NALA

.. týndist í gær.  Ég hafði ekki lokað búrinu nógu vel fyrir hamstur sem er endalaust að reyna að brjótast út úr fangelsinu og viti menn, henni tókst að lyfta lokinu og komast út.
Við Ástrós Mirra uppgötvuðum það í gærmorgun áður en við fórum af stað og leituðum lauslega að henni en fundum ekki.
Ákváðum að loka öllum herbergjum svo það yrði auðveldara að leita þegar heim væri komið seinna um daginn.

Jæja við komum öll heim seinni partinn og fórum að leita í öllum herbergjum, öllum skúmaskotum (sem reyndar eru ekki mjög mörg), vonuðum að hún hefði alls ekki komist í geymsluna því þá hefðum við þurft að fresta því að fara í bústaðinn í dag og halda áfram að leita (og þá er maður farinn að hugsa um lík en ekki krúttaralegan hamstur).

Jæja Mirra skotta var algjörlega búin á því eftir reiðnámskeiðið og leitina að Nölu og ákvað að leggja sig kl. 19 og svaf til morguns.

Af og til allt kvöldið fórum við Þráinn á stjá, slökktum öll hljóð og gengum á milli herbergja að hlusta eftir Nölu en EKKERT.

Ég fór uppí og var frekar stúrin og sorgmædd þar sem þetta var nú mér að kenna og við uppgötvuðum að okkur þykir rosalega vænt um hana Nölu enda enginn venjulegur hamstur.
Svo er ég búin að slökkva ljósið og að fara að sofa þegar Þráinn kemur inn í herbergi og ég hugsa, æi vertu ekki að svekkja mig meira en þá brosir hann út að eyrum og réttir mér Nölu.

Þá fór hann eina enn ferð að hlusta og tékka og sér þá að maturinn er horfinn í aukaherberginu (já við settum mat á gólfið í öllum herbergjum til að sjá hvort hún væri þar) og viti menn svo kíkir Nala fyrir hornið á hurðinni.

Hjúkk og knús og kossar til Nölu og ég gat sofnað með bros á vör.  Er samt að spá í að kaupa nýtt búr þar sem ekki verður hægt að brjóta hökin af lokinu svo hún komist uppúr.

Þangað til næst
Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.