Mirrublogg árið 2010

Mirrublogg árið 2010

kjg 4.1.2010 19:44:47 Nýtt ár, nýjir tímar
Jæja gott fólk, þá er árið 2010 í garð gengið og vil ég trúa því að það verði gott ár.  Ef ekki stjórnmálalega séð þá bara einhvern veginn öðru vísi.  Td. þannig að fjölskyldurnar verði meira saman oþh.

Úps, ég sagði þetta líklega fyrir ári síðan og mér finnst eins og við séum á nákvæmlega sama stað ennþá eða kannski aðeins verra, því það er búið að hækka alla skatta, hækka vaskinn á vöruna sem við þurfum að kaupa, líka á vín og tóbak sem skiptir kannski engu máli, við hættum bara að drekka og erum hætt að reykja en það er maturinn og hreinlætisvörur sem hafa hækkað talsvert og meira á döfinni.

Microsoft er ekki lengur með gengið á 120 kr. eins og allt síðasta ár, það getur þýtt ýmislegt neikvætt fyrir Maritech.  Það er búið að hækka vaskinn og það hefur áhrif á Glugga og Garðhús svo við þurfum áfram að tipla á tánum til að allir séu ánægðir með mann, styggja engan og brosa og vera sæt.

Vonandi að rauða hárið sé mér til framdráttar, veit ekki alveg hvað ég á að gera með Þráinn svona hárlausan á hausnum sem hann er.  Spurning að kaupa rauða húfu handa honum?

 

Eða eigum við hafa hann með hatt?

Allavega þá ef forsetinn skrifar undir Icesave þá getum við ekki vitað hvernig þetta fer annars vonar maður það besta.

hvort sem ég er rauðhærð eða með hatt.

 

Alla vega gleðilegt ár og við fjölskyldan þökkum fyrir árið sem er að líða.

þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 22.1.2010 17:09:15 Ekki eru allir dagar jafn góðir

Oftast er ég nú ánægð með Mirruna mína, en ekki núna.
Mér finnst hún vera gáfuð, falleg, hugmyndarík og ég veit ekki hvað en í dag fékk hún mig til að gleyma þessu öllu.
Mér finnst oftast hægt að fyrirgefa mjög fljótt það sem gert er á minn hlut en ekki í dag.
Við sem ætluðum að hafa svona kósí kvöld í kvöld en ég er ekki viss hvort ég sé til í það í dag.
Ég öskraði svo hátt á hana áðan að ég er ekki viss um að hún þori heim af handboltaæfingu.  Ég gæti trúað að hjónin á neðstu hæðinni hafa líka heyrt í mér (efa ekki að þau á milli hafa heyrt hvert einasta orð)
Kötturinn er líka í skammarkróknum.

 

Ástæðan:  Þau með hamagangi og látum brutu glerið í 100 ára gamla þvottabrettinu hennar Sesselju langömmu.

Það er búið að segja 100 sinnum:  Leiktu svona leiki við Nói inni á svefnherbergisgangi en alls ekki í stofunni því kötturinn hefur ekki vit á því að hann geti í hamaganginum hent hverju sem er um koll og brotið það.

Það þurfti líklega að öskra þetta í 101 skiptið svo hátt að glumdi í öllu til að það kannski síist inn.

 

Samt elska ég Mirruna mína og vona að hún læri af þessu.

 

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
ekki brosandi í dag.

Kristínu Jónu 7.2.2010 18:19:33 Moli fær nafn
Jæja það er orðið ansi langt síðan síðast og margt gerst þann tíma.  Það sem stendur uppúr er að það á að fara að skíra hann Mola okkar og það verður nú að viðurkennast að hann þarf að fara að fá almennilegt nafn.

 

Hann verður skírður föstudaginn 12. febrúar, á afmælisdegi langafa síns og deginum sem foreldrar hans kynntust.  Ekki hægt að hugsa sér betri dag til skírnar.

Annað sem stendur uppúr er hið hörmulega slys sem varð í Kópavoginum þegar hún Erla Magnúsdóttur slasaðist og lést síðan af sárum sínum.  Hún var dóttir góðs vinnufélaga míns til 15 ára hans Magga The.  Ég hef varla getað hugsað um neitt annað í tvær vikur og hefur hugur minn verið meira og minna hjá Magga og konu hans Ástu.  Ég ákvað svo að reyna að létta mér lundina á hverjum morgni og spila lagið hans Rúna Júl, sem Páll Óskar syngur svo yndislega þessa dagana, “Söngur um lífið” og brenndi Þráinn það fyrir mig á disk og ég hef sungið það hástöfum á leið í vinnu hvern einasta dag.  Svo fer ég í jarðaförina hennar Erlu á föstudaginn og haldið þið að þetta lag hafi ekki verið spilað þar.  Dásamlegt.  Dásamlegt að beina sjónum að þeim sem eftir lifa og hafa um sárt að binda, frekar en að ýra upp sorgina sem er nógu sár samt.

En af okkur er allt gott að frétta, við erum bara að gera það sama, þó er Mirra Skotta pínulítið að brillera þessa dagana, með tónleika í tónlistaskólanum, hannaði og bjó til spil sem heitir Largo Finns og er spurninga- og teningaspil og virkar vel.  Við þyrftum að hjálpa henni að klára útfærsluna á því og setja á spjald svo það varðveitist.  Hún er miklu geðbetri þessa dagana sem orsakast eingöngu af því að hún fer fyrr að sofa, einfalt mál.
Þráinn formaður er á fullu í leikfélaginu, það á að fara að frumsýna Blessað barnalán um þarnæstu helgi og er það mjög spennandi, fyrsta verkið sem fer á fjalirnar eftir að hann var formaður.  Áfram LH.

Þangað til næst.
ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 13.2.2010 09:52:37 Óvæntir atburðir

Mikið er nú gaman af lífinu þegar óvæntir atburðir gerast, eins og í gær.  Við mættum nú bara kát og glöð í skírn hjá honum Mola litla hennar Klöru systur og vorum bara aldeilis glöð með það.  Drengurinn fékk þetta fallega nafn “Ríkharður Davíð” og er Guðmundsson (því Davíð pabbi hans heitir Guðmundur Davíð) en þegar við svo höldum að skírninni sé að ljúka fer presturinn að taka um að Klara og Davíð hafi heitið hvort öðru .. og ég er ekki alveg að kveikja hvað kallinn er að bulla en svo heldur hann áfram með að það sem Guð hefur sameinað og svo segir hann eitthvað um heilagt hjónaband og ég hreinlega æpti uppyfir mig, mig brá svo.  Svo sitja þau skötuhjú samt ennþá úti í sal svo ég held aftur að presturinn sé nú eitthvað að rugla saman skírn og brúðkaupi.  Enda var hann búinn að rugla nafninu á drengnum fyrr í ræðunni sinni.

En viti menn svo standa Klara og Davíð upp og krjúpa fyrir framan prestinn.  Oh, my God, litla systir mín var bara að gifta sig þarna og enginn vissi af því.  Ég er eiginlega enn í pínulitlu sjokki en fæ samt kökk í hálsinn og tár í augun þegar ég hugsa um þetta.  Þetta var frábært hjá þeim.  Frábært að nota tækifærið, komin í kirkju, komin með prest, allir bestu vinir og ættingjar í kirkjunni og væntanlegir í veislu á eftir.

Innilega til hamingju Klara og Davíð.  Og innilega til hamingju með Ríkharð Davíð.  Megi Guð og gæfan fylgja ykkur alla tíð.

 

 

Ykkar systir
Kristín Jóna

Kristínu Jónu 25.2.2010 20:08:50 Snillingurinn
maðurinn minn var enn einu sinni að framlengja lífi þvottavélarinnar okkar, sem er samt búin að eiga langt og gott líf.  Rúmlega 25 ár eða svo.

En hún er náttúrulega alveg að syngja sitt síðasta og ég er búin að vera safna fyrir nýrri vél, og þegar ég verð búin með fermingarmyndatökurnar þetta vorið verð ég komin með í umslag pening fyrir nýrri svo .. það var ekki tímabært að gefa sig núna, alls ekki.  Við þurftum að ausa vatni úr henni tvisvar í gær og ég var orðin pínu þreytt og pirruð og svekkt.  En bað svo Þráin að kíkja á hana í dag, áður en lokaúrskurður yrði gefinn út og . viti menn, hún er komin í gang aftur þessi elska og ætlar líklega að vera með okkur fram á vorið.  Ég verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna hennar en ég hlakka samt til að fá nýja, held einhvern veginn að fötin okkar verði öðruvísi á litinn og hvítt muni aftur verða hvítt en ekki grátt þegar það gerist.

Það var allt á kafi í snjó og fjúki í morgun þegar við fórum í vinnu og svo keyri ég fram hjá árekstri gömul toyota drusla og úps, einn svona 10milljónkrónajeppi og þá hugsaði ég:  Og ég var að svekkja mig á einni þvottavél.  Ha, það er ekki mikið, miðað við þetta.

Fleiri fréttir, Ástrós Mirra er álíka snillingur og pabbi hennar, það er þemavika í tónlistaskólanum og hún fór í tónsmíðatíma á mánudaginn og kom heim með:  Heimasmiðaðann gítar, bongótrommu, selló og eitt enn sem ég man ekki hvað átti að vera.  Þetta er búið til úr bandi, tómum flöskum og kornflexkössum og ég veit ekki hverju.  Þvílíkir snillingar þarna á ferð.  Og já, það er hægt að spila á þetta og hún er búin að ná því að spila góða mamma á eins strengja gítarinn.  Svo þið sjáið að ég er umvafin snillingum, hvernig haldið þið að mér líði stundum á þessu heimili.

 

Í gær komu svo í heimsókn mjög svo sjaldséðar en velkomnar mæðgur, þær Heiðdís og Dagný, það var mjög gaman að fá þær hingað og Dagný og Ástrós Mirra náðu vel saman, svo fóru þær mæðgur auðvitað í myndatöku og þá kom nú í ljós þvílík fegurðardrottning hún Dagný er.  Við þurfum svo að passa okkur að halda þessu við því við erum þau einu í föðurfjölskyldu Dagnýjar sem hún þekkir og það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir hana að þekkja einhver og vita hver hún er og hvaðan hún kemur.  Ég get allavega sagt henni frá mínu fólki og Stínu ömmu og Jóni afa oþh.  Svo er ég líka búin að plana heimsókn til þeirra næst þegar Konný kemur og stoppar eitthvað í bænum.

 

 

En þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 6.3.2010 20:05:36 Life is up and down
mostly up, but sometimes it is down.

 

Undanfarið hefur lífið verið dálítið down á Melroses þar sem vinkonurnar litlu hafa ekki verið eins miklar vinkonur nú og áður eða eins og við foreldrarnir vildum að það hefði verið.

Það er víst bara þannig að Sara er vinsælasta stelpan í bekknum, en Ástrós Mirra á enga aðra vinkonu en Söru í bekknum og því gerist það að ef Sara vill leika við einhverja aðra, þá er Ástrós Mirra ein og það nístir hjartað í okkur.  Það voru nærri tvær vikur sem Mirran var ein heima í tölvunni eða horfa á sjónvarp eftir skóla og það endaði með ákaflega mikilli dramatík og gráti.  “Þið vitið ekkert hvernig er að vera ég” er setning sem heyrðist.  “Ég ætla að bara að leyfa blóðinu að renna úr þessu sári þar til ég dey” er önnur setning sem heyrðist og þá er bara eitthvað mikið að, þegar dramatíkin verður svona alls ráðandi.

Við mæðurnar í efra og neðra ræddum saman og beindum allri orku okkur að stúlkunni sem var ein heima en það sem gerðist þá var að hinni sem leið eins og hún væri toguð milli tveggja heima brotnaði niður í skólanum.  Næstum hætt að þola Ástrós Mirru (vegna þrýstings að eiga að vera með henni og vita hvar hún er og við hvern hún er að leika ef ekki við sig) og kennarinn þeirra bað okkur að slaka svolítið á kröfum um þeirra vináttu.  Einnig ætlar kennarinn að reyna að beina Ástrós Mirru meira að öðrum stelpum svo hún getið myndað vinskap við þær.  Við reyndar báðum Ástrós Mirru á miðvikudaginn að reyna að tala við einhverjar stelpur í skólanum og athuga hvort þær vildu ekki leika eftir skóla og hún svaraði: “Það er auðvelt”.    Við hváðum, og hún endurtók, “það er auðvelt” svo við ákváðum í staðinn fyrir að gera meira mál úr þessu en við þyrftum að láta reyna á þetta.

Ég minnti hana á þetta morguninn eftir þegar við vorum að fara af stað og þá svaraði hún eins og kvöldið áður, svo ég ákvað að stilla calender til að minna mig á að hringja í hana strax eftir skóla og þá svaraði ekki hjá henni og mér duttu alls konar hlutir í hug en kl. 13.30 svaraði hún með voða gleði í röddu og virtist fjör í kringum hana svo ég spurði hvað hún væri að gera og hvert hún væri að fara.  Hún svaraði að hún væri að fara með Gunnu Dóru, Yrsu og Vilborgu Lóu heim til Gunnu að leika. “Ég sagði þér mamma að þetta væri ekkert mál”.

Ja, hérna en af hverju var hún ein þá í nærri tvær vikur?  Vill hún vera ein eða hvað?  Ég veit svosem að hún vill oft vera ein en við höfum séð að það hefur ekkert góð áhrif á hana, hún verður pirruð og leið eftir svolítinn tíma.

Svo á föstudeginum náði ég ekki í hana í síma og var viss um að hún væri bara ein heima, og heyrði ekki í símanum en þegar ég kom heim, var engin þar og eftir svolitla stund hringdi stúlkan og baðst afsökunar á að hafa ekki látið mig vita en hún væri heima hjá Yrsu.  (og það var í fyrsta sinn sem hún er þar). Svo kannski verður þetta ekki eins mikið mál og það leit út fyrir að vera.  Og nú er Sara á körfubotamóti í Keflavík og Birta hjá Ástrós Mirru svo við vonum bara að þessi erfiði tími sé að baki og verði ekkert meira úr og þær vinkonur finni sjálfar jafnvægi í sinni vináttu.  Það virðist ekki vera jafnvægi því Sara hefur ekki eins mikla þörf fyrir Ástrós Mirru og hún fyrir Söru, og þrátt fyrir það að Ástrós Mirra hafi alveg skilið að ég var að biðja hana að leika við einhvern annan en Söru þarna um daginn, þá vildi hún helst bjóða henni með í Keilu í dag en það var sem sagt ekki hægt vegna körfuboltans og við buðum Birtu þá með okkur og svo er hún að gista hjá okkur líka.

Áttum sem sagt fínan dag í dag, fórum að kjósa í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni sem framkvæmd er á Íslandi og við sögðum NEI við Icesave samningnum sem búið var að samþykkja á alþingi fyrr á árinu.  Sjáum til hvernig þetta fer allt saman.  Nenni ekki einu sinni að blogga um Icesave, þó við ég segja eitt:  Ég er viss um að Bretar og Hollendingar vita uppá sig ákveðna sök í því að láta þessa banka ganga eins langt og þeir fengu að ganga því annars myndu þeir ekki leggja svona mikla áherslu á að við borguðum þetta með gróða fyrir þá.  Ef þeirra sök væri engin, þá myndi þetta ekki skipta svona miklu máli því þetta eru smáaurar fyrir þessar þjóðir, en stórar fjárhæðir fyrir litla þjóð með stórt hjarta.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu Athugasemd: hún er alltaf velkomin hingað stúlkan … (,Anna Sif) Athugasemd: Takk Anna Sif, ég þarf nú kannski að bæta við þetta blogg að hlutirnir voru kannski ekki eins erfiðir og flóknir og ég hélt, það virðist allt vera í góðu núna. en auðvitað vissi ég líka að hún væri velkomin til ykkar og við þurfum að fara að hittast, það eru að koma páskar og við sáumst um jólin held ég síðast. (,kjg) 17.3.2010 20:35:30 Skrítnar fréttir
Það voru tvær fréttir sem slógu mig í útvarpinu í morgun.

Önnur var um bresk hjón sem þáðu mútur frá barnaníðingi sem hafði misnotað drenginn þeirra, og múturnar voru til að fá þau til þegja.  En til allrar hamingju sagði drengurinn sjálfur frá þessu og eru yfirvöld að íhuga að kæra foreldrana.  Ég segi bara:  Það er greinilega ekkert heilagt þegar peningar eiga í hlut, ekki einu sinni börnin okkar.  Þvílík skömm.

Hin fréttin var um fanga á dauðadeild sem tókst að smygla inn lyfjum og éta til að taka eigið líf áður en hann fengi hina banvænu sprautu.  Hvað gerðu yfirvöld?  Þau dældu uppúr honum, höfðu hann í viku á sjúkrahúsi svo hann næði heilsu á ný og þá drápu þau hann.  Hver er góði maðurinn í þessari frétt?

En þá að persónulegri fréttum.  Árshátíð Maritech var haldin um helgina á flughótelinu í Keflavík og það var geðveikt gaman, fórum í nudd, förðun og geiðslu (sá mest eftir peningunum í greiðsluna hans Þráins.  Nei djók).
Svo hafði ég tekið að mér að mynda alla sem komu á árshátíðina og það gekk svona glimrandi vel og allir svo sætir og flottir.  Frábær skemmtiatriði sem voru mest frá yfirstjórninni sem stóð sig frábærlega og sérstaklega komu leyndir leikhæfileikar í ljós.

Vinamálin hjá Ástrós Mirru minni eru heldur skárri en þau voru siðast þegar ég bloggaði, en það eru samt ennþá vandamál og var daman mín kölluð til námsráðgjafa í morgun í viðtal.  Hún vill nú lítið segja mér hvað hafi komið út úr því, sagði mér reyndar ekkert frá því að hún hefði farið en hún sagði Ingu og þeim niðri frá því.  Mig grunar að það sé til að forða okkur frá áhyggjum.  En ég hlýt að fá fréttir úr skólanum hvernig þetta hefur gengið og hvað komi út úr því.

En nú eru fermingarmyndatökurnar að hellast yfir mig og er það bara gaman.

 

En þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 24.3.2010 19:54:40 Prinsessan á heimilinu
er búin að fá nýtt rúm.  Hún átti nú að fá það í afmælisgjöf en vegna þess hvað þau kosta og hvað það var sem við vildum varð ekkert úr því.  Við vorum nú búin að gera kostnaðaráætlun á smíði eins rúms og vorum við á því að það myndi kosta um þrjátíu þúsund með dýnu.  Svo lagðist ég í rúmið hennar Ástrósar Mirru um daginn og uppgötvaði hvað það var vont að liggja í því og þá ákváðum við að við yrðum að drífa í þessu.
Svo datt mér í hug að kíkja á barnaland og sá eitt rúm sem gæti komið til greina en það var engin mynd af rúminu svo ekki var hægt að taka ákvörðun um það, svo ég ákvað að prófa fésbókina og fékk nú strax tilboð frá tveimur sem áttu rúm handa mér og svo í morgun þegar ég kom í vinnu fór ein stelpa sem vinnur með mér að segja mér að hún hefði verið að taka í sundur og setja í bílskúrinn eitt stelpurúm sem ég gæti fengið á lítinn pening.  Hún reynda að lýsa því fyrir mér og datt mér í hug að það væri eitthvað svipað og Söru rúm svo ég dró svo Þráin í dag að skoða það, en þá tjáði Inga mér að trúlega væri þetta eins rúm og Víðir Tristan á neðstu hæðinni ætti svo við þangað að skoða rúm og tókum ákvörðun út frá því.  Fengum lánaðan bíl hjá Gluggum og Garðhúsum og sóttum rúmið sem er svona asskoti fínt og hæfir prinsessum vel.

Það kemur líklega mynd af því seinna.

Þá af vinamálum, það er allt í gangi í þeim efnum, ÁM hringdi á sunnudaginn í eina úr bekknum og bað að koma með sér í sund sem þær og gerðu.  Flott hjá henni.

Í dag bauð hún svo tveimur stelpum að koma heim og búa til RiceChrispies kökur og bíðum við eftir að þær verði tilbúnar úr frystinum því þær skulu étnar, ekki spurning.  Svo það er allt í gangi í þessum vinamálum og við þurfum greinilega aðeins að halda okkar stúlku við efnið.  Hún á það til að vilja bara vera ein og glápa út í eitt á sjónvarpið.  En það er ekki það sem við óskum helst.

Það styttist svo í Eyjaferðina okkar og flutninga hjá Maritech þannig að það er bara allt í gangi þessa dagana.

 

Þangað til næst,
Ykkar Kristín

Kristínu Jónu 8.4.2010 21:54:50 Lítið blogg Það er eiginlega enginn tími til að blogga núna, en ég mátti til að segja ykkur að það eru komnar nýjar myndir frá Vestmannaeyjaferðinni okkar um páskana.

Nokkur albúm meira að segja.  Verði ykkur að góðu að skoða.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna Kristínu Jónu 11.4.2010 16:55:16 Það er alla vega ein manneskja sem les bloggið mitt
og hún var að biðja um meira. Gott alla vega að vita að það er einhver sem les það.  Nei annars ég veit um 3 manneskjur sem lesa það og það er fínt.

Þá kemur hér smá update til ykkar.

Ég er gift sjálfstæðismanni ef einhver hefði ekki vitað það.  Hann hefur svosem kosið sjálfstæðisflokkinn síðan hann fékk kosningarétt en núna er hann formlega kominn á lista hjá sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði fyrir bæjarstjórnakosningarnar í vor.  Hann er neðarlega á lista en það er líka best að byrja þar, ég þarf nú eiginlega að fá áfallahjálp, því ég giftist ekki pólítískum manni og alls ekki pólítíkus.  Ekki það að ég elski hann eitthvað minna en ..

. nei ég elska hann jafnmikið og nú hef ég formlega tekið ákvörðun að vera EKKI pólítísk, hvernig sem það mun ganga.  Því í sálinni er ég allt annað en sjálfstæðismaður en við rífumst bara um pólítík og sjaldan eitthvað annað svo . lífið er of mikils virði til að eyða því í rifrildi um pólitík.

Svo þið sem búið í Hafnarfirði, kjósið að sjálfsögðu sjálfstæðisflokkinn næst, svo maðurinn í 18 sæti komist kannski í menningarmálanefnd og geti farið að vinna leikfélaginu til góðs.

Að öðrum málum:

Páskarnir voru frábærir, eigingjarnir og þægilegir.  Við Ástrós Mirra fórum til Eyja á mánudeginum því ég var að kenna á bæjarskrifstofunum þriðjudag og miðvikudag.  Svo kom Þráinn með Birtu á miðvikudagskvöldið og við 4 vorum hjá Konný alla páskana ásamt Silju, Hansa, Aroni og bróður Hansa.  Þau reyndar gistu ekki en voru í mat alla páskana svo það var fjölmennt og góðmennt hjá þeim.  En eigingirnin var að fara ekki í neinar heimsóknir (pabbi var ekki í Eyjum og Steina er nú flutt þaðan) og gera bara það sem okkur langaði til að það var bara gaman.

Við fórum á fjöll, fjörur, gáfum hestum og gæsum brauð, skoðuðum skans og bryggjur og margt margt fleira.  Fórum heim á mánudeginum eftir góða páskahelgi.  Já og við átum allt páskaeggið okkar líka.  Gerðum frábærann ratleik með ljóðum og rími.  Allavega var ég voða stolt af því en stelpurnar voru ekki lengi að ráða fram úr þrautunum og fundu eggin sín.

Ég er búin að vera aðeins að mynda fermingarbörn núna og er það búið að vera þrælgaman, ansi misjafnir krakkar en allir flottir og skemmtilegir.  Konný systir er hinsvegar er að drukkna í myndatökum því hún er með allt uppí 3 á dag, þessa dagana.

 

jæja það er míní afmæisveisla núna, mömmu, Sigga, ömmu og Klöru bara boðið (já þau eru greinilega einni skör hærri en hinir) í mína víðfrægu gúllassúpu og ostaköku í eftirrétt.

Elska ykkur samt öll, þó ég hafi ekki nennt að halda stærri veislu.  En það er nú bara þannig með mig að ég er orðið frekar löt við veislur, hvort heldur sem ég haldi þær eða einhver annar, þetta er orðinn svo ofboðslegur fjöldi manns hjá flestum að maður er bara farinn að týnast.  Ef ég man rétt þá er einmitt allra nánasta hér hjá okkur um 27 manns sem er nú bara hálf fermingarveisla.

En þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu Athugasemd: Ég les nú bloggið þitt alltaf af og til líka kæra systir, bara svo þú vitir það 😀 (,litla systir) Athugasemd: Já, ég veit litla systir að þú lest það og eins Anna Sif, en þessi eina sem ég talaði um, var að kvarta yfir bloggleysi svo…. (,kjg) Athugasemd: ég les líka bloggið þitt, bara stundum dálítið seint (,Stóra systir) 26.4.2010 21:54:24 Ísland bjargaði Símoni frá að fara heim
Það var uppistandari í Idolinu áðan og hann var að dæma dómarana og ákveða hver ætti að fara heim, og það var Símon en út af eldfjallaösku þá var það ekki hægt og því fékk Simon að vera áfram.
Þar kom að því að Ísland og öskufall bjargaði einhverjum.

Maður er nú búin að hugsa svolítið til þeirra sem búa þarna fyrir austan og þar á meðal þeirra mörgu Eyjamanna sem búa þarna og eru jafnvel að upplifa sitt 3 eldgos.  Einn lenti í Surtseyjargosinu, Heimaeyjagosinu og svo nú í Eyjafjallajökli.  Það er allt á kafi í ösku og skít og slæmt fyrir öndunarfærin að anda þessu að sér og svo sér ekkert fyrir endann á þessu.

Fleiri fréttir hafa sótt á í dag, og það voru sorgarfréttir af suðurnesjunum.  2 stúlkur látnar og ein liggur á gjörgæslu, en pilturinn sem ók slapp svo til ómeiddur.  Ég get ekki ímyndað mér hvernig honum líður núna.

En þá að okkur, allt fínt að frétta hér, allir með vinnu og í þokkalega góðu skapi.  Stúlkan er farin að gegna betur en oft áður, og það léttir svo af öxlunum á mér og að sjálfsögðu skapinu líka.  Þó tekur hún sína takta og ég vildi ekkert vera án þeirra.  Við fórum í afmæli í gær og hún var ekkert hrifin af því og lét það alveg í ljós í afmælinu og kvartaði við húsmóðurina og sagði að það væri bara svo leiðinlegt að vera svona laaangelst þarna.  Þá sagði húsmóðirin að hún væri nú ekki nema 2 mánuðum eldri en sá sem næstur henni kæmi.

Annað skemmtilegt sem ég heyrði um daginn var að ÁM og vinkona hennar voru að syngja í bílnum lag á ensku og þá spyr ÁM vinkonu sína hvort hún viti um hvað textinn fjalli (en þar sem vinkonan er ekki eins góð í ensku og ÁM), nei svarar vinkonan og þá segir ÁM, þú verður að skilja textann til að geta sungið lagið rétt, textinn skiptir máli fyrir lagið og svo þýddi hún textann fyrir vinkonu sína og svo sungu þær saman af innlifun.

Ég var svo ánægð að heyra þetta því mér finnst góðir textar skipta máli í söng og er meira fyrir að syngja orð en raula lag.

Það er stundum svo fyndið þegar maður er að bera barnið sitt saman við næsta barn og sérstaklega þegar næsta barn hefur einhvern kost sem maður væri alveg til í að færa yfir á sitt barn en svo kemur eitthvað annað á móti sem í raun gerir mitt barn svo miklu stærra en hitt barnið.

Jæja svo fer að birtast bæklingur frá Sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði og þar verður mynd af mínum heittelskaða svo þetta verður algjörlega opinbert og ég er bara að spekúlera hvernig ég eigi að svara kommentum sem ég á eftir að fá vegna þessa, nei djók.
Annars spurði Þráinn þegar hann var að svara einhverjum spurningum um sjálfan sig fyrir bæklinginn hvort hann ætti eitthvað að vera að minnast á mig, hvort ég vildi yfir höfuð eitthvað fá nafnið mitt í blað á vegum sjálfstæðisflokksins.  LoL

Nú er ég svo mikið að hugsa útimyndatökur en hef bara ekki getað farið í gönguferð niður í bæ til að leita að fallegu gömlu gráu steinhúsi, eitthvað í líkingu við Austurbæjarskóla eða vegginn við ráðhúsið í RVK sem yrði flottur bakgrunnur, ég þarf að skoða Lækjarskólann betur en held að það séu alls staðar gluggar þar svo ég veit ekki.  Verð að fara að labba.  Dettur þó í hug minnismerki við höfnina sem gæti verið flott.  Kastið á mig tillögum ef þið þekkið einhver hús í Hafnarfirði sem gætu verið flottur bakgrunnur.

Jæja þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

ps. annars held að Þráinn sé skíthræddur við þessa sjálfstæðismenn, hann er að horfa á framboðsfund þarna.

 

Kristínu Jónu Athugasemd: hahaha! Flottur Þráinn í þessu! (caroline@internet.is,Caroline) 1.5.2010 08:34:08 28 ár

Síðan við hjónin kynntumst.  Við stelpurnar buðum hljómsveitinni Títanic í garðpartý á Bessastíg 8.  Það var byrjað að djamma uppúr hádegi en partýið var svo innandyra vegna veðurs ofl. atriða.

Nóttin endaði á því .. (já engan saurahugsunargang) að við sátum tvö, ég og Þráinn og spjölluðum saman og nöguðum rifbein af hrygg sem hafði verið í matinn.

Þráinn var nýorðinn 17 og ég 19 ára þegar þetta var svo það gefur auga leið að við höfum verið saman öll okkar fullorðinsár og myndum ekkert vita hvað eða hvernig við ættum að snúa okkur án hvors annars, nema kannski dag og dag.

Ég man þegar einhvern tíma áraði illa í sambandinu og við ákváðum að setjast niður í sitthvoru horninu og skrifa niður “það sem ég þoli ekki við þig er.”  og ég byrjaði að skrifa enda hafði ég ýmislegt út á hann að setja, en bíddu, ég sé að hann skrifar og skrifar hinum megin í stofunnni, ég skil nú ekki hvað hann gæti verið að skrifa svona mikið, ég meina ég er svo miklu fullkomnari en hann og geri næstum allt rétt.  En jæja, þegar við erum bæði búin að skrifa þá lásum við hvort hjá öðru og Ó, mæ God hvað það voru margir smávægilegir hlutir á blaðinu hans sem ættu nú ekki að vera að pirra hann svona mikið en ekkert mál, við ákváðum að bæta okkur og laga þessa hluti.

Og svei mér þá, sambandið batnaði til muna.

10 árum seinna fluttum við og rákumst á þessi blöð okkar og lásum yfir og fengum þvílíkt hláturskast því það sem stóð á blaðinu var ennþá helstu ágreiningsefni okkar hjónanna.  Það sem við lærðum á þessu var að það er gott að tala um hlutina (eða skrifa þá niður) en þú kennir ekki gömlum hundi að sitja, það er á hreinu.  En vandamálin verða kannski minni þegar búið er að tala um þau.

Stór hluti af okkar sambúð hefur farið í það að langa í barn.  Það tókst með hjálp bestu manneskju í heimi eftir 17 ára sambúð og útkoman var fröken Mirra Skotta Langsokkur (Ástrós Mirra).  Það er svipað með barnið manns og sambúðina að stundum eru litlir ómerkilegir hlutir að trufla en samt elskar maður þetta fólk meira en sjálft sig og ég myndi fórna öllu fyrir þau tvö.

Á 28 árum höfum við hjónakornin lent í ýmsum ævintýrum en mér er minnistætt núna öll ævintýrin sem Þráinn lenti í þegar við vorum nýbyrjuð að búa, það var næstum því á hverjum degi sem hann kom heim úr vinnu með nýjar ævintýrasögur og ég trúði þeim öllum.  Hann sagði mér nú alltaf svo að hann væri bara að skrökva þar til einu sinni að hann gleymdi því og heyrði svo þar sem ég var að segja Konný systur frá því í símann.  Þá brá honum og fór að draga úr skröksögunum eftir það.  Eða var það ég sem hætti að trúa honum í blindni?  Líklega hefur það verið hvort tveggja.

Þegar ég hugsa aftur í timann núna, þá eru vandamálin ekki einu sinni vandamál, heldur súrsætar minningar.  Oftast hefur nú verið gaman hjá okkur, ég held að við hlæjum saman og að hvort öðru næstum daglega og það skiptir ábyggilega máli.  Við tölum líka um allt, og ég hef oft sagt að Þráinn sé besta vinkona mín, því ég þekki ekki mörg hjón sem geta talað um allt.  Ég hef aldrei átt margar vinkonur og ég hef aldrei getað talað um mínar dýpstu tilfinningar við þær en það hef ég getað við Þráin.  Reyndar er hægt að telja mínar bestu vinkonur á annarri hendi en að sjálfsögðu á ég fullt af kunningjakonum en mér hefur fundist ungt fólk í dag, rugla þessu svo saman.  En nú er ég komin út úr því sem ég upphaflega ætlaði að tala um en það er hann ÞRÁINN MINN.

 

Takk fyrir að vera með mér öll þessi ár og takk fyrir að vera alltaf svo skemmtilegur að ég hafi nennt að vera memm.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

Kristínu Jónu 12.5.2010 20:11:14 Sumarið er að koma
og á morgun eru svokallaðir Vallardagar og ætlum við á Völlunum að fagna sumri saman með hátíðarhöldum í Hraunvallarskóla.
Hver gata á sinn lit (eða nokkrar götur með sama litinn) og erum við GUL.  Ég er búin að kaupa 20 gular blöðrur til að hengja utan á húsið okkar, gulan sumarhatt og svo eigum við gula húfu og gula regnhlíf svo við getum klæðst gulu og verið gul og galvösk á hátíðinni.

Eftir hátíðarhöldin ætlum við á Melroses að grilla pulsur fyrir krakkana okkar og skella okkur kannski í leiki á planinu og hafa það skemmtilegt saman. Ástrós Mirra og Sara ætla að plana einhverja leiki, þær eiga nú allar gerðir af boltum og því ættum við að geta leikið okkur eitthvað.

Svo ætlum við Ástrós Mirra að skella okkur í mæðgnaferð á Þingvelli og vera bara tvær saman fram á sunnudag.  Við ætlum að leika okkur, taka myndir, baka og vera bara gular og galvaskar áfram alla helgina.  Við ætlum reyndar líka að liggja í leti og horfa á video og borða nammi.

Það er búinn að vera fínn tími undanfarið, allir í ágætu skapi og bara þokkalegt að gera.  Það er svo greinilegt að sumarið er að koma og ég var með frábæra fermingarmyndatöku á laugardaginn, fékk tvö frændsystkin sem voru svo skemmtileg og hugmyndarík í myndatökunni.  Tókum myndir bæði inni og úti og útimyndatakan verður að segjast að hafa verið hápunkturinn því þau skiptu tvisvar um föt og fóru í körfuboltabúning og léku sér með boltana sína.  Vel heppnuð myndataka og skemmtileg.  Svo var ekki verra að mömmurnar voru svo ánægðar með myndatökuna að þær færðu mér líka rauðvín.

 

Ég var aðeins að breyta síðunni okkar því ég er auðvitað farin að nota hana aðeins undir það sem er kallað KJG Photos og hef núna á forsíðunni linka í valin myndasöfn af myndatökum, endilega segið mér hvað ykkur finnst um þetta.

Annars eigið bara gott sumar,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 23.5.2010 10:01:33 Besti flokkurinn
Við í StarTech (starfsmannafélagi Maritech) fórum í leik á vegum Eskimos, sem heitir Mission Reykjavík og þetta er með því skemmtilegra sem ég hef ég gert.

Okkur var skipt í hópa og allir í hópnum fengu ákveðin hlutverk s.s. Leiðtoginn, Gátumeistarinn, Navigator, Stílistinn, Ljósmyndarinn, Birgðavörðurinn og að lokum einn sem fékk heitið Finnur.

Það voru engin vandræði í mínum hópi að raða fólkinu niður, það gerðist bara næstum sjálfkrafa.  Lísa skvísa var valin Leiðtoginn enda hún að læra það, Steinunn var gátumeistarinn, Gísli navigator, Nonni gardínuhommi var að sjálfsögðu stílistinn, ég sjálfkjörinn ljósmyndari, Sævar birgðarvörður og Gréta Finnur.

Við vorum greinilega með besta stílistann því við vorum flottasta liðið.  Við vorum klædd í dragtir og jakkaföt, máluð hvít í framan með trúðsnef.  VIÐ VORUM BESTI FLOKKURINN. Við vorum með þemasöng, áróðursbæklinga frá Besta flokknum, merki og blöðrur.

Svo var farið með rútu niður á Lækjargötu þar sem okkur voru afhent verkefnin.  Gefnir voru upp GPS punktar sem navigatorinn þurfti að hafa á hreinu og vísa leiðina.  Finnur var með spurningar um hvern stað fyrir sig sem þurfti að svara og það mátti hringja í vini, googla oþh.  Gátumeistarinn fékk alls konar bíómyndaspurningar sem þurfti að svara og fylla út.  Birgðameistarinn sá um að allir hefðu það sem þeir þyrftu og stóð sig vel í því.  Ljósmyndarinn fékk líka verkefni, taka átti myndir af hópnum í ákveðnum stellingum oþh.  Við áttum til dæmis að túlka myndina frægu af þróun mannsins.  Við áttum að troða öllum í símklefa og taka mynd þar.  Við áttum að túlka myndina how to look good naked, Bítlamyndina frægu þar sem þeir eru að ganga yfir gangbraut og svo aðalatriðið mynd af öllum að hoppa í einu.  Og ef ég á ekki sigurmyndina í því þema þá veit ég ekki hvað.  Fundum okkur járnstöng á hallærisplaninu sem við stigum uppá og hoppuðum, fengum unglingsstrák til að smella af og hann stóð sig vel.

 

Svo gekk leikurinn út að svara þrautunum og komast að næstu þraut osfrv.  þetta var ekki tímataka þannig að við gátum gert þetta á okkar hraða.  Við í mínum hópi vorum frekar sein í þessu því við vorum með framboðsáróður við gangandi vegfarendur, því við tókum hlutverkið alvarlega að vera BESTI FLOKKURINN.  Fólk trúði okkur algjörlega að við værum á þeirra vegum og flestir sem við töluðum við voru ákveðnir í að kjósa okkur.  Ég held meira að segja að við höfum haft eitthvað með það að segja hvað Besti flokkurinn kom vel út í könnunum um helgina.  Gæti verið að Nonni og Steinunn yrðu bara að taka sæti á listanum þeirra. Ég nefni þau bara því þau eru einu úr hópnum sem eiga heima í RVK (að ég held, veit ekki með Gísla og Sævar) en hvað um það þau myndu standa sig vel í þessu.

Við fórum einmitt á kosningaskrifstofuna þeirra og hittum Þorstein Gunnarsson, hann var mikið til í að vera með á mynd.  Við fórum einnig og hittum sjálft borgarstjóraefni flokksins, Jón Gnarr og ræddum við hann og tókum myndir af honum með okkur og þeir tóku myndir af okkur með honum eða var það öfugt.  Alla vega tókum við myndir og þeir tóku líka myndir.

Mjög skemmtilegt atriði var þegar Nonni sá Sigurjón Kjartansson og ætlaði að tala við hann, kallaði á hann en Sigurjón tók á sprett og Nonni á eftir.  Við botnuðum eiginlega ekkert í þessu fyrr en við fórum aðeins að ræða málin eftir leikinn og sáum fyrir okkur hvað það hafi verið sem Sigurjón var að upplifa.  Nonni, klæddur jakkaföt, hvítmálaður með rautt trúðsnef, fangið fullt af blöðrum og áróðursbæklingum hlaupandi á eftir honum.
Ég hefði líka hlaupið hratt undan honum, skíthrædd.

Við gáfum líka rónum bjór, öndum brauð því við í Besta flokknum erum góð við alla, líka róna og sérstaklega við aumingja.  Þess vegna leyfðum við hinum liðunum að vinna.

Eftir leikinn var farið uppí B26 og þar beið okkar geggjaður matur, lambafillet, nautasteik og humar grillað og þvílíkt gott.

Eina sem ég hef út á þennan leik að setja er restin af honum.

Þeir hjá Eskimós tóku við myndunum, fóru yfir spurningarblöðin okkar og fundu sigurvegara í Navigator leiknum, annar sigurvegari í Gátumeistaranum og svo sögðu þeir að síðar yrði tilkynnt hver væri sigurvegari í ljósmyndakeppninni því einn ljósmyndarinn gat ekki skilað af sér myndunum vegna þess að hann tók þær í RAW en ekki JPG.  Iss það hefði nú bara átt að taka þau úr þeirri keppni vegna þeirra eigin mistaka.  Þetta er atriði í undirbúningi að þú sért með myndavélina rétt stillta.  Ég pasaði sérstaklega uppá þetta hjá mér, vissi mæta vel að Eskimós myndu ekki geta lesið raw myndir hjá mér.  En einnig finnst mér að þeir hefðu mátt gefa okkur meiri tíma eftir matinn og fara yfir td. hverjir voru í bestu búningunum, hverjir tóku hlutverkin sín alvarlega, hverjir skiluðu bestu bókunum af sér, því það var talað um að það teldi til stiga að skila pappírum fallega útfylltum oþh. og við vorum með límmiða til að skreyta og lögðum ekki minni áherslu á það og að hafa rétt svör.

Alla vega Bottom line er að það virtist eins og Eskimós væru eitthvað að flýta sér þarna um kvöldið en ég hefði viljað gera meira út alls konar þáttum keppninnar eins ég sagði áðan.  En svo skiptir það ekki máli, mitt lið er SIGURLIÐIÐ hvað sem þeir hjá Eskimós segja.  Við náðum alveg einstaklega vel saman og vorum með sterka liðsheild og enginn datt úr hlutverki allan tímann.  Þó stendur uppúr það sem Gréta og Jón Gnarr gerðu, og líka það að einn vegfarandinn trúði því ekki að Gréta hefði náð kosningaraldri svo nú er hún ákveðin í því að vera alltaf með þessa teina sem hún er með uppí sér.  sjáið hana fyrir ykkur á elliheimilinu enn með teinana og heldur að hún líti út eins og 17.

Jæja, hvítasunnuhelgin í hámarki, gott veður og mér líður frábærlega eftir þennan skemmtilega leik og vona að þið séuð öll kát og glöð.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Ps. það eru myndir frá þessum viðburði hér

http://www.mirra.net/album/default.aspx?aid=179704

Kristínu Jónu Athugasemd: Vá hvað þetta hljómar frábærlega – ég hlakka til að vera með aftur 🙂 (,Hafrún) Athugasemd: Það er greinilegt að þið hafið haft mjög góðan áhrif í kosningabaráttu í Reykjavík. Frábært hjá ykkur! 🙂 (caroline@internet.is,Caroline) 18.6.2010 16:34:31 Sumarið er komið
og við farin í fríið eða þannig, verðum nú mest bara milli heimilis og bústaðar.

Það er nú ýmislegt búið að gerast síðan síðast.  Besti flokkurinn fékk hreinan meirihluta í borgarstjórn og Vinstri grænir urðu í oddastöðu í Hafnarfirði og hunsuðu vilja kjósenda og ræddu bara við Samfylkinguna og gerðu Lúðvík að bæjarstjóra þrátt fyrir að hann hafi ekki náð inní bæjarstjórn.

Já hann er skrítinn þessi pólitíski heimur.

Það er búið að mynda dálítið mikið þennan fyrsta hluta sumarsins og ég er búin að komast að því að mig langar mest í 90 mm macro linsu til að geta tekið frábærar andlitsmyndir úr fjarska og stórkostlegar blómamyndir. Ég get keypt þessa linsu í águst en veit ekki hvort ég geti beðið, því ég er svo óþolinmóð.

Konný systir var með mér uppí bústað í tvo daga og við fórum um allt, fengum nú ekki neitt sérstakt veður en áttum frábæran tíma saman og með Ástrós Mirru.

Ástrós Mirra er alsæl að vera komin í sumarfrí, þá getur hún fengið að vaka lengi, og ég meina að vaka lengi, hálfellefu er ekki lengi.  Vaka frameftir er til 12 eða meira, segir hún.  Ég hef aldrei skilið af hverju það sé gott að vaka frameftir og sofa svo hálfan daginn.  Nei takk, má ég þá frekar biðja um að fara bara að sofa kl. 11 og vakna snemma og hafa allan daginn fyrir sig.  Líka í sumarfríi því þá þarf ekkert að byrja að venja sig aftur á réttan tíma þegar fríinu líkur.

Ég ætlaði með ömmu í bíltúr í dag en það varð að hætta við það því hún var svo þreytt eftir að hafa skellt sér á Víkingahátíðina í gær með Gyðu og kaffihús á eftir.  Þær eru nú meiri skvísurnar þessar tvær saman.  Ég óska að ég verði eins og amma þegar ég verð stór, stærri eða bara seinna.  En svo hringdi hún áðan þessi elska og var búin að jafna sig.  Verst að þá er ég að fara uppí bústað og get ekki boðið henni með.

 

En jæja þangað til næst,
Kristín Jóna

Kristínu Jónu 27.6.2010 16:02:45 Stelpuhelgi
Jæja við erum búnar að hafa það gott á Þingvöllum, ég, Birta og Mirran mín.  Við fórum á Geysi í gær og tók ég fullt af flottum myndum af þeim skvísum þar.  Þær fengu veski frá Auði ömmu og Sigga afa og voru báðar með spariföt með sér til að leyfa mér að mynda sig í.  Þvílíkar skvísur hafa bara ekki sést við Strokk eða Geysi, þær vöktu svo mikla athygli að einn ferðamaðurinn bað um að fá að taka mynd af þeim og Þórir hér á móti spurði mig í morgun, hvaða voða skvísur þetta hefðu verið sem spásseruðu með veski og kött hér um allt í gær.

 

 

Við gerðum góða tilraun til að fara í heita lækinn við Nesjavelli í dag, en hann var svo sannarlega heitur og meira að segja svo heitur að þær gátu varla stungið tánum niður, hvað þá meira.  Pínulítið misheppnum ferð hjá okkur en ég dreif mig svo í að þrífa bílinn þegar við komum aftur heim og þær fóru bara í hugglegheit uppá háalofti, horfa á Crockodile Dundy, fyndið hvað Mirrunni finnst þetta skemmtileg mynd.

Þráinn er búinn að vera að sjálfstæðast alla helgina þe. skellti sér á landsfund og er ábyggilega uppfullur af pólitík þegar ég hitti hann, spurning hvort og hvernig það muni virka á mig.  Finnst ég ótrúlega jákvæð gagnvart sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Kannski af því að Þráinn er þar, kannski af því að samfylkingin er alveg búin að gera út um það að ég kjósi hana aftur með framkomu sinni í Hafnarfirði og gagnvart Hafnfirðingum og ekki eru vinstri grænir skárri þar.  Eitt vissi ég samt alltaf og það gerði það að verkum að mér fannst óþægilegt að vera samfylkingarmanneskja og það eru evrópumálin, ég vil ekki sjá að ganga að evrópusambandið og get ekki séð að upptaka evrunnar hafi komið grikkjum til góða, svo í guðanna bænum bíðum með þetta alla vega meðan ástandið í Evrópu er eins og það er.  Ég hef alltaf verið skíthrædd að selja öðrum þjóðum auðlegð okkar og ég skil ekki af hverju þeir ættu að vilja fá okkur í sambandið ef þeir ætla ekki að græða neitt á því.

Vá, hvað ég er eitthvað andlaus þessa dagana og lítið fyrir erfiðisvinnu eða þannig, hef helst bara viljað gera sem minnst það sem af er fríinu mínu.  En á það ekki líka að vera svoleiðis?

Hlakka til að hitta kallinn minn, hef ekkert séð hann í fyrstu vikunni af hans fríi.

Jæja þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 3.7.2010 10:28:28 Ég er kona
sem er ekki með allt á hreinu,eða þannig.

Við fórum í ferðalag um daginn, á  Seljalandsfoss, Reynisfjöru og Vík í Mýrdal allt vegna þess að Iceland Inspired ætluðu að vera með risatónleika á Seljalandsfossi um kvöldið.  Það var ekkert sérstakt veður en spáði enn verra daginn eftir svo við ákváðum að þetta yrði bara fín ferð.
Sem hún og var.  Ótrúlegt hvað ég náði fínum myndum miðað við öskurokið sem lá yfir öllu suðurlandi þennan daginn og líklega lá þetta yfir eyjarnar líka, því vindhraðinn var svo mikill.  Mig langar nú aftur í Reynisfjöruna í betra veðri því hún er algjört æði, fallegt berg, fallegir steinar í fjörunni og ég get ímyndað mér að hægt sé að stoppa þar heillengi.

 

 

En svo fórum við til baka til að sjá hvernig veðrið var við Seljalandsfoss þegar kvöldaði því tónleikarnir áttu að vera kl. 21 en okkur grunaði að það gæti verið óþægilegt að vera þar í annað hvort grenjandi rigningu eða öskuroki.  Við komum þangað kl. 19 og þar var enginn.  Við keyrðum inn dalinn og enn var enginn en öskurokið lá yfir öllu þarna svo við ákváðum að sleppa þessum tónleikum en vorum búin að eiga frábæran dag á suðurlandi.  Svo þegar ég setti inn á fésbókina stöðu að ég hefði verið alein á Seljalandsfossi, þá fékk ég athugasemd að tónleikarnir ættu reyndar að vera daginn eftir.  Ég fór á röngum degi en sem betur fer, því daginn eftir var bara brjálað veður og tónleikarnir fluttir inn í miðborg Reykjavíkur.

 

Nú er búið að smíða og festa stiga uppá háaloftið okkar svo ekki þarf lengur að lyfta upp þeim krökkum sem langar í dyngjuna þar.  Við ætlum að setja eitthvað í loftið þar svo það líti betur út því Mirrunni finnst bara gaman að vera þarna uppi.  Nói fer meira að segja til hennar og stökk sjálfur niður í gær, held reyndar að hann hafi meitt sig aðeins þegar hann stökk, því þetta er yfir 2 metrar sem hann stökk.

 

Svo gerðist nú ævintýri áðan  Nói var bundinn úti og var eitthvað að narta í tréið mitt hér uppi á palli og inni að tölvast þegar ég heyri svo skringileg hljóð í honum og fer út að athuga með hann.  Þá er hann búinn að vefja ólinni í kringum í blómapottinn og ég reyni að fá hann til að labba hringinn í kring til að losa sig þegar hann allt í einu kvæsir þvílíkt og kryppan upp og bara allt í gangi, ég skil ekkert í hvað sé að kettinum þó hann sé fastur en lít til hliðar og sé þar annan kött, litla læðu marglita sem er bara að spóka sig í sveitinni.  Vá lætin voru þvílík að Þráinn og Ástrós Mirra vöknuðu og komu hlaupandi hingað fram, ég náði að taka Nóa úr ólinni og setja hann inn án slysa en Ástrós Mirra fór út að reyna að reka hinn köttinn í burtu og situr uppi með klór á handlegg og fæti.  Ég verð nú að segja það að ef lausaganga hunda er bönnuð, þá myndi ég telja að lausaganga katta væri líka bönnuð, sérstaklega á svona viðkvæmum stað fyrir fuglalífið oþh.  En það er nú bara ég.

Vona alla vega að þessi köttur láti okkur í friði svo Nói geti nú farið á pallinn eins og hann er vanur.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 7.7.2010 20:50:20 Mitt sumar
Já hvað er búið að gerast síðan síðast?  Humm, éta, sofa, leika sér en ekkert sólbað.  Ég veit að ég er ekki mikið fyrir sólböð en ég hefði samt verið til í að þurfa að setja upp sólhlífina mína en hef ekki þurft að gera það hingað til en við erum samt alveg sátt, getum þá bara staðið undir nafni sem nördafjölskyldan og setið hvert með sitthvora fartölvuna hér í bústaðnum, því Þráinn fór og keypti sér eina litla tíutommu um daginn, svo nú erum við öll með eitt stykki í fanginu.  þetta er ótrúlega sniðugar þessar litlu tölvur og útrúlega auðvelt að skrifa á þær og allt.  En hann mun nú oftast hafa hana tengda við stóra skjáinn heima og vera með lyklaborg og mús við en svo er þægilegt að gera tekið hana með sér á fundi oþh. nú og í bústaðinn.

 

Það er búið að klæða háaloftið að innan með hvítum plötum svo það er orðið ansi huggulegt þar og Mirran svaf þar uppi í nótt. Ég var nú eitthvað stressuð yfir því en veit ekki af hverju og hún skilur það alls ekki svo líklega hefur bara farið vel um hana.  Þetta er svona dyngjan hennar.  Ég stakk uppá því við hana að skíra loftið Mirruloft en henni finnst komið nóg af Mirruþetta og Mirruhitt sbr. Mirrunet, Mirrukot osfrv.  svo hún ákvað að þetta háaloft héti Krakkaloft og er það samþykkt.

 

Nói er búinn að vera á vaktinni 24/7 síðan villikötturinn kom hérna og er enn.  Hann var úti rétt áðan og ég heyrði allt í einu svo furðuleg hljóð svo við hlupum út og þá var skvísan komin og minn ekki ánægður, við rétt náðum honum inn og nú hoppar hann glugga úr glugga til að athuga aðstæður.  Það er sem ég segi, þetta er enginn venjulegur köttur hann NÓI KÓNGUR.

 

 

 

Þráinn formaður þurfti að skjótast í bæinn og slökkva elda í Leikfélaginu en það er allt að sjóða upp af því að hann er í sumarfríi, nei djók, en það kom upp vandamál og ég sagði honum bara að fara í bæinn og leysa þetta og koma svo aftur frekar en að vera kannski með áhyggjur af þessu í marga daga svo við Mirruskott erum bara tvær hér með Nóa og höfum það huggulegt í rokinu.

 

Við skruppum þó í smá ævintýraferð í dag og prófuðum nokkra afleggjara sem við vissum ekki hvert láu og enduðum á að mynda fallega hesta og svo gerði ég eitt sem ég er búin að hafa í huga lengi og það er að keyra niður að Miðfelli og mynda það.  Síðan var bara legið uppí að horfa á Tvo and a half man, klárum syrpuna áður en við förum að sofa í kvöld.

 

Þemað núna er Villt og hér eru nokkar myndir af villtum gróðri við bústaðinn okkar sem ég tók í gær.

 

Þangað til næst,

Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 23.7.2010 19:29:20 Kvartað yfir bloggleysi
Ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt þegar hringt er í mann af því að það er svo langt síðan ég hafi bloggað og viðkomandi varð bara að heyra í mér í staðinn.  Það má náttúrulega ekki vera þannig að fólk þurfi ekki að hringja í mann af því að maður bloggar og það sé hægt að fá fréttirnar þar.

En ég ætla reyndar ekki að hætta að blogga enda gerist fullt fleira en það sem er skrifað hér.

Ýmislegt hefur nú gerst síðan síðast.  Við erum búin með sumarfríið, Klara sys er flutt og Maddý tengdó lenti inná spitala á Húsavík.  Ansi er hún langt í burtu frá okkur þegar eitthvað svona gerist en það finnst ekkert að hjartanu í henni, hún fékk ekki blóðtappa í lungun en þeir eru enn að rannsaka hvað er/var að henni.  Vonandi að eitthvað komi í ljós því hún var svo sannarlega veik þegar hún var flutt með sjúkrabíl frá Raufarhöfn til Húsavíkur.

Góðan bata kæra tengdó.

 

Ástrós Mirra er búin að vera með mér alla vikuna í vinnunni og við alveg þokkalegar vinkonur en þó finn ég að við erum búnar að vera allt of mikið saman í fríinu og Þráinn svona meira stikkfrí.  Nú er mig farið að langa að vera stikkfrí og ég fæ það ábyggilega eina helgi í ágúst.

Ég var að panta með Herjólfi til Eyja á mánudeginum um þjóðhátíðina og öllum finnst ég náttúrulega stórskrítin en málið er að ég ætla að skutla Mirruskotti til Eyja og fara svo sjálf til baka klukkutíma seinna því Konný er búin að bjóða henni að vera hjá þeim í vikutíma.  Það er æðislegt.  Svo fer hún (Mirruskottið) á reiðnámskeið 9. ágúst svo hún fer að hætta að vera með mér í vinnunni en hún kýs það frekar en að vera heima og reyna að hittta á einhverja krakka.

Talandi um krakka og þess háttar, þá erum við búin að ákveða að prófa að sækja um fyrir hana í Hvaleyrarskóla aftur,  hún er bara ekki að finna sig  hér í Hraunvallaskólanum og hefur ekki eignast neina vini nema Söru og er svo mikið ein.  Við vonum bara að skólayfirvöld taki vel í þetta og samþykki umsóknina hennar og þá vonum við að henni eigi eftir að líða betur.

Hún er búin að vera að segja mér meira í sumar hvernig lífið hjá henni hefur verið í vetur og það er ekki gott sem ég er að heyra.  Ástæðan fyrir því að ég hef ekki heyrt þetta áður er að ég geri svo mikið mál úr hlutunum og því segir hún mér ekki alltaf allt.  Og svo skil ég ekki vel krakka á hennar aldri. En þetta er svo sem ekkert til að djóka með því það er auðvitað ekki gott að ganga í skóla og eiga enga vini.  (eða nánast enga)

Við erum að fara mjög snemma að sofa í kvöld því stefnan er tekið á Flatey kl. 5.30 í fyrramálið.  Fyrramálið, þetta er bara hánótt en við getum kúrt í bílnum, við ætlum með Konný og Markúsi því okkur hefur öllum langað svo í Flatey og nú skal verða af þessu.

Hlakka svo til.

Þangað til næst,
Ykkar, Kristín Jóna

Kristínu Jónu 25.7.2010 15:32:59 Flatey og Snæfellsnesið
Við fórum í gær, með Konný, Markúsi og Zorro í dagsferð til Flateyjar og hringinn í kringum Snæfellsnesið.

Það var vaknað kl. 4,50 og liðið skellti sér á fætur og vorum við komin út úr húsi kl. 5.30. Fórum á N1 og nestuðum okkur upp og hittum svo Konný og co. uppí Grafarvogi hjá mömmu.

Markús var dræver allan tímann og stóð sig vel.  Við vorum nú dálítið syfjuð til að byrja með en tilhlökkunin kom í veg fyrir að einhver lagði sig í bílnum.

Markús stillti Garminn og hann sagði að við ættum að vera komin á Stykkishólm kl. 8,02 og ég get svo svarið fyrir það að það stóðst uppá mínútu.

Við skelltum okkur svo í ferjuna Baldur sem siglir á hraða snigilsins þarna á milli Stykkishólms og Flateyjar. Ég skil mætavel að Eyjamenn hafi ekki verið hrifnir af því þegar þessi bátur var látinn leysa Herjólf af, á leiðinni Þorlákshöfn – Vestmannaeyjar. Þetta er ágætisskip fyrir þessa leið, fyrir utan siglingahraðann en mig grunar að hann sé nú tilkominn vegna sparnaðar á olíu en ekki getu skipsins.

Jæja við komum til Flateyjar á settum tíma og skiptum okkur í tvö lið, strákarnir ákváðu að fara í ferð með leiðsögumanni en við stelpurnar ákváðum að fara þetta á okkar hraða og vilja.  Það er frekar óþægilegt að vera í hópi með mikið af fólki og hafa ekki tíma til að stoppa og taka myndir eins og manni sýnist.  Reyndar sýndist okkur svo að við höfum farið hraðar yfir þetta en strákarnir en þetta var bara æðislegt.  Ég hefði alveg verið til í að stoppa þarna í ca. 4 tíma en 9 tímar hefði verið allt of mikið.  Það eru bara tvær ferðir á dag frá Flatey og það er kl. 13.15 eða kl. 20.  Dálítið langur tími þarna á milli.  Hefði mátt setja á  einhverja milliferð.  Eins líka að þurfa að vera komin á Stykkishólm kl. 8.30 þýðir að það þarf að leggja svo snemma af stað úr bænum, og ég reikna nú með að flestir séu að koma þaðan sem fara í eyjuna.

En Flatey er ofboðslega falleg eyja og ég held að þetta sé svipuð upplifun og að koma til Færeyja og þangað hefur mig alltaf langað að fara.  Falleg hús og pínu eins og tíminn hafi stoppað þarna um miðja síðustu öld.  Æðislegt.

 

Aumingja Zorro lenti nú í hremmingum í eyjunni, því það réðust á hann 4 kindur og þær ætluðu ekki að gefa neitt eftir, þær ætluðu að rífa hann í sig.  Þráinn tók eitt lamb upp og grýtti því út af veginum og það var fullt af fólki þarna að hjálpa okkur að reyna að reka þessar rolluskjátur í burtu en eins og ég sagði, þær ætluðu ekki að gefast upp.  Ekkert smá ráðríkar svona rollur sem alast upp í nálægð mannsins í einangrun á svona eyju.

Jæja eftir Flatey, keyrðum við hringinn um Snæfellsnesið og uppgötvuðum einn stórkostlegasta stað ever. Skarðsvík, þar er ljós sandur og blár sjór, algjört æði og þangað vil ég fara aftur og stoppa lengur.

Eins var óskaplega falleg á Grundarfirði en Ólafsvík er ekkert spennandi staður að mínu mati.  Svo eru Arnarstapi og þarna sunnanvert mjög fallegt.  Við vorum bara orðin þreytt og svöng þarna í restina og veitingastaðir þarna eru ekki að okkar skapi.  Fínn staður á Arnarstapa þar sem máltíðin kostar 3.500 og enginn barnamatseðill svo mér fannst það heldur dýrt fyrir okkur 3.  Þar var okkur bent á stað á Hellnum en þegar þangað var komið var bara hægt að fá kjúklingaböku eða súpu fyrir 2.000 kall á mann sem mér fannst bæði of dýrt miðað við hvað þetta var og ekki nægur matur í því.  Enduðum gloghungruð á hamborgarasjoppu í Borgarnesi og fórum södd út og þar kostaði rétt um 3.000 krónur fyrir okkur 3, spöruðum talsvert á því.

Næst þegar ég fer þarna Snæfellsnesið þá ætla ég að taka öfugan hring miðað við það sem við gerðum í gær, því þá endar maður á Ólafsvík, Grundarfirði eða Stykkishólmi og þar er hægt að fá sér að borða alls konar mat.

 

Vorum síðan komin heim uppúr kl. 23 og vel sæl og þreytt eftir frábæran dag.

Ég er alveg á því að taka fleiri svona daga, þe. vakna snemma, skoða sig um og njóta staðarins án þess að vera að hafa fyrir því að tjalda og vesenast með það.  Fara bara svo heim og sofa í sínu rúmi og slappa af daginn eftir.  Dásamlegt.

Takk Konný, Markús og Zorró fyrir frábæran dag.

Þið getið svo notið myndinna frá bæði mér og Konný á flickrinu okkar.

http://www.flickr.com/photos/kristjona/

My father

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 8.8.2010 20:30:25 Reiðnámskeið ofl.
jæja þá byrjar hið árlega reiðnámskeið hjá Mirrunni á morgun.  Hún var svo heppin að Konný frænka hennar gaf henni leðurhestahanska svo hún ætti að geta haldið í tauminn.

Við erum einnig búin að fá svar frá skólanum og hún fær ekki að skipta um skóla að þessu sinni, þar sem bekkirnir eru þegar of stórir í Hvaleyrarskóla.  Við ætlum því bara að vinna vel í hennar málum í vetur og vona allt hið besta.  Hún var auðvitað mjög vonsvikin en sagði að við þyrftum samt ekki að hafa áhyggjur.  Týpískur krakki að hugsa fyrst um hvernig foreldrunum líði og svo hvernig honum sjálfum líði.

Ég átti fríhelgi núna og sendi feðginin í bústaðinn þar sem þau áttu frábæra helgi en ég fór varð gay for a day og skrapp með Konný systir og Silju að taka Gleðimyndir.  Skellti mér svo í fertugsafmæli í gær líka til Caroline og það var mjög notarlegt.  Svo var ég bara ein heima, svaf ein í rúminu í 2 nætur (dásamlegt) og fór svo með ömmu í bíltúr í dag til mömmu en Þráinn og Mirran skelltu sér í afmæli til Daggarinnar og allir voða glaðir og ánægðir.

 

Stefnan tekin á fjölskyldumynd á eftir og notalegheit.

Vinnuvika ný á morgun og vonandi að það fari að verða eitthvað að gera, ómögulegt þegar manni leiðist í vinnunni.

Já og by the way, ég er orðin blond again og vá hvað það er þægilegt, nú þarf maður ekki lengur að vera eitthvað gáfulegur oþh.  Getur bara verið eins og maður er.  Vá, þetta var nú bæði sagt fyrir blondínuna og gay stelpuna.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 25.8.2010 19:22:28 Syfja
Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á blogg, þ.e. ef ég get það fyrir syfju. Ég er nefnilega búin að eiga í einhverju svefnveseni og sef nánast ekkert á nóttunni (alla vega á mínum mælikvarða), er hundþreytt í vinnunni en svo alveg þokkaleg um kvöldmat og frameftir.  Skil þetta engan veginn.

Fékk fullt af frábærum ráðleggingum hjá vinnufélögunum í dag, 1. Taka eina ibufen og eina panodil fyrir svefninn.  2. Drekka einn bjór.  3. Drekka hvítvín eða jafnvel eitthvað sterkara.  3. Drekka flóaða mjólk.  4. Sofa í Ástrósar rúmi.  5. Jafnvel bara sofa hjá Jakobínu.
Allt mjög góðar ástæður og svo var bara talað um að hætta einu atriði í einu til að trappa sig niður og þá spurði ég bara:  En hvað ef ég get ekki hætt að sofa hjá Jakobínu?  Hvað segir Þráinn þá?

Nei að öllu gamni slepptu þá er þetta ekkert grín og ég veit að maðurinn minn er með áhyggjur af mér, því þetta er svo ólíkt mér sem hef alltaf getað sofið hvar sem er og hvenær sem er.  Þótt ég hafi lagt mig kemur það ekki að sök þegar ég ætla að fara að sofa um kvöldið en núna… úps, botna bara ekkert í þessu.
Kannski er bara eitthvað að taugakerfinu sem ég átta mig ekki á, kannski er ég bara að verða gömul.  Alla vega, ef ég er orðin gömul þá langar mig ekkert endilega að vera gömul og þreytt.

Skólinn er byrjaður hjá Mirru Skottu og það lítur allt mjög vel út, þrátt fyrir að hún fengi ekki að skipta um skóla.  Hún er jákvæð og félagslega lítur þetta bara vel út.  So far, so good.  Það verður svo bara að koma í ljós hvernig veturinn verður.  Skóladagurinn verður talsvert lengri núna en áður og mér finnst ég loksins vera að sjá stundatöflu, ekki bara eitthvað “heimakrókur” og þess háttar orð sem eru ofar mínum skilningi.  Kannski hún fari að fá einkunnir líka ekki bara umsagnir, mér finnst svo erfitt að átta mig á því hvar hún stendur í námi ef ég sé ekki 8,5, 9 eða 10.  Já, ok þó það fari niður í 8 en neðar sættum við okkur við ekki ef hún er dóttir mín.

En jæja ætla að njóta þess að vera ein heima í kvöld, Ástrós Mirra er í sundi með vinkonu sinni og Þráinn á leið á fund.  Já, Þráinn talandi um hann, hann er bara ekki búinn að vera memm í svolítinn tíma eða síðan hann fór í framboðið og fékk alveg lausan tauminn frá mér en ég gleymdi víst að herða á taumnum aftur en það var reyndar gert í gær og hann lofar að fara að vera memm aftur.  Hlakka til.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Ps. Þó Þráinn sé ekki búinn að vera memm þá er hann alveg búinn að vera góður við mig og gaf mér til að mynda stúdeóljós í litla stúdeóið mitt.  Takk ástin mín.

Nú þurfum við bara að taka þessa frábæru fjölskyldumynd sem ég var búin að plana.

KJG

 

Þessi skvísa mætti í myndatöku með nýju ljósunum.

Kristínu Jónu 28.8.2010 10:12:34 Þetta er undarlegt líf
Jæja, það er komið að því að ég skrifi aðeins um undanfarnar tvær vikur sem hafa verið afskalega skrítnar og ekki síst fyrir það sem er að koma fyrir ungan vinnufélaga minn.

Það fyrsta sem gerðist var að hann var handtekinn grunaður fyrir morð.  Vá, sjokkið sem maður lenti í, á vinnustaðnum.  Hann var nafngreindur á DV.is og mynd og allt.

Næsta sem gerist er að honum er sleppt og okkur tjáð skv. lögreglu að nánast engar líkur séu á því að hann tengist þessu máli og að hann sé ekki nógu sterkur til að geta staðist af sér þessar yfirheyrslur sem hann lenti í ef hann væri sekur.

Þá brotnaði ég saman því ég hafði hreinlega leyft DV.is, Pressan.is, Visir.is, MBL.is að fá mig til að trúa því að hann gæti verið sekur.  Ég vildi ekki trúa því að fréttamiðlar myndu birta myndir nema þeir hefðu eitthvað handbært sem tengdi viðkomandi við glæpinn.  Og ég trúlega brotnaði saman vegna þess að ég leyfði einhverjum ókunnugum að fá mig til að trúa því að þessi ungi drengur sem vinnur með mér væri hard core “morðingi”.

Þetta var erfið vika en í lok vikunnar kom þessi ungi maður í vinnuna til að hitta okkur áður en hann kæmi alveg í vinnu.  Ég tók utanum hann, ég horfði í augun á honum meðan ég talaði við hann um þetta sem hann hefði verið að ganga í gegnum og ég vil ekki trúa því að manneskja geti blekkt mann svona heiftarlega.

4 dagar líða í vinnunni, við 2 þurfum meira að segja að vinna hlið við hlið í smá verkefni.  Hann var svo glaður þegar lögreglan skilaði bílnum hans eftir að hafa haft hann í haldi í vikutíma.  Hann fór og fékk sér áfallahjálp eftir að hafa verið í haldi lögreglu í sólarhring, ekki síst til að vita hvernig hann ætti að geta farið aftur í vinnu og talað við vinnufélagana.  Gott mál hjá honum.  Ég sagði einmitt við hann að það væri fullt af fólki sem vissi svo sem ekkert hvernig það ætti að koma fram við hann eftir þessa lífsreynslu hans og hann virtist nú hálf hissa á því, hefur líklega haldið að það væri hann sem væri nervös vegna þessa.

Jæja, svo allt í einu í gær, mætir ungi maðurinn ekki í vinnu aftur og við sjáum á fréttamiðlum að gerð hafi verið húsleit heima hjá honum kvöldinu áður (húsleit sem hann heimilaði sjálfur) og hann handtekinn í framhaldi og krafist 4 vikna gæsluvarðhalds yfir honum.  Þeir fundu einhverja muni heima hjá honum sem tengja hann við glæpinn.  Bíddu þetta var ekki morðvopnið, það kom skýrt fram.  Voru þetta þá ekki bara munir sem kærasta fórnarlambsins átti, það vita það allir að þessi ungi maður sé ástfanginn af henni og sagan segir að hann hafi sótt hana þarna um nóttina á pöbb niðrí bæ, þar sem hún hafi verið dauðadrukkin.  Ok, hún fór ekki heim til sín fyrr en á hádegi daginn eftir, enda segir sagan að hún hafi gist hjá þessum unga manni og þá trúlega skilið eithverja muni eftir. Ekkert óeðlilegt við það og þetta er þá bara framhjáhald en ekki morð.  Ég get engan veginn séð fyrir mér hvernig þetta gæti hafa gerst.  Hann sækir stúlkuna á pöbbinn, fer með hana heim til sín, og hún drepst í rúminu hans.  Þá skellir hann sér heim til kærasta stúlkunnar með hníf, ræðst að honum sofandi í rúminu og marg stingur hann með hnífi í bakið.  Kærastinn vaknar og það verða slagsmál sem berast fram á gang þar sem honum tekst að klára þetta verk.  Verkið að drepa kærasta stúlkunnar sem hann elskar.  Trúlega allt í blóði, hann, fötin hans og jafnvel áverkar á honum eftir slagsmálin.  Ok, hann fer heim, mamma hans verður ekkert vör við neitt.  Hann setur fötin í þvottavél eða hendir í rusl einhvers staðar.  Skríður aftur uppí rúm hjá stúlkunni og sefur við hlið hennar til hádegis þegar hún fer heim til sín og sér hvað hefur gerst.

Hann sendi tölvupóst uppí vinnu um kvöldið og segist ekki vera í neinu standi til að mæta í vinnu á mánudaginn.  Hann er handtekinn síðar um daginn og ekki þótti ástæða til að gera svo neitt meira í því fyrr en viku seinna.

Er hann ekki bara blóraböggull?  Liggur hann ekki vel við höggi þar sem hann hafði sett þetta ástarjátningavídeó á youtube?

Getur einhver sem er nýbúinn að ráða mann af dögum á hrottafenginn hátt, staðið fyrir framan mann og það sést ekkert á augunum á honum.  Hefði hann ekki átt að vera kvíðinn?  Hefði hann átt að tala sem minnst við okkur?  Hefði hann ekki átt að vera flóttalegur til augnanna?  Ég get allavega ekki skilið hvernig hann gæti verið þessi harðsvíraði morðingi sem hann er talinn vera.

Ég vil ekki trúa því að íslendingur geti hafa framið þetta morð.  Ég trúi því að það tengist Litháisku mafíunni.  Eftir þær sögur sem ég hef heyrt frá mönnum sem hafa átt í viðskiptum við Rússland td. og hafa nánast lent í skotbardögum á milli lögreglu og mafíu af því að þeir greiddu röngum aðila múturnar.  Hefur það ekki bara gerst þarna úti, KFC hefur ekki greitt réttum aðilum mútur og þar með er einn sendur hingað heim til að drepa manninn sem vill ekki láta segjast.  Er þetta eitthvað lélegra handrit en það sem ég tala um hér að ofan með ástsjúkan ungan mann.

Ef ég á að lýsa þessum unga manni þá er hann hæglátur, feiminn tölvunörd, sem trúlega hefur átt erfiða æsku þar sem faðir hans tók eigið líf þegar hann var ungur.  Hann er alltaf tilbúinn að aðstoða mig með allt sem ég bið hann um en hann er svolítið utangátta á vinnustaðnum vegna aldurs en hann gæti verið sonur minn og hann er langtum yngri en þeir  sem næstir honum eru í aldri.

Jæja, ég kemst víst ekki að neinni niðurstöðu í þessu máli.  Verð víst að láta lögregluna um að vinna sína vinnu og vona það besta.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 11.9.2010 09:18:30 Pælingar Ég er búin að vera að velta fyrir mér undanfarið hvernig sjónvarp, vídeó, tölvur og tölvuleikir geta farið með viðkvæma barnssál.
Nú þekki ég ungan mann sem virðist ekki skynja mun á bíómynd og raunveruleika. Það er eins og hann geti slökkt á raunveruleikanum og rætt um hann eins og um bíómynd væri að ræða.

Á hvaða tímpunkti gerir maður sér ekki grein fyrir því hvernig komið er fyrir barninu manns.  Mér finnst svo ótrúlegt að hægt sé að fela svona vel hversu fjarri raunveruleikanum þú ert.   Já, já ég veit, ég hugsa allt of mikið en það eru ákveðin atriði í lífinu sem fá mann til að velta svo mörgu fyrir sér.

Ég hef til dæmis alltaf haldið að ef ég get horft í augun á manneskju þá viti ég hvort hún segi satt eða ekki.  Ef ég horfi í augun á manneskju sem hefur gert eitthvað af sér, þá myndi ég sjá flótta eða alla vega flökt en ég er búin að upplifa að það er hægt að horfa í augun á manneskju sem framdi glæp og sjá akkúrat ekkert athugavert.

Er bara hægt að prógramma heilann eins og við viljum?  Er hægt að láta hann hætta að hugsa? Er hægt að láta hann hætta að hugsa um slæma hluti bara, eða er manneskjan alltaf að hugsa og lætur bara sem hún geri það ekki.  Það er spurning?

Ég er til dæmis voða glöð að bæði Þráinn og Ástrós Mirra geta ekki logið að mér, ég nefnilega sé það alltaf á nefinu á þeim.  Þeim finnst það alveg ótrúlegt en það er bara svoleiðis, það er eitthvað sem gerist og nasavængirnir flökta eða eitthvað og BINGO ég átta mig á því.  NÆS.

Skólinn gengur vel hjá Ástrós Mirru, hún er bara nánast búin að vera að leika við krakka uppá hvern einasta dag eftir skóla.  Hún ákvað að æfa körfubolta í vetur því æfingarnar hjá þeim eru hér úti á Ásvöllum en í handboltanum þarf hún að fara uppí Víðistaðaskóla, niður á Strandveg ofl.  sem er alveg útí hött fyrir okkur sem búum við hliðina á Haukaheimilinu.

Ég hafði ætlað í dag í ljósmyndatúr með ljósmyndaklúbbi Vestmannaeyja en það varð að aflýsa þeirri ferð sökum þess að Herjólfur kemst ekki í Bakkafjöru og þarf að sigla á Þorlákshöfn í einhverja daga, en engir klefar og engin þjónusta.  Ömurlegt.

Svo við Ástrós Mirra ætlum að skella okkur á Reykjanesið og sækja myndavél og linsur fyrir Konný sem hún var að kaupa notað og taka smá ljósmyndatúr í leiðinni.  Skreppa kannski að Gunnuhver ofl.

Á morgun er planlagt að skreppa fjölskyldan saman í bíó og sjá “Despicable me” á ensku og kíkja svo í kaffi til mömmu og Sigga í Gravarvoginn enda orðið ansi langt síðan við höfum farið í heimsókn til þeirra.  Það verður sem sagt fjölskylduvænn sunnudagur hjá okkur og skemmtilegur laugardagur en það er þannig sem helgarnar eiga að vera,er það ekki?

Já eitt að lokum,  elsku eiginmaður minn, formaðurinn er að sjá stærstu ósk sína uppfyllast í þar næstu viku þegar Gaflaraleikhúsið tekur við lyklunum af Hafnarfjarðarleikhúsinu og LH mun þá fá almennilega aðstöðu og geta farið að setja upp alvöru leiksýningar.  Rosalega spennandi tímar framundan og þetta ákvað minn maður þegar hann tók að sér formannshlutverkið og að sjálfsögðu tókst honum þetta, með góðra manna hjálp.

Hlakka til að fara í leikhús í Hafnarfirði á næstunni.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Ps. þessi fallegi drengur átti 6 ára afmæli um daginn
Kristínu Jónu 25.9.2010 18:45:23 Leti Nei, það er sko engin leti hér á heldur bara mikið að gera í vinnu, áhugamálum og gestagangi.

Fyrst var Maddý hjá okkur um þar síðustu helgi og er nú farin norður svo við komum nú til með sakna hennar helling því hún skýst ekkert suður frá Raufarhöfn bara si sona.

Svo kom Konný og við fórum í frábæran ljósmyndatúr með félagsskapnum “Konur og ljósmyndir”.
Við buðum einnig Aron bróður ásamt Victori með og áttum við nördasystkinin góðan dag saman.

Fórum til Grindavíkur og þvældumst þar um og enduðum í réttum.  Ég hef aldrei fyrr komið í réttir en Ástrós Mirra var eins og innfædd bóndadóttir og dró í dilka og allt saman.

 

Við systkinin enduðum svo túrinn okkar með því að fara í Gunnuhver og Flekkuvík en þangað hafði Aron bróðir aldrei komið.

 

Frábær dagur þetta og svo kórónaði Þráinn hann með því að koma í bæinn (en hann hafði verið uppí bústað að smíða hurð fyrir svefnherbergið) og sækja Ástrós Mirru því hana langaði svo að fara til pabba síns og hann sagðist ímynda sér að við systur værum til í að vera bara einar að tala um myndir og myndavélar.
Við skelltum okkur svo út um kvöldið við Konný.  Já nú verður einhver hissa og heldur eitthvað allt annað en við gerðum.  Við skelltum okkur út um kvöldið til að taka kvöldmyndir og fórum hér niður á bryggju.  Ég tók mínar fyrstu næturmyndir og var það voða gaman, þrátt fyrir mikla þreytu eftir daginn.

 

Daginn eftir buðum við ömmu á kaffihús í tilefni 91 árs afmælis hennar fyrr í sumar.  Svo fórum við í Hellisgerði og röltum þar um.  Dásamlegur garður til að rölta með ömmu sinni.
Klara systir, Ríkharður og Kolla komu líka með svo þetta var virkilega góður dagur.  Svo fórum við með ömmu í bíltúr út á Bessastaði og vorum fengum aðvörun frá lögreglunni, því við stoppuðum til að taka myndir af Bessastöðum en það var þá að koma bílalest með háttsetta gesti.

 

Konný fór svo í Landeyjarhöfn og Silja kom til baka og gisti hjá okkur í 2 daga.

Svo var í dag heljarinnar Íþróttahátíð á Völlunum og vorum við hjónin í aðstoðarliðinu og skemmtum okkur vel með krökkunum.  Það var útbúin risaróla sem öllum þótti hrikalega gaman í.  Það var þreytt kona sem kom heim í dag og lagði sig og er bara nývöknuð og er að elda laugardagssteikina.

Eigið góða helgi
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Kristínu Jónu 9.10.2010 08:46:56 Mikið búin að pæla
í því hvað það er sem veldur því að foreldrar barna í fótbolta eru svona hörð á því að þau megi aldrei sleppa æfingu.
Eru það þjálfararnir sem útiloka þá þessi börn sem myndu ekki koma á allar æfingar, eða eru allir með Eiðs Smára drauma í hausnum.

Ég hef lent í rimmu við foreldra út af því að þeir vildu ekki samþykkja vinahópa í skólanum því strákarnir þeirra voru á æfingum 4-5 daga vikunnar og þá væri bara enginn tími til að fara í vinahóp einu sinni í mánuði.  Bíddu allir virkir dagar í æfingar og það má ekki sleppa einni æfingu í mánuði til að taka þátt í því að bæta líf nokkurra einstaklinga sem eiga fáa eða enga vini.
Eins hef ég heyrt að það sé slæmt að hafa fótboltaæfingar á sunnudögum og væri betra ef þær væru á laugardögum ef fólk vildi fara út úr bænum.  Bíddu við förum út úr bænum alla föstudaga á sumrin svo það er nú eins gott að Mirran æfi ekki fótbolta því hún þyrfti að taka frí allar helgar á sumrin.
Ég hef alltaf haldið að þegar börn eru á aldrinum 6-12 ára, þá eigi íþróttaæfingar að vera leikur og eitthvað skemmtilegt.  Eftir 12 ára aldurinn geta krakkarnir sjálfir tekið ákvörðun hvort þau séu tilbúin að fórna svo og svo miklu fyrir það sem á að vera áhugamál og leikur en verður miklil vinna á þessum tíma.

Ég hef alltaf haldið einmitt að það að æfa íþróttir væru áhugamál.  Ég sæi mig í anda ef ég tæki mitt áhugamál svona eins og ætlast er til að lítil börn taki sín. Allir dagar vikunnar sem færu í þetta og allt annað látið sitja á hakanum á meðan.

Nei, ég er voða fegin að þetta er ekki svona í handboltanum eða körfuboltanum og af því að það eru körfuboltaæfingar 4 sinnum í viku þá leyfi ég Mirrunni að sleppa einni, því mér finnst þetta of mikið. Hún er í skólanum til 14.30 og á mánudögum kl. 16 er Mosinn (félagsmiðstöðin í skólanum), þriðjudögum kl. 16 körfuboltaæfing, miðvikudögum kl. 17 körfuboltaæfing, fimmtudögum kl. 16 körfuboltaæfing, frí á föstudögum, laugardögum kl. 12 körfuboltaæfing, frí á sunnudögum.  Svo ef ég leyfði henni aldrei að sleppa æfingu þá gæti hún nánast aldrei leikið við vinkonu sína sem er ekki í körfuboltanum, eða bara farið heim og viljað hanga einn dag og gera ekki neitt.  Nú svo eigum við eftir að ræða hvenær á að gera heimanámið, því það er ekki gert eftir kvöldmat þegar allir eru orðnir þreyttir og sjónvarpið líka byrjað og farið að fanga athyglina.

En ég trúi ekki að ég sé eina manneskjan með þessar skoðanir, þó mér finnist ég alltaf vera ein á báti þegar ég ræði þetta við aðra foreldra.  (verð reyndar að segja að það eru yfirleitt foreldrar barna í fótbolta)

En í dag skín sólin og Mirran er að spá í dobbla pabba sinn í hjólreiðatúr áður en hún skellir sér á körfuboltaæfingu. Frábær dagur til þess.
Ég aftur á móti tek fótboltadæmið á þessa helgi og verð á fullu í áhugamálinu mínu en læt reyndar ekkert annað sitja á hakanum því ég stýri þessu sjálf.

Ætla sem sagt að taka myndir af fullt af börnum og reyndar nokkrum fullorðnum líka og er komin á fullt að hanna og gera jólakortin.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu Athugasemd: Kristín mín, þetta er algjör misskilningur hjá þér að þetta sé bara svona í fótboltanum, þetta er svona í öllum íþróttum og reyndar bara öllum áhugamálum.

Það er aldrei vel séð að börnin taki sér mikið af fríium, sérstaklega ekki ef það er engin önnur ástæða en að þau bara nenntu ekki. Þegar kemur að því að þau fara að keppa á fullu, þá fá þau frekar að spila sem eru dugleg að mæta á æfingar. Og já Mirran gæti aldrei æft fótbolta út af þessum sumarbústað, vegna þess að keppnirnar fara yfirleitt fram um helgar.
Aftur á móti er spurning hvort að æfingartímafjöldinn sé bara ekki of mikill fyrir þennan aldur. Það væri nóg að hafa 3 æfingar á viku en ekki 4.
Ég lít alltaf á að ef þú stundar íþróttir þá mætir þú á allar æfingar, nema eitthvað sérstakt hamli því. Fannst alltaf að ef ég gæti barninu mínu leyfi til að mæta ekki á æfingu þá gæti ég alveg eins gefið því frí í skólanum. En auðvitað eiga börnin oft ekki mikið líf fyrir utan skóla og íþróttanna
(,Konný) 16.10.2010 19:23:59 Kolaportið Við mæðgur fórum saman í kolaportið í dag því mig langaði svo mikið að skoða hatta og þess háttar fyrir stúdeómyndatökur af börnum.
Skil ekki af hverju ég var einu sinni alltaf smeik í kolaportinu, í dag finnst mér frábært að labba þarna um, skoða dótið, skoða fólkið og allt.
En verst að ég hefði getað keypt heilan helling af höttum en gerði það auðvitað ekki en ég keypti 5 og þeir kostuðu samtals 3.500-

Ástrós Mirru finnst mjög gaman að labba þarna um með smá pening og hún gerði einnig góð kaup og keypti sér til dæmis 3 syrpur fyrir þúsund kall.  Held að ein ný kosti 1.250- í áskrift.  Svo keypti hún sér kristalskúlu og blöðru með kónguló innaní.

Svo enduðum við þetta á að fá okkur ís og setjast inná kaffistofuna þarna.

Góður dagur hjá okkur í Kolaportinu.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Kristínu Jónu 19.10.2010 15:16:02 Kristnifræði Enn og aftur er fámennur hópur fólks að rífast um það hvort kenna megi börnunum okkar kristnifræði.  Hvort prestar megi koma í leikskólana og kenna börnunum bænirnar sínar og segja þeim frá Jesú.

Af hverju ekki þá líka að hætta við þorrablótin, öskudaginn, jólasveinana og ég veit ekki hvað!

Það er oft ýmislegt sem ekki alveg eftir manns eigin skapi sem kennt er í skólum og leikskólum en þurfa þá öll börn að hætta þessu?  Er ekki bara hægt að finna eitthvað annað að gera fyrir þau örfáu börn sem ekki mega kynnast kristinni trú.

Ef við myndum gera skoðanakönnun þá er ég viss um að það væri ekki yfir 10% sem eru mótfallin þessu.  Fullt af fólki er kannski alveg sama og þá er bara gott að þeirra börn fái þessa fræðslu því þegar upp er staðið þá gefur barnatrúin okkur alveg heilmikið þegar við erum orðin fullorðin.

Ég til dæmis ætlaði ekki að fermast, því ég hélt að ég tryði ekki á Guð.  En ég var nú fengin til að fermast og sé ekki eftir því í dag, því þó hafi ekki gaman af kirkjuferðum, þá leita ég stundum í mína barnatrú þegar mér líður ekki vel.  Ég hef líka kennt Ástrós Mirru faðirvorið og fleiri bænir og hún vill biðja bænirnar áður en hún fer að sofa.  Hvort sem það er af trúarlegum ástæðum eða einhverjum öðrum þá líður okkur vel þegar við biðjum bænirnar okkar og hvað er þá slæmt við það?

Þegar ég var í Austurbæjarskóla þá kom strákur frá Ameríku í bekkinn og hann og hans fjölskylda voru gyðingar og það var óskað eftir því að hann fengi að sleppa Kristnifræðitímum sem var ekkert mál og enginn krakki gerði athugasemd við það.  Það var bara tillit til þess að hann væri annarar trúar og því fengi hann frí.  Væri það ekki einfaldara að láta þessa örfáu einstaklinga bara fá frí í Kristnifræði og fara í annað herbergi í annan leik þegar presturinn kæmi í leikskólann í heimsókn heldur en að allir krakkar myndu missa af þessari fræðslu.

Hvað með jólasveinana?  Það eru ábyggilega einhverjir þarna úti sem vilja ekki að verið sé að tala um þá, ota þessu gjafaveseni að börnunum osfrv.  En af hverju alltaf að vera að setja sig upp á móti á einhverju sem hefur verið við lýði í hundruðu ára á Íslandi?  Ég held einmitt að það væri í lagi að auka þessa fræðslu og hlusta meira á hjartað en peninga í þessu blessaða þjóðfélagi okkar.  Ég er ekkert að segja að ég sé ekki hluti af þessu peningafólki, eyði fullt af peningum og hleyp út og kaupi allt sem Ástrós Mirru dettur í hug en ég er líka að hugsa um hvað við vorum komin langt frá rótum okkar.  Hvað allt hafði breyst mikið síðan ég var lítil stelpa.  Hvað gildin eru orðin allt önnur í dag en þá.

Koma börnin ekki ennþá brosandi út úr sunnudagaskólanum?  Leitum við ekki einmitt í trúna þegar eitthvað bjátar á og finnum frið þegar við biðjum til Guðs.

Leyfið börnunum að koma til mín, bannið þeim það ekki.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu Athugasemd: Ég er sammála þér, afhverju mega börnin ekki kynnast kristinni trú. Mér finnst reyndar líka í lagi að kenna börnum önnur trúarbrögð. Myndi vilja að ásatrúin væri þar á meðal. Þar sem hún er fortíðin okkar. (,Konný) Athugasemd: Konný, þeim er kennd trúarbragðasaga eða trúarbragðafærði en trúlega má auka það líka (,kjg) 24.10.2010 18:50:30 Ef þori ég, vilji ég, geti ég Ég man svo vel eftir fyrstu skiptunum sem konur hittust til að berjast fyrir jafnrétti.  Man eftir laginu sem var sungið og sé sum andlit fyrir mér.
Þessar konur lögðu grunninn að því jafnrétti sem er komið hér á Íslandi í dag.  Þó held ég að það vanti heilmikið uppá alvöru jafnrétti og þá í báðar áttir, því jafnrétti er jafnrétti milli karla og kvenna.  Ekki bara að konur eigi að fá allt til jafns við karla en þeir svo ekki jafnrétti til jafns við konur á móti.

Ég held að ennþá vanti talsvert uppá að konur fái sömu laun og karla fyrir sömu störf.  Eins held ég að það vanti talsvert uppá að karlar fái sömu fríðindi og konur vegna barna og fjölskyldu en er það kannski það sem útskýrir launamuninn?  Eru konur að fá lægri laun af þvi að vitað er að þær verði meira frá vinnu vegna skólaleyfa og veikinda?  Ég gæti nú bara alveg trúað því.  Þannig að ef þið karlar farið að nýta ykkur öll þau réttindi sem þið getið til jafns við okkur konur þá getum við kannski farið að fá laun til samræmis við ykkur.

Og af því að ég minnist á skólaleyfin þá eru 17 dagar þennan veturinn sem eru skertir skóladagar eða alveg frí í skólanum hennar Ástrósar Mirru.  Ég er svo heppin að vera orðin það gömul að ég fái 30 daga frí á ári en ef ég tek 17 af þá á ég bara 13 eftir til að nota í sumarfríinu mínu og þó að við hjónin myndum skipta þessu á milli okkar þá er þetta ansi mikil skerðing og þá eigum við eftir að tala um þá daga sem börnin eru lasin eða við sjálf uppá fjarverustundir frá vinnu.  Ef konur eru í miklum mæli að taka sér frí þessa daga en karlar þá er eðlilegt að eitthvað verði að láta undan og að mínu mati eru það kannski laun kvennanna sem hafa gert það.

Og pælið í því fyrir þá sem eiga 3 til 5 börn, kannski ekki öll í sama skóla, leikskólanum.  Þá eru þetta mun fleiri dagar sem þar um ræðir.  Ég heyrði einu sinni að 5 barna móður og hennar börn voru 2 komin í grunnskóla, hin 3 gátu ekki verið á sama leikskólanum því það var ekki pláss og það var ekki samræmt frí á milli þessara skóla og þessari konu taldist til að hún þyrfti að vera frá vinnu 37daga á ári vegna barna sinni og þá á eftir að tala um veikindin sem þessi 5 börn hefðu getað lent í.  Það er alveg skiljanlegt að atvinnurekendur vilji frekar ráða karlmenn og á hærri launum ef þetta er svona alls staðar.

Því held ég að við þurfum að skoða betur þetta með skólakerfið og setja í samhengi við jafnréttisbaráttuna því það er bara þannig að við konur tökum okkur frí til að vera með börnunum ef ekki er skóli.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Kristínu Jónu Athugasemd: Góð færsla 🙂 Konur á barnseignaraldri eru líka ekkert endilega spennandi fyrir atvinnurekendur….
(,Ella) Athugasemd: Úff er svo svakalega ósammála þér í þessu 🙁 (,Klara litla systir) Athugasemd: Ég er svo sammála þér, Kristín. Þessi skertir dagar og skipulagsdagar og foreldraviðtölsdagar og vetrarfrísdagar eru alveg að fara með mann og auðvitað með konum sem er heima með börnin. Það er ótrúlegt að heil starfsstétt sé að vega að konum í landinni til þess að halda einhver réttindi sem engin skilur að þau séu með. Ég er alltaf að mótmæla þessu en ef fleiri íslendingar mundi mótmæla þessu og ekki láta bjóða sér þetta lengur, þá mundi kannski breytast… (caroline@internet.is,Caroline) Athugasemd: Verð að bæta við að það var frábært að taka þátt í göngunni í dag og vera með í því að sýna samstöðu.

Áfram konur. (,Me my self) 31.10.2010 19:06:36 Að vinna eða tapa Það er svo skrítið hvað það hefur mismunandi áhrif á okkur hvort við vinnum eða töpum.
Ég var að taka þátt í Fáránleikum StarTech í vinnunni hjá mér á föstudaginn og ég var með keppnisskapið í lagi, alveg tilbúin að vinna þetta.  Ég smjaðraði fyrir dómnefndinni, ég truflaði mótherjana og fleira.  Liðið mitt var með keppnissöng og söng hann hástöfum fram og til baka “Það geta ekki allir verið gordjöss” en liðið mitt hét það einmitt.

Við lentum í næstneðsta sætinu en við erum samt mest gordjöss af þeim öllum sem voru þarna að keppa svo …….

Þannig leið mér.

En Ástrós Mirra er búin að vera að keppa í körfubolta á Íslandsmóti fyrir 11 ára og það gekk vægast sagt ekki vel.  Þær eru flestar ári yngri í Haukunum og að keppa við stelpur af Suðurnesjum sem fæðast með körfuboltann á höndunum og eru ca. 20 – 40 cm stærri en Ástrós Mirra svo það er ekki vð búast að okkar stelpur væru að vinna en þær vor að tapa með 20 stiga mun sem er náttúrulega mög leiðinlegt aftur og aftur.  Enda segir Ástrós Mirra að þetta sé ömurleg helgi.  Svo var hún búin að lofa mömmu að koma í Hellisgerði í dag í myndatöku fyrir jólakort og fleira og hún átti að taka myndir af mér líka en skapið fór alveg með hana og ekkert varð úr því og þetta endaði nú með því að ég varð frekar fúl og rauk út í bíltúr uppí krísuvík.  Frekar ömurlegur sunnudagur fyrir Þráin minn en hann eldaði svo góðan mat áðan að við erum báðar farnar að brosa núna.

Hún dóttir mín skilur ekki nógu vel að mamma og pabbi hafa líka tilfinningar og getur sárnað alveg eins og henni og hún náði víst engan veginn í dag að koma mér í skilning um að henni liði svona illa eftir þessa körfuboltaleiki að það væri að orsaka skæting og leiðindi.

Ég man svo sem ekki hvað ég var gömul þegar ég skildi svona hluti en mér finnst nú að 10 ára stelpa eigi alveg að skilja þetta.  Við vorum nú að halda uppá bekkjarafmælið hennar á fimmtudaginn, vorum að baka í allan gærdag fyrir afmælið um næstu helgi, gáfum henni dýra og flotta gjöf í vikunni og svo fáum við ekkert á móti.  Líklega er hún bara ofdekruð og þegar ég skrifa þetta þá líður mér hálfilla því hún er í svo góðu skapi inni í herbergi með pabba sínum að velja lög á ipodinn sinn (og hún var ekkert smá fúl út í pabba sinn í dag og vildi helst fá nýjan) en svona er víst litla fallega, gáfaða stúlkan mín.  Með mikið skap og ef hlutirnir eru ekki eftir hennar höfði þá fer allt í vitleysu.

En alla vega lífið er gott núna og við ætlum að spila saman á eftir og hafa það huggulegt.

 

þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Kristínu Jónu 24.11.2010 07:48:51 Að vera svikin Jæja, þá er maður bara búin að sjá játninguna nánast orð fyrir orð.

Ég skil alveg reiði aðstandenda Hannesar en ég held samt að þau muni sjá eftir því að hafa sent fjölmiðlum þessa játningu því hún gerir ekkert fyrir þeirra málstað.  Við finnum öll til með þeim og það sorglegasta er kannski að Gunnari fannst Hannes vera fínn gaur.  Hann kom bara í veg í fyrir að hann og Hildur gætu verið saman, eða það var það sem Gunnar hélt.

Ég get ekki neitað því að ég sem hef alltaf talið mig mannþekkjara hafi getað unnið með svona sjúkum manni án þess að skynja það.  Í marga mánuði var hann að plana þetta.  Meðan hann sat við hliðina á mér og setti upp virtual vélina í tölvuna mína.  Meðan hann sat við hliðina á mér og ræddi við um væntanlega þjóðhátíð sem hann ætlaði að fara á, með Hildi og Hannesi.  Meðan hann sat við hliðina á mér og og og og…… meðan ég tók utan um hann og bað hann að vera sterkan eftir útreiðina sem hann fékk frá DV.

Ég hef lent í því að fólk vilji gera lítið úr tilfinningum mínum í þessu máli og það er allt í lagi, fólk má nefnilega alveg gera grín að mér, ég get alveg dílað við það en það áttar sig kannski ekki á að þessi drengur vann með mér í 2 – 3 ár og mér fannst hann alltaf frekar umkomulaus og gerði í því að reyna að ná sambandi við hann en auðvitað gekk það ekkert sérstaklega vel þar sem ég var hundgömul kelling í hans augum og það er ósköp eðlilegt að tvítugum strák finnist það, ég er jafnvel eldri en mamma hans og það segir sitt.  En svikin sem við vinnufélagarnir urðum fyrir eru talsverð.  Það að átta sig á því að næsti maður sem situr við hliðina á þér í jafnvel í 2 ár geti verið svo sjúkur að hann drepi mann það er talsvert sjokk og þeir sem ekki skilja það, skilja sjálfsagt ekki margt.

En mikið óskaplega hef ég mikla samúð með móður þessa drengs.  Lífið hefur ekki verið þessar fjölskyldu auðvelt og ekki verður það auðveldara núna.  Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að ef það er einn svona drengur illa skemmdur eftir áföll og einelti, hvað geta þeir þá verið margir í viðbót.  Hvað eru margir sem gætu snappað bara ef eitthvað eitt fer ekki eins og þeir ætlast til?

Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir svona.  Hvernig getur það farið alveg fram hjá öllum aðstandendum að barn sé svona sjúkt?  Ég er ekki að deila á fjölskylduna hans, heldur einugis að velta þessu fyrir mér.  Af hverju sjáum við ekki hvað er að?  Af hverju grípum við ekki inní fyrr?

Af hverju náum við aldrei að koma í veg fyrir eineltið?  Ég hef aldrei heyrt dæmi um að það hafi tekist.  Það eru fullt af skólum með alls konar fínar stefnur sem þeir vinna eftir en ég hef því miður aldrei heyrt söguna af barninu sem lenti fyrir einelti og það var tilkynnt, tekið á því og upprætt.
Ég hef aftur á móti dæmi um að barn sem hafi lent fyrir einelti og flutti og skipti um skóla fór að blómstra.  Ekki var það af því að skólayfirvöld tóku á eineltinu því það gerðu þau ekki.
Ég hef líka heyrt dæmi um barn sem lenti fyrir einelti, ákvað á eigin spitur að skipta um skóla og blómstraði en ekki var það af því að skólayfirvöld tóku svo vel á eineltismálinu, ó nei.

Það virðist nefnilega svo mikið púður fara í að ræða við barnið sem lendir í eineltinu í stað þess að taka á þeim sem leggja í einelti.  Hef meira að segja heyrt að fórnarlambið hafi nú gert þetta og hitt sem hafi boðið uppá………

nei í alvöru ekki árið 2010, við erum ekki að hugsa svona þá.  Við getum þá alveg eins kennt fórnarlambi nauðgunar um nauðgunina því það hafi verið í svo stuttu pilsi.  En við gerum það ekki.

Ég vildi óska þess að það færi einhver af stað með samtök eða eitthvað sem myndi einbeita sér að því að kenna okkur foreldrum ýmislegt um eineltið og um notkun tölvuleikja.  Því það er annað sem getur brenglað svona, eins og með Gunnar, hann lokaði sig af við tölvuna og þar var hann allt annar karl en úti á götu og á einhverjum tímapunkti verður raunveruleikinn í tölvunni því þar á hann betra líf en utan hennar.  Þar er hann stór kall sem borin er virðing fyrir en ekki utan hennar.  Hvað höfum við ekki oft heyrt fréttir að foreldrar þurfi að kalla til lögreglu af því að drengirnir þeirra hafi gengið berseksgang af því að tölvan var tekin af þeim.

Þetta er umhugsunarefni og spurning hvað getum við gert, til að koma í veg fyrir þetta.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

Kristínu Jónu 6.12.2010 18:30:52 100 ára Leikfélag Vestmannaeyja verður 100 ára á næsta ári og af því tilefni vorum við hjónin beðin að skrifa smá grein í blaðið og segja frá veru okkur í leikfélaginu sem við og gerðum í gær.  Það rifjuðust upp ansi margar minningar frá þeim tíma sem var ofboðslega skemmtilegur.

Helst er þó að minnast fólksins sem var með okkur í þessu og ég mun alltaf tengja Bohemian Rapsodie við Leikfélag Vestmannaeyja og þið sem voruð með mér í LV á þeim tíma vitið út af hverju.

Mér hefur alltaf fundist Þráin hafa verið í mun fleiri leikritum en ég og að sjáfsögðu byrjaði hann miklu fyrr en þegar við fórum að telja upp þá eru verkin álíka mörg hjá okkur og við lékum bara í 3 leikritum saman.  Skrítið hvernig það æxlaðist.

Jæja þá styttist í jólin og ef ég þekki lífið rétt koma þau algjörlega aftan að okkur einu sinni enn.  Það virðist ekki skipta nokkru máli hvenær ég fer að undabúa jólin og hversu tímanlega ég ætla að vera í öllu, allt í einu er bara komið að þessu og ég ekki tilbúin.  Samanber jólakortin, ég byrjaði á mínum í október en þau eru rétt að skríða í umslög núna og fara ekki í póst fyrr en seinna í vikunni og ekki þykir það neitt sérstaklega tímalega.  En það er samt í lagi að senda þau núna, því kortið frá Kollu og Gunna er komið en það eru óskrifuð lög í fjölskyldunni að senda ekki jólinkortin fyrr en kortið þeirra er komið.

Jæja nú er myndatörnin búin og engin myndataka pöntuð fyrir jól.  Veit þó að það gæti dottið inn ein nýfædd en mamma hennar hafði samband í nóvember og ætlaði að panta en ég bað hana að hafa bara samband þegar hún væri búin að eiga.  Svo ég get farið að jólast með Mirrunni minni, pakka inn jólagjöfum oþh. og kannski skella í eina, tvær sortir.

Ég má til að segja ykkur frá ljósmyndasýningunni sem ég og Konný erum að taka þátt í en það er sýning til styrktar Blátt áfram og eru allar myndirnar til sölu og allur ágóði rennur til þeirra.
Frabært framtak hjá flickr@iceland og vona ég bara að það seljist fullt af myndum þarna.  Frábærir ljósmyndar á ferð.

En nóg í bili
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

kjona

Related Posts

Mirrublogg árið 2013

Mirrublogg árið 2012

Mirrublogg árið 2011

Mirrublogg árið 2009

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.