ég reyndar kl. 21 en ég er líka bara 3 ára ennþá, alveg að verða 4 ára og get helst ekki beðið. Ég get heldur ekki beðið eftir snjónum, ég er alltaf að spyrja mömmu hvenær kemur snjórinn? Sérstaklega núna þar sem fimleikarnir voru að byrja hjá mér en mamma var alltaf búin að segja mér að þeir byrjuðu þegar snjórinn kæmi, hún átti víst eitthvað erfitt með að útskýra “í haust” fyrir mér. En nú eru þeir byrjaðir, byrjuðu í morgun og það var mjög gaman. Ég er í Fílahóp, alveg eins og í leikskólanum þar er ég líka í Fílahóp og þjálfarinn minn er strákur og heitir Pálmar, hann er mjög skemmtilegur, hann var að láta okkur gera þrautir og sagði að þetta gætu engir nema meistarar en samt gátum við það flest, svo líklega erum við krakkarnir í Fílahóp í fimleikafélaginu Björk, öll meistarar, finnst ykkur það ekki flott.
Jæja, nú ætlum við mamma að fá okkur eitthvað í kvöldmatinn og bíða eftir pabba sem er að koma með Herjólfi á eftir en hann var á árgangsmóti í Vestmannaeyjum og skemmti sér víst bara mjög vel.
Jæja þá gott fólk, takk fyrir mig í dag og endilega skrifið nú í gestabókina mína, þið vitið að mamma ætlar að geyma þetta allt fyrir mig þangað til ég verð stór. (Ég er nú alveg að verða 4 ára svo ég er nú orðin STÓR)
Kristínu Jónu 18.9.2004 00:00:00 Minna flandur
Hæ, nú er bara komin heil vika án þess að mamma segi ykkur fréttir af mér, þetta er nú ekki hægt eða hvað finnst ykkur?
Núna er ég að leika við Önnu Dögg frænku mínu og vinkonu og við erum gjörsamlega búnar að rústa herberginu mínu en ég held svei mér þá að mömmu finnist það allt í lagi því við hittumst ekki svo oft núorðið.
Mamma og pabbi eru búin að ákveða að minnka flandrið sem hefur verið á þeim og vona bara að þau missi ekki sambandið við ættingja og vini, en málið er að eftir að við fórum að þurfa vakna kl. 06.30 á morgnanna þá skiptir það mig svo miklu máli að ég hafi rólega eftirmiðdaga og borði í fyrra fallinu og fari svo að sofa kl 20.00. Við prófuðum það í síðustu viku og ég var svo miklu geðbetri en vikuna á undan og það var bara virkilega gaman hjá okkur og notarlegt. Þannig að ef einhverjir fara að sakna okkar þá verða þeir bara líka að kíkja til okkar á móti til minnka flandrið okkar.
En þá að öðru, ég fór enn og aftur til hans Bolla læknis á þriðjudaginn til að láta taka meira af þessum frauðvörtum af mér og það gekk ósköp vel en samt grét ég svolítið núna því núna vissi ég alveg að það kæmi mikið blóð oþh. Mamma heldur samt að ég hafi ekki fundið til en þó veit hún það ekki, bara það að ég grét og mig langar ekkert til að láta gera þetta aftur og vona að ég sé nú endanlega laus við þessa vörtur en þær eru nefnilega svo smitandi og svo eru svo mikill sýkingavaldur líka, þannig að ég er komin með exem eftir þetta.
Jæja gott fólk, þá ætla ég að halda áfram að leika mér.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 19.9.2004 00:00:00 Hallgrímskirkjuturn
Æ, ég má til að bæta við því sem við gerðum í dag, en dagurinn byrjaði rólega heima í morgun með pabba, mamma fékk að kúra en svo fórum við mamma saman í fimleika kl. 12 og það var mjög gaman, þjálfarinn minn hann Pálmar er alveg frábær, honum finnst við svo klár og er alltaf að segja að svona geti bara meistarar en svo getum við það líka, svo við hljótum að vera meistarar. Ég var að stökkva ofan af háum hnakki niður á dýnu í dag og skellti mér svo í kollhnís og þá sagði Pálmar, vá, ert þú í fimleikum eða hvað? Af því að ég var svo dugleg.
Nú svo fórum við mamma og sóttum pabba heim og fórum svo að sækja Silju Ýr og skelltum okkur upp í Hallgrímskirkjuturn því veðrið var svo fallegt (en það var svo kalt þarna uppi) og mamma hafði aldrei komið uppí turninn þó hún hafi átt heima þarna rétt hjá þegar hún var stelpa. Það var frábært útsýni þarna uppi og við tókum nokkrar myndir af því sem þið getið skoðað í myndaalbúminu mínu. Svo fórum við í Kolaportið en við vorum rétt komin inn þegar ég fór að kvarta yfir hungri og þar sem það er ekki algengt þá vita mamma og pabbi að þegar ég kvarta þá er ég sko svöng, svo við skelltum okkur á pylsuvagninn og fengum okkur pylsur og kók. Nú svo fórum við í bíltúr og þá allt í einu erum við fyrir utan góðu ísbúðina vestur í bæ, svo það var keyptur ís handa öllum.
Svo enduðum við daginn á að kíkja í heimsókn til langafa og langömmu og keyrðum svo Silju Ýr niður á Umferðarmiðstöð svo hún gæti tekið rútuna í Herjólf, góða ferð Silja mín og góða nótt.
Ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 26.9.2004 00:00:00 Róleg vika
Hæ þið vinir mínir sem nennið að lesa það sem við mamma skrifum. Núna áttum við afskaplega rólega helgi, vorum bara heima alla helgina en ég fór í gær til Arons Breka vinar míns og svo fór ég í fimleika í morgun og það var sko gaman, ég er alveg þvöl þegar ég er búin því ég er svo sveitt eftir allan hamaganginn þar. Ég er enn mjög hrifin af þjálfaranum mínum honum Pálmari því hann er mjög skemmtilegur og í dag spilaði hann á gítar og við sungum höfuð, herðar, hné og tær, og gerðum hreyfingar með, hann var alveg hissa hvað við vorum dugleg. Það er svo skemmtilegt hvað hann er alltaf hissa á því hvað við erum dugleg. Nú svo kom Aron Breki til mín að leika og mamma hans skildi hann eftir en hann hefur ekki viljað það áður, en það gekk vel til að byrja með en svo fór ég eitthvað að vera leiðinleg við hann sögðu mamma og pabbi og ætlaði að loka hann inni í herberginu mínu meðan ég fór eitthvað fram en þá fór hann bara að gráta og eftir það vildi hann bara mömmu sína. Svo þegar hann var farinn þá labbaði ég mér inní herbergi og lagðist uppí rúm og sofnaði, þá hef ég líklega verið mjög þreytt því þetta hef ég ekki gert áður. Mamma heldur að þess vegna hafi ég verið frekar leiðinleg við besta vin minn, af því að ég var svona þreytt.
Ég var nú líka búin að hjálpa mömmu að baka og fara í fimleika og allt.
Í gærkvöldi kom Edda amma í mat í okkar og við áttum voðalega góða stund saman og á fimmtudaginn var pylsupartý í leikskólanum mínum í boði foreldrafélagsins, það er alltaf voða gaman að vera að leika sér í leikskólanum og mamma og pabbi eru með. Þau þekkja núna aðeins meira fólk heldur en í fyrra þegar pylsupartíið var.
Annars er þessi vika búin að vera mjög róleg hjá okkur, við förum bara heim eftir vinnu hjá pabba og höfum það huggulegt, reyndar sóttum við Kristófer á þriðjudaginn það var mjög gaman, við erum svo góðir vinir og góð að leika okkur saman. En eftir að við fórum að vera svona róleg heima eða réttara sagt eftir að pabbi fór að hætta að vinna kl. 16 og við þar að leiðandi að borða um kl. 18 þá er ég sofnuð kl. 20 og vakna kát og hress kl. 06.30 og er bara ansi geðgóð allan daginn, og ég er hætt að sofna í leikskólanum þannig að nú dett ég bara út af klukkan átta (því þá á að fara að hátta).
Jæja gott fólk, nú er klukkan orðin hálf níu, Ó mæ god og ég er ekki sofnuð (svaf reyndar í 2 tíma í dag, það var ekki hægt að vekja mig) en nú ætlar mamma að leyfa mér að kúra frammi hjá þeim í smá tíma svo ég bið bara að heilsa ykkur í bili.
Ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 29.9.2004 00:00:00 Orðin mamma
Ég er orðin mamma! Ég eignaðist naggrís í dag og hann hefur fengið nafnið “Toppur”, og vitiði ég er ekkert smá glöð með hann.
Málið er að ég hef oft reynt að biðja mömmu og pabba um naggrís því ég sé alltaf naggrísi hjá augnlækninum mínum og þeir eru svo sætir en mamma og pabbi hafa ekki viljað það hingað til, reyndar held ég að það hefði nú ekki þurft að suða mikið í mömmu en pabbi aftur á móti var eitthvað stífari í þessu sambandi. Nema í gær þá langaði mig svoooo mikið í kisu og pabbi reyndi að útskýra fyrir mér að það mætti ekki eiga kisu þegar maður byggi í blokk og þá grét ég enn meira og sagðist bara vilja flytja svo ég gæti fengið kisu. Og ég grét og grét af því að mig langar svo í kisu en þá spyr mamma hvort ég myndi ekki bara frekar vilja naggrís? Jibbí ég var sko alveg til í það og mamma sagði mér að fara til pabba og spyrja hann og viti menn…. hann samþykkti það, besti pabbi í heimi og besta mamma í heimi.
Nú svo eftir vinnu og leikskóla í dag þá fórum við að kaupa búr og sag og mat og vatnsflösku og allt sem þarf fyrir naggrísi og svo fórum við á augnlæknastofnuna mína www.sjonvernd.is og fengum einn naggrísaungann þeirra. En mömmu datt í hug að spyrja Úrsúlu hvort naggrísunum þeirra vantaði kannski heimili og það var einmitt málið, svo við fórum að sækja hann Topp áðan til hennar Úrsúlu. Og nú ligg ég að horfa að vídeó og Toppur liggur hjá mér.
Í morgun þegar ég var að fara á fætur þá sagði ég við mömmu: “Veistu mamma, þegar ég verð döp þá ætla ég að taka naggrísinn minn úr búrinu og setjast í rauða stólinn minn og klappa honum. Þá hætti ég að vera döp. (þýðir döpur).
Það eru myndir af mér og Toppi á myndasíðunni minni.
Ps. í dag þegar við vorum að skoða hann Topp á augnlæknastofunni, þá heyrði mama að ég sagði við Topp: “Ég veit að þú átt eftir að sakna hennar Úrsúlu en ég sé að þú ert hrifinn af mér”.
Þangað til næst
Ykkar Mirra Skotta Langsokkur mamma hans Topps.
Kristínu Jónu 5.10.2004 00:00:00 Ég er lasin 🙁
Ég er lasin 🙁
Þegar ég kom heim úr leikskólanum í gær þá var ég komin með næstum 39 stiga hita og ég fór bara að sofa þegar ég kom heim og svaf eiginlega slitlaust til kl. 4 í nótt en þá vildi ég fara á fætur, mamma reyndi til kl. 5 að fá mig til að sofna aftur en ekkert gekk svo þá endaði hún á að fara með mér frammúr. Jibbý mér tókst það, ég fór að horfa á vídeó en mamma að reyna að leggja sig og það passaði þegar hún var alveg að sofna þá sagði ég eitthvað sem vakti hana og svo kom pabbi kallinn bara á fætur og við skutluðum honum í vinnu. Ég var með 4 kommur í morgun og mamma klæddi mig í kuldagallann minn svo ég fann ekkert fyrir kuldanum.
Svo seinna í dag þá vildi ég fara að gera eitthvað skemmtilegt, fara í húsdýragarðinn eða heimsækja Aron Breka og mamma sagði að ég gæti það ekki því ég væri lasin, þá sagði ég við hana: “En ég fer bara í gallann!” og þá er allt greinilega í lagi. En mamma var ekki sammála því. Reyndar er ég sofandi núna, kl. 14.30 og er búin að sofa í 3 tíma, mamma er alveg að fara að vekja mig því við eigum tíma í klippingu og mamma í strípur og erum búnar að bíða í 4 vikur eftir þessum tíma svo það verður sko spennandi að sjá hvernig við lítum út í kvöld. Mamma setur ábyggilega einhverjar myndir af okkur í kvöld.
Eins og þið sjáið þá setti mamma mynd af mér og Klöru Rún á forsíðuna en hún kom að heimsækja okkur um daginn, ásamt pabba sínum, mömmu og Victori auðvitað og mamma var að reyna að fá góða mynd af okkur saman því Auði ömmu finnst við stundum svo líkar. Hvað finnst ykkur? Mamma fór meira að segja að leika sér og afritaði hárið á mér yfir á Klöru til að sjá hvernig hún væri með hár og við erum búin að hlæja og hlæja að henni svoleiðis en hún er æðisleg með eða án hárs, það er ekki spurning.
Jæja nóg í bili og til hamingju með afmælið Klara móðursystir! (hún átti afmæli í gær)
Ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 11.10.2004 00:00:00 Ég vildi að ég ætti hest
Hæ hæ, þá er enn ein helgin búin og vinnuvikan hafin á ný (það telst líka vinnuvika hjá okkur leikskólakrökkunum). Við skruppum í sveitina á laugardaginn og það ringdi og helliringdi til skiptis en svo þegar við vorum að fara heim á sunnudaginn þá kom þetta líka fallega haustveður. Við stefnum nú á að fara aftur aðra helgi og vonum að það verði gott veður. Sendum veðurguðunum pöntun núna strax.
En ég er alltaf að koma með gáfulegar athugasemdir og kom með eina á leiðinni uppí sveit, en við vorum að hlusta á útvarp Latibær og það var verið að spila lagið hennar Sollu stirðu, Solla stirða heiti ég, klaufsk og klunnaleg…. og svo í millikaflanum þegar það er bara spilað kemur eitthvað ískurhljóð og þá segi ég við mömmu og pabba, svona heyrist af því að Solla er að reyna að fara í splitt og spíkat en kemst ekki. Og mamma varð alveg, Vá, já en sniðugt, þetta hefur líklega Máni Svavars verið að hugsa en ekki fattaði hún það. En svona eru mömmur.
Ég grét og grét á leiðinni í sveitina af því að mig langar svo í hest, ég byrjaði á að segja við mömmu, mamma ég er orðin stór er það ekki? Og mamma svaraði jú, þú ert orðin stór stelpa. Og þá spurði ég, get ég þá ekki fengið hest? En mamma sagði að það væri ekki hægt og alls konar afsakanir komu á eftir en ég hlustaði ekki á þær, heldur grét og grét. Ég vildi að ég ætti heima í öðru húsi þar sem ég má hafa kött og hund og ég vildi að ég ætti hesthús svo mamma gæti gefið mér hest.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 14.10.2004 00:00:00 Alveg að verða 4 ára
Jæja nú hefur ýmislegt gerst síðan síðast. Í fyrsta lagi varð hann Aron Breki vinur minn, stóri bróðir þann 11. okt. en þá eignuðust Brynja og Daníel (og Aron Breki) litla prinsessu sem fæddist á afmælisdaginn hennar ömmu sinnar. Ég sagði mömmu strax að við yrðum að fara og kaupa bangsa handa henni og ég vildi fara strax í gær en mamma dró það til dagsins í dag, svo við skruppum í Leikbæ og ég valdi hvíta kisu með bleikri slaufu alveg ógurlega sæt og svo fórum við mamma og kíktum á þau, mamma var voða stressuð að vera að koma svona snemma til þeirra en ég vildi ekki heyra minnst á að bíða eitthvað með þetta, enda kom svo í ljós að þær mæðgur voru svo hressar að ég fékk meira að segja að vera eftir hjá þeim að leika við Aron Breka. Litla stelpan þeirra er með alveg ofboðslega mikið svart og þykkt hár og svo sterkan andlitssvip. Pabba fannst hún strax alveg eins og mamma sín en Aron Breki er eins og pabbi sinn.
Þegar við vorum á leiðinni heim til þeirra þá sagði ég við mömmu: Mamma, veistu við eigum líka lítið barn! Við eigum naggrísinn okkar hann Topp. Þetta fannst mömmu nú voða sætt hjá mér.
Svo vorum við líka að eignast frænku í dag, hún Guðrún Eydís eignaðist litla systur í dag en það er Hlynur sem er pabbinn og Eyja og Heimir eru afinn og ammann. Til hamingju öll.
Ég er að fara enn einu sinni til Bolla læknis að láta taka af mér vörtur og nú teiknaði mamma fjólubláan hring utan um allar vörturnar sem hún sá til að ekkert myndi gleymast því það gleymdist síðast ein og það var nóg til að smita út um allt aftur, en hvað segja menn ekki, allt er þegar þrennt er og nú hlýtur þetta að klárast.
Mamma var nú reyndar smá kvíðin hvernig ég myndi taka því að þurfa að fara aftur því mér fannst ekkert gaman að þessu síðast, ég grét og grét, svo hún talaði við mig í gærkvöldi um vörturnar og hvað það væri leiðinlegt að þær væru komnar aftur og ég samþykkti það og þá spurði mamma mig hvað við ættum eiginlega að gera í þessu og ég svaraði að bragði: Nú láta Bolla lækni taka þær. Svo þá var það afgreitt og við eigum að mæta í fyrramálið.
Svo verður nú ábyggilega skemmtileg helgin hjá mér, því mamma og pabbi eru að fara á árshátíð annað kvöld og þá ætlar Kolla frænka að passa mig og svo eru þau að fara í systkynaboð til Konna og Drífu á laugardagskvöldið og þá verð ég hjá Önnu Dögg og þar verður Amma Steina líka, jibbí.
En þessi pistill verður að enda á því sem gerðist áðan, mamma var eitthvað í tölvunni og ég er búin að vera mjög dugleg að teikna fyrir hana og vildi fara að mála en mamma sagði að það væri kominn háttatími og ég ætti að velja bók að lesa og hún ætlaði að klára það sem hún væri að gera á meðan. En ég var eitthvað ósátt og vildi ekki fara að sofa og lagðist á gólfið hjá mömmu og sagði en ég get ekki sofnað og þetta er ekkert gaman osfrv. og svo ekki meir.
Allt í einu tekur mamma eftir því hvað ég er hljóðlát og lítur niður og viti menn, ég er sofnuð á gólfinu og ég sem gat ekki sofnað.
Svona er að vera næstum orðin 4 ára.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 18.10.2004 00:00:00 pabbi farinn út á land
Vitiði hvað? Pabbi minn er farinn út á land að vinna í heila viku eða meira. Hann fór í morgun með flugi til Egilsstaða og átti svo að fara þaðan til Reyðarfjarðar en er enn fastur á Egilsstöðum og kemst ekki neitt út af vondu veðri. En þegar við vöknuðum í morgun þá leit mamma út um gluggann og sagði “Oh, nei” það er komin snjór og hálka og ég á lélegum sumardekkjum” en svo leit ég út um gluggann og sagði, “vá mamma það er kominn snjór, má ég gera snjókall?” Já það er sko greinilegt að við lítum ekki eins á hlutina eða veðrið alla vega.
Ég ætla að vera voða góð við mömmu þegar pabbi er í burtu og ég fæ að sofa í pabbarúmi. En ég vona að pabbi hafi það ekki mjög slæmt þarna fyrir austan og hlakka til að heyra í honum hljóðið.
Þangað til næst.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 19.10.2004 00:00:00 Hljóp á spegil
Úps, vitiði hvað kom fyrir mig? Ég hljóp á spegil uppá dúkkulofti í leikskólanum mínum og fékk skurð á ennið og það þurfti að sauma eða réttara sagt líma, það er víst alltaf límt í dag en ekki saumað. Ég var að sjálfsögðu alveg rosalega dugleg eins og venjulega þó fór ég að gráta þegar læknirinn hellti líminu í sárið, læknirinn sagði líka við mömmu að það væri sárt en á móti myndi ég sleppa við að þurfa að láta taka sauminn.
Fóstrurnar á leikskólanum mínum hringdu í mömmu og sögðu henni að koma að sækja mig til að fara með mig uppá heilsugæslustöð, sem mamma gerði en þegar við vorum búnar að bíða það í svona 15 mín. þá kom hjúkka sem kíkti aðeins á sárið mitt og fór svo fram og við biðum áfram í svona 5 – 10 mín. en þá kom hún aftur og sagði mömmu að hún yrði að biðja okkur að fara uppá slysadeild Borgarspítalans því það væri enginn læknir á heilsugæslustöðinni eins og er.
Og mamma þurfti að byrja á að fara og taka bensín, henni fannst það nú asnalegt með mig í bílnum með opið sárið en það var ekkert annað að gera, svo drifum við okkur á slysó og þar var nú bara fínt að vera því þar er sérstök leikstofa fyrir börn, og ég skemmti mér hið besta við að leika með allt dótið þar, og svo kom læknirinn og skoðaði sárið mitt og sagði mömmu að best væri að líma en ekki sauma. Svo fékk ég verðlaun, límmiðaspjald með glitrandi kisumyndum sem ég er búin að líma út um allt herbergið mitt.
En sem sagt nú er ekkert annað að gera en vona að þetta grói vel svo ég verði ekki eins og mamma með stórt ör (mamma er reyndar með tvö) á enninu.
Ykkar Ástrós Mirra hrakfallabálkur.
Kristínu Jónu 23.10.2004 00:00:00 Ótitlað
Hæ, hæ þið öll. Ég datt fram úr rúminu hans pabba í nótt eða réttara sagt, flaug fram úr rúminu og skall í vegginn, það var hörku dynkur sagði mamma, sem hrökk upp og dauðbrá, við sátum smá stund saman mæðgurnar og ég jafnaði mig, mamma náði nú ekki að sofna alveg strax því hún verður alltaf dálítið stressuð þegar ég fæ svona högg því hún er svo hrædd um heilahristing en á endanum sofnuðum við báðar og sváfum til átta. En ég fór ekki að sofa fyrr en eftir kl. 22 í gærkvöldi því við vorum að horfa á Idol.
Pabbi er enn á Reyðarfirði en þeim gengur bara vel að vinna þar, honum og Heimi en þó eru þeir ekki væntanlegir heim fyrr en um næstu helgi eða seinna.
Nú langar mig að segja ykkur aðeins hvað mig langar í afmælisgjöf og ekki seinna vænna því það eu bara 21 dagur þar til ég verð 4 ára.
Í fyrsta lagi langar mig í HEST, mig langar náttúrlega mest í alvöru hest en mamma og pabbi eru búin að panta einhvern staðgengil (ég veit reyndar ekkert um það)
Svo langar mig í VERKFÆRASETT, LEGO KUBBA venjulega litla, Langamma og langafi ætla að gefa mér sæng og Kolla frænka rúmgalla (ég veit heldur ekkert um það en ég vona að það verði með barbíemynd og bleikt). Nú rétt á meðan mamma er að skrifa þetta spurði hún mig aftur, hvað mig langaði í, í afmælisgjöf og þá sagði ég “Mig langar í alvöru hest” svo þið sjáið að listinn minn er ekki langur, bara erfiður.
Ef ég nefni eitthvað fleira þá ætlar mamma að segja ykkur frá því annars verðið þið bara að láta vaða í búðunum og athuga hversu vel þið þekkið mig.
Ykkar Ástrós Mirra bráðum 4 ára (verð svo 17 eins og Silja Ýr og þá fæ ég alvöru hest)
Kristínu Jónu 25.10.2004 00:00:00 “En mamma? Ertu ekki glöð með mig?”
“En mamma? Ertu ekki glöð með mig?” Þetta sagði ég við mömmu um daginn þegar hún var að tala við pabba og sagðist vera eitthvað leið og að sjálfsögðu fékk þetta mömmu mína til að brosa út að eyrum og vera glöð með mig og sig líka.
En pabbi kemur nú kannski á föstudaginn og þá koma líka Silja Ýr og Sara Rún frá Vestmannaeyjum svo pabbi kemur beint í kvennafans en honum leiðist það ekki því þetta eru allt uppáhaldsstelpurnar hans. Silja og Sara eru að koma í skírnina hennar Klöru Rúnar og 20 ára afmælið hennar Sigrúnar mömmu hennar, svo ætlar Sara líka á árshátíð hjá KFUM og K með Þórunni Ylfu frænku sinni.
Ég hlakka svo til þegar þær koma stelpurnar en við mamma erum búnar eiga góða daga undanfarið. Við fórum fyrir hádegi á laugardaginn til langafa og langömmu og buðum svo langömmu í búðir og kaffihús og mamma og amma áttu góða stund meðan ég fór í Ævintýraland. Svo kom Kolla frænka til okkar í gær og við fórum saman í fimleika (Kolla gerði nú ekki æfingarnar með mér) og svo fórum við heim og fengum okkur kaffi og meðþví og skelltum okkur svo í bíó kl. 4 og buðum líka Önnu Dögg með. Við sáum hákarlasögu, mömmu fannst hún ekki eins góð og Shrek 2 en okkur Önnu þótti hún frábær.
Við mamma höfum kúrt ofsalega mikið núna þegar pabbi er í burtu, ég held að mamma nenni ekki að liggja með mér uppí rúmi hálft kvöldið þegar hún hefur engan til að skiptast á við sig, en ég er sko alveg ánægð með þetta því mér finnst svo gott að kúra og stundum sofna ég á nóinu þó ég hafi kvartað yfir því að ég sé ekkert syfjuð og langi til að vaka á nóttunni með tunglinu og stjörnunum, hvernig dettur mér þetta í hug!
Mamma tók plásturinn af skurðinum mínum í gær og það virðist nú alveg hafa gróið ágætlega, mamma tekur nú einhverjar myndir af mér með sárið þegar pabbi kemur en hann tók myndavélina með sér á Reyðarfjörð.
Bless í bili, Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 28.10.2004 00:00:00 Lítill jaxl
Hæ hæ, ég er líklega komin með í eyrun en það sést ekki fyrir merg. Ég átti hræðilegt kvöld í gær og frekar erfiða nótt. Ég vaknaði um klukkan ellefu í gærkvöldi og sagði mömmu að ég fyndi svo til í höfðinu og svo velti ég mér og sneri og grét og velti og sneri og grét og vissi ekkert hvernig ég ætti að vera og mamma var komin alveg í flækju og var farin að halda að ég væri komin með heilahimnubólgu og hringdi á læknavaktina en þar var hún hugguð svolítið því ég var ekki með hita en það er alltaf hár hiti með heilahimnubólgu. Ég tók hálfa panódil og náði loksins að sofna um hálf eitt og mamma sofnaði ábyggilega um eittleitið en svo vaknaði ég (og mamma líka um leið) klukkan tvö við það að ég var að gubba í rúmið hans pabba, mamma tók mig strax inná bað og lét mig klára að gubba þar og svo sofnaði ég nú fljótlega eftir það og svaf bara til kl. 9.30 í morgun sem hefur aldrei skeð áður.
Ég fór náttúrlega ekki á leikskólann og mamma ekki heldur í vinnu en mamma pantaði tíma hjá lækni fyrir mig og við áttum tíma um kl. 11 og Guðrún læknir reyndi að skoða í eyrað mitt en sá ekkert fyrir merg og sagði að við yrðum að fara uppá Borgarspítala og láta háls, nef og eyrnalækni kíkja á mig því þeir ættu svo miklu flottari tæki þar. En áður en við fórum reyndi Guðrún að hreinsa merginn og það var svo ofboðslega sárt að ég ætlaði sko ekki að vilja fara til annars læknis, en af því að mamma sagði að hann hefði flottari tæki og ég myndi ekki finna svona mikið til hjá honum þá ákvað ég að gefa því séns. Þessi læknir var mjög góður og með mjög flott tæki en hann sá samt ekki nógu vel og prófaði að reka prjón í eyrað á mér en ég fann svo mikið til að hann hætti. Hann sagði að fyrst ég væri ekki með hita þá væri best að ég fengi dropa sem myndu hjálpa til við að hreinsa eyrað og svo ætti ég að koma aftur á mánudaginn og þá ætti hann að geta skoðað mig, og ef ég fyndi til þá mætti ég alveg fá panodil til að slá á verkinn.
Þið vitið að ég er svo mikill jaxl að ég vil ekki stíla í rassinn en vill frekar gleypa pilllu og stundum án þess að drekka með. Það er líka mjög gott því ég þarf að taka eina töflu á dag út af magamígreninu mínu, þannig að ég er svo sem vön.
Hey, á morgun er starfsdagur í leikskólanum mínum og þá fæ ég að fara með mömmu í vinnuna, því það eru hvort eð er fullt af krökkum þar í gæslu út af kennaraverkfallinu. Þau eru reyndar öll eldri en ég en mamma og Ingibjörg hópstjórinn hennar vilja prófa. Ég veit að ef ég er ekki stillt þá verð ég “Rekin út” og það eru mín orð ekki mömmu.
Svo koma Silja og Sara á morgun frá Vestmannaeyjum og ætla að vera yfir helgina og mæta í skírnina hjá Klöru Rún á sunnudaginn og svo er……… pabbi minn líka að koma á morgun en hann er búinn að vera í tvær vikur á Reyðarfirði að vinna en ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvar hann eigi að sofa! Ég meina þegar Silja verður í mínu rúmi, Sara þar á gólfinu og hvar á pabbi þá að vera? Mamma sagði mér að hann ætti nú rúmið sem ég er búin að sofa í undanfarnar vikur svo hann myndi bara vera þar og ég á milli, já ég var nú bara nokkuð glöð með það, þá kom upp að Kristófer verður líka hjá okkur á laugardagskvöldið og mamma spurði mig hvar hann ætti þá að sofa og ég var ekki lengi að svara henni, nú líka á milli með mér
Ykkar Ástrós Mirra sem er alveg að verða 4 ára, þið munið 14. nóvember.
Kristínu Jónu 30.10.2004 00:00:00 Ótitlað
Þessi októbermánuður er búinn að vera almesti veikindamánuðurinn í mínu lífi, og tvær síðustu vikur er mamma búin að vera stanslausn hjá læknum og spítulum og bráðamótttökum oþh.
Það hélt nefnilega áfram í gær, ég var alhress á fimmtudaginn og fór svo með mömmu í vinnu í gær og það var voða gaman, svo um kl. 14.30 fórum við að sækja pabba útá flug og á leiðinni byrja ég að geispa og geispa og mamma hugsaði með sér að ég væri bara svona syfjuð og ég reyndar sofnaði svo í bílnum. Við þurftum að bíða í hálftíma eftir flugvélinni og svo þegar pabbi kom þá var ég vöknuð og var með smá blóðnasir og mamma fór að hreinsa nebbann minn og tók þá eftir að ég var mjög heit. Svo fórum við að sækja Silju og Söru í Kringluna og ég talaði bara ekkert við þær, lá bara í stólnum mínum og mókti. Svo þegar við komum heim, þá skreið ég bara beint uppí rúm og lagðist fyrir og vildi ekki gera neitt eða tala við neinn. Mamma og Pabbi mældu mig í eyrað og sá mæir sýndi 39,6 svo þau ákváðu að þau yrðu að mæla í rassinn og hann sýndi 39,5 svo það var hringt beint uppá heilsugæslustöð, því læknirinn okkar sagði um daginn að ef ég fengi hita þá yrðum við koma strax.
Við fengum tíma kl. 17.30 svo við þurftum að bíða í rúman klukkutíma eftir að fara og ég mókti bara og mókti vildi ekkert tala við stelpurnar, vildi bara helst að mamma eða pabbi lægju uppí rúmi með mér. Nú svo drifum við okkur uppá heilsugæslu og þar var ég skoðuð og þá sá læknirinn að það var komin sýking í eyrað (droparnir sem hinn læknirinn lét mig hafa dugðu þá) en af því að ég var með svona mikinn hita og ekki vön að láta svona þó ég fengi hita vildi þessi læknir senda okkur niður á bráðamótttöku barnaspítalans.
Og við útí bíl og brunum af stað, mamma og pabbi voru nú með heilmiklar áhyggjur en allt í einu á leiðinni fór ég að tala um umhverfið og svo bara spjalla og virtist vera að hressast og viti menn þegar við komum niðrá bráðamótttöku þá fannst nú mömmu og pabba ég bara ekkert vera lasin og leið eins og þau væru taugaveiklað fólk, en þau ákváðu að læknarnir yrðu nú að treysta þeim, enda var einn læknir búinn að sjá hvað ég var veik. Hjúkkan sem skoðaði mig fyrst lét mömmu mæla mig og þá var hitinn dottin niður í 38,5. Mamma hafði náttúrulega gefið mér panodil heima og það er spurning hvort það hafi verið svona seint að virka, en alla vega ég var sko bara hress á meðan við biðum í tvo tíma eftir lækni, sem síðan sá að ég var rauð í eyranu og skrifaði uppá meðal fyrir mig.
Þá er ég í fyrsta sinn á sýklalyfi, ég held að það geti nú ekki mörg börn á Íslandi státað sig af því að vera næstum því alveg orðin 4 ára þegar þau fá í fyrsta sinn sýklalyf.
En sem sagt læknirinn sagði að ég væri líklega með væga veirusýkingu líka ofaní eyrnabólguna sem gæti orsakað þennan mikla hita og við ættum að koma hið snarasta ef hitinn færi aftur svona hátt upp.
En ég er hin hressasta núna, svaf vel í nótt og er að horfa á teiknimyndir með Söru uppáhaldsfrænkunni minni. En ég verð nú líklega ekki á neinu flandri þessa helgina, læt mér nægja að fara í skírn á morgun hjá henni litlu, músasnúllu Klöru Rún .
Ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 5.11.2004 00:00:00 Tíðindalítil vika
Jæja gott fólk þá er ein tíðindalítil vika að líða en okkur finnst það bara gott eftir veikindavesenið á mér undanfarið. Við erum nú búin að senda út boðskort í afmælið mitt og mig er farið að hlakka mikið til, en eins og þið vitið þá vil ég helst fá hest og þá meina ég lifandi hest en hann á að vera bleikur. Ég veit ekkert hvar ég ætla að geyma hann enda eru alltaf einhverjir aðrir en ég sem sjá um svona hluti. Ég hef hingað til ekki þurft að hugsa það sjálf enda ekki einu sinni orðin 4 ára.
En nú um helgina eru Konný og Sara að koma því Sara er að fara að keppa í fimleikum í mínu fimleikahúsi og Konný ætlar að gista hjá okkur, svo á morgun laugardag kemur Már afi í heimsókn með nýju vinkonuna sína og mamma ætlar að sækja þau en þau eru í helgarferð með félagi eldri borgara í Vestmannaeyjum, voða flott fara á hótel og fínerí. Við vonum bara að hún sé ekki mjög stressuð yfir þessu því við ætlum okkur sko að vera róleg. Hún heitir Tedda og er ábyggilega fínasta kona fyrir hann Már afa. En þau eru ekkert að fara að búa eða neitt svoleiðis, ætla bara að vera vinir og veita hvort öðru félagsskap.
Nú svo á sunnudaginn eru fimleikar hjá mér og þá fer ég líka að sjá Söru keppa, það verður nú gaman. Og svo eru bara nokkrir dagar þangað til ég á afmæli.
Segi ykkur meira þá
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 14.11.2004 00:00:00 Hún á afmæli í dag
14 nóv. 2004
Hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Ástrós, hún á afmæli í dag. Hún er 4 ára í dag, hún er 4 ára í dag, hún er 4 ára hún Ástrós, hún er 4 ára í dag. Veiiiiii
Sjáiði svo hvað ég fékk frábæra gjöf frá mömmu og pabba í morgun, þetta er hesturinn Poppikelli Krissi og það var einmitt þetta sem ég vildi.
Kristínu Jónu 17.11.2004 00:00:00 “Poppikelli Krissi”
Jæja þá er afmælið mitt búið og allir að byrja að jafna sig eftir það, þetta var nú alveg heljarinnar veisla og mikið af fólki og mikið af pökkum.
Stærsti pakkinn var nú náttúrulega hinn eini sanni “Poppikelli Krissi” hesturinn minn sem er alveg frábær, mamma og pabbi eru nú dálítið ánægð með sig að hafa keypt hann handa mér. Svo fékk ég Barbíe dúkku með kalli og hundi og ketti, vídeóspólu, púsluspil, annað spil sem ég kann ekki að lýsa, Barbíehest með rosa mikið hár, hún getur verið konan hans Poppikelli Krúsa, ég fékk líka bækur, þar af eina töfrabók, litla krúttaralega dúkku, held það sé svona mini babie born, litabækur og liti, jólasveinabúning, teppi, sæng og kodda, rúmföt á rúmið mitt og fullt af fötum. Ég held ég sé ekki gleyma einhverju en ef svo er þá er það bara af því að mamma man þetta ekki allt, þó var hún að reyna kellingagreyið að fylgjast með og muna en …. svona getur hún líka klikkað, þe. ef hún er eitthvað að klikka. Eitt sem okkur finnst svolítið sniðugt og það er að Silja og Sara gáfu mér pils og peysu og svo gaf Már afi mér bol og sokkabuxur alveg í stíl og við sem vissum ekki að hann væri svona sniðugur, ha ha. Okkur reyndar grunar að Konný hafi nú farið með honum og haft eitthvað um þetta að segja en sniðugt var það samt.
Takk allir fyrir frábærar gjafir og ég veit að ég á alla vega eftir að fá eina gjöf en mamma er eitthvað að draga það fram eftir vikunni að fara og kaupa hana, en hún á að kaupa fyrir Ömmu Steinu af því að hún býr svo langt í burtu og komst ekki í afmælið mitt af því að hún var lasin, en hún hefur aldrei klikkað á því áður. Og talandi um ömmur, þá mættu bara Auður amma og Siggi afi í afmælið þó svo þau væru að koma frá Ameríku um morguninn og það var sko gaman því þau voru búin að vera svo lengi út og við vorum bara farin að sakna þeirra. Og ég held að Baktus hafi nú verið farinn að sakna hennar ömmu mikið því við vorum ekki eins mikið með og amma er.
Hey, vitiði hvað, það er búið að snjóa, jibbý mér finnst snjór nefnilega svo góður, það er bæði hægt að renna sér á snjóþotu í honum, það er hægt að búa til snjókall og svo er líka hægt að borða hann. Mamma er ekki eins hrifin, því hún stressast svo upp að keyra í snjó en það er nú búið að vera allt í lagi núna og við erum á góðum dekkjum.
Við sóttum Kristófer í dag í leikskólann hans og hann kom með okkur heim, það var sko gaman eins og þið sjáið á myndinni af okkur á forsíðunni.
Jæja gott í bili
Ykkar Ástrós Mirra 4 ára.
Kristínu Jónu 21.11.2004 00:00:00 “Gott að bora í nefið
Það er nú ekki mikið búið að gerast síðan síðast ég hef verið á leikskólanum allan daginn (mér finnst mamma svo oft vera svo lengi) og mamma í vinnu og pabbi að vinna ennþá meira eða til kl. 18 og þá er nú lítið gert annað en að vera að skutlast með okkur öll fram og til baka en það reyndar lendir mest á mömmu.
Reyndar máttum við koma með bók í leikskólann á afmælisdaginn hennar Konnýjar frænku þe. 16. nóv. því þá er dagur íslenskrar tungu og ég tók með mér uppáhaldsbókina mína sem heitir “Gott að bora í nefið” og er í stuttu máli um það hvað Músinni, Fílnum og Frosknum finnst gott að bora í nefið en mömmur þeirra og pabbar eru alltaf að banna þeim það og eru með alls konar skýringar á því hvað getur gerst ef maður borar í nefið en einhvern veginn eru þessir krakkar (Músin, Fílinn og Froskurinn) ekki að gúddera það og enda á að fara til afa og ömmu til að spyrja þau og ….
viti menn þá sitja afi og amma og hvað eru þau að gera? Þau bora í nefið…. eins og við hin.
En jæja þetta hefur verið mikil uppáhaldsbók hjá mér, kannski af því að ég bora í nefið en alla vega Bára fóstran mín hafði ekki lesið þessa bók og henni brá bara þegar hún kláraði hana og var greinilega ekkert alltof glöð með valið hjá mömmu og mér. En mér finnst samt þessi bók skemmtileg og mömmu finnst hún lúmsk skemmtileg líka þó hún sé að reyna að segja mér að ég geti fengið blóðnasir og þess háttar þegar ég bora í nefið og sé að reyna að fá mig til að hætta þessu, þá er bókin skemmtileg.
Jæja við ætlum núna að prófa að fara í Bingó með Villa Naglbít, sjáumst síðar.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 23.11.2004 00:00:00 Toppur verður Selma
Vá, við mamma erum alveg hrikalega spenntar núna.
Hann Toppur, naggrísinn okkar eignaðist unga áðan, 3 litla ofsalega sæta unga og við segjum nú bara eins og Sigmundur Ernir maður verður nú bara deigur til augnanna þegar fæðing á sér stað, þó það séu nú bara pínulitlir naggrísir sem fæðast heima hjá manni.
Við erum að spá í að Toppur skuli heita Selma hér eftir og líklega fá ungarnir nöfnin Bubbi, Hringla og Moki. Það eru komnar myndir af litlu fjölskyldunni okkar á myndasíðuna og endilega sendið okkur kveðju í gestabókina.
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 27.11.2004 00:00:00 Litla fjölskyldan mín
Jæja þá gott fólk, héðan er allt gott að frétta af litlu fjölskyldunni minni en þau stækka og dafna, Selma (mamma) Hringla, Moki og Bubbi eru svo dugleg og borða svo mikið að við höfum hreinlega ekki undan en það er rosalega gaman að gefa þeim að borða og fylgjast með. Selma passar mjög vel uppá ungana sína og er ekki glöð þegar við tökum einn og einn og erum að klappa þeim eða strjúka. Hún vill hafa þá alla hjá sér en þó sá mamma áðan þegar hún skutlaði einum úr matardallinum þegar hann var fyrir henni, já litlir ormar eiga ekki að vera fyrir henni mömmu sinni þegar hún er að fá sér í svanginn.
Af mér er allt gott að frétta, ég fór með Önnu Dögg frænku minni á leikskólann hennar í dag og við föndruðum saman og svo komu Anna Dögg og Anna Sif með mig hingað heim og þá bauð mamma Önnu Dögg að gista og hún vildi það svo nú erum við frænkur að leika okkur saman. Við erum reyndar búnar að rústa tveimur herbergjum en það má bara taka til á eftir, er það ekki.
Jæja gott fólk ekki fleiri fréttir í bili
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 6.12.2004 00:00:00 Bráðum koma jólin
Og það eru bara að koma JÓL. Ja hérna hvað tíminn líður hratt en af mér er allt gott að frétta. Ég fór í pössun til Önnu Daggar og fjölskyldu á föstudaginn því mamma og pabbi fóru með Sigga afa, Auði ömmu og öllum systkinum mömmu og mökum þeirra á jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum og það var voða gaman hjá mér. Svo fékk ég að fara og sjá Önnu Dögg í ballett og svo fórum við að sjá leikritið um Augastein, það var sko gaman.
Svo í gær þá fórum við mamma í Smáralindina til að kaupa jólagjafir handa Silju og Söru og þá lentum við á jólaballi hjá Birgittu Haukdal og jólasveinum og við sungum og dönsuðum í kringum jólatréð. Já og ekki má gleyma að ég og pabbi bökuðum piparkökur í gærmorgun og þær eru sko góðar. Við ætlum að baka meira seinna.
En ekkert meira í bili, mamma er eitthvað andlaus í dag, hey, jú allt gott að frétta af Naggrísafjölskyldunni minni þeir/þær dafna fínt og stækka og stækka og Selma hefur ekki undan að gefa þeim að drekka og mamma að gefa þeim að borða. Mér finnst mjög gaman að klappa þeim og leika við þá.
Jæja, gott í bili
Kristínu Jónu 12.12.2004 00:00:00 Fyrsti jólasveinninn
Fyrsti jólasveinninn er kominn og ég fann hann! Við fórum nefnilega í gær með mömmuvinnu í Öskjuhlíðina að leita að jólasveinunum og við fundum þá. Og þeir sungu og spiluðu fyrir okkur og gáfu okkur nammi, og mömmuvinna gaf okkur kakó og kökur, þetta var mjög gaman. Mamma var reyndar svolítill kjáni og hélt alltaf að hún væri að sjá þá inná milli trjánna en ég sagði “Mamma þetta er bara laufblað, kjáni ertu”. Við mættum nú öll með skemmtilegar húfur,mamma og pabbi voru þó með flottustu húfurnar en ég og Anna Dögg vorum með jólasveinahúfur. Anna Dögg svaf hjá okkur og kom svo með í jólasveinaleitina og við náðum í Kristófer og hittum svo Sigrúnu og Victor og Kollu frænku uppí Öskjuhlíð svo það var mikið af fólki frá okkur og skemmtilegt.
Ég var veik á miðvikudag og fimmtudag en hitalaus á fimmtudaginn svo við fórum í vinnu og leikskólann á föstudaginn en þegar við komum heim var ég komin með 38.5 stiga hita og vildi bara fara að sofa þó Anna Dögg væri að koma, svo mamma og pabbi voru svolítið stressuð yfir því að ég yrði kannski lasin þegar jólasveinaleitin byrjaði en svo var ég hitalaus þá og veðrið svo fallegt að ég fékk að koma með og ég er enn hitalaus svo þetta var allt í lagi.
En vitiði hvað? Fyrsti jólasveinninn gaf mér í skóinn í nótt og ég fékk snyrtidót, varlit, púður, ilmvatn, bursta og greiðu og spegil. Svo nú er ég á fullu að snyrta dúkkurnar mínar voða gaman.
Við skruppum líka í Kringluna í gær til að skoða kápur á mig, mamma er eitthvað búin að vera að vandræðast með þetta. Hún var búin að frétta að það ætti að koma ullarkápur í Frönsku búðina og þær yrði kakóbrúnar og grænar en svo var hún búin að sjá bleikköflótta með skinnkraga í Next sem hún var næstum viss um að mér þætti flott en mamma var sjálf ekki alveg viss, svo við fórum saman í Frönsku búðina að skoða kápurnar þar og þá höfðu bara komið grænar með bleikum blómum og alpahúfur við. Ég var sko alveg til í að máta svona kápu og svo stóð ég bara fyrir framan spegilinn og horfði dolfallin á mig, svo pabbi sagði við skulum ekkert vera að skoða hina kápuna fyrst hún er ánægð með þessa og mömmu finnst þessi flottari. Svo við keyptum kápu og alpahúfu og svo keyptum við buxur og bol og allt er þetta þá afmælis- og jólagjöf frá ömmu Maddý því hún rétti mömmu pening og bað hana að velja eitthvað. Þetta er að sjálfsögðu líka frá Svavari afa og Pjakk. Takk fyrir mig. Mamma ætlar að reyna að fá mig til að máta svo hún geti sett inn myndir af mér í þessum fínu fötum.
En jæja þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 22.12.2004 00:00:00 Jólin að koma
Jólin eru að koma og mamma komin í grænu fötin aftur. Desember er búinn að vera mjög skemmtilegur mánuður. Ég hef verið mjög góð stelpa og alltaf fengið eitthvað fínt í skóinn. Ég er búin að fara á jólaball og reyndi greinilega mikið á mig þar því ég sofnaði í stól á jólaballinu kl. 15.30 og gat ekki vaknað. Mamma og pabbi sóttu mig og skruppu svo uppí Mosó til Hugrúnar og Baldurs og ég svaf alla leiðina og inni og vildi alls ekki vakna. Þegar við fórum úr Mosó kl. 18.30 var ég enn sofandi og svaf alla leiðina heim og inn hjá okkur og upp og upp í rúm og var háttuð og ég enn sofandi en um kl. 21 um kvöldið fóru mamma og pabbi að hafa áhyggjur að það væri kannski eitthvað að mér og mamma vakti mig með kóki og konfekti og þá gat ég aðeins komið framúr og lá í sófanum hjá þeim en var nú svona hálf sofandi og það endaði með þvi að um kl. 22 spurði ég hvort ég mætti ekki fara í rúmið mitt en mamma þorði ekki annað að láta mig sofa í sínu rúmu svo hún gæti fylgst með mér um nóttina. Nú nú ég sofnaði og mamma og pabbi voru nú alveg bit á þessu og hugsuðu með sér að ég myndi ábyggilega vakna kl. 3 um nóttina og halda að það væri kominn dagur en ég svaf til kl. 6 um morguninn en var þá líka bara í stuði, vel útsofin og frísk.
Önnur góð saga af mér í desember gerðist í gær, ég fékk þessa líka fínu jólakúlu (eða snjókall) mjög brothætt og ég var yfir mig hrifin af henni og tók ekki annað í mál en að taka hana með mér á leikskólann en mamma sagði að ég myndi örugglega brjóta hana ef ég ætlaði að þvælast svona með hana en ég lofaði að passa hana vel. Sem ég og gerði nema þegar við erum komnar á leikskólann þá ætla ég að sýna Diddu kúluna mína en úps… ég missti hana og hún fór í þúsund mola og ég að hágráta og sagði við mömmu að ég vissi að hún hefði sagt að þetta myndi gerast en það var samt óvart. Jæja mamma fór í vinnu og ætlaði eitthvað að plotta með jólasveininum en á meðan hljóp Didda heim til sín þar sem hún átti alveg eins jólakúlu og sagðist hafa hitt jólasveininn sem hafði séð hvað gerðist og hann vildi endilega gefa mér nýja kúlu og fóstrurnar báðu mig að passa þessa vel og hafa bara uppi í hillu. En ég stóðst ekki mátið varð aðeins að skoða hana og úps.. missti kúluna og það brotnaði aðeins uppúr henni en ég sagði að það væri allt í lagi því það sást ekki mikið. Nú svo kemur mamma að sækja mig og varð alveg hissa á því að ég hefði fengið aðra kúlu. Svo sóttum við pabba og fórum svo heim og á leiðinni upp (mamma var með þunga poka úr búðinni) var mamma að reka á eftir mér en jafnframt bað hún mig að passa kúluna mína en ég var kokhraust og sagðist alveg passa hana en úps… ég missi kúluna og hún í þúsund mola. Mamma strunsaði upp bálreið og ég hágrét og bað hana að fyrirgefa mér, svo kom mamma aftur niður og fyrirgaf mér því hún vissi alveg að ég gerði þetta ekki viljandi en ég var nú óttalegur klaufi og búin að brjóta tvær jólakúlur sem jólasveinninn gaf mér. Æi.
En hvað sá ég þegar ég kom inní herbergið mitt, jólasveinninn var búinn að gefa mér eina enn jólakúluna og skildi eftir bréf til mín, þar sem hann sagði að einn strákur hefði verið svo óþekkur að jólasveinninn hefði gefið honum kartöflu í skólinn og átti því eina kúlu auka og gaf mér hana. En hann sagði jafnframt að ég mætti alls ekki leika með hana því hún væri svo brothætt og ég ætti bara að setja hana beint uppí hillu og geyma þar til við myndum skreyta jólatréið, sem ég og gerði. En svo fór ég að hágráta og mamma og pabbi botnuðu ekkert í því en þá var það vegna aumingja stráksins sem hafði fengið kartöflu og ég vildi endilega hafa uppá honum svo ég gæti gefið honum jólakúluna mína en okkur tókst það ekki svo ég setti hana bara á jólatréið sem ég skreytti áðan.
Þangað til næst, Gleðileg jól
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 24.12.2004 00:00:00 Jól
Jólin eru að koma, ég fékk rosalega flott Playmo dót í skóinn og súkkulaði jólasvein frá kertasníki og hann stal engum kertum frá okkur af því að hann er bara góður. Vissuð þið að mamma jólasveinanna hún Grýla er dáin, það er að segja gamla Grýla, svo er til nýja Grýla og hún tekur ekki börn í pokann sinn. Já maður lagar bara sögurnar til ef þær eru óheppilegar.
Ég hlakka mikið til jólanna allra, kannski er það út af pökkunum en mér finnst allt í lagi að leyfa þeim að liggja undir trénu, ég er ekkert að fikta í þeim eða neitt, og eins finnst mér allt í lagi að gefa öðrum pakka sem ég veit ekkert hvað er í. Við ætlum að fara að keyra út pökkum í dag, ég verð í jólasveinabúningi og mamma og pabbi verða vonandi með húfur þannig að við verðum öll í stíl. Svo förum við bara heim og höfum það rólegt og mamma fer að huga að matnum fyrir kvöldið og ég og pabbi leggjum á borðið og skreytum það með stjörnum og fallegum servíettum og svo kl. 18 koma jólin og þá………
Ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 26.12.2004 00:00:00 Rólegt milli jóla og nýárs
Jæja þá er aðeins farið að róast hjá okkur um þessa hátíð en það er búið að vera alveg rosalega skemmtilegt. Á aðfangadag fórum við mamma og pabbi að keyra út öllum pökkunum og við byrjuðum fyrir kl. 11 en komum ekki heim fyrr en kl. 15, þá var ekki laust við að mamma færi að stressast upp því það þurfti víst að fara að setja kjötið í ofninn, og svo voru bæði ég og mamma frekar þreyttar því ég vaknaði kl. 6 um morguninn. Jæja mamma skellti kjötinu í ofninn og lagðist uppí rúm og ætlaði aðeins að leggja sig og ég var hjá henni að horfa á teikninmynd en ég sofnaði ekki neitt en mamma blundaði aðeins. Nú svo kl. 18 byrjuðu jólin og við fengum okkur að borða, forrétt og svo aðalrétt, ég var nú alveg þokkalega róleg en var þó aðeins farin að spyrja hvenær mætti eiginlega fara að opna pakka.
Þegar við vorum búin að ganga frá eftir aðalréttinn (hamborgarhrygg sem var rosalega góður) þá settumst við niður, mamma og pabbi með kaffi og konfekt en ég á iði vegna pakkanna. Ooog svo mátti byrja, jibbí, ég sótti pakkana og pabbi og mamma skiptust á að lesa frá hverjum hvað pakki var. Ég held að ég hafi fengið 20 pakka meðan mamma og pabbi fengu 5 en það er bara allt í lagi því það er ég sem er barnið og mamma og pabbi eru svo áhugasöm og spennt yfir mínum pökkum. (Þau segja að það heiti að vera orðinn þroskaður)
Jæja, þá hefst upptalningin og ef ég gleymi einhverjum þá er það ekki af því að mér hafi ekki fundist pakkinn flottur heldur er minnið hjá mömmu orðið gloppótt. En alla vega ég fékk frá mömmu og pabbi myndvarpa sem varpar teiknuðum myndum á blöð og svo get ég teiknað eftir þeim, mjög sniðugt alla vega finnst pabba það, því hann gjörsamlega gleymdi sér yfir þessu. Nú nú svo fékk ég frá ömmu Steinu pening sem á að fá gjaldeyri fyrir og kaupa eitthvað úti á Kanarí fyrir hann, frá Auði ömmu og Sigga afa fékk ég flís galla, bleikan sem er uppáhaldsliturinn minn, frá Má afa fékk ég peysu sem er með skyrtukraga og ermum á rosalega flott og svo fékk ég líka bleikan bol, frá Eddu ömmu fékk ég postulínsdúkku, frá Langafa og Langömmu fékk ég bastkörfu með postulínsbollastelli í, ég fór nú beint að útbúa kaffiboð eftir alla pakkana á aðfangadagskvöld, loksins komin með almennilegt stell. Nú svo fékk ég frá Kollu frænku blandara og pils, frá Maddý ömmu og Svavari afa fékk ég pening fyrir jólin bæði í afmælisgjöf og jólagjöf og við keyptum kápuna mína, hattinn og buxur og bol. Frá Silju og Söru fékk ég hljómborð með alls konar fítusum, frá Alexander og Kristófer fékk ég fjólubláa snjóþotu og Clikids sem eru skartgripir, ég fór svo í gær með pabba í þotuferð, ekkert smá gaman. Frá Andra og Birtu fékk ég bleikar flauelisbuxur og bleikan bakpoka sem er grislingur, frá Þorvaldi, Victori og Klöru Rún fékk ég bók um leikföngin sem lifnuðu við. Frá Sunnevu og Óskari Orra fékk ég bol og veski sem er hestur, frá Önnu Dögg fékk ég náttkjól með hestamynd, útsaumsdót, belti, bleik hjörtu til að hengja upp í herberginu mínu og pony hest og frá Sigrúnu og Berki fékk ég litlar bækur í tungli með spiladós.
Já, þetta er ekkert smáræði sko, nú í gær vorum við bara heima að dóla okkur og fórum svo í jólaboð til Auðar ömmu en þar voru allir afkomendur hennar nema Konný og co, og það var voða gaman og góður matur. Nú svo skelltum við okkur út í Skerjafjörð til Huldu og Gaua sem er systursonur ömmu Steinu en þau voru með jólaboðið í þeirri ætt og okkur var boðið, en það varð hálf endasleppt því í fyrsta lagi virðist fólk stoppa orðið svo stutt í jólaboðum (mamma segir að það sé alveg búið að sitja langt fram eftir kvöldi og spila oþh.) og svo var ég að sýna smá fimleika og ætlaði að stökkva niður af stól en flæktist eitthvað í áklæðinu á stólnum og magalenti frekar illa. Ég fann svo mikið til að ég grét bara “komum heim, komum heim” svo mamma og pabbi sáu að þau yrðu bara að kveðja og fara með mig heim og keyra ömmu Steinu í leiðinni. Sem við og gerðum og svo sofnaði ég í bílnum á leiðinni heim og svaf til morguns.
En núna er ég að horfa á barnaefnið og við dólum okkur eitthvað frameftir degi en svo koma Auður amma og Siggi afi, Edda amma og amma Steina öll í mat til okkar í kvöld og við ætlum að borða reyktan hana, namm namm.
Þangað til næst, ykkar Ástrós Mirra.
Kristínu Jónu 28.12.2004 00:00:00 Amma á afmæli
Hún Auður amma mína á afmæli í dag, til hamingju amma mín, þú ert alltaf jafn ungleg og sæt og fín.
Ég varð fyrir frekar slæmri lífsreynslu í dag, þannig var að ég var heima með pabba mínum af því að ég átti að fara til tannlæknis kl. 11 og mömmu og pabba fannst ekki taka því að vera að fara með mig á leikskólann og sækja mig aftur og fara aftur osfrv. þannig að ég fékk að vera heima. Það gekk reyndar mjög vel hjá tannlækninum, þó var ég með vísir að skemmd sem þarf að laga og hann boraði smá í dag en ég á að koma aftur í mars og láta laga þetta almennilega og svo kom í ljós að ég er með víxlbit sem þarf að laga þegar ég verð 5 eða 6 ára, alla vega áður en fullorðinstennurnar fara að koma því þær elta barnatennurnar.
En sem sagt ég var að horfa á barnaefni á Stöð 2 og pabbi var í tölvunni þegar byrjar ný mynd (Fear Factor) og ég fór bara að horfa og þarna allt í einu er kona sett ofan í kistu og 400 tarantúllur settar ofan á hana og vitiði hvað, ég trylltist og pabba brá rosalega og hann er svo reiður út í Stöð 2 að vera með svona myndir að degi til, sérstaklega þar sem ég er búin að vera með kóngulær á heilanum í allan dag og get ekki farið að sofa núna því ég sé kóngulær alls staðar. Ég gat ekki setið í bílstólnum mínum í dag, því mér fannst vera kóngulær undir mér. Ég er greinilega mjög hrædd við þær en mamma er búin að reyna að segja mér að í fyrsta lagi eru eiginlega engar kóngulær á Íslandi og í öðru lagi eru þær allar sofandi yfir veturinn, í þriðja lagi eru þær hræddar við þvottaefni svo þær koma aldrei nálægt fötum eða rúmfötum sem hafa verið þvegin í þvottavél með þvottaefni. En ég er samt hrædd við þær og verð að kúra hjá pabba meðan mamma skrifar þetta því ég þori ekki að vera ein í herberginu mínu.
Djö…. Stöð 2 að gera mér þetta, nú heldur mamma að ég verði með fóbíu fyrir kóngulóm eins og hún er með fyrir flugum og hún sem var að vona að ég slyppi við allt svoleiðis því það er sko ekki skemmtilegt að vera fullorðinn og vita að maður eigi ekki að vera hræddur við eitthvað en samt vera skíthræddur við það.
Jæja þangað til næst, ykkar Ástrós Mirra
Kristínu Jónu 31.12.2004 00:00:00 Gleðilegt ár
Ég er lasin, var lasin í gærmorgun þegar mamma fór í vinnu, ég var nú heppin að pabbi var heima svo þetta var ekkert mál, en ég er samt svolítið mikið lasin, var komin með 39,9 í gærkvöldi og mamma og pabbi með smá áhyggjur af mér og svo er ég svolítið ljósfælin líka, hljómar ekki vel. Ég er með svona barkakenndan hósta og held stundum að það sé að koma gubb uppúr mér en það hefur samt ekki gerst.
Ég fékk panaodil í morgun og mömmu finnst ég skárri núna, vaknaði reyndar um 6 leytið og enduðum fram úr fyrir kl. 7 ég og mamma. Ég verð alla vega ekki úti í kvöld en vonandi að við getum farið í mat til Klöru og Sigga og ég horft á flugeldana út um gluggann. Svo uppgötvaði mamma í morgun að það gleymdist að sækja töskuna mína á leikskólann en við erum samt með útigallann hér heima svo þetta reddast nú alveg.
Í hitteðfyrra á gamlárskvöld var ég alveg skíthrædd við hávaðann frá flugeldunum og í fyrra svaf ég yfir skothríðinni en ég fór um daginn með mömmu og pabba að sjá flugeldasýninguna hjá Hjálparsveitinni í Hafnarfirði og mér fannst það æðislegt svo það væri nú leiðinlegt ef ég myndi missa af þessu gamlárskvöldi, en við sjáum bara til, hver klukkustund getur skipt máli og hitinn gæti lækkað þegar líða fer á daginn.
Við vonum það besta alla vega.
Vitiði að í gær þegar mamma kom heim úr vinnu þá var hún eitthvað slöpp og ég var sárlasin og við lágum saman í mömmurúmi og þá eignaðist ég nýjan vin. Já hann heitir jólaálfur og er vísifingurinn hennar mömmu, hann er mjög skemmtilegur og við spjöllum mikið saman, mér finnst gaman að segja honum frá ýmsum hlutum sem hann veit ekki og hann er alltaf að spyrja mig að öllu og ég reyni að svara honum eftir bestu getu. Jólaálfurinn þekkir pabba minn ekki mikið, alla vega var hann ótrúlega hissa að sjá hvað hann var að gera í eldhúsinu í gærkvöldi og svo er hann líka að spá í hvort hann megi koma með til Kanarí, ég veit ekki alveg hvort jólaálfar geti verið á Kanarí því þar er svo heitt og jólin verða búin þegar við förum. Þið munið, við förum 11. janúar og verðum í tvær vikur. Ég hlakka svo til, við mamma vorum aðeins að ræða þetta í gær og mér skilst að þarna sé fuglagarður og dýragarður og ábyggilega margt fleira skemmtilegt.
Jæja þangað til næst.
Gleðilegt nýtt ár, ykkar Ástrós Mirra