Vááááá!


Þvílík vika!

Byrjaði á því að pabbi tók upp á því að fá alvarlegt hjartaáfall, svo alvarlegt að hann margdó þarna á sunnudaginn.  Þetta vildi þannig til að hann og Tedda voru í brúðkaupi deginum áður og fóru svo í eftirveislu í hádeginu.  Þau hringdu í mig því þau ætluðu að koma í heimsókn en ég var ein heima og hundlasin svo þau hættu við.  Sem betur fer því annars hefði ekki verið að spyrja að leikslokum því þá hefðu þau verið bæði í bílnum að keyra á Reykjanesbrautinni, hjúkk.

En sem sagt þau fóru í staðinn bara í íbúðina sem þau voru í með dóttur hennar Teddu og voru þar þegar þetta gerðist.  Pabbi kvartaði eitthvað um ógleði og fór fram á bað og kastaði upp og kom svo fram og settist í sófann og féll fram fyrir sig og hjartað stopp.  Úps, Tedda panikaði og hringdi í dóttur sína sem var í tveggja mínútna fjarlægð frá og hún kom ásamt tveimur öðrum konum sem aðstoðuðu við að lífga hann pabba minn við, takk stelpur.  Ein var í símanum, ein hnoðaði og ein blés og Tedda fylgdist með.

Síðan kom sjúkrabíllinn með öllum sínum græjum og það tók í heildina hálftíma að koma pabba í gang aftur til að hægt væri að flytja hann á bráðamóttökuna.  Þar var hann drifinn í hjartaþræðingu og kom þá í ljós að aðalæðin til hjartans var stífluð og þeir sögðu læknarnir að hann hefði dáið nokkrum sinnum í höndunum á þeim og að þeir hefðu nú ekki átt von á því að hitta hann á þriðjudegi og hvað þá að tala við hann.

En sem sagt, hann fór í þræðingu og þeir náðu að blásu þessari stíflu út svo það var mjög gott en þá tók við að halda honum sofandi í sólarhring og hann var líka kældur niður í 34 gráður til að koma í veg fyrir heilaskemmdir sem virðist einmitt hafa tekist, því maður var ansi stressaður þegar maður sá hvað hann var duglegur og hress, hvort hann myndi verða mikið skrítinn en hann er það ekki, bara smá minnislaus og hver er það ekki?

Ég sagði til dæmis við hann að þetta væri mjög þægilegt, þ.e. að hafa lélegt skammtímaminni því þá gæti ég sagt honum sama brandarann aftur og aftur og hann myndi alltaf hlæja að honum og vitiði, hann skellihló að þessu og skildi alveg hagræðinguna sem ég var að tala um.

En til að gera langa sögu stutta þá er batinn hjá honum föður mínum alveg ótrúlegur, hann vill bara fara heim í gær og botnar ekkert í því að allt þetta fólk sé að koma að heimsækja hann þegar lítið er að honum.  Ég held að hann geri sér ekki fulla grein fyrir því hversu langt leiddur hann var og hversu stutt er á milli lífs og dauða.
En elsku kallinn hann pabbi minn er þrjóskur og ég er ekkert smá ánægð með það núna.

Þannig að þessi vika hefur heldur betur verið erfið og samt góð.  Endirinn er líka frekar ánægjulegur því við fengum tilboð í íbúðina okkar í gær og við svöruðum því játandi í dag þannig að við erum búin að selja og líklega fær pabbi úthlutað í íbúðum aldraðra í næstu viku svo það allt er að ganga upp.  Sem sagt góður endir á viku sem byrjaði illa.

See you.

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.