Komin frá Dublin


Þá erum við komin frá Dublin úr frábærri ferð sem við fórum með Gluggum og Garðhúsum.  Ég hef ekki hlegið svona mikið í langan tíma, við vorum meira að segja farin að velta því fyrir okkur hvort við gætum ekki farið að selja “Endorfín” úti á næsta götuhorni.  Og einum datt meira að segja í hug að fólk gæti gert góð kaup hjá okkur og fengið vaskinn til baka á flugvellinum.

Og nú skilur enginn þennan brandara nema við sem vorum þarna en það gerir ekkert til.

Við byrjuðum nú á því að koma okkur fyrir uppá herbergi og drifum okkur svo bara í leigubíl í nýja verslanamiðstöð sem var opnuð fyrr á þessu ári og kíktum við þar í nokkrar búðir og keyptum eitthvað á okkur og eitthvað af jólagjöfum.

Síðan var Valgeir eigandi G & G búinn að panta borð fyrir okkur á mjög skemmtilegum pöbb með lifandi tónlist og fínum mat.  Svo kemur hann öllum á óvart með að bjóða okkur þessa máltíð, flott hjá Valgeiri og Öggu konu hans sem reyndar lá á spítala hér heima.  Svo endaði þetta kvöld uppá hóteli þar sem hljómsveit spilaði og við sungum og dönsuðum fram eftir nóttu.

Mætt í morgunmat kl. 9.30 daginn eftir og alveg þokkaleg til heilsunnar búin að taka inn smá panodil til að verða ekki þunn.  Borðuðum sem sagt  morgunmatinn og fórum aftur uppá herbergi og ég ætlaði að reyna að leggja mig aðeins en það tókst ekki svo við drifum okkur út í Henry’s Street að kíkja á mannlífið og fleiri búðir.  Fundum eina mjög ódýra þar sem hægt var að fá boli og nærföt fyrir slikk, keyptum helling (á okkar mælikvarða) þar og fórum svo bara með það uppá hótel og hentum inn og fórum svo út aftur.  Duttum inní dótabúð og keyptum helling af dóti handa Mirrunni og meira að segja “Baby Born” baðið sem er algjör hittari í dag.  Það er reyndar jólagjöf frá ömmu Maddý en hún fékk það strax í morgun því það var í svo stórum kassa að best var að afhenda það strax og daman ekkert smá ánægð.  Baðið kostaði 35 evrur þarna en kostar 5.990 hér heima svo þið sjáið að það munar sko talsvert á verði.

Eitthvað af þessu dóti sem við keyptum eru nú jólagjafir frá Má afa, Maddý ömmu og Ömmu Steinu til Mirrunnar okkar og svo keyptum við jólagjafir handa öllum krökkunum sem eru undir 10 ára aldri þannig að við erum aðeins búin að létta okkur jólagjafainnkaupin.

Á laugardagskvöldið var svo sjálf Árshátíðarmáltíðin og það var mjög fínn matur og skemmtilegt kvöld, eftir matinn fórum við bara uppá hótel og vorum að vona að hljómsveitin væri að spila en það var ekki svo við enduðum nokkur á næturklúbbi og dönsuðum þar til 2 um nóttina og fórum þá heim og sváfum vel til kl. 8 og vorum mætt í morgunmat kl. 9 því stefnan var tekin á Gospelmessu í kirkju þarna rétt hjá.  Það var einn í hópnum sem vissi af þessari kirkju og ætlaði að fara og bauð okkur Þráni með og við hugsuðum “Því ekki” og þetta var bara mjög skemmtilegt.  Alveg ótrúlega flott músík og ég söng hástöfum með, geyspaði reyndar aðeins undir ræðu prestsins og var frekar fegin að hann vissi bara að við værum frá Íslandi en ekki að við værum þarna til að versla því innihald ræðunnar var jólin og allt sem við viljum kaupa oþh.  Háir vísareikningar osfrv.  Þannig að við hefðum ekki litið vel út þarna með útsprengdar ferðatöskur.

Söngkonan í hljómsveitinni hljómaði mjög líkt og Sined O´Connor og tónlistin var æðisleg.  Jæja svo löbbuðum við um bæinn og fengum okkur að borða og keyptum einar gallabuxur og náðum að villast á leiðinni heim.  Svo kom rútan kl. 16.20 og eftir það stóðum við af og til í biðröðum þar við vorum komin heim til okkar í gærkvöldi.  Það var mjög gott.

Og yndislega litla dóttir okkar lá sofandi í rúminu sínu með brúðarmynd af mömmu sinni og pabba því Klara sagði að þegar hún kom heim þá hélt hún að við værum komin og saknaði okkar svo þegar hún uppgötvaði að svo var ekki.

Í dag erum við mæðgur bara að dóla okkur og hafa það rólegt og gott heima í fríi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.