Fjórðungsaldar afmæli.

2.5.2007
Þetta hljómar ótrúlega langur tími en er í rauninni ekki svo langur. Alla vega líður mér ekki þannig. Finnst reyndar afskaplega þægilegt að vera búin að þekkja manninn minn svona lengi.
Það fólk sem ég hef búið með er:

Mamma, pabbi og Konný  =  5 ár

Afi, amma og Konný          =  3 ár

Afi og amma                      =   3 + 3 = 6 ár

Konný                                 =   5 + 3 = 8 ár

Mamma, Siggi, Klara, Konni = 6 ár (Aron aðeins 2-3 ár)

Mamma                             =   5 + 6 = 11 ár

Berglind vinkona               =   1 ár

Þráinn og Klara                 =   2 ár

Klara                                 =   6 + 2 = 8 ár

Þráinn og Ástrós Mirra     =  7 ár

Þráinn minn                      =  2 + 7 + 16 = 25 ár


Já hann hefur aldeilis vinninginn strákurinn, veit ekki alveg hvort það hafi þurft svona ákveðinn mann til að geta búið með mér svona lengi eða hvað það er. Alla vega hafa foreldrar mínir ekki búið mjög lengi með mér það sést á þessari upptalningu. En Þráinn hefur deilt mér með nokkrum sambýlingum eða aðallega tveimur, þeim Klöru og Ástrós Mirru en reyndar bjó hann smá tíma með mér og Berglindi en svo flutti Benda og eftir urðum við skötuhjúin.

Í dag 1. Maí eru 25 ár síðan Þráinn svaf fyrstu nóttina hjá mér og hann flutti í rauninni ekkert út eftir það.
Í dag minnist ég líka Stínu ömmu minnar sem þótti þessi dagur vera merkisdagur sem átti að halda uppá. Man alltaf þegar við Þráinn skruppum eitt í sinn í bæinn þegar amma var á Sólvangi og við skruppum í heimsókn til hennar, að hún brast í grát þegar hún sá okkur og sagði: Í morgun þegar ég vaknaði bað ég algóðan Guð að gefa mér nú eitthvað fallegt á þessum merkisdegi, en aldrei hvarflaði það að mér að það yrðuð þið, elskurnar mínar.

Jón afi var mikill verkalýðssinni og barðist með verkamönnum fyrir betri kjörum. Þess vegna minnist ég þeirra í dag.
En í dag er ég kallalaus. Já haldiði að hann sé ekki aleinn uppí bústað að smíða kojur undir fjölskylduna, svo Ástrós Mirra fái sitt rúm í bústaðnum. Hann smíðar hana bara beint inní herbergið og það mun þurfa að taka hana í sundur til að ná henni aftur út úr því.

Neðri kojan verður 140×200 en efri kojan 90×200 svo það ætti nú að fara vel um okkur í henni.
Við erum búin að vera netlaus í tæpa viku og við erum hálf fötluð vegna þess. Vitum einhvern veginn ekki neitt og finnum ekki neitt og vitum ekkert hvað við eigum af okkur að gera. Röltum hér um íbúðina í leit að einhverju og endum bara í baði eða álíka gáfulegum aðgerðum.

Vá ekki gerði ég mér grein fyrir því hvað það er mikið sem maður notar netið.

Ástrós Mirra leikur sér á því

Þráinn hlustar á fréttir og les Vísir.is – Fær leikfélagsfréttir þar ofl.

Ég held úti tveimur heimasíðum og geri lítið í þeim þegar netið er niðri, ég finn engin símanúmer og veit ekki hvar vinkonur Ám eiga heima því það er allt á netinu. Ég vinn í gegnum tengingu á netinu og get ekkert nýtt daginn í dag td. í það. Þarf líklega að vinna lengur á morgun í staðinn. Allt út af netleysinu.
Ég var að spá í hvort við ættum að panta okkur kínverskan mat í kvöld en ég held ég geti það ekki því ég hef ekki netið til að skoða auglýsingar og tilboð frá matsölustöðum.
Ætlaði að kaupa mér ljósmyndaforrit en . úps get það ekki því ég er netlaus. Það er alveg sama hvar ber niður, netið er orðið þvílíkt órjúfanlegur hluti af lífinu hjá manni að það er ekki hægt að vera án þess.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.