Að vilja vita ALLT

Ég er líklega ein af þeim sem þarf að vita ALLT.  Alla vega fannst mér mamma vera þannig á svipinn þegar ég var að segja henni að við Ástrós Mirra færum í sérstaka heimsókn í skólann á mánudaginn því við vissum ekkert hvernig skólastarfið myndi verða í vetur osfr.

Er það galli eða ekki?  Sjálfsagt getur maður farið yfir strikið í þessum málum eins og öllu öðru en ég á bara mjög erfitt með að sleppa af Ástrós hendinni og láta hana bara fara í skóla þegar ég veit EKKI NEITT.

Það fyrsta sem hefur snert mig í þessu skólamáli er að ekkert bréf hefur borist inn um lúguna hjá okkur þar sem Ástrós er boðin velkomin í Hvaleyrarskóla og vetrarstarfið og skólinn útskýrt í þessu bréfi.  Ég veit að í öðrum skólum er sérstakt kynningarkvöld fyrir foreldra 6 ára barna en ekki í okkar skóla. (Skrítið að ég sem þarf að vita allt skuli lenda á svoleiðis skóla)

Við td. misstum af því að skrá hana í skóla því við sáum ekki einhverja auglýsingu í Fréttablaðinu í febrúar, bíddu í febrúar vorum við bara ekkert að velta því fyrir okkur að hún ætti að fara í skóla í ágúst enda ekkert bréf borist heim til að minna okkur á það.

Allt í lagi, okkur var boðið var að skrá hana í síma sem við og gerðum og stúlkan í símanum sagði að svo myndum við líklega fá bréf í ágúst um framhaldið. En nei ekkert bréf, enginn sérstakur fundur fyrir foreldra 6 ára barna, bara skólasetning 22. ágúst og svo foreldrafundur 23. ágúst en ekkert meira sagt um hann.  Bíddu við, á ég að koma ein á foreldrafundinn eða Ástrós Mirra með.  Ég hefði haldið að ég kæmi ein enda bara sagt Foreldrafundur og ég er foreldrið (ég skrifa eins og Þráinn sé ekki til en málið er að ég er í sumarfríi núna en ekki hann svo þetta er á minni könnu.
Nei, nei allir sem ég tala við segja að líklega eigi Ástrós að koma með en það er bara ekkert minnst á það, hvernig á ég að vita það þá.  Ég er búin að skoða heimasíður fleiri skóla og tala við fólk sem á börn í skólum og það segja allir að þegar foreldrafundir eru boðaðir þá er tekið fram hvort barnið eigi að koma með eða ekki.  Að sjálfsögðu, annars veit maður það ekki.

Hvað svo?
Hvernig sækir maður um skólagæslu?
Hvenær sækir maður um skólagæslu?
Er öruggt að við fáum skólagæslu?  Hvernig hefur það verið undanfarin ár?
Hvenær mætir barnið í skólann á daginn?
Hversu lengi er skólinn á daginn?  Hvað þurfum við mikla skólagæslu?
Á að koma með nesti?
Hvað er sniðugt í nesti?
Er boðið uppá hádegismat og hvernig virkar það?
Hver hjálpar þessum litlu með matinn og það allt?
Mun karl eða kona kenna henni?
Verður hún með vinum sínum í bekk?

Þetta eru spurningarnar sem vöknuðu hjá mér í byrjun ágúst og ég hefði viljað fá svör við einhverjum af þeim fyrr.  Ég er reyndar búin að fá svör við nokkrum þeirra núna með því að hringja í skólann, tala við alla sem eiga börn í skóla osfrv. og þar með fengið fullt af upplýsingum en þetta hefur tekið alveg heilmikinn tíma og orðið þess valdandi að ég er með þetta skólamál á heilanum og ekkert annað kemst að.

En semsagt á mánudaginn förum við Ástrós saman í smá einkakynningu í skólann og fáum að hitta umsjónarkennarann hennar og okkur sýndur skólinn.  Best að reyna að sækja um í skólavistuninni í leiðinni til að vera á undan þeim sem koma á þriðjudaginn á skólasetninguna.  Aðalatriðið er að reyna að vera jákvæð gagnvart skólanum svo það smiti ekki til Ástrósar sem á að fara að vera þar næstu 10 árin.

Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær
að vita meira og meira, meira í dag en í gær.
Bjallan hringir við höldum heim úr skólanum glöð
prúð og frjálsleg í fasi fram nú allir í röð.

Veit reyndar ekki hvort enn sé farið í röð í skólunum?  Vitiði að það eru 37 ár síðan ég fór í fyrsta bekk og þá fóru allir í röð, það voru málaðir reitir á stéttina og merkt stofunum sem maður átti að vera í, svo kom kennarinn fram á tröppurnar og kallaði í sinn bekk og þeir gengu svo einn og einn bekkur inní skólann prúð og frjálsleg í fasi, tókum af okkur úlpur og húfur og hengdum á snaga og fórum aftur í röð áður en við gengum inn í stofuna.  Glætan að þetta sé svona enn í dag.  En gagnvart 6 ára krökkunum þá væri það betra.  Ég er svo hrædd um að unglingarnir munu bara valta yfir þessi litlu kríli sem eru að byrja þarna í skólanum.

Jæja ég ætlaði nú að enda þetta blogg á að setja mynd af skólanum hér fyrir neðan og broskall til að sýna að ég væri nú jákvæð fyrir þessu öll en úps… það er engin mynd af skólanum á heimasíðu skólans, sorrý.

Kristín, sem er að fara í fyrsta bekk aftur.

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.