Mirrublogg árið 2003

Mirrublogg árið 2003

1.3.2003 00:00:00 Mars 2003
MARS 2003
Jæja gott fólk þá er ég búin að fara til Vestmannaeyja að heimsækja Ömmu Steinu, Konný og stelpurnar, kisurnar, fuglinn, músina og fiskana.
Það var mjög gaman, ég var voða góð í skipinu og svaf mestallan tímann. Var reyndar alltaf af spyrja Kollu frænku (sem var með okkur) hvað klukkan væri, en svo þóttist hún vera sofnuð og þá hætti ég.
Mér fannst ofsalega gaman að elta kettina hennar Konnýjar og ef þeir gegndu mér ekki þá sagði ég ‘Komdu strax, annars kemur Gauti’ en það er maður dagmömmunnar og hún notar hann svolítið á okkur og að sjálfsögðu geri ég það líka. En skrítið kettirnir voru ekkert hræddir við Gauta.
Mér fannst líka gott að kúra hjá Ömmu Steinu og rétt opnaði augun áður en ég þaut yfir í hennar herbergi og skreið uppí rúm til hennar.
Svo fékk ég að vera að leika á leikskólanum hennar úti með krökkunum.
Og það minnir mig á að ég er búin að fá leikskólapláss á leikskólanum Smáralundi og byrja líklega 1. júní nk. það verður ábyggilega voða gaman.
Bráðum eru mamma og pabbi að fara til Þýskalands að heimsækja Ingu vinkonu mömmu en það er víst af því að mamma er svo heppinn að verða fertug, og þá ætla ég að vera hjá Auði ömmu og hún ætlar að leyfa mér að fara út á gæsluvöll ef veðrið verður gott. Það verður líka gaman en ég veit að aumingja mamma og pabbi eiga eftir að sakna mín svo mikið að þessi ferð verður ekki nærri nógu skemmtileg. En ég ætla að skemmta mér vel hjá Auði ömmu og Sigga afa.
En meira seinna.

Kristínu Jónu 1.4.2003 00:00:00 BYRJUN APRÍL 2003

Jæja gott fólk, þá er komið að því, mamma og pabbi fara til Þýskalands á morgun og ég til Auðar ömmu í pössun. Mamma er að byrja að stressast upp og þess vegna situr hún og dundar við að breyta myndum í photoshop.
Þessi mynd hér af mér og Önnu Dögg frænku minni er nefnilega mixuð hún var aðeins tekin af Önnu Dögg en mamma bætti mér inná.

Ég ætla að vera voða góð og hjálpa Auði ömmu að passa litlu fuglana og mamma og pabbi ætla líka að vera voða góð og reyna að sakna mín ekki mikið.
Inga er búin að plana heilmikið fyrir mömmu og pabba, þau ætla að fara á Starlight Express söngleik á hjólaskautum og þau ætla að fara niður í Mosedalinn og skoða hann og gista eina nótt, síðan á að vera sérstakur baðdekurdagur þann 7. apríl og þau ætla að fara í sundlaug með alls konar laugum og gufuböðum oþh. sem verður ábyggilega æðislegt.

30.4.2003 00:00:00 APRÍL 2003
Jæja gott fólk, þá eru mamma og pabbi auðvitað löngu komin frá Þýskalandi og ég var nú ánægð að sjá þau aftur, ég hef aðeins verið að nefna það við mömmu þegar hún fer í vinnu að hún komi alltaf aftur og mamma segir það rétt, ‘Mamma kemur alltaf aftur’.

Mér fannst mjög gaman hjá Auði ömmu enda fór hún út á gæsló með mig næstum á hverjum degi, en mér finnst samt ofsalega gaman að mamma og pabbi séu komin, og nú sérstaklega þegar við erum búin að kaupa okkur sumarbústað á Þingvöllum. Þar finnst mér gaman að vera því ég get verið svo mikið úti að leika, en pabbi þarf að gera betri sandkassa fyrir mig.
Ég fór í gær með mömmu að skoða leikskólann sem ég fer á í júní nk. og við skoðuðum ‘Rauðu deildina’ og svo áttu krakkarnir að fara út að leika og þá sagði ég við mömmu ‘Mamma, viltu skreppa?’ því mig langaði svo að fá að vera með. Mamma leyfði mér að leika með þeim í hálftíma eða svo en ég hefði alveg viljað vera lengur.
Nú er ég farin að gera hluti sem mamma fær ‘Hjartaáfall af’ eins og á föstudaginn þá vorum við mamma að bera dót útí bíl til að taka með uppí bústað og mamma rétti mér eina gardínustöng sem átti að hafa ofan af fyrir mér í tvær ferðir eða svo, en eitthvað nennti ég ekki að burðast með hana niður svo ég fór bara aftur inn og læsti. Já, ég læsti mömmu úti (frammi á stigagangi) og hún panikaði auðvitað.

Hljóp niður og fékk að hringja í pabba (hvað átti hann að gera í vinnunni!) og hann byrjaði að róa mömmu niður og leiðbeindi henni svo hvernig hún gæti brotist inn. (Humh) Og viti menn mamma náði að spenna karminn frá og sá þá lítinn orm hinum megin skælbrosandi og sagði ‘Halló mamma’ en þá hringdi síminn (það var pabbi sem ákvað að hafa ofan af fyrir mér meðan mamma væri að reyna að komast inn) og ég sagði við pabba, ‘Halló pabbi, mamma úti’ og hló.

Já, svona er að vera tveggja og hálfs árs ormur.

Eitt að lokum ég er nefnilega farin að segja svo margt skemmtilegt til dæmis, þá var ég uppá Gjábakka (nýji sumarbústaðurinn okkar) um daginn og var búin að raða upp öllum dýrunum mínum, tók svo bolta og kastaði í dýrin (svona eins og keila) og sagði: ‘Yes’ þegar þau duttu. Svo segi ég mjög oft núna þegar eitthvað er að, ‘Jesús minn’ og fleira í þessum dúr.

Kristínu Jónu 20.5.2003 00:00:00 Þá er stóra stundin að renna upp!
Ég er að byrja á leikskóla í næstu viku, ég byrja í aðlögun þann 28. maí nk. kl. 10 og ég hlakka svo til. Ég er alltaf að segja mömmu að þegar sumarið kemur þá fer ég á leikskóla og nú er sem sagt loksins komið að því. Jibbííí!

 

Svo er alltaf voða gaman núna að fara í sveitina um helgar og þar finnst mér gott að vera, Már afi og Skuggi komu um síðustu helgi því við buðum þeim í grill af þvi að Mári (eins og ég kalla hann núna) varð löggiltur þann 19. maí sl.

Ég er nú alltaf að gera voða skemmtilega hluti núna og mamma og pabbi eiga oft erfitt með sig. Það var td. um daginn eftir að amma Steina var í heimsókn hjá okkur þá kem ég fram til mömmu og er með tússpennahettu uppí mér og dreg hana út og blæs og mamma spyr mig hvað ég sé eiginlega að gera og ég svaraði að bragði Ég er að reykja og mamma spurði aftur Hvað sagðirðu? og ég Ég er að reykja, þá heyrðist í pabba Við verðum nú að fara að tala við þessa dagmömmu okkar en mamma sagði að þetta gæti ekki komið þaðan því hún reykti ekki, svo mamma spurði mig aftur Hver gerir svona og ég svaraði að vörmu Amma Steina og var svo ánægð með mig, en mamma sagði að það væri ekkert fínt að reykja svo ég skildi ekkert vera að herma eftir ömmu Steinu.

Nú nú, svo var það hérna um daginn að ég var að kúra á milli mömmu og pabba í rúminu og sneri mér að mömmu og spurði Mamma, ertu stelpa eða strákur? og mamma svaraði að hún væri stelpa, þá sneri ég mér að pabba og spurði Pabbi ertu kelling? og aumingja pabbi gat ekki svarað neinu, ég held hann sé svolítið móðgaður útí mig.

Svona er þetta þegar maður er 2ja og hálfs, eins og akkúrat núna þegar mamma er að skrifa þetta þá er ég í baði og mamma kom aðeins að kíkja á mig og þá pissaði ég í baðið en um leið og bunan kom fattaði ég hvað var að gerast og sagði Úps, fyrirgefðu þetta var óvart!

það er svo greinilegt að ég er stundum bara að gleyma mér en það er svo margt að muna og ég geri eins vel og ég get.

Jæja um næstu helgi förum við í bústaðinn okkar og ætlum að vera með júróvisionpartý, ég, mamma, pabbi, Már afi og kannski Anna Dögg því ef mamma hennar og pabbi þurfa að setja hana í pössun af því að þau eru að flytja.

En svo ætlum við að skreppa til Vestmannaeyja um hvítasunnuhelgina og halda uppá 60 ára afmæli ömmu Steinu og kíkja í leiðinni á Konný og fjölskyldu og aðra sem við þekkjum þar.

2.6.2003 00:00:00

Sumarfríið byrjað
Jæja, þá er sumarfríið byrjað.

Ég fór með pabba og Söru Rún frænku í sveitina um helgina og það var  æðislega gaman. Við Sara lékum okkur svo mikið saman og fórum svo að  veiða með pabba (það eru myndir af því á myndasíðunni) og Sara Rún veiddi  tvo en ég festi í botninum.

Svo komu Maddý amma og Svavar afi í heimsókn með stóran nýjan sandkassa  sem pabbi verður að setja saman fyrir mig og ég og Svavar afi fórum að rífast, ég sagði já og hann sagði nei, og þá ætlaði ég bara að rífa  af honum hækjuna, en hann var sterkari en ég.

Svo grilluðum við saman og pabbi sagði að ég og Sara hefðum borðað mjög mikið og verið duglegar.

 

Svo á sunnudaginn þá fórum við í sund og ég var mun duglegri en áður  og buslaði ein í stóru lauginni og skutlaði mér ofan á dýnu og það var  mjög gaman í sundi. Þegar við komum til baka voru mamma, Konný, Silja Ýr, Kolla, Már afi og Skuggi komin í bústaðinn en þau voru búin að vera  að pakka niður hjá Má afa því hann ætlar að flytja til Vestmannaeyja í haust.

 

Ég fór náttúrulega beint í fangið á mömmu og svo að ærslast með Skugga.

Þetta var bara góður dagur og góð helgi nema það ringdi of mikið.

 

Núna erum við mamma bara að dóla okkur því við erum komnar í sumarfrí  en pabbi þarf að vinna þessa viku svo fer hann líka í frí, við ætlum  eitthvað í tjaldútilegu og svo að vera á Gjábakka.

 

Við ætlum líka að heimsækja vini sem við höfum ekki hitt lengi og bara  gera margt skemmtilegt.

 

Kannski sjáum við þig!

 

Kveðja Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 17.6.2003 00:00:00 17. júní 2003
Halló halló!

 

Ég er orðin leikskólastelpa númer 1. Byrjaði í aðlögun í endaðan maí  og það er búið að ganga ágætlega. Mamma heldur að það hefði gengið mun  betur fyrir hálfu ári en nú, því ég er farin að hafa svo mikið vit á  þessu núna.

 

En við semsagt byrjuðum að kíkja í klukkutíma saman ég og mamma fyrsta daginn og svo kom einn frídagur og svo kíktum við aftur í klukkutíma.

Á mánudeginum á eftir komum við í morgunmat og það gekk mjög vel og svo fór ég út að leika með krökkunum og mamma beið á meðan. Daginn þar á eftir komum við aftur í morgunmat og svo skrapp mamma frá og það var líka bara allt í lagi. Síðan kom leikskóladagur í Hafnarfirði og þá varð mamma að koma með mér og öllum öðrum leikskólabörnum í Hafnarfirði í skrúðgöngu uppá Víðistaðatún og þar var sungið og Solla stirða kom

og skemmti okkur og að endingu var grillað ofaní allt liðið. Þetta var mjög gaman og svo fór ég á leikskólann og mamma í vinnu. Og næsta dag á eftir prófaði mamma að fara í vinnu strax og sótti mig bara snemma og ég var pínulítið lítil í mér en samt gekk þetta vel.

 

Í vikunni þar á eftir átti allt að vera í lagi en þá vildi ég ekki að mamma færi og hún þurfti að beita mig smá fortölum áður en ég samþykkti það og svo var ég af og til allan daginn að gráta aðeins og kalla á mömmu og þegar hún kom svo og sótti mig brast ég í mikinn taugaveiklunargrát, og svona var þetta eiginlega alla síðustu viku.

 

En í gær sagði ég bara við mömmu þegar hún var búin að velja púsl með mér Bless mamma, farðu að vinna og ég var alveg til 15.30  í leikskólanum og þegar mamma kom að sækja mig þá var ég enn eða aftur  að púsla og tók ekkert eftir þegar mamma heilsaði, það var ekki fyrr  en Klara leikskólafélagi minn kom og pikkaði í mig og sagði Mamma  þín er komin að ég leit við og hrópaði Mamma, mamma mín  ertu komin?og svo hljóp ég til hennar mjög glöð í bragði og grét  ekki neitt. Og þegar við komum svo heim þá var ég í svo góðu skapi og við áttum svo góðan dag saman.

 

Ég er farin að kenna mömmu og pabba borðsiði, það á alltaf að sitja með hendur undir borði þangað til sagt erGjörið svo vel og þá má byrja að borða og síðan þakkar maður fyrir matinn þegar búið er að borða og við gerum það með táknmáli, það finnst mömmu svo flott.

Ég er sem sagt byrjuð að kenna mömmu og pabba táknmál.

 

En í dag er 17. júní og við ætlum að skella okkur í skrúðgöngu á eftir því það er EKKI rigning og ég held það verði bara mjög gaman. Við ætlum að fara með Klöru, Kristófer og Alexander og Kollu frænku.

 

Þá segi ég bara bless bless þangað til næst

 

Kristínu Jónu 25.6.2003 00:00:00 Dugleg á leikskólanum
Hæ öll sömul!

 

Jæja nú er ég orðin mjög dugleg í leikskólanum og segi bara bless við  mömmu í dyrunum og hleyp til fóstranna. En ég segi við mömmu: Ég  var að kalla á þig og þá segir mamma: Já, og svo kom ég!  og þá brosi ég og segi: Já, svo komstu.Þannig að þetta er að verða miklu betra.

 

Eeeen þá er komið að sumarfríi, ég fer í frí 30. júní nk. og mamma ætlar með mér strax en svo kemur pabbi í frí viku seinna og þá ætlum við að trylla um landið og fara í útilegur og sumarbústaðinn okkar og hafa það mjög gott öll saman.

 

Ég hef nú reyndar ekki meira að segja í bili, nema kannski Anna Dögg til hamingju með nýja húsið þitt og Amma Steina velkomin heim úr miðjarðarhafssiglingunni.

 

Heyrumst seinna.

Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 25.6.2003 00:00:00 Í miðju sumarfríi
Jæja þá erum við í miðju sumarfríi og erum búin að hafa það mjög gott.

Þó er mest búið að rigna síðan pabbi byrjaði í fríinu en við höldum  í vonina um að það verði gott í næstu viku.

 

Við fórum í eina útilegu í Varmaland um þarsíðustu helgi og ætluðum  svo áfram norður og halda áfram í útilegu en veðrið var leiðinlegt alls  staðar svo við drifum okkur bara á Gjábakka og erum búin að vera þar  síðan nema á fimmtudaginn, þá skruppum við líka í bæinn og ég fékk að  fara í tívolí, það var mjög gaman.

 

Svo fórum við aftur á Gjábakka og það var voða gott veður á föstudaginn,  mamma og pabbi voru að vinna í lóðinni en mér leiddist og þá ákváðum við að sækja Önnu Dögg og það var vel þegið því mamma hennar og pabbi  eru að klára að mála húsið sitt svo þau geti farið að flytja, en okkur  Önnu Dögg kom ekkert allt of vel saman þessa helgi en samt þykir okkur voða vænt hvorri um aðra og segjum ótt og títt Þú ert frænka mín og vinkona . En þó það hafi verið smávægileg ósætti þá var líka  gaman hjá okkur, við vorum að leika í ævintýralandinu mínu, sem er búið  að færa og setja upp þennan líka forláta sandkassa sem Maddý amma og

Svavar afi gáfu mér og þar er voða gaman að leika sér. Við Anna Dögg  lékum okkur undir regnhlíf þegar það ringdi sem mest. Svo fórum við  að veiða, og svo fengum við vöfflur og kakó og margt margt fleira.

 

Við fórum líka að heimsækja Auði ömmu og Sigga afa í þeirra sveit og þau voru með hann Pétur með sér, þið sjáið á myndunum hver hann er, en ég er voða hrifin af honum en Anna Dögg var nú að hitta hann í fyrsta sinn svo það er nú ekki að marka.

 

Svo komu Maddý amma og Svavar afi í heimsókn í dag og þau voru pínulítinn  hvolp með sér sem heitir Pjakkur og þið getið ímyndað ykkur hvort ég  hafi ekki verið ánægð að hitta hann, því ég hreinlega elska dýr, og  vitiði hvað hann er með Tippi af því að hann er stákur og

þarf að pissa með því.

 

Jæja gott fólk við ætlum nú að drífa okkur aftur á morgun í sveitina því Siggi afi var að gefa mömmu og pabba meiri tré svo það er eins gott að þau haldi áfram að gróðursetja, þetta verður nú frábært eftir nokkur ár ef allt vex hjá þeim.

 

Nú þið sem eruð á ferðinni á Þingvelli endilega kíkið í heimsókn til  okkar því við verðum á Gjábakka alla vega fram yfir næstu helgi en svo ætlum við í útilegu með systkynunum hennar mömmu og þeirra krökkum.

 

Sjáumst.

Kristínu Jónu 10.8.2003 00:00:00 Sumarfríið búið
Jæja gott fólk, þá er sumarfríið okkar búið og verslunarmannahelgin líka og einhvern veginn finnst manni að sumarið sé þá á enda en auðvitað er ekki svo því það getur oft verið gott í ágúst.

Við höfðum það voða gott í fríinu okkar og fórum svo um verslunarmannahelgina uppí Borgarfjörð í Undralandið hennar Sigrúnar frænku og þar voru þau með hjólhýsið sitt, ferðabílinn og auðvitað sjónvarpsbílinn sem búið er að mála eina hliðina á, svo tjölduðum við þannig að þarna voru samankomnar allar gerðir af útilegu-, ferða-, hjólahýsabílum.

Kolla frænka kom með okkur og svaf í hinu herberginu í tjaldinu okkar (það eru ekki allir með tjöld með tveimur herbergjum eða hvað?). Það var eins og við mátti búast í Borgarfirðinum glampandi sól og blíða alla helgina. Kolla og Gunni komu á laugardaginn og sváfu tvær nætur

í hjólhýsinu en Sigrún og Börkur voru í ferðabílnum. Við vorum eins og einhverjir Sígaunar og allir bílar sem keyrðu framhjá stoppuðu og horfðu yfir svæðið hjá okkur, við höldum að fólkið hafi beðið eftir að sjá okkur koma reykjandi pípur út úr bílunum eins og einhverjir hippar.

Þarna eru hestar sem koma alltaf og sníkja brauð, mjög fallegir hestar og a sjálfsögðu er ég ekki hrædd við þá frekar en önnur dýr, ég fór meira að segja með hendina uppí einn þeirra. (Mamma er nú ekki ánægð með það, því hún er smeyk við hesta)

Nú þarna komu þrír hundar að heimsækja okkur svo ég hitti fullt af dýrum, við fórum í sund í Borgarnesi, bíltúr öll saman á 8 manna bílnum og borðuðum þessa líka fínu kjötsúpu sem Börkur sauð og bauð uppá.

Við mamma mælum með að þetta verði árviss viðburður kjötsúpa hjá Sigrúnu og Berki á laugardeginum um verslunarmannahelgina.

En nú er ég byrjuð aftur í leikskólanum og það er alveg ágætt, ég reyndar sagði mömmu að ég gæti ekki byrjað aftur því það væri svo hættulegt þar en mamma segir að það sé ekki rétt svo ég verð víst að fara en ég er alltaf að kalla á mömmu mína og svo kemur hún og sækir mig.

 

Og aðalfréttin, pabbi minn er farinn að vinna við Kárahnjúkavirkjun og verður í burtu frá okkur í 11 daga og nú eru búnir tveir og við mamma erum strax farnar að sakna hans.

 

Biðjum að heilsa ykkur öllum og heyrumst seinna.

Kveðja Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 20.8.2003 00:00:00 Pabbi á Kárahnjúkum
Jæja, jæja, jæja. Þá er nú haustið að nálgast og pabbi minn er enn að vinna í Kárahnjúkavirkjun svo ég sé hann ekki fyrr en eftir marga daga. En hann hefur það ágætt þvi hann er ekki starfsmaður Ítalska fyrirtækisins.

En af mér er það að frétta að við mamma erum búnar að fara uppí Borgarfjörð að hitta Ingu, Werner og Rut en þau voru í sumarbústað þar og það var mjög gaman, við fórum í heita pottinn og ég var ekki alveg að fatta það að ég skoppaði ekki uppúr kútalaus eins og ég er vön og mamma og Inga voru að reyna að biðja mig að kalla Tilbúin áður en ég hoppaði svo ég hreinlega myndi ekki drukkna, en þetta bjargaðist allt saman. Reyndar hafði Inga orð á þvi að ég væri ansi kraftmikil og mamma neitar því nú ekki.

En svo fór ég lika út að leika með Werner og mamma var eitthvað að reyna að segja mér að hann talaði útlensku en ég sagði svo ekki vera, því ég talaði við hann íslensku og hann svarar þvi alveg, og við skildum hvort annað ágætlega.

Nú svo kom pabbi heim í smá fri og við skruppum á Menningarnótt en við vorum samt ekkert um nótt, við fórum eftir hádegið og vorum til kl. 17, sáum afa og Hreim og Brúðubílinn og flugsýningu. Svo skelltum við okkur uppí bústað og höfðum það rólegt og notarlegt um kvöldið.

Á Sunnudeginum vorum við að vinna í garðinum á Gjábakka og svo komu Inga og Werner og við grilluðum frábært lambakjöt og sátum úti i góða veðrinu og borðunum. En þegar allir voru búnir að borða þá kom ég og setti hendur á mjaðmir og sagði Krakkar, það er kominn matur.

og þá áttu þau að koma niðrí sandkassa og borða hjá mér en ég bauð uppá súpu og mjólk. En ég gaf bara mömmu, pabba og Werner að borða og þegar Inga spurði hvort hún ætti ekkert að fá sagði ég Nei og það var ekki rætt meira.

Við mamma erum búnar að flandra svolítið meðað pabbi er ekki heima, og fórum til dæmis í dag og löbbuðum niður laugarveginn með Silju Ýr og enduðum á að fá okkur að borða á Pizza Hut. En í gær fórum við í heimsókn til Hugrúnar og Baldurs í Mosó og svo er mamma eitthvað að pæla í að við skellum okkur í húsdýragarðinn áður en það verður of kalt.

Og að lokum ætlum við að skemmta okkur vel uppá Reynisvatni á laugardaginn, þvi starfsmannafélagði hjá mömmu stendur fyrir fjölskyldudegi og þar verður hægt að veiða, fara á bát, hoppukastali, andlitsmálum, leikir og grillaðar pulsur, jibbý þetta verður nú ábyggilega gaman, ég segi ykkur frá þvi seinna.

Kristínu Jónu 23.8.2003 00:00:00 Á bókasafninu
Í gær þá fórum við mamma í göngutúr í góða veðrinu og ætluðum að kaupa okkur ís niðri miðbæ (Hafnarfjarðar) og setjast á bekk og hafa það huggulegt, en viti menn það er enginn sem selur ís í vél nálægt miðbænum, svo við löbbuðum okkur á bókasafnið og mamma var eitthvað að skoða bækur og sér allt í einu að ég er að sýna ungri stúlku myndir í bók og við erum eitthvað að tala saman.

Svo kemur mamma nær og þá heyrir hún að þessi unga stúlka og vinkona hennar eru enskar háskólastelpur og þær voru að skoða barnabækurnar til að sjá hvað helstu hlutir hétu á íslensku (sniðugar stelpur) og þær spjölluðu heilmikið við mig og mömmu þær sögðu við mömmu She is adorable og spurðu svo hvað ég héti en ég vildi ekki segja þeim það svo mamma gerði það og svo þýddi mamma nafnið mitt á ensku og þeim fannst það passa mjög vel við og sögðu að það væri greinilegt að ég væri mikið elskuð.

Eins og ég vissi það ekki sjálf en mamma sagði að það er gaman þegar einhver annar segir manni það.

Kristínu Jónu 2.9.2003 00:00:00 Andlitsmálning
2. september 2003,

Jæja þá er pabbi minn farinn eina ferðina enn á Kárahnjúka og við mamma bara tvær heima. Núna er mamma búin að klára heimasíðuna mína og þarf aðeins bara að bæta við myndum og texta eftir því sem við á.

Við ætlum að skreppa til Eyja á fimmtudaginn og vera yfir helgina og kannski ég fái að bjarga einhverjum lundapysjum eða alla vega sleppa þeim sem einhver annar hefur bjargað. Ég segist samt vera að fara að bjarga fuglunum svo ég verð að fá að gera eitthvað.

Það var rosa gaman á fjölskyldudeginum í mömmu vinnu og ég hoppaði og hoppaði í hoppukastalnum og svo vorum við mamma málaðar eins og kisur og Anna Dögg eins og kanína. Mamma gleymdi svo að hún væri máluð og ætlaði að fara í búð á leiðinni heim en skildi ekkert í hvað allir horfðu á hana, svo fattaði hún það og fór þá bara í lúgusjoppu til að kaupa eitthvað handa okkur.

Við fórum í Sandgerði um síðustu helgi því þar voru einhverjir afmælisdagar eða Sandgerðishátíð og það var voða gaman sérstaklega þegar Solla stirða og Maggi mjói komu og meira að segja mömmu og pabba fannst þau ofboðslega skemmtileg. Svo lentum við í rosa grillveislu hjá Sigrúnu og Berki og fórum ekki heim fyrr en kl. 9 um kvöldið.

Vitiði hvað ég sagði við mömmu um daginn? Við vorum eitthvað að rökræða og þá setti ég hendur á mjaðmir og sagði: En það er ég sem ræð og þá hló mamma og sagði Nú er það, ég hélt það væri ég og þá svaraði ég: Nei það er ÉG sem ræðog hafiði það.

 

Jæja þetta er nóg í bili, bið að heilsa ykkur og endilega skrifið í nýju gestabókina mína.

Að bursta
3. september 2003,

Mamma má til að segja ykkur eina sögu af mér, það var um daginn þegar ég átti að bursta tennurnar og vildi það ekki að mamma fór að segja mér söguna þegar hún fékk Karíus og Baktus í tennurnar sínar því hún nennti ekki að bursta þær og hún þurfti að fara til tannlæknis sem tók Karíus og Baktus og sagði henni að hún yrði að vera dugleg að bursta tennurnar í framtíðinni því Karíus og Baktus eru hræddir við tannburstann og tannkremið. Ég var alveg agndofa yfir þessari sögu og sagði Ég ætla að segja pabba þetta þegar hann kemur heim .

Svo kom pabbi heim og ég og mamma fórum að segja honum þessa sögu og þegar hún var búin spurði pabbi mig hvað það væri sem við ættum að muna og ég svaraði að vörmu Passa að mamma bursti tennurnar sínar .

Já, þannig fór sá boðskapurinn.

7.9.2003 00:00:00 Eyjaferð
Jæja gott fólk þá erum við mamma komnar frá Vestmannaeyjum og fengum við ágæta ferð með Herjólfi í dag, en það var hræðilegt í sjóinn á fimmtudaginn og ég meira að segja gubbaði í box en svo sofnaði ég og mamma er að drepast í vöðvabólgu eftir að liggja illa meðan hún passaði að ég væri ekki á fleygiferð í kojunni. En sem sagt ferðin í dag var fín og við sváfum alla leiðina.
Ég er búin að fara og skoða hjá Már afa og það er voða fínt hjá honum og hann og Skuggi bara ánægðir í Vestmannaeyjum. Amma Steina var líka voða glöð að fá okkur í heimsókn ásamt Konný og stelpunum. Ég veit ekki alveg hvort Klói og Krúsi hafi verið ánægðir að sjá mig en ég var mjög ánægð að sjá þá og elti útum allt hús. Svo bauð Konný mér ís og ég var voða ánægð og kom inn og reif mig úr úlpunni og svo ætlaði hún að gefa mér ís þá sagði ég ‘Nei þú sagðir Mýs’ og þá var ég að meina hamsturinn hennar, en ég kalla hann alltaf Músina og er greinilega farin að fatta fleirtöluna.

Jæja svo átti að fara á Pysjuveiðar í gærkvöldi en það var of seint fyrir mig svo Konný ætlaði bara með Söru í staðinn en Sara var að sofna og sagði bara ‘Mamma ég get ekki vaknað’ svo Konný og Silja Ýr fóru bara tvær svo ég gæti fengið að sleppa þeim í dag. Sem við og gerðum og ég var voða stolt að hafa bjargað þeim.

Og nú erum við mamma sem sagt komnar heim og ég er að fara að sofa og mamma er að skrifa þessa sögu áður en hún fer líka að sofa því nú er bara ný vinnuvika framundan.
Bið að heilsa ykkur í bili

Ástrós Mirra flakkari.

Kristínu Jónu 10.9.2003 00:00:00 Augnlæknir

Ég fór til augnlæknis í morgun á alveg frábæra augnlæknastofu þar sem bæði var mikið dót og þar var nagrís sem heitir Dúlla og fiskabúr með fiskum og froskum og allt andrúmsloft alveg frábært svo við mamma mælum alveg hiklaust með þessari stofu. En…. niðurstaðan úr þessari skoðun er sú að ég er ansi fjarsýn og er með +3.xx og +4 svo ég þarf líklega að fá gleraugu en augnlæknirinn sagði að fyrst ég er ekki orðin 3ja ára þá megi mamma (og pabbi) aðeins meta það sjálf hvort ég fái gleraugu og af því að mamma var frekar óviðbúin því að þetta gæti orðið niðurstaðan þá afþakkaði hún það í dag, en ætlar að fylgjast vel með mér og ákveða sig seinna.
Svo ég er ekki svona mikill klaufi, ég sé bara svona illa nálægt mér, og nú er mamma að deyja úr samviskubiti því hún hefur oft skammað mig mikið fyrir að hella niður og sagði að ég væri kærulaus og þegar ég fyrirgefðu þetta var óvart þá sagði mamma að það væri ekki óvart sem væri alltaf að gerast. En ég á nú ábyggilega ekki eftir að núa mömmu þessu um nasir heldur vona ég að við finnum út hvað er best fyrir mig.
Kveðja Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 15.9.2003 00:00:00 Pjakkur
Þá er búið að ákveða að ég á að fá gleraugu, mamma er búin að panta tíma og við förum aftur til læknisins á fimmtudaginn og mátum gleraugu og mælum nákvæmar hversu sterk ég þarf. En mamma er búin að fatta það að ég ekki endilega svona mikill klaufi eins og hún hélt því kannski er þetta bara af því að ég sé svo illa. En hvað um það, við ætlum nú ekkert að vera að velta því allt of mikið fyrir okkur, þetta er bara eitt af því sem koma skal og ég verð ábyggilega alveg ofboðslega sæt með gleraugu.

Við áttum ansi góða helgi núna, í fyrsta lagi var pabbi hjá okkur og svo fórum við að Ikeast á laugardaginn og mamma og pabbi eru aðeins búin að vera að laga til í svefnherberginu sínu, og svo var okkur boðið í óvissuferð á sunnudaginn af ömmu Maddý og Svavari afa og sú óvissuferð endaði í kaffihlaðborði á veitingarstaðnum Hafið bláa sem staðsettur er á Óseyrarbrúnni. Fullorðna fólkinu fannst mjög fínt að fá sér að borða en ég beið helst eftir því að komast aftur út í bíl til Pjakks og eins fórum við niður í fjöru að leika okkur í sandinum eins og sést á myndinni hér að ofan.

En ég og Pjakkur erum voða miklir vinir og þegar ég kom til ömmu Maddý um daginn í stígvélum þá kom Pjakkurinn hlaupandi og stal öðru stígvélinu mínu og vitiði hvað ég held að stígvélið sé stærra en hann og hann hljóp með stígvélið út á svalir og var voða rogginn með sig á eftir.

Ég var ekkert reið við hann en þurfti að geyma stígvélin uppá stofuborði svo hann léti þau í friði. Svo eftir óvissuferðina þá tók ég Pjakk úr búrinu og mamma sá það og leit aftur í til mín og ætlaði að fara að skamma mig þá sagði ég: ‘Mamma engar áhyggjur’

 

Bless í bili

Ástrós Mirra pjakkur

 

Kristínu Jónu 20.9.2003 00:00:00 Gleraugun
Halló gott fólk. Þá er það ákveðið ég fæ gleraugu í næstu viku við mamma erum búnar að velja þau og nú á að setja glerið í oþh.

Þegar mamma var að láta mig máta þá leit ég í spegil og sagði Alveg eins og Sóley en það er stelpa sem er með mér á leikskólanum.

Augnlæknirinn sagði að ég tæki gleraugunum mjög fagnandi (hvað sem það þýðir, það hljómaði alla vega vel. Svo var ég látin prófa að leika mér með þau og ég var ekkert að rífa þau af mér en það gerði ég við gleraugun sem mamma var að máta á mig þannig að líklega hefur mér fundist þægilegt að horfa í gegnum hin.

Núna er leiðindaveður og Anna Dögg frænka mín er hjá mér og við erum hreinlega búnar að rústa herberginu mínu en við erum svo góðar að mamma nennir nú ekki eyða púðri í að röfla yfir því, svo akkúrat núna vorum við að biðja um blöð til að lita og sitjum undir borðstofuborði

(við erum nefnilega í skólanum) og erum búnar að hella litunum útum allt annars sjáum við ekki hvaða liti við eigum að velja og mamma situr bara kjur og skrifar þetta. Hún nefnilega var að lesa textann ‘Bara í dag’ sem við erum með á síðunni ‘ýmislegt’ svo hún er ósköp róleg núna svo erum við líka að hlusta á skemmtilega barnatónlist og við syngjum allar með.

 

Á morgun fer ég að sjá Línu langsokk í Borgarleikhúsinu og mig hlakkar mikið til. Ég reyndar held að ég sé að fara í heimsókn til hennar en það er alveg sama, ég sá hana nefnilega í sjónvarpinu um daginn og mér leist bara vel á hana, hún virðist vera Prakkari eins og ég.

Ég segi ykkur frá því seinna hvernig var í leikhúsinu.

 

Ykkar Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 20.9.2003 00:00:00 Lína
21. september 2003

 

Hér kemur Lína Langsokkur, Lína það er ég Þetta syngur Lína Langsokkur um í leikritinu um sig og ég fór að sjá í dag. Það var alveg frábært og skemmti ég mér mjög vel í fyrsta sinn í leikhúsi. Ég var voða stillt og sat í fanginu á mömmu allan tímann, langaði reyndar aðeins að standa upp og sitja í sér sæti eins og margir aðrir krakkar en mamma var alveg hörð á því að ég skildi sitja kyrr hjá henni og ég lét það eftir henni. Þetta er mjög skemmtileg og

litskrúðug leiksýning (þetta eru mömmu orð) og mamma skemmti sér mjög vel líka, hún vildi klappa og syngja með en ég sagði nei við hana.

 

Þegar sýningin var búin og við á leiðinni til Auðar ömmu í kaffi, fór mamma aðeins að ræða sýninguna við mig og þá sagði ég og brosti:  Pabbi hennar kom til hennar og þá fór mamma eitthvað að tala um að mamma hennar Línu væri engill á himnum en þá sagði ég:

Nei hún er að vinna og þar var var það komið á hreint.

En sem sagt frábær sýning og ég gef henni 4 stjörnur af 4 mögulegum.

Eitt verð ég að segja ykkur sem gerðist um daginn og mömmu finnst  svo mikið krútt en þannig er að ég á eina stóra Pó og eina litla Pó  og svo á ég eina stóra Lölu og einn lítinn Dipsy og ég var eitthvað að raða saman stóru Pó og litlu Pó og sagði að þessi stóra væri mamma

þessarar litlu og svo raðaði ég saman stóru Lölu og litla Dipsy og þá benti mamma á stóru Lölu og spurði hver er þetta? Og þá svaraði ég:Þetta er Kollan hans Dipsy.

 

Jæja ég ætla að segja góða nótt við ykkur núna og við heyrumst seinna.

Ástrós Mirra Lína Langsokkur Þráinsdóttir

Kristínu Jónu 28.9.2003 00:00:00 Baktus
28. september 2003

 

Ég og Baktus erum miklir vinir. Baktus er páfagaukur sem fæddist heima hjá Auði ömmu og þeir voru tveir Karíus og Baktus, en amma gat ekki verið með alla þessa páfagauka svo hún gaf þá báða. Ég veit ekki hvert Karíus fór en Baktus fór til Klöru frænku og nú erum við að passa hann fyrir hana um óákveðinn tíma. Mamma ætlaði eitthvað að sjá til hvernig ég væri við hann en hún getur verið óhrædd því ég er varla komin framúr þegar ég segi:Má ég heilsa Baktusi?og svo rík ég fram og kyssi hann og kjassa. Svo þegar ég opna búrið hans þá sest hann á handlegginn á mér og við erum voða góðir vinir.

Nú er pabbi minn hættur (allavega í bili) að vinna svona langt í burtu og við mamma erum himinlifandi. Það munar um það hvort maður hafi einn eða tvo til að stjana við sig.

Þegar ég var að fara að sofa í gærkvöldi þá kallaði ég aðeins á mömmu og bað hana að breiða yfir mig sængina mína og þá sagði mamma Góða nótt ástin mín, sjáumst á morgun! Og þá svaraði ég Já, mamma mín sjáumst á morgun eftir að ég er búin að dreyma eitthvað fallegt .

Bless í bili

Ykkar Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 30.9.2003 00:00:00 Komin með gleraugu
SEPTEMBER  2003

 

Hæ aftur, ég vildi bara láta ykkur vita að ég er búin að fá gleraugun mín og ég er sko sætasta stelpan með þau. Og fyrsti klukkutíminn gengur bara vel, og mamma er vongóð, því mér virðist þykja ágætt að hafa þau. En sem sagt vildi bara láta ykkur vita og þið getið

sjálf á myndunum hvað ég er fín.

Kv. Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 9.10.2003 00:00:00 Þokkalega
Nýjasta tiltækið er að segja:Þokkalega og Bara einu sinni enn og svo ekki meir og eru þessar

setningar notaðar óspart núna. En nú er ég búin að vera með gleraugu í rúma viku og það gengur bara vel þó vil ég alltaf aðeins vera að taka þau af mér en mamma segir að Úrsúla (sjóntækjafræðingurinn minn) sagði að ég ætti alltaf að vera með gleraugun nema þegar ég sef.

Ég var nú að byrja að prófa að perla og það gengur bara mjög vel, mamma skilur ekki alveg hvernig þetta er hægt því henni finnast perlurnar svo litlar og hún með svo stóra fingur að þetta fer allt í flækju hjá henni. En mér gengur betur að perla en mömmu.

Við pabbi vorum bara tvö saman um síðustu helgi meðan mamma var í húsmæðraorlofinu í Vestmannaeyjum og það var bara mjög gaman hjá okkur, við fórum með Önnu Dögg í leikfimi á laugardaginn, þar sem eingöngu eru 3 ára börn eða þar um bil. Pabbi tók uppá vídeó til að sýna mömmu og þetta var Þokkalega mikið fjör, og er stefnan tekin á að fara aftur en við komumst líklega ekki næsta laugardag því pabbi er að fara að hjálpa Ásu langömmu að flytja í íbúðina við hliðina á Maddý ömmu.

En nóg í bili, bið að heilsa ykkur Þokkalega

Ástrós Mirra

 

Kristínu Jónu 13.10.2003 00:00:00 Fyrsta slysið
Jæja fyrsta slysið hefur átt sér stað!

Ég datt af hjóli á leikskólanum í morgun og fékk gat á hausinn. Þórunn fóstra hringdi í mömmu og sagði henni að koma svo hún gæti farið með mig uppá heilsugæslu til að láta sauma því ég hefði dottið og fengið gat á hausinn.

Mömmu brá nú svolítið þó hún hafi ekki viljað viðurkenna það en ég var voða dugleg. Það var nú hætt að blæða í bili þegar mamma sótti mig og svo þegar læknirinn var búinn að skoða mig þá var ákveðið að það væri best að líma þetta en ekki sauma, það var nú aldeilis

gott því það er víst ekkert þægilegt að láta sauma, ég fann samt smá sviða en fór ekkert að gráta uppá heilsugæslustöðinni. Mamma sagði að ég hefði verið voða dugleg.

Svo ákváðum við mamma að vera bara heima eftir þetta og jafna okkur (aðallega mamma). Þetta átti að vera voða kósí hjá okkur mömmu en ég veit ekki af hverju ég er stundum að ergja hana og hún verður pirruð og ég segi Fyrirgefðu en þá sagði mamma bara Nei

ég er hætt að fyrirgefa þér þegar þú ert að leika þér að því að ergja mig. Ég var nefnilega búin að henda perlunum mínum út um allt eldhúsborð og gólf og það er ekkert gaman að týna þær upp, alla vega verður mamma alltaf að hjálpa mér.

En svona er þetta stundum erum við bara í stuði til að ergja mömmur og stundum ekki.

Mamma mín heldur að hún sé aðal mamman í bænum því við vorum með matarboð á laugardaginn, þar komu Amma Steina, Eddi, Snorri, Anna, Sunneva, Anna Dögg og svo vorum við þrjú. Svo var eitthvað við matarborðið að Snorri segir Mamma og þá svaraði mamma mín í staðinn fyrir ömmu Steinu, og mamma og Snorri hlógu mikið að þessu og Snorri sagðist myndu kalla mömmu mína Mömmu það sem eftir er.

En nú biðjum við mamma að heilsa í bili.

Ykkar Ástrós Mirra með gat á hausnum.

 

Kristínu Jónu 17.10.2003 00:00:00 Ólukkuvika
Þetta er nú meiri ólukkuvikan!

Ég datt aftur í gær í leikskólanum og gatið mitt opnaðist og mamma fór aftur með mig á heilsugæslustöðina og lét kíkja á mig en þau töldu ekki þurfa sauma heldur núna, þetta væri farið að gróa og það hefði bara aðeins sprungið fyrir. En ég fór að gráta og fann svolítið

til og var lítil í mér, en Guðrún leikskólatjóri leyfði mér að sitja inni hjá sér og leika mér tvær tuskukýr sem hún svo lánaði mér heim og bað mig að skila á morgun (þ.e. í dag) en hún var semsagt að kenna mér hvað væri að fá lánað og að þá ætti maður að skila aftur.

Ég held ég hafi náð þessu alveg.

En vitiði hvað ég sagði við mömmu allt í einu í gær í bílnum.

Ég er með barn í maganum!Ha , sagði mamma, ertu með hvað?Ég er með barn í maganum en það er alveg pínulítið . Og svo ræddum við mamma þetta aðeins en ég var alveg ákveðin í þessu. Svo reyndar spurði mamma mig eftir kvöldmat í gær, hvað ég væri með í maganum og þá svaraði ég Bollur því það voru kjötbollur í matinn.

 

Þar til næst

Ykkar Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 1.11.2003 00:00:00 Af hverju
Af hverju!   Af hverju!

Þetta sagði ég nokkrum sinnum í gær hjá Sigrúnu  frænku og hún og mamma eru búnar að hlæja svo mikið af þessu.

Málið var að við vorum í heimsókn hjá Sigrúnu (Ömmu númer 5) og svo var hún eitthvað að bardúsa frammi og ég kom til hennar og sagði:  Nú er ég reið! og Sigrún sagði: Ertu reið?

Þá svaraði ég Nei, ég er pirruð og nú er ég reið! Þá segir Sigrún við mig Af hverju ertu reið? og þá svaraði ég Af hverju?, Af hverju? Eins og það væri fáráðanlegt af henni að spyrja svona.

En sem sagt við fórum í heimsókn í Sandgerði í gær, eins konar aðlögun segir mamma af því að það styttist í að hún og pabbi fara til Barcelona og þá ætla ég að vera hjá Sigrúnu og Berki í Sandgerði á meðan, og mamma sagðist nú ekki hafa miklar áhyggjur af mér hjá þeim miðað við hvað ég er hrifin af þeim báðum og þau af mér, þetta verður ábyggilega voða gaman.

En pabbi minn er aftur farinn á Kárahnjúka og við mamma bara tvær heima þessa dagana, og við ætluðum nú að hafa það voða gott í dag og hanga bara heima, horfa á vídeó, vera í tölvunni, leika í búðaleik, ryksuga og skúra og fleira þess háttar. Og við gerðum flest af þessu en ég var í því að meiða mig, byrjaði á að klemma mig illilega á dúkkustól og svo sat ég í fanginu á mömmu og vildi ekki leyfa henni að sjá á mér puttann og sagði bara:

Hann er brotinn, hann er brottinnen mamma sagði mér að prófa að beygja hann og ég gat það og þá er hann víst ekki brotinn, enda er ég búin að gleyma þessu núna. Svo rak ég tærnar í tvisvar og datt kylliflöt á gólfið og svo endaði þessi hrakfallasaga þegar ég var í baði og ætlaði að hoppa ofaní en datt niður á gólf og mamma veit ekki alveg hvað gerðist eða hvar ég meiddi mig en ég meiddi mig mikið og grét mikið og hringdi í pabba en þá var síminn hans utan þjónustsvæðis svo ég varð að sætta mig við að mamma huggaði mig.

Nú svo ætlaði ég að fara að horfa á stundina okkar en datt útaf og get ekki vaknað, mamma er búin að reyna og reyna en ég bara sef, svo nú heldur mamma að ég vakni ábyggilega kl. 5 í nótt og vilji fara á fætur.

En ég segi bara góða nótt gott fólk og af hverju.

Ykkar Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 3.11.2003 00:00:00 Lasin
Hæ hæ þið sem nennið að lesa fréttir af mér og sérstaklega Sara og vinkonur í Vestmannaeyjum sem eru víst einlægir aðdáendur síðunnar minnar.

Nú er ég nýbúin að vera lasin, lá heima miðviku- fimmtu- og föstudag, og það var sko alveg nóg fyrir okkur mömmu, komumst ekki einu sinni út í búð að versla öðruvísi en að fá ömmu til að sitja hjá mér meðan mamma skrapp en bæði ég og amma höfðum gaman af því.

Svo vorum við mamma að passa Kristófer og Alexander á föstudaginn og það var voða gaman, mamma og Kristófer skemmtu sér mjög vel saman meðan ég og Alexander vorum í tölvunni.

Nú svo fór ég í pössun til þeirra á laugardagskvöldið því mamma var að fara út að borða með vinkonum sínum sem ekki höfðu hist allar saman síðan ’81. Það var á hinni öldinni, sem segir mér hvað þær eru orðnar gamlar en þær segjast ekki vera neitt gamlar.

Ég var voða góð hjá Klöru en pínu lumpin eftir að vera búin að vera lasin.

En nú er ég að fara að sofa svo það verða ekki fleiri fréttir í bili.

Kristínu Jónu 11.11.2003 00:00:00 á leið til útlanda
11. nóvember 2003

 

Jæja þá er víst komið að því að mamma og pabbi skelli sér til útlanda í annað skiptið á þessu ári, og núna ætla þau til Barcelona í árshátíðarferð með Eyktinni, en ég ætla að vera í Sandgerði hjá Sigrúnu og Berki. Ég hlakka mikið til og þegar mamma var að segja mér frá þessu öllu í gær, þá sagði hún við mig að nú væru hún og pabbi að fara til útlanda og þegar þau kæmu til baka kæmu þau með stórann afmælispakka handa mér, en meðan þau væru í útlöndum ætti ég sem sagt að vera hjá Sigrúnu og Berki og þá sagði ég:Já og Börkur ætlar að baka köku! En mamma sagðist nú ekki alveg vita það en hún vissi að hann ætlaði að hafa kótilettur í matinn svo við gætum nagað saman beinin, því við vorum svo dugleg við það í sumar sem leið.

En sem sagt við förum annað kvöld í Sandgerði og gistum öll saman hjá Sigrúnu og Berki og svo ætlar Sigrún að keyra mömmu og pabba útá flugvöll (ég fæ að koma með) en ég og hún förum svo og dúllum okkur saman fram á mánudagsmorgun því mamma og pabbi koma ekki heim fyrr en aðfararnótt mánudagsins og þá verða sko fagnaðarfundir hjá okkur. Og ég vona að þau gleymi ekki pakkanum sem þau lofuðu.

 

Bless á meðan

Ykkar Ástrós Mirra

 

Ps. En sunnudaginn 23. nóvember verður haldið uppá afmælið mitt sem er reyndar á föstudaginn kemur en þá verð ég í Sandgerði.

Kristínu Jónu 20.11.2003 00:00:00 3 ára
20. nóvember 2003

 

Hey, þá er ég orðin 3 ára gömul og það er alveg frábært, ég er þegar búin að fá tvær afmælisveislur og ein er eftir.

Þannig er að Sigrún og Börkur héldu uppá afmælið mitt á afmælisdaginn minn og þau bökuðu köku og settu á hana stjörnuljós og sungu afmælissönginn og allt, og ég fékk pakka, litla dúkku sem má taka með í bað og hún/hann heitir litli Börkur. Svo fékk ég afmælisveislu í leikskólanum og síðan ætlum við að vera með veislu á sunnudaginn og bjóða fullt af fólki og ég er búin að panta köku sem á að vera gul, rauð og með grænu, svo mamma ætlar bara að gera orm sem hægt er að hafa í öllum regnbogans litum.

Ég verð að segja ykkur það að Sigrún og Börkur fóru með mig eins og prinsessu meðan ég var hjá þeim og mamma og pabbi voru alltaf að segja fólki sem var með þeim úti í Barcelona hvað þau væru búin að gera fyrir mig og eins fyrir mömmu og pabba áður en þau flugu út og svo sagði einn maður allt í einu:Hvað kostar helgarferð til þeirra? þe. Sigrúnar og Barkar.

Mamma og pabbi keyptu afmælisgjöfina mína úti í Barcelona og það var kerruvagn með bílstól rosa flottur en ég tók það einhvern veginn í mig að hún Sara Rún hefði gefið mér hann og sama hvað mamma segir, ég segi alltaf nei, Sara gaf mér hann. En það gæti nú verið af því að Sara hefur gefið mér svo mikið af dúkkudóti.

Svo keyptu mamma og pabbi batterís kaffikönnu og hrærivél ásamt fullum poka af plastávöxtum og mat og það er sko að virka, ég er búin að útbúa mér kaffisöluborð og mamma kemur og kaupir kaffi, kökur og ávexti og þarf að borga fyrir.

En gott fólk ég segi ykkur frá afmælinu mínu í næstu  viku og svo förum við bráðum að undirbúa jólin, ég veit það nefnilega að þegar afmælið mitt er búið þá koma jólin fljólega. Svo veit ég líka að pabbi að afmæli í janúar og mamma í apríl og svo syng ég sönginn um mánuðina.

 

Kristínu Jónu 24.11.2003 00:00:00 3svar afmæli
24. nóvember 2003

 

Og þá er búið að halda uppá afmælið mitt 3svar og ég er búin að fá alveg helling af pökkum, og vil ég (og mamma og pabbi) þakka ykkur öllum fyrir gjafirnar, þær voru alveg frábærar.

Það var voða gaman í gær í afmælinu mínu, pabbi kom með græna ormaköku með regnhlífum og stjörnuljósum á og allir sungu afmælissönginn og svo blés ég á kertin öll í einu. Svo fórum við krakkarnir að leika okkur. Við stelpurnar klæddum okkur í alls konar furðuleg föt og fórum aðElta strákanaen það voru Alexander og Andri sem sátu inní svefnherbergi í tölvuleik en við vorum að stríða þeim. Algjörar pæjur.

Ég fór nú frekar seint að sofa í gær enda erfitt að ná sér niður eftir svona stóran og mikinn dag en nú tekur alvaran við fram að jólum og þá kemur annað eins flóð af pökkum, en mér finnst

líka gaman að fá pakka.

Finnst ykkur ég ekki fín í Flamengokjólnum sem mamma og pabbi keyptu handa mér úti í útlöndum? Ég var mjög montin með mig.

 

Afmæliskveðja frá Ástrós Mirru

Kristínu Jónu 1.12.2003 00:00:00 Teppi
1. desember 2003

 

Ho, ho, ho!

Þá styttist í jólin og ég er farin að hlakka til, syng jólalögin alla daga, aðallega Jólasveinar einn og átta.

Á morgun á leikskólanum mínum eiga mamma og pabbi að koma með og fá kaffi og föndra með okkur milli kl. 8 og 9.30.

Mömmu skildist að við ættum að mála piparkökur sem voru bakaðar í dag. Þetta er mjög spennandi.

Jæja, Konný frænka var hér um helgina (og reyndar Sara líka) því Sara var að keppa á fimleikamóti á laugardaginn.

Við mamma fórum með Konný þangað að fylgjast með en þeir sem héldu mótið gleymdu að hugsa fyrir því að það kæmu áhorfendur og við vorum alls staðar fyrir stelpunum sem voru að keppa og ég á kannski líka erfitt með að sitja kyrr enda var ég alltaf að spyrja mömmu Er núna verið að kalla á migþví ég hélt alltaf að ég væri næst að keppa, en eins skrítið og mér nú finnst það þá var aldrei kallað á mig, SVINDL.

Svo var ég að skoða plötutíðindi á sunnudaginn og rek þá augun í nýju plötuna með Botnleðju og dauðbrá og kallaði til mömmu Mamma, mamma hér er skrímsli með teppið hans pabba!

Skýring: Teppi = Tippi, Skrímslið er allsber maður með grímu á hausnum og það er greinilegt að það er aðeins einn maður með svonaTEPPI humm.

Svo fór pabbi eitthvað að spyrja mig hvar mitt TEPPI væri og ég var snögg að svara því til að ég hefði misst það í sjóinn. Já, svona er maður skondinn stundum.

En vitiði hvað! Það er búið að opna jólaþorp í Hafnarfirði og það er æðislegt, þið skuluð nú endilega kíkja á það um næstu helgi.

Bless í bili.

Ykkar Ástrós Mirra

 

Kristínu Jónu 7.12.2003 00:00:00 Jólastelpa
7. desember 2003

 

Jólin, jólin, jólin koma brátt, jólaskapið kemur smátt og smátt.

Nú er ég virkilega farin að fatta jólin, það er mikið að gera að skreyta (ég og mamma vorum að hengja upp jólaskraut áðan og settum upp jólasveinahúfur) og svo þarf að kaupa jólagjafir

en það er bara gaman segir mamma, því ég fæ ekki að fara með henni, mömmu finnst búðarráp ekki vera neitt fyrir 3 ára stelpur, í staðinn fer mamma ein og ég og pabbi erum að gera eitthvað skemmtilegt heima, við vorum til dæmis í gær þegar mamma fór í búðir að búa til úr leir og þið getið séð hvað það var flott í myndaalbúminu mínu og ég held að þetta sé rétt hjá mömmu það er miklu skemmtilegra að vera heima með pabba, en að argast með mömmu í búðum.

Við erum búin að ákveða að vera í Vestmannaeyjum um jólin hjá ömmu Steinu og Már afi ætlar að vera með okkur á aðfangadagskvöld en svo er okkur boðið í jólamat til Konnýjar á jóladag.

Mamma og pabbi voru eitthvað að reyna að kenna mér um daginn að fara betur með dótið mitt sem ég var búin að henda út um allt gólf og neitaði að taka saman, og þau sópuðu því öllu

í poka og hentu í ruslið, ég meira að segja hjálpaði þeim að troða pokanum í ruslafötuna, fannst þetta greinilega ekki neitt tiltökumál.

Eeen svo langaði mig að leira í gær og þá kom babb í bátinn, ég átti víst engan leir lengur og ég hágrét og sagði mömmu að ég ætlaði aldrei að henda dótinu mínu svona út um

allt (Je, right) en alla vega mamma fór eitthvað að bardúsa og hvað haldiði, hún fann leirinn það hefur greinilega gleymst að setja hann í ruslið (en ég hélt nú samt að hann hefði verið í pokanum en maður veit aldrei) og ég var aldeilis ánægð og eins og ég sagði áðan fór svo að leira með pabba. En hvað haldiði, svo í morgun þá útbjó ég veisluborð fyrir mig, mömmu, Sollu stirðu og litla Börk og bauð uppá pasta og brauð ásamt jólamjólk (það eru líka myndir af þessu veisluborði mínu) og þar sem við mamma sitjum þarna og gæðum okkur á þessum veitingum þá rek ég augun ofaní kassann með eldhúsdótinu mínu og sé þar lítinn fíl og segi við mömmu:

Mamma, þarna er fíllinn sem þú hentir í ruslið!

Ha, sagði mamma, hvernig hefur hann komist hingað? Hann hefur bara labbað úr ruslinusagði ég, og þá hugsaði mamma, Úps það var svo mikið drasl á gólfinu þegar hún sópaði að henni datt ekki í hug að ég myndi muna hvað það var semÁTTI að fara í ruslið en ég er greinilega heldur skarpari en hún mamma mín hélt   Jæja kæru vinir, munið að taka því rólega í jólaundirbúningnum og farið frekar að leira en æða um allt í traffík og búðarrápi.

 

Ykkar jólastelpa, Ástrós Mirra

Kristínu Jónu 14.12.2003 00:00:00 Skemmtilegur dagur
14. desember

 

Þetta var skemmtilegur dagur í dag, ég var að baka piparkökur með pabba og mamma var að stússa ýmislegt annað, pakka inn jólagjöfum oþh Nú svo var verið að hringja í mig og bjóða mér í afmælið hjá Davíð Snæ á morgun en þá verður hann 3ja ára og hann er vinur minn á leikskólanum, þetta er í fyrsta sinn sem mér er boðið í afmæli fyrir utan hjá frænkum og frændum svo það er voða spennandi.

Svo var líka voða gaman í gær, því ég, pabbi og mamma löbbuðum (og ég var á snjóþotu) niður í jólaþorpið á Thorsplani og þar sá ég Grýlu en vitiði hvað, ég var ekkert hrædd við hana því ég er búin að vera svo góð að ég vissi að hún myndi ekki taka mig.

Nú svo fóru mamma og pabbi á jólahlaðborð í Viðey og Kolla frænka var að passa mig ég var voða góð og fór snemma að sofa en ég vaknaði að sama skapi líka snemma en ég geri það reyndar alltaf, en þessa dagana er ég dálítið spennt yfir skónum útí glugga en ég er búin að fá DVD disk, GSM síma og litla englastyttu og ég er ofboðslega ánægð með allt þetta og hlakka til næsta dags.

Það gerðist hér um daginn að ég og mamma vorum að horfa saman á sjónvarpið og þá komu auglýsingar og það var verið að auglýsa nýjaBaby born sem getur borðað, drukkið, kúkað og pissað og ég var ein augu og sagði svo babybó, mamma getum við keypt svona? . Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá eitthvað og heillaðist svo mjög að ég vildi láta kaupa handa mér, en ég er þessa dagana að fatta þetta Kaupa enda erum mamma og pabbi bæði mikið að kaupa og eins er ég voða mikið í búðaleik.

En elskurnar mínar lífið er fullt af óvæntum hlutum og enginn veit…..

 

Bið að heilsa ykkur í bili.

Kristínu Jónu 21.12.2003 00:00:00 Desember
21. desember 2003

 

Gleðileg jól, og gott og farsælt komandi ár Nú eru jólin að koma ekki á morgun, ekki hinn heldur hinn og þá förum við með Herjólfi til Vestmannaeyja og höldum síðan jólin hátíðleg hjá ömmu Steinu og Már afi verður með okkur á aðfangadagskvöld

Ég hlakka mikið til, skil ekkert í öllum þessum pökkum heima hjá mér það er enginn handa mér, þetta er allt saman handa Önnu Dögg, Birtu, Söru, Sunnevu, Kristófer, Victor, Þorvaldi, Andra og Alexander en þegar ég spyr mömmu Er þessi handa mér þá svarar hún því alltaf til Nei hann er handa þessum eða hinum, svo ég var farin að halda að ég fái enga pakka.

En vitiði hvað?

Ég fékk að skreyta jólatréið okkar í gær, af því að við verðum ekki heima á jólunum, fannst mömmu og pabba að við ættum að skreyta okkar tré aðeins fyrr svo við fengjum

að njóta þess. Ég var mjög einbeitt við að skreyta og greip andköf þegar við kveiktum svo á því, þetta er fallegasta jólatré sem ég hef séð, enda skreytti ég það sjálf og ég veit að mamma mín var mjög dugleg þegar hún ákvað að láta það vera alveg eins og ég skreytti það, því stundum á fullorðna fólkið svo erfitt með sig en mömmu tókst það núna og hún er líka mjög ánægð með tréið okkar.

Það eru myndir af mér að skreyta í myndaalbúminu mínu ef þið viljið sjá.

Hey, í gær fór ég mömmu í Smáralindina og þar hittum við fullt af jólasveinum og við lentum bara á jólaballi með þeim og jólaálfinum og Helgu Möller, það var sko bara gaman, ég gekk að einum jólasveininum og rétti honum höndina og hann tók að sjálfsögðu í höndina á mér, ég kann þetta greinilega enda nýbúið að vera jólaball í leikskólanum hjá  mér, jólasveinninn sem kom þar sagðist muna eftir mömmu minni og ég sagði mömmu það Ég sagði:Hann man eftir þér (ég verð að segja ykkur að mömmu minni finnst ég mjög gáfuð að geta umorðað þetta svona og komið með svona skilaboð til sín) En sem sagt á jólaballinu í gær í Smáralindinni tók mamma mín eftir því (og hún skilur ekki svona foreldra) að margir foreldrar sungu ekki með börnunum sínum, gengu bara hring eftir hring þegjandi og gerðu ekki einu sinni hreyfingarnar við lögin. Mömmu minni langar að pikka í svona foreldra og spyrja þau hvort þeim finnist svona leiðinlegt með börnunum sínum og af hverju þau reyni ekki gera þetta skemmtilegra með því að taka sjálf þátt.

Mamma mín er nefnilega þannig að hún klappar ef henni finnst eitthvað gott og syngur með (nema kannski í kirkju) ef hún mögulega getur og hlær þegar eitthvað er fyndið osfrv. og hún reyndar fékk nú hrós fyrir það frá Felix og Gunna í gær (þeir voru nefnilega líka í Smáralindinni) því þeir komu inn með látum og svo rugluðust þeir alltaf í kynningunni á

sér en þegar þeim tókst það loksins þá stukku þeir fram á sviðið og settu hendurnar svona upp í loft (ég segi alltaf ta ta með því) og þá stóð mamma mín og klappaði en enginn annar og þeir (Gunni og Felix) horfðu í kringum sig og

sáu svo mömmu mína klappa og Gunni brosti til hennar og sagði Hún er ein að fatta þettaog svo útskýrðu þeir fyrir fólkinu að þegar þeir gerðu svona þá ÆTTU ALLIR að klappa og hananú!

Ég var svo ánægð með mína mömmu því henni finnst allt svona svo skemmtilegt.

En þetta er nú að verða svolítið langur texti hjá mér, ég vona að þið verðið ekki leið að lesa þetta en ég ætla að ljúka þessu núna því ég er svo að fara á jólaball í dag með Önnu

Dögg í mömmuhennarvinnu og það verður ábyggilega gaman, og já amma Steina ætlar að koma með líka því hún er í bænum núna en fer heim í dag.

 

Ps. Við bættum við myndaalbúmi af jólaballinu  fyrir ykkur að skoða.

Þegar piparkökur bakast, kökugerðarmaður tekur fyrst af öllu fallegt form og býr piparkökur

 

 

Kristínu Jónu 29.12.2003 00:00:00 Gleðilega hátíð
29. desember 2003

 

Gleðilega hátíð öll sömul og takk fyrir bæði jólakortin og gjafirnar. Eins og þið vissuð fórum við til Vestmannaeyja yfir jólin og höfðum það mjög gott þar. Við fórum með Herjólfi á aðfangadag en honum seinkaði vegna veðurs og lagði því ekki af stað frá Þorlákshöfn fyrr en eftir kl. 12 en hann átti að fara kl. 11. Það munaði nú svolitlu á tíma þannig að okkur fannst við rétt vera komin þegar við þurftum að taka okkur til fyrir jólamáltíðina.

En við náðum því nú vel og ég hjálpaði pabba að skreyta jólatréið og það er svo flott hjá mér. Nú svo kom Már afi og amma Steina fór í kirkju en kom svo eftir kirkjuna og þá kom Eddi líka svo við gátum farið að borða stuttu seinna. Mamma mín var nú svolítið hissa hvað ég var lítið spennt fyrir pökkunum því hún var alveg viss um að ég yrði ómöguleg þar til ég fengi að opna pakkana en ég er alltaf að koma henni á óvart og í þetta sinn endaði það þannig að hún spurði hvort ég vildi ekki opna einn pakka fyrir matinn, og að sjálfsögðu vildi ég það þegar það stóð til boða.

En svo borðuðum við góðan mat og settumst svo inn í stofu til að opna og þá tók ég svolítið við mér því ég vildi náttúrulega hjálpa öllum og eignaði mér meira að segja það sem ég gaf mömmu í jólagjöf en það voru hundainniskór en mamma segir að við eigum þá saman. Ég fékk 5 náttföt, 3 nærboli, 2 skokka og boli í stíl, 2 peysur, 1 flaueliskjól, læknadót, bók, púsl, dýrargarð og trefil frá Þýskalandi, skó og vettlinga, glas, disk og glas og þá held ég það sé upptalið fyrir utan það sem jólasveinninn gaf mér en það var alls konar dót og á aðfangadag gaf hann mér vídeóspóluna með Benedikt búálf en ég var búin að vera að segja mömmu að mig langaði í hana, og hún sagði að ég skyldi prófa að biðja jólasveininn um hana og þá fór ég inní herbergið mitt og stóð undir glugganum og sagði:

“Kæri jólasveinn, viltu gefa mér Benedikt búálf” og þetta greinilega virkar því ég fékk hana. En svo fórum við í mat til Konnýjar á jóladag og það var voða fínt og mér fannst ofsalega gaman að leika við hana Söru frænku mína, nú svo á annan í jólum fórum við í nokkrar heimsóknir og þar á meðal til Snorra og Þyrí en hún er frænka mín en mamma hennar og afi Óskar voru systkyni.

Nú svo fórum við aftur með Herjólfi heim á laugardaginn en það var voða fínt í sjóinn þá, við hentum dótinu okkar bara inn og skelltum okkur (næstum því) í náttfötin og tókum út svona hálfgerðan annan í jólum letidag heima. Nú svo fórum við á jólaball hjá Eyktinni í gær og það var voða gaman, mjög skemmtilegir jólasveinar sem rugluðu svolítið en þeir gera það nú yfirleitt. Enduðum svo þann daginn í afmæli hjá Auði ömmu og þar hittum við að sjálfsögðu fullt af ættingjum og vinum

En vitiði hvað! Bráðum koma áramótin og ég veit ekkert hvað þau eru, en mamma og pabbi eru búin að fá í jólagjöf stóran flugeldapakka svo þau tala um að það verði eitthvað voða gaman útaf því en það kemur bara í ljós hvernig mér finnst það, ég var víst mjög hrædd í fyrra og hætti ekki að gráta fyrr en mamma og pabbi voru bæði komin inn með mér

Kristínu Jónu 1.1.2004 00:00:00 Gleðilegt ár

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.