Kompás..

Er ekki kominn tími til að tjá sig eitthvað um þetta Kompásmál eða mál Byrgisins og Guðmundar forstoðumanns þess.

Ég verð að segja það að ég ber talsvert traust til þeirra Kompás manna og einhvern veginn held ég að þeir myndu aldrei setja svona þátt í loftið án þess að vera með mjög haldbærar sannanir fyrir því.

Það eru margir sem tala um að það sé mjög alvarlegt ef Guðmundur hefur verið að misnota fé sem hann fær frá ríkinu til heimilsins, en sama fólk jafnvel segir að þessi misnotkun kvennanna sé ekkert glæsamleg því þær séu fullorðnar konur oþh.  En málið er að þetta eru kannski fullorðnar konur en spáið í, í hvaða stöðu þær eru í lífinu.  Búnar að vera á kafi í drykkju og dópi og svo brotnar andlega að þær eru að sjálfsögðu ekki nógu sterkar til að segja nei við manninn sem er að bjarga lífi þeirra frá götunni eða dauðanum og sem segir þeim jafnframt að hann sé sendiboði Guðs og sæðið hans lækni.
Það er sagt að hann hafi byggt upp traust smám saman gagnvart þessum konum og notað sömu tækni og barnaníðingar gera og það segir ýmislegt.  Maður sem markvisst vinnur að því að tæla konur er að því til að misnota þær og þá skiptir engu máli hversu gamlar þær eru.

Svo er annað sem fólk talar mikið um núna og það er hversu óforskammað það sé af þeim Kompásmönnum að gera þetta svona af því að hann eigi fjölskyldu og börn en ….
það var hans að hafa áhyggjur af sinni fjölskyldu og börnum áður en hann fór að gera þetta.
Þetta hefur stundum verið sagt um aðra glæpamenn sem birtar myndir hafa verið af og ég verð að segja að ég er kannski mjög grimm þegar ég segi að það er ekki mitt áhyggjuefni heldur þess sem framkvæmdi glæpinn.  Það er hann sem ber ábygð á því að fjölskyldan hans og börn eigi erfitt.

Við myndum líklega aldrei handtaka neinn eða birta myndir af neinum ef við ætlum að hafa endalausar áhyggjur að fjölskyldum mannanna.  Hvað með fjölskyldur fórnarlambanna?  Hvað með fórnarlömbin?  Eiga þau aldrei neinn rétt?

Æi, ég verð svo reið þegar svona “umburðarlyndi” fólks gagnvart glæpamönnum er farið að vega hærra heldur en “samúð” með fórnarlambinu.  Hvað er að okkur?

En svo að öðru sem segir heilmikið einmitt um “svona mál” og hvernig lögreglan tekur á þessu.

Vinkona vinkonu minnar lenti í því að vera að leita að 14 ára dóttur sinni og ákvað að fara inná hennar msn og athuga hvort hún sæi eitthvað sem gæfi til kynna hvar dóttir hennar væri og hún er varla búin að logga sig inná msnið þegar einhver fertugur kall poppar upp og fer að tala við hana.
Hún (mamman) ákveður að láta sem hún sé stelpan (því henni leist nú ekki á að kallar á þessum aldri væru að tala við dóttur hennar á msninu) og þá býður kallinn henni að sjá sig í vefmyndavél og svo býður hann meira og berar sig og sýnir sig við athafnir sem eru ekki við hæfi hvorki 14 ára stelpu né móður hennar.  Hún margítrekar að hún sé bara 14 ára og hann svarar því til að það sé allt í lagi.  Þið hafið líklega fengið þennan tölvupóst sem gekk manna á milli í 3 daga og vitið því um hvað ég er að tala.
.. en málið er að þessi kona talaði við lögregluna sem sagði henni að það hefði ekkert uppá sig að kæra fyrst þetta var hún (mamman) sem var í þessu spjalli en ekki 14 ára dóttir hennar (þó að kallinn hefði haldið að hann væri að tala við barn) og málið myndi bara þvælast í kerfinu og deyja.
Halló…
Hvað gerir móðir í svona máli þá.  Hún sendir tölvupóst þar sem hún var svo sniðug að taka skjámyndir af spjallinu og myndunum af manninum og sendi á nokkrar vini sína sem sendu á vini sína og vitiði hvað?  Eftir 3 daga þá er maðurinn sjálfur búinn að fá þennan póst og gaf sig fram við lögreglu og fær á sig kæru.
Hvað segir það um okkar réttarkerfi og lögregluna?  Fólk verður hreinlega að taka til sinna mála ef það vill að eitthvað gerist í svona málum.

Þá aftur að konunum sem eru sjálfráða og leyfðu Guðmundi í Byrginu að misnota sig.  Ef þær hefðu ætlað til lögreglunnar og kæra hann, hvernig móttökur haldiði að þær hafi fengið?

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.