Fyrsta vikan í júlí

Fyrsta vikan í júlí er ekki okkar vika, það er nokkuð ljóst.  Það muna líklega allir eftir “Flóttanum mikla” síðasta sumar með leigutjaldvagn aftaní bílnum og óveðrið elti okkur út um allt.
Ekki varð þessi vika árið 2006 skárri, eiginlega talsvert verri ef eitthvað er.

Það byrjaði ágætlega fyrir utan veðrið, Ástrós Mirra fór á reiðnámskeið og það var voða gaman en strax á degi 2 (þriðjudeginum) kom eitthvað uppá sem fældi alla hestana í gerðinu og 4 börn duttu af baki, reyndar datt hesturinn hennar Ástrósar og hún svo af, hún meiddist ekkert og Brúnstjarni ekki heldur, en sum börnin urðu skelkuð en ekki mín stelpa, enda þetta hestar og Ástrós hélt bara ræðu yfir mér að ég þyrfti ekki að vera hrædd við hesta og hvað það væri sem þyrfti að varast við þá svo þeir myndu ekki fælast.

Jæja, miðvikudagurinn kemur með fínasta veðri og Ástrós hélt það nú að hún ætlaði á hestbak þann daginn, svo það var allt í góðu.

Ég kem og sæki hana og vinkonur hennar kl. 16 og þær þvílíkt ánægðar með daginn og Ástrós ákvað að fara heim með stelpunum svo ég fer bara ein heim, ætlaði svo í búð áður en ég myndi sækja Ástrós.  Sá svo þegar ég kom heim að það hafði komið pakki sem þyrfti að sækja á pósthúsið og ákvað bara að drífa mig í því og svo í búðina og sækja svo Mirruna mína.

Ég fer út í bíl og ætla af stað en þá er þessi líka bílarunan uppeftir Suðurbrautinni á eftir einhverri skurðgröfu og svo strætó en bíllinn þar á eftir stoppar og gefur stefniljós inná planið til mín, og ég í minni fávisku hélt að hann væri að gefa mér séns (nota bene, ég sá ekkert á hina akreinina fyrir strætó) og æði út á götu og plamm, það kom bara bíll og keyrði á mig.  Það var shokk og allt sem því fylgdi en með góðra manna upp peppi taldi ég mig getað jafnað mig á þessu.

Ok, fimmtudagurinn leið áfallalaust hjá en svo kom föstudagurinn með sól og blíðu og ég ákvað að sækja Ástrós sjálf í leikskólann í hádeginu til að kveðja fóstrurnar og krakkana og leyfði henni að taka myndir af öllum en svo kemur daman hlaupandi til mín alveg miður sín og segist hafa dottið með myndavélina og ég sé bara að linsan er brotin og verð smá reið en meira svekkt og hún skildi það og skynjaði því hún veit hvað mömmu sinni þykir vænt um myndavélina sína og hefur gaman af að taka myndir.

Jæja, ég skutla henni á reiðnámskeiðið og fer í vinnu hundsvekkt yfir þessu en ákveð að allt er þegar þrennt er og nú sé þetta búið.  Fer reyndar að skoða myndavélina betur og reyni að smella linsulokinu á sem mér tekst og VÁ, ég gat lagað myndavélina Jibbý jei.  En ég gerði mér ekki grein fyrir því að þá væri ég búin að þurrka út þetta “allt er þegar þrennt er” fyrst vélin var ekki biluð.  Jæja ég ákvað að við myndum bara drífa okkur í sveitina strax á föstudaginn í staðinn fyrir laugardagsmorguninn og ætla að fara að kaupa útskriftargjafir en önnur er ekki til í búðinni í Hafnarfirði svo ég ákveð að biðja Þráinn að skutlast eftir henni í Reykjavík því mér var enn illa við að keyra eitthvað flókið.  Hann gerir það og ég skrepp í Krónuna, legg bílnum á innsta bílastæðið sem er mjög þröngt og ákveð að laga hann aðeins til svo það verði auðveldara að fara í burtu á eftir ef það verður meiri umferð.

Bakka aðeins og búmm, ég bakkaði á bíl.  Ég sver það ég bakkaði á bíl, það sá reyndar hvorki á mínum né honum en það stórsér á sálinni minni.  Ég veit ekki hvað er að gerast með mig.  Reyndar eftir að vera búin að vera að moka skít (fékk ekki flóknara verkefni) í sveitinni þá er það eina sem mér dettur í hug að ég sé orðin svona langþreytt eftir sumarfríi.

Þannig að næstu viku þá geri ég ekkert flóknara en það að fara í vinnu og aftur heim.  Kannski kíkja til afa það er orðið svo langt síðan ég gerði það.

En alla vega gott fólk, varist mig því ég er orðin hættuleg í umferðinni.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.