Mirrublogg árið 2009

Mirrublogg árið 2009

6.1.2009 20:52:01 I love you…
I love you, originally uploaded by kristin jona.
Gleðilegt ár og takk fyrir gamla árið.

Þá er nýtt ár hafið og skólinn byrjaður ásamt vinnu hjá okkur foreldrunum.

Við mæðgur ásamt Söru vinkonu skruppum til Eyja um síðustu helgi og áttum fína helgi þar hjá Konný, Söru og öllum hinum.

Við Konný tókum fullt af myndum í heimastúdeóinu hennar, bæði af Ástrós Mirru og Söru og eins af pabba. Hann þóttist nú hálf feiminn við þetta en ég þekki kallinn og veit að hann er alveg að fíla það að sitja fyrir.

Ég er ákveðin í að kaupa mér hið margfræga Byko ljós til að bæta mitt heimastúdeó því þetta er ótrúlega skemmtilegt eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir að mér þætti.

Kannski einhverjir fái leið á myndum af sama fólkinu aftur og aftur en þannig verður það bara að vera þar til maður nær einhverju öryggi og fer að plata fleiri og fleiri til að sitja fyrir.

Amma Steina ætlar að skreppa í heimsókn til okkar um næstu helgi og gista og það er í fyrsta sinn síðan við fluttum hingað, það verður bara gaman og svo er afmæli hjá Jóni Andra um næstu helgi, úff hann er að verða 3ja ára og samt bara nýfæddur.

Þangað til næst,
Ykkar Kristin Jóna
kjg 11.1.2009 10:33:39 Sprangandi stelpur
Sprangandi stelpur
IMGP5572, originally uploaded by konnygud.
Mátti til að benda ykkur á að það eru komnar nýjar myndir af Ástrós Mirru og Söru að spranga. Myndirnar eru frá Konný systur.

Þangað til næst
Kristín Jóna

kjg 15.1.2009 19:48:30 Penny for your thoughts
Penny for you thoughts
Penny for you thoughts, originally uploaded by kristin jona.
Það er hreint ótrúlegt hvað þetta barn getur verið breytilegt. Hún fer úr því að vera þessi yndislegi engill yfir í hrokafullan ungling sem veit allt og kann allt.

Það er gaman að skoða þessi börn okkar, til dæmis er Mirran alveg með á hreinu að ef ég segi eitthvað þá vissi hún það fyrir eða það er tóm vitleysa.
En ef einhver annar segir það, þá er það satt.

Hvað er þetta? Er ég svona líkleg til að skrökva að henni eða er þetta bara málið. MÖMMUR VITA EKKI SHIT.

Mirran hlustar alla vega mun betur á pabba sinn og hann má leiðbeina henni en aldrei ég.

En að öðru, eiginmaðurinn á afmæli á laugardaginn og við mæðgur ætlum að koma honum á óvart allan daginn. Við getum sem sagt plottað saman ef ég læt hana halda að hún eigi hugmyndina. Nei kannski ekki alveg en næstum því.

Hann sem sagt verður að heiman, fyrir ykkur sem dettið í hug að hann sé með kaffiboð. Ó nei ekki hann Þráinn minn.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 18.1.2009 11:02:47 Afskræmd andlit
Þema – Afskræmd andlit
Originally uploaded by kristin jona
Ef ég væri illa barinn sjóræningi þá liti ég svona út, það er nokkuð ljóst.

Þemað hjá okkur þessa vikuna er afskræmt andlit og ég vildi nú ekki afskræma nokkurn annan en sjálfa mig og átti bara ótrúlega auðvelt með það.

Gott að vita hvernig maður lítur út við hinar ýmsu aðstæður. Ég er allavega mjög ánægð þegar ég lít í spegilinn núna, því mér finnst ég bara sæt.

Við fjölskyldan áttum góðan afmælisdag í gær, Þráinn minn átti afmæli og orðinn eitthvað aðeins meira en fertugur, ég nenni ekki lengur að telja, mér finnst hann alla vega flottastur sama hverslu gamall hann er.

Við Mirra Skotta vöktum hann með afmælissöng, kertagöngu og nýbökuðum pönnukökum með rjóma.

Svo var farið í keilu í gærdag (eftir að hafa breytt öllu í stofunni hjá okkur) og enduðum svo á Stælnum í nautasteik og leigðum okkur svo dvd myndir til að eiga kósýstund heima í gærkvöldi. Held að kallinn hafi bara verið ánægður með afmælisdag, sem átta ára stelpa planaði að mestu leiti.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
kjg Athugasemd: Til hamingju með Þráinn 🙂 Frábær dagur sem þið áttuð saman og flott plan hjá Mirrunni.

(,María Erla ) 20.1.2009 09:29:43
My teddy
My teddy
Originally uploaded by kristin jona
Mér fannst ég myndi hafa eitthvað að segja og ákvað að byrja smá blogg en. þá kom bara ekkert.

Við mæðgur erum heima í dag vegna skipulagsdags í skólanum og ætlum bara að taka því rólega til hádegis en eftir hádegi er planið að skreppa með Mirruna í klippingu til Elísabetar, sækja svo símann hennar úr viðgerð og kannski gera eitthvað meira sem ekki er búið að plana.

Það verður nóg að gera í afmælum um helgina, því það er fimmtugs afmæli hjá Kollu frænku á laugardaginn og svo er búið að bjóða okkur í tvöfalt afmæli hjá Kristófer Darra og Alexander á sunnudaginn. Eins var búið að bjóða okkur í afmæli til Dagnýjar bróðurdóttur minnar en við getum víst ekki verið á tveimur stöðum í einu svo við verðum bara að kíkja þangað seinna.

þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
kjg 22.1.2009 19:04:22 Allir vegir liggja eitthvert

The road to nowhere
Originally uploaded by kristin jona
og vonandi í rétta átt.

Hvernig stendur á því að friðsamt fólk fær ekki að mótmæla ríkisstjórninni í friði, með potta og hrossabresti að vopni.
Fáeinir óeirðaseggir (sýnist nú meira að segja að meðal aldurinn sé um 17 ár) eru að eyðileggja annars góð mótmæli sem hafa verið undanfarið.
Það var gott að vita að lögreglumönnum voru færðar rósir í dag frá mótmælendum og líklegast hafa óeirðarseggirnir verið í fangelsi eða skólanum meðan á því stóð.

Hvar eru foreldrar þessara barna? Mér er alveg sama þó þau séu 16 eða 17 ára, þau eiga ekki að vera ein niðrí bæ að kasta skít og hlandi í lögregluna.

Ég vona að nú fari ríkisstjórnin færi nú að segja af sér svo við getum farið að sjá hvað er handan vegarins og byrja að byggja upp að nýju, það verður aldrei gert með þessa ríkisstjórn.
Ef ríkisstjórnin er ekki til í að segja af sér núna, þá vona ég svo sannarlega að hún fari að segja okkur hvað hún þykist vera að gera svo við vitum eitthvað.
Það er nú einu sinni þannig alls staðar að ef manni er ekki sagt neitt þá getur manni ekki liðið vel. Þetta er alveg eins og í fyrirtækjum, það er ekki góður mórall í fyrirtæki sem aldrei upplýsir starfsmens sína um stöðuna og hvað sé framundan.
Það sama á við um heimilin, ekki þætti mér gott ef hann Þráinn ákvæði bara einhverja hluti og framkvæmdi án þess að við færum yfir stöðuna og myndum ræða málin. Það er alveg sama hvar við tökum niður, upplýsingar eru frumskyldan til að þegnarnir geti verið sáttir.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 25.1.2009 09:44:51 View

 

View
Originally uploaded by kristin jona
Það var ekki svona magnað útsýnið sem ég hafði i gærkvöldi en mitt útsýni var mun skemmtilegra.

Það var þannig að ég var eitthvað að laga á mér neglurnar og ákvað að sýna Þráni hvað þetta væri magnaður kubbur sem ég á sem pússar þær eins og þær væru naglalakkaðar.

Hann strauk á sér neglurnar og sagði að þetta væri bara alveg eins. En þá datt Mirru Skottu í hug að plata pabba sinn og læddist eftir naglalakki og við plötuðum hann og settum á hann naglalakk, en það hætti ekki þar, nei nei, okkur tókst að setja á hann augnskugga, varalit og svo endaði Mirran á að setja á hann bleika Sollu Stirðu hárkollu.

Oh, my god, hann var svooooooooo eins og dragdrottning en ekki eins og maðurinn minn, iðnaðarmaðurinn.

En mikið var gaman hjá okkur, við hlógum og hlógum.

Þori ekki að setja inn mynd af honum hér nema með hans samþykki en hann er enn sofandi kallinn svo það bíður betri tíma.

þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Hvernig þið stúlkurnar í efra getið látið við greyjið Þráinn!!! (,Inga í neðra;)) Athugasemd: Inga mín, ég var meira að segja að spá í að senda hann í heimsókn til þín, en lagði ekki í það. (,Kristín í efra) 29.1.2009 21:03:27 Thinking about live

 

Thinking about live
Originally uploaded by kristin jona
Já lífið er stundum skrítið og ástin ennþá frekar.

Ég ætla að segja ykkur smá leyndarmál sem þið verðið að lofa að segja engum frá!

Ok…

Ástrós Mirra hringdi í mig í vinnuna um daginn og samtalið er hér:

Á – Mamma, ég á kærasta.
K – Er það, hver er það?
Á – Hann heitir R….
K – Ok, og veit hann af því?
Á – Já mamma, hann spurði mig.
K – Spurði þig að hverju?
Á – Spurði hvort ég væri skotin í einhverjum.
K – Ég hugsaði og hugsaði og spurði svo, en þú? Þá sagði hann, já í þér. Þá sagði ég, ég líka. Í þér.

Oh my god, þau eru bara 8 ára.

En það er ekki allt búið því við vorum í foreldraviðtali í morgun (sem by the way gekk mjög vel) en þegar við vorum að fara gengum við fram hjá matalnum og þar sátu nokkrir krakkar að borða morgunmatinn.

ÁM kallar þá á mig og segir, mamma hann er þarna og bendir mér á kærastann, sem sat og var að tala við strák við hliðina á sér og sá ekki okkur, en ÁM stóð og beið við gluggann og þegar hann leit upp og sá hana þá ljómaði hann í framan og hún líka og svo vinkuðust þau á með voða sætu brosi.

Ég vildi að ég hefði náð þessu á vídeó. Þau voru æði.

En munið, þetta er leyndarmál

Þangað til næst,
Kristín Jóna
kjg Athugasemd: Ég lofa að segja engum. (laufeywaage@mac.com,Laufey Waage) Athugasemd: það verður nú erfitt að lofa þessu, en ég skal reyna, möguleiki að komast framhjá því og segja bara við fólk, ertu búin að lesa bloggið hennar Kristínar.

Sara leit ekki við strákum á þessum aldri, svo ég hefði áhyggjur að hún yrði trúlofuð snemma, miðað við hvað Sara var fljót að ná sér í kærasta. (,lkg) 30.1.2009 19:19:22 Hver kenndi honum að reykja
The biggest well in Iceland
Originally uploaded by kristin jona
Þegar ég mæti í vinnu á fimmdagsmorgnum þá stendur fyrir utan húsið þroskaheftur maður sem er frekar skítugur að sjá og reykir eins og skorsteinn. Hóstar og hóstar svo maður heldur að það sé allt að koma uppúr honum.

Ég var eitthvað að nefna við stelpurnar í vinnunni að mig langaði helst ekki að lenda ein í lyftunni með honum þó ég reyni að vera kurteis þegar ég labba framhjá honum og bíð góðan daginn.

Og í framhaldi af því fórum við að velta fyrir okkur…
.. hver kenndi honum að reykja?

Hvernig stendur á því að maður sem augljóslega er ekki hæfur til að þrífa sig og hugsa um sig almennt reykir eins og skorsteinn?

Ég myndi ekki treysta honum fyrir eldspítum einu sinni. Hvers konar uppeldi fékk þessi aumingja þroskahefti maður. Ég hefði haldið að það sem maður myndi kenna svona einstaklingi í grundvallaratriðum væri að þrífa sig, þrífa sig og þrífa sig svo annað fólk ætti auðvelt með að umgangast hann. Og aldrei að kenna honum að reykja.

Ég held stundum að betra væri að leyfa þessum einstaklingum að vera bara eins og börn því það er það sem þau eru. Mér finnst svo oft vera reynt að láta þau takast á við fullorðins hluti sem þau eru svo bara ekki hæf til að takast á.

Og nú má ekki misskilja mig því ég er td. afskaplega stolt af Kollu frænku og það sem hún getur núna en gat ekki fyrir nokkrum árum en mikið hefði ég nú miklar áhyggjur af henni ef drykki og reykti td.

En aðalatriðið er: Hver kenndi honum að reykja!

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg 31.1.2009 16:21:04 Undur og stórmerki

við hjónin ræddum pólitík í dag og rifumst ekki.

Vildi bara segja ykkur frá þessu.

Þangað til næst,
Kristín Jona
kjg Athugasemd: hahahaha þið eruð dásamleg. (,Inga niðri) Athugasemd: Hahahaah þetta eru skelfilegar myndir af ykkur.

En hvort þýðir þetta að hann sé að nálgast þig eða þú hann – í pólitíkinni sko? (,Guðrún ) Athugasemd: nú jæja – er það ekki framför heheh (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) Athugasemd: Guðrún ætli ég verði ekki að segja að við höfum bæði uppgötvað að við vorum að tala um sömu hlutina bara á sitthvoru tungumálinu en auðvitað hlýtur það að vera hann sem nálgast mig.

Ég sit alveg föst. (,Kristín Jóna) Athugasemd: já þvílík framför, ég man þá tíma sem Markús gat farið að tala um pólítík og ég hætt að rífast við hann. Ekki að ég hefði verið sammála honum, var bara hætt að nenna að rífast um póítíkina. (,lkg) 5.2.2009 19:05:08 Cry baby

Ég er búin að vera voða dugleg í myndatökunum undanfarna daga, tók myndir af mánagullinu á neðri hæðinni á mánudaginn og síðan kom Alexander verðandi fermingardrengur til mín á þriðjudaginn í myndatöku sem mér fannst nú takast mjög vel.  Hann minnir mig svolítið á Cry Baby sem var leikinn af Jonny Depp, og er þá ekki leiðum að líkjast enda strákurinn gullfallegur.

Þangað til næst, Kristín Jóna

kjg 7.2.2009 10:51:58 My dream

Draumur minn rættist í gær, ég fékk nýju myndavélina mína.  Oh, my God hvað ég er happy með hana.  Var samt ofboðslega stressuð yfir þvi að vera að eyða peningum.  Held að allt þetta krepputal orsaki það að maður þori ekki að kaupa neitt nema það sem nauðsynlegt er.  Samt er ekki eins og ekkert auka hafi verið keypt en það kostaði þá minna en 200.000 og reyndar talsvert mikið minna.  En ég hreinlega gat ekki sleppt þessu því þeir voru að selja vélina á sama verði og fyrir kreppu.

Ég á ábyggilega eftir að gera vitlausa í kringum mig, nei, best ég leiðrétti þetta.  Ég á ábyggilega eftir að gera alla vitlausari í kringum mig, því ég ‘ER MEÐ DELLUNA’ því verður ekki neitað og nú halda mér engin bönd.

Ég var nú ein heima í gærkvöldi og hafði því enga aðra fyrirsætu en hann Nóa minn en mér finnst þetta nú aldeilis fín mynd af honum og mér.  Já mér líka því ég speglast í augnunum á honum.

En þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Já fín mynd, ég get trúað því að kötturinn hafi verið orðinn hissa á myndatökunum í gærkvöldi, ef hann var sá eini sem þú gast pínt. (,lkg) Athugasemd: Til hamingju með vélina skemmtu þér vel um helgina (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 9.2.2009 21:39:10 Lífið með Pentax

Jæja þá er ég búin að gera alla brjálaða á mér um helgina eða þannig.  Nei ég var bara frekar stillt og ekkert mikið að pirra aðra með myndavélinni mínni.  En ó my god, hún er æðisleg og ég alsæl.

Er að fara í myndatöku á miðvikudaginn, taka myndir af syni einnar sem vinnur með mér og svo var ég að starta barnamyndatöku í Maritech 4. apríl nk. þar sem við áhugaljósmyndaranir þar ætlum að mynda börn vinnufélaganna.  Það verður ábyggilega mjög gaman.

Annars var helgin mjög sérkennileg, því við hjónin vorum barnlaus alla helgina, því Ástrós Mirra var hjá Kristófer og þau fengu ekki nóg hvort af öðru, sem var frábært.

En ég hef lítið að segja í bili, vildi líka bara sýna ykkur hvað hann Andri er orðinn myndarlegur.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 11.2.2009 21:11:24 Gleði og vonbrigði

Jæja þá, ég skrapp í ljósmyndaferð beint eftir vinnu í gær og fékk þessa frábæru birtu og brosti allan hringinn með nýju myndavélina mína.

Ég fékk 2 ára krútt í heimsókn í dag í myndatöku og hálfklúðraði henni með röngum stillingum og kunnáttuleysi.´

. en ég læri, svo nú vantar bara að fá einhvern til að ég geti prófað aftur.  Kannski ég reyni að fá dóttur mína til að klæða sig upp og sitja fyrir hjá mér sem fyrst til að byggja upp sjálfstraust aftur.

En ég er samt alsæl með nýju myndavélina mína og þær voru nú ekki allar ónýtar myndirnar, þessi til dæmis sýnir bara hversu mikið krútt þessi gaur er, þrátt fyrir búninginn sem hann var í.  (smá djók, Þráni fannst þetta ekki fallegur búningur)

 

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg Athugasemd: býð fram börn í myndatöku (,Anna Sif) Athugasemd: Takk Anna Sif, verið velkomin sem fyrst.

Hlakka til að mynda Jón Andra (og að sjálfsögðu Önnu Dögg líka ) (,ÉG sjálf) Athugasemd: Alltaf gaman þegar maður er sífellt að læra – annað væri nú lítt spennandi 🙂 (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 14.2.2009 10:57:04 Valentínusardagurinn!

Já gott fólk, ég fékk Valentínusarkortið mitt í dag, og það var yndislegt.  Hjartalaga, litað rautt, með yndislegri kveðju innan í.

Mjög augljóst hver bjó það til og átti hugmyndina að því.  Þessi dúlla sem þið sjáið hér að ofan knúsa bangsann sinn.  Ótrúlegt það þarf eina 8 ára til að minna mann á rómantíkina.  Að sjálfsögðu fengu hún og Þráinn kossa frá mér sem er alsæl með kortið þó mér finnist þessi dagur ekki fyrir okkur íslendinga, við eigum okkar daga.  Konudagur, bóndadagur, mæðradagur ofrv.

En samt þykir manni að sjálfsögðu vænt um svona gjafir.  Takk Ástrós Mirra og Þráinn.

Það verður aldeilis fjör hjá okkur í kvöld því við erum að fara að passa einn 2 ára og eina 8 ára (finnum nú ekki fyrir henni) og ég held svei mér þá að við höfum ekki verið 2 ára grisling í gistingu síðan, já síðan ég veit ekki hvenær.

Þetta verður skemmtilegt kvöld.

Eigið þið góða helgi öll sömul

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: þú ættir nú að geta notað þau sem tilraunadýr og æft þig á myndavélinni.

Góða skemmtun með fullt hús af börnum 🙂 (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 17.2.2009 18:32:26 Leikkona, rithöfundur, dýralæknir og bóndi

 

Er nokkuð mál að verða þetta allt?  Ég held allavega að það geti vel farið saman.

Ástrós Mirra segist ætla að verða bóndi og dýralæknir en ég er viss um að hún eigi eftir að verða rithöfundur og mér finnst hún nú hafa heilmikla leikhæfileika eða er hún bara dramadrottning?  Nei, kannski eitthvað en ekki bara.

Það eru búnir að vera voða góðir tímar hjá okkur á þessu heimili, stúlkan sem venjulega er ekkert mjög gegnin, gegnir bara þokkalega, er búin að vera gleraugun sín í bandi um hálsinn og passa vel uppá þau ásamt öllu öðru undanfarið.

Eins hefur hún verið ofboðslega dugleg að taka til í herberginu sínu og þar er bara fínt á hverju kvöldi þegar hún fer að sofa.  Frábært hjá henni, enda fær hún verðlaun á morgun sem hún er búin að bíða heillengi eftir.

Vetrarfrí í næstu viku og ég sá ekkert frí á næstunni síðast þegar ég kíkti á skóladagatalið.  Held ég kunni bara ekki að lesa úr því.

Ástrós Mirra og Þráinn eru að fara til Eyja á laugardaginn til að sækja ömmu Steinu sem er að flytja í bæinn, jibbý jey, það er komið að því að frúin komi.  Hún er búin að fá íbúð og vinnu og leigja íbúðina sína og allt klárt.  Til hamingju amma Steina.

Og líka til hamingju amma Maddý með að vera komin með vinnu á skrifstofu á Raufarhöfn, kreppa hvað?

Þið eruð frábærar báðar á efri árum og við erum stolt af ykkur.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: ó my – mér datt bara ekki í hug að þetta væri litla drottningin – hún lítur út eins og unglingsfyrirsæta – Flott mynd (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 22.2.2009 22:11:37 Vorið kemur

Það að sjá brum á trjánum í Hellisgerði í dag, gaf mér von um það að vorið komi fyrr en seinna.  Oh, hvað ég hlakka til að sjá gula og græna liti og finna lyktina af þeim.

Við Konný áttum frábæra systra- ljósmyndahelgi þó veðrið hefði ekki leikið við okkur og birtan verið skringileg.  Við hittumst líka öll systkinin okkar hjá mömmu í bollukaffi í dag, nema Aron og hans fjölskylda, það hefði nú verið gaman ef þau hefðu verið líka.

Frú Steina Fríðsteinsdóttir ER FLUTT í bæinn.  Þráinn og Ástrós Mirra fóru til Eyja á sendibíl til að sækja hana og búslóðina og skiluðu henni út á Granda í dag.  Til hamingju Steina mín og velkomin á malbikið.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Takk fyrir skemmtilega helgi, þó myndirnar hjá mér séu kannski ekki merkilegar, þá var samt mjög gaman. (,Konný) 25.2.2009 21:23:16 Skemmtileg vika

 

Þetta er skemmtileg vika hjá krökkunum, byrjar með bolludegi, svo sprengidagur og svo endar þetta allt með öskudeginum.  Eða nei, það þarf ekki að enda þar, því í Hraunvallaskóla er vetrarfrí og ég ætla að skreppa með Ástrós Mirru og Söru vinkonu í sumarbústaðinn fram á laugardag.

Þær voru voða duglegar að syngja og safna sælgæti í dag, alla vega er Ástrós Mirra með fullan skáp af nammi sem dugir henni í meira en mánuð ef foreldrarnir fá ekki að hjálpa. Við fáum það nú líklega því aldrei hefur hún verið nísk á nammið sitt og frekar gleymt því eða geymt einhvers staðar en eitthvað annað.

Við verðum nú dálítið eins og frumbyggjar því það er allt frosið í vatnsleiðslunum og við verðum með vatn í brúsum og reynum bara að gera ekki númer 2 í bústaðnum.  Það er búið að vera talsvert mikið að gera í vinnunni og bara kærkomið að fá frí og afnettengja sig oþh.  En ég lofa ykkur því að ég verð með myndavél og tölvu, annað væri nú til allt of mikils ætlast af fíklinum.

Vona að þið hafið öll átt góða viku, með miklu áti
Þangað til næst,
Kristín Jóna

Ps. sæta fyrirsætan á myndinni er hún Katla Dís Snorradóttir fyrir ykkur sem ekki þekkið hana.

kjg 2.3.2009 19:11:22 Sunddrottningin okkar
Sunddrottningin okkar
Fyrsta alvöru sundmótið hennar Ástrósar Mirru var í gær.  Það var tímataka og allt, og ekki verðlaun handa öllum sem tóku þátt.  Sem sagt alvöru sundmót og okkar dama stóð sig eins og hetja.  Mér finnst nú nóg að 7, 8 og 9 ára krakkar syndi yfir 50 metra sundlaug og það 3 sundtegundir, baksund, skrið með fótunum og bringusund.

Til hamingju Ástrós Mirra með frábæran árangur.

Annars allt gott að frétta af okkur, búin með vetrarfríið og fórum við í bústaðinn við frumlegar aðstæður en það var mjög gaman.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg 10.3.2009 20:51:44 Fermingarmyndatökur
Nú fer að líða að fermingarmyndartökunum
Það er að segja þær eru tvær hjá mér og ég fór að æfa mig aðeins með henni Hrefnu í neðra í gær, afraksturinn er hreint út sagt frábær, enda stelpan fínasta fyrirsæta.  Ég persónulega er voða hrifin af þessari en verð að viðurkenna að það lítur ekki út fyrir að þetta sé 13 ára stelpa.

Héðan allt gott að frétta nema flensan lét á sér kræla í dag og það fyrir alvöru, ég ætlaði nú ekki að fatta það strax að ég væri lasin en dreif mig svo heim og er bara búin að vera mjög slöpp.  Þvílíkir beinverkir og ógleði og vanlíðan.

En það er eitthvað sem lagast og við brosum framan í heiminn eins og við erum vön.

Alexander fermist 28. mars og þá ætlum við systur að gera hann ódauðlegann og svo er alveg mega myndataka hjá mér og stelpunum í vinnunni 4. apríl en þá munu koma 35 krakkar í myndatöku.  Það verður geðveikt gaman og vonandi koma flottar myndir út úr því.

En þangað til næst,
Kristin Jóna

kjg 15.3.2009 19:35:01 Æskan og hesturinn
Æskan og hesturinn
Frábær sýning hjá hestamönnum í dag og gær.  Alexander Ísak okkar strákur stóð sig eins og hetja og leit vel út á hestinum.

Við erum nú búin að plana myndatöku af honum á og með hestinum sínum fyrir fermingu en það styttist í það og mun drengurinn fermast þann 28. mars nk.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 31.3.2009 19:29:37 Fermdur drengurinn!

Fermdur drengurinn!
Jæja þá er búið að ferma hann Alexander hennar Klöru systur og gekk undirbúningurinn, fermingin og veislan alveg frábærlega.

Við Konný tókum að okkur að mynda drenginn og erum bara nokkuð ánægðar með afraksturinn enda drengurinn með afbrigðum myndarlegur og er nokkuð ljóst að það eiga mörg stúlknahjörtu eftir að bresta áður en langt um líður.

Framundan er mikið ljósmyndahelgi þar sem 33 börn munu mæta uppí Maritech og verða mynduð.  Það verða 3 – 4 ljósmyndarar að störfum ásamt skemmtanastjórum og stílistum.
Mjög spennandi.

Svo á sunnudaginn er fermingarmyndataka, en það er dóttir eins vinnufélaga míns sem fermdist um síðustu helgi og við ætlum að mynda hana.  (Við erum ljósmyndarar úr ljósmyndaklúbbi Maritech, 3 ofvirkir meðlimir, allir hinir eru vanvirkir).

 

Vorið er að koma vonandi, Siggi Stormur er eitthvað að spá því og ég er svo búin að bíða eftir vorinu.  Mig langar í vor, grænt, gult, bleikt og blátt.

 

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 11.4.2009 10:00:22 Stóra myndatakan í Maritech
April 11
Stóra myndatakan í Maritech

 

Jæja, þá er henni formlega lokið, þetta tók viku allt í allt.  Byrjuðum á fösdagseftirmiðdegi að koma fyrir bakgrunnum, ljósum og færa allt út úr fundaherberginu í Maritech.  En við notuðum það herbergi fyrir stúdeó.

Þetta voru 15 myndatökur sem ég var í, 30 mín. í tökur á hvern og síðan ca. 1 – 2 klst. að flokka myndirnar og vinna þær eins og ég vildi.

Ég held að Rakel og María Erla séu að eyða álíka tíma í þetta líka svo það eru ansi margar vinnustundir á bak við þetta ásamt gífurlegri gleði og ánægju.

Og ég lærði svo mikið.

Ég lærði að það þarf að vanda undirbúninginn og vera búinn að prófa ljósin og þess háttar áður en maður byrjar.

Ég lærði að fara vel yfir allar stillingar á vélinni áður en ég byrja.

Ég lærði að það er ekki endilega gullfallega barnið sem er skemmtilegast að mynda, heldur barnið með karakterinn.  Reyndar er alveg ótrúlegt hvað starfsfólk Maritech á yndisleg börn sem gaman var að mynda.

Ég lærði að ég get þetta.

Og ég skil núna af hverju hann tengdapabbi tók barnaljósmyndun sem sérgrein.

Svo fengum við stelpurnar gjöf frá samstarfsfólki okkar sem mætti með börnin sín í myndatökuna, gjafakort uppá 13.000 ásamt tveir fyrir einn í Bláa lónið og í dag ætlum við fjölskyldan að eiga góðan dag saman í lóninu og mæta svo í mat til Klöru sys á eftir.

Tengdamamma (Maddý) sem er búin að vera hjá okkur síðan á miðvikudag ætlar að skreppa austur fyrir fjall og sækja bílinn sinn á sama tíma svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur að henni leiðist á meðan.  Við erum búin að eiga frábæra daga hérna undanfarið og hún og Ástrós Mirra eru miklar vinkonur og ég fékk að mynda þá gömlu í gær með góðum árangri.

 

Þangað til næst,
Gleðilega páska og farið varlega í súkkulaðiátið.

Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Við þökkum aftur fyrir okkur, erum himinlifandi með myndirnar. Þú ert æði! (caroline@internet.is,Caroline) 19.4.2009 19:20:13 Þá er það opinbert…
Þá er það opinbert .
.. að ég er tilbúin að taka að mér myndatökur og myndvinnslu barna og unglinga.  Ég er það ánægð með afraksturinn af Stóru Barnamyndatökunni í Maritech og svo var ég með Fermingarmyndatöku í gær sem lukkaðist vel.  Ég er þó ekki tilbúin né með aðstöðu fyrir fjölskyldumyndatökur, við reyndum það í gær og það var eins og þjappa síld í tunnu þarna inní herbergi.

Þráinn er búinn að hjálpa mér með að setja upp bakgrunnana mína inní aukaherberginu og þar er ég bara með ljósið mitt líka þannig að lítinn viðbúnað þarf í viðbót til að taka nokkrar myndir.

Ég finn samt alveg að ég á eftir að læra betur hvernig ég fái alvörugefinn ungling til að brosa á mynd hjá mér og hvernig ég fái 2 ára lítið fiðrildi til að sitja kjurt meðan ég næ rétta augnablikinu en þetta kemur bara reynslunni eins og svo margt annað.

Ég náði bara fínum töktum í prumpubröndurum í barnamyndatökunni en var nú ekki viss hvort þeir myndu virka á hestastúlkuna sem er að fara að fermast og viti menn, hún brosti helst ekki.  En þannig eru kannski unglingar í dag, ekki brosmiklir, ofboðslega falleg stelpa og flott týpa.

Svolítið kómískt að ég hef tekið tvær fermingarmyndatökur heima hjá mér og báðir krakkarnir eru í sýningarhópi í sínu hestafélagi.

Hún tjáði mér líka þessi unga stúlka að það er alveg hægt að vera hestastelpa án þess að öll fjölskyldan fari í hestamennskuna.  Hún réði sig í vinnu hjá manni gegn því að hún fái að hafa hestinn sinn í hesthúsinu hans og þarf hún því að hugsa um hans hesta á móti honum.  Svo Ástrós Mirra á góðan séns þó við foreldrarnir séum ekki hestafólk.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Rosa flott hjá þér, vonandi að þetta spyrjist bara út og þú getir farið að taka fleiri tökur. Allavega geta allir orðið ánægðir með svona myndir 🙂 (rakel72@mac.com,Rakel) 21.4.2009 17:47:59 Konan ekki í lagi…

en hún á frábæran mann, það er nokkuð ljóst.

Það á ekki af mér að ganga þessa dagana.  Fyrir það fyrsta þá lánuðum við Maddý Lalla um daginn og þá fór pústið í sundur undir bílnum og hún keyrði hann frá Þingvöllum með hávaða og látum.  Við höfðum sett nýtt undir bílinn fyrir tveimur mánuðum og vorum ekkert ánægð með þetta en við nánari athugun kom í ljós að pústkerfi undir bíl er í þrennu lagi og það var skipt um einn / þriðja þarna um daginn og nú var annar partur farinn og þeir hefðu víst aldrei getað séð það fyrir því það var ekkert ryð og vesen enda Lalli fínasti bíll.  Okey, það er gert við þetta 40.000 kall.

Þá þurfti Doddi að fara á verkstæði því það var bakkað á hann hér fyrir utan hús en viðkomandi var svo almennileg að láta okkur vita af þessu og þeirra tryggingarfélag borgar eeeeeeeeeen, þetta er samt vesen og fyrirhöfn fyrir okkur að standa í þessu.

Jæja okey, Maddý tengdó var hér og var bara á skutlinu með mig meðan Doddi var á verkstæði en það var allt í lagi hún naut þess í botn eða þannig.  En svo fengum við Dodda aftur og hvað þá.. vitlaus litur á stuðaranum og ég beðin að koma með aftur eftir helgi.  OK, þá ákváðum við að ég tæki bílaleigubíl því við ættum víst rétt á því og tryggingafélagið borgi.

Já, já ég þramma allan Smiðjuveginn í gærmorgun til að sækja þennan bíl og fæ þarna einhverja Suzuki tík en sjálfskipta.  Ég fer á henni í vinnu, skottast svo í Smáralind í hádeginu og fer svo í Kringluna eftir vinnu að sækja leikhúsmiða og kaupa mér buxur.

Þegar ég kem út, sé ég dæld í bílnum og ég hringi í Þráin og segi að hún hljóti að hafa verið þarna því það geti ekkert hafa komið fyrir hjá mér því það voru engir bílar í nágrenninu við mig, mér sjáanlega.

Þráinn segir mér að fara bara strax og tala við bílaleiguna til að hafa allt á hreinu og .. hvað?  Þau segja að þetta hafi ekki verið og ég verði að greiða fyrir viðgerð á bílnum allt að 120.000 sem er sjálfsábyrgðin.   Shit, Damn, Andskotans helvítis helvíti, ég hreinlega panika þarna þar sem ég tel mig ekki eiga 120.000 aukalega þessa dagana.  Konan á leigunni fór að tala við einhvern kall á bakvið og ég meira að segja heyrði hana segja, “konan er í algjöru sjokki” svo það greinilega skilaði til þeirra.

En elskan hann Þráinn minn tók þessu nú rólega, enda er hann yfirleitt rólegur ef ég fer í æsingargírinn, þannig að líklega erum við ágæt blanda saman.  Hann sagði mér að þetta væru BARA peningar og ekkert annað.  Hann tók utan um mig og huggaði eins og honum er einum lagið.

Jæja ég jafna mig pínulítið en ákveð sko að nota ekki þessa bílaleigudruslu aftur og bið Þráin að vera á honum, sem var sjálfsagt mál.  Ég ætla svo bara að vera á Lalla gamla í dag og ég þekki hann nú vel og allt í góðu.

.. en þegar ég er að fara af stað í morgun þá kemur Ástrós Mirra og ætlar að sníkja sér far hjá mömmu sinni sem skrúfar niður rúðuna (með rafmagni) og SHIT, DAMN, ANDSKOTANS, HELVÍTIS, HELVÍTI.  Rúðuupphalarinn er bilaður og rúðan fer ekki upp aftur.

Ég að sjálfsögðu missti mig við krakkann og lét hana finnast þetta allt henni að kenna og svo hringdi ég að sjálfsögðu í …

.. Þráin sem var staddur í biðröð eftir rannsókn uppá heilsugæslu og hann var dauðhræddur að afgreiðslukonan hefði heyrt blótsyrðin í mér.

En að sjálfsögðu kom þessi elska og hjálpaði mér með rúðuna upp, sem betur fer því það var grenjandi rigning og brjáluð kona, algjörlega búin á því eftir síðustu daga og þolir ekki meir.

Í dag, var  mér treyst fyrir að fara með dósir í endurvinnsluna.  Mér tókst það og fékk 1230 kr. fyrir.

Þráinn minn, ég elska þig

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna sem verður búin að jafna sig þegar sumarið kemur, ekki á morgun heldur hinn.

En það gerðist ekki áfallalaust, á miðvikudaginn vaknaði ég ágætlega og var ákveðin að þetta væri góður dagur, ég yrði að vera í jafnvægi því ég var á leiðinni út á land á mikilvægan fund.

Ástrós Mirra var frekar sein að klæða sig eins og hún er oftast en svo vildi hún endilega fara á nýja hlaupahjólinu sínu í skólann en það átti eftir að merkja það.  Ég ákvað að leyfa henni það og náði mér í naglalakk til að merkja hjólið undir en það er út svörtu stáli og því ekki hægt að nota túss.  Ég sýndi mikla listræna hæfileika í að skrifa ÁSTRÓS með naglalakki (not) þarna undir hjólið en svo lenti ég í í vandræðum með að taka hjólið í sundur og bögglast þarna með það, svitna og pirrast en það tekst.

Stelpan af stað og ég ætla að klára að laga mig til fyrir flugferðina, lít niður á nýju buxurnar sem ég “nota bene” keypti í frægu Kringluferðinni á mánudaginn og viti menn, þær eru allar út úr naglalakki.

Þarf ég að segja meira?

kjg Athugasemd: Hvernig var með söguna af naglalakkinu, hélt að hún væri hérna með líka. (,Konný) 23.4.2009 11:14:02 Ég á mér draum

 

Og hann er sá að ég (íslenska þjóðin) getum haldið okkar sérstöðu áfram.

Að eitthvað verði gert þannig að ég endi ekki atvinnulaus og gjaldþrota.

Að stjórnmálamenn setji meðalmanninn einhvern tíma á blað, það eru jú við sem greiðum alla skattana en ekki þeir sem eru þegar orðnir atvinnulausir og gjaldþrota.  Meðalmaðurinn hefur ekki endalaust þol því launin verða alltaf minna og minna virði, meðan lánin hækka og hækka.

Að ólukkan síðustu viku hafi snúist mér í hag í gær, með góðum degi á Dalvík.

Að sumarið sé komið.  Ég fer út í sandölum í dag.

Að það séu komin lömb í húsdýragarðinn því við ætlum þangað í dag.

Að ég viti hvað ég eigi að kjósa á laugardaginn.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 25.4.2009 10:14:16 Aldrei verið eins óákveðin

 

Ég hef aldrei verið eins óákveðin að ganga til kosninga eins og núna.

Ég myndi vilja segja öllum stóru, gömlu flokkunum að “just kiss my ass” því það er alveg sama hvar við tökum niður, það ota allir sínum tota og enginn segir okkur þjóðinni neitt.

Það eru alls staðar leyndarmál og leyniskýrslur og ég veit ekki hvað.

Eitt stærsla mein þjóðarinnar okkar er að þeir sem stjórna halda að þeir þurfi ekki segja þeim sem eru niðrá gólfi hvað þeir eru að gera.  Það er alveg sama hvar við tökum niður í þjóðfélaginu þetta er alltaf að koma upp.

Ég tek 3 dæmi – Skólinn, þegar Ástrós Mirra byrjaði í skóla, þá gengum við endalaust á veggi því það var hvergi neinar upplýsingar að fá.  Við vissum ekki að það kæmi bara ein auglýsing í morgunblaðinu um innritun barna í grunnskóla, við vissum ekki hvar átti að ganga inn í skólann því hann er ómerktur, við vissum ekki hvernig skólastarfið er byggt upp því við eigum bara þetta eina barn og getum ekki notað það til að læra á skólakerfið.  Það voru fleiri dæmi sem við rákum okkur á, og ég man bara að þetta var mjög erfiður tími af því að við vissum ekki neitt.

Á mínum vinnustað eru gerðar starfsmannakannanir á hverju ári, og hvað er það sem stjórnin og yfirmenn koma verst út á hverju ári, þó þeir séu alltaf að reyna að bæta sig.  Það er að þeir miðla ekki nægum upplýsingum til okkar venjulega fólksins.  Við vitum ekki hvað er á döfinni eða hvernig staðan er osfrv.

Þetta er núna að gerast í þjóðmálunum, sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir reyndar núna (allt of seint) að þeir hafi líklega (takið eftir þeir segja líklega) gert mistök í því að fræða ekki þjóðina um hvað þeir voru að gera þarna rétt áður en ríkisstjórnarskiptin urðu.

Hvað er núna að koma í ljós, einhver óskapleg leyniskýrsla um bankahrunið og hún er höfð  ein í herbergi þar sem aðeins einn maður hefur lykilinn (eða eitthvað í likingu við það) osfrv.

Þetta kemur í ljós daginn fyrir kosningar.   Einmitt enn og aftur ekki segja okkur neitt, við kunnum nefnilega ekkkert með upplýsingar að fara.  Við höfum ekki einu sinn stjórn á okkar eigin lífi og þurfum að fá stjórnmálamennina til að passa það.

En ég fékk smá hjálp frá einni í Vinstri Grænum í gær, hún benti mér á hver minn flokkur væri (og ég tek hattinn ofan fyrir fólki sem getur bent á eitthvað annað en sinn flokk og það gerði þessi kona) svo líklega set ég xið einhvers staðar en skila ekki auðu.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjg 12.5.2009 21:30:58 Er maður sætastur eða hvað?

 

Er maður sætastur eða hvað?
Ég spái að þessi verði einhvern tíma góð, sjálfsagt eins góð og Jóhanna Guðrún á sinn hátt.

Ég var alveg að tapa mér hérna áðan þegar eitt umslag var eftir og ekki búið að nefna okkur, hótaði öllu illu og lokaði augunum.  En jeiiiiii við komumst áfram of course.

Þá er bara að vona að framhaldið verði eins frábært, ég vona að við verðum í 9 efstu sætunum og ofar því betra en ég veit ekki með 1 sætið held við ráðum ekki við það á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég er búin að vera þvílíkt dugleg að taka barnamyndir og ætla að fara að æfa mig á henni Hrefnu minni á fimmtudaginn í nýja stúdeóinu mínu sem við erum búin að útbúa í gamla herberginu hennar Ástrósar Mirru.  Hún skipti um herbergi um daginn og fékk meira að segja að mála sjálf, þið getið séð myndir af því í myndaalbúminu okkar.  En við það að hún skipti um herbergi þá skiptum við um stíl eða þannig.  Hættum að troða í herbergin og við gáfum Hafrúnu hillusamstæðuna okkar og gátum þar af leiðandi sett tölvuna og allt ljósmyndadótið mitt í hitt herbergið svo það er orðið að stúdeói.  Ég er alsæl og reyndar er eins og það séu fullt af litlum ormum inní mér því ég iða pínulítið og veit ekki alveg hvernig ég á að stilla þetta.  En þó veit ég að það gerist með tímanum, ég er bara orðin svo ýkt tilfinningalega þegar eitthvað er.  Spenningur ætlar alveg að drepa mig, kvíði (á ekki við núna) getur farið ansi illa með mig, hræðsla hefur nú ekki verið að angra mig sem betur fer en sem sagt svona spenningur og allt hitt truflar svefninn hjá mér, ég þoli það ekki, dreymi alls konar bull drauma, mér fannst betra þegar mig dreymir ekki neitt.

En að þessari fallegu stúlku aftur, þetta er dóttir Adda og Önnu Sifjar og hún heitir Sigrún Eva, alveg yndisleg stúlka ég fékk að passa hana í 10 mín í gær og skaut á hana ca. 100 myndum á meðan (ok ýkt) en hún er með flott augu og svo skýr aðeins tveggja vikna gömul.  Frábært stelpa þetta.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Nú skil ég allan myndafjöldann, þú tókst “nokkrar” á meðan ég náði í stráksa (,Anna Sif) 20.5.2009 19:17:05 Víti til varnaðar!
–           Ekki skipta við Bílaleiguna Átak nema þið eigið nægan pening.

 

Við lentum í því um daginn að bakkað var á bílinn okkar fyrir utan hús, ekkert mál með það, fólkið kom til okkar og var vel tryggt þannig að þetta yrði bætt af tryggingafélaginu þeirra.

Frábært, við fáum tíma fyrir bílinn okkar og hann fer á verkstæði.  Eftir nokkra daga á verkstæði ákváðum við að nýta okkur það að geta fengið bílaleigubíl, frekar en að vera að skutla hvort öðru fram og til baka.

Okkur er sagt að fara bara á bílaleiguna Átak sem er í nágrenni við verkstæðið okkar og ég fer þangað og það er gengið frá einhverjum pappírum (ég viðurkenni að ég spáði ekki mikið í þá enda ég ekki að fara að greiða fyrir þennan bíl sjálf) ég er látin kvitta fyrir og kvitta aftur á einhverja pappíra fyrir utan hús um leið og ég tek við lyklunum.  (Enn og aftur veit ég ekkert hvaða pappírar þetta eru, enda aldrei tekið bílaleigubíl áður).

Jæja ég fæ bílinn og fer á honum í vinnu, legg í endastæði til að minnka líkur á hurðabanki.

Skrepp svo í Kringluna eftir vinnu og legg á stæði þar sem enginn bíll er sitt hvorum megin við mig, en þegar ég kem út úr Kringlunni rek ég augun í dæld á bílnum fyrir aftan afturhurðina farþegamegin.

Ég hringdi í manninn minn og segi honum hvað ég hafi séð og að ég trúi því varla að þetta geti hafa komið fyrir hjá mér, svo hann segir mér að fara bara og tala við þau á Bílaleigunni, sem ég og geri.

Þar fæ ég bara að heyra það, að það sé ekki möguleiki að þetta hafi verið áður, þetta hafi komið fyrir hjá mér osfrv.  Það var víst pappírinn sem ég skrifaði undir fyrir utan, ég átti að grandskoða bílinn og kvitta fyrir að hann væri í fullkomnu standi.

Ja, hérna segi ég, hvað gæti þá svona viðgerð kostað mig?  Ja, sjálfsábyrgðin er 120.000 svo það fer alla vega ekki uppfyrir það en ef þú ferð sjálf með bílinn á verkstæði þá getur þú örugglega fengið þetta ódýrara.

Við hjónin fórum á tvö verkstæði og fengum munnleg tilboð, 25.000 kall sögðu bæði, en Nei, Bílaleigan ÁTAK samþykkir ekki þessi verkstæði svo við sögðum þeim að láta gera við þetta og sjá til þess að það myndi ekki kosta mikið meira en það sem okkur var boðið.

Við fengum reikning ásamt greiðslukvittun (búið sem sagt að taka þetta af kortinu okkar)  99.800,- hljóðaði hann uppá enda Tryggingamiðstöðin skrifuð sem greiðandi að þessu en ekki venjulegur Jón í Hafnarfirði.

Við erum búin að eiga í góðu sambandi við Tryggingafélagið sem finnst það sama og okkur að það séu einhver brögð í tafli þarna og eru að skoða alla pappíra, tjónaskýrslur oþh. og ætla að sjá til þess hvað þeir geta gert fyrir okkur.

En Bílaleigan ÁTAK gat ekki einu sinni séð sóma sinn í því að hringja í okkur og ræða við okkur um þennan 99.800,- króna reikning sem þeir eru búnir að láta okkur borga, því viljum við biðja ykkur að velja vel bílaleiguna ef þið þurfið að taka bílaleigubíl.  Eins viljum við biðja ykkur að athuga vel hver sjálfsábyrgðin er því hjá Hertz er hún 85.000 og það munar alveg um 35.000 ef eitthvað tjón verður á bílnum.  Og  síðast en ekki síst, skoðið bílinn vel, og ég meina vel, því ég er næstum því viss um að þetta hafi ekki gerst hjá mér, heldur hafi bara verið bónað yfir tjónið og í þeirri miklu rigningu sem ég lenti í hafi tjónið komið í ljós (en ég er ekki viss og skrifaði undir að bíllinn væri í lagi).

Kær kveðja
Ekki ánægðir viðskiptavinir bílaleigunnar ÁTAKS.

kjg 30.5.2009 10:29:52 Ástrós Mirra
Jæja nú er komið að því að segja aðeins frá henni Ástrós Mirru minni.  Eins og flestir vita er hún 8 ára unglingur og búinn að vera unglingur í 2 ár.  Ég veit ekki alveg hvernig við Þráinn verðum orðin eftir 10 ára unglingsstæla á heimilinu en ég er alveg sannfærð um það að æðri máttarvöld hafi ákveðið að láta okkur hafa vel fyrir þessari stelpu því við þurftum að bíða svo lengi eftir henni og vorum svo ákveðin í að fá hana.

Ef þú þráir eitthvað í 15 ár þá er allt í lagi að hafa svolítið fyrir því þegar það loksins kemur.

En aftur að Mirru Skottu, ég veit ekki hvort ég hafi verið búin að segja frá því að hún eignaðist kærasta fyrr í vetur en það gekk ekki upp, því “blaðraði” svo mikið um þetta við alla.  En nú eru sem sagt hún og Ríkharður byrjuð saman aftur og að þessu sinni er þetta víst fyrir lífstíð því Ríkharður ætlar að gefa Ástrós Mirru 2 Doberman hunda og 2 Chiváva (hef ekki hugmynd hvernig á að stafa þetta nafn) hunda þegar þau eru orðin stór.  Það er líklega vegna þess að hann viti hve vonda foreldra hún eigi því ekki vilja þau gefa henni hund.  En ég sagði sem sagt við hana, já ætlar þú þá bara ef þú hittir Ríkharð einhvern tíma úti á götu, að segja við hann, “hey, þú skuldar mér hunda”.  Þá leit hún snöggt á mig og sagði, “Mamma, við erum kærustupar!” ´ Og þá veit ég það, þetta er samband sem á að vera forever.

Þá gerði ég eitthvað sem ég hélt ég myndi aldrei gera.  Ég sagði: “Ástrós Mirra, þegar maður er bara 8 ára þá á maður að eigi fleiri en einn kærasta.”  Eins gott að hún hafi ekki tekið þetta upp, því ég væri í vondum málum ef hún kæmi 16 ára og myndi reka þetta uppí nefið á mér.

Annað sem hún sagði mér um daginn, þegar hún var að taka sig til fyrir bekkjarmyndatökuna er að Ríkharður sé ekki hrifinn að stelpum með gleraugu.

. . . . . .

. . . . . . . . . .

. . . . . . . . . . . . . . . “hvað sagðir þú?”  Er Ríkharður ekki hrifinn af stelpum með gleraugu?  Þá getur hann ekki verið kærastinn þinn, það er alveg á hreinu og ég skal bara segja þér það að þú lætur ekki einhvern strák (munið að hún er bara 8 ára) segja þér hvernig þú eigir að vera hvorki í háttum eða útliti.  Þú breytir þér ekki af því að einhver strákur vill það, þú ert frábær eins og þú ert og lætur ekki einhvern annann breyta eða segja þér hvernig þú átt að vera.

Og hún er bara 8 ára og búin að koma 2 af góðu ræðunum sem ég hélt ég gæti æft í nokkur ár í viðbót.

Nú er bara rólegheit í sveitinni í útlenskri rigningu, mig dauðlangaði áðan að fara út á náttfötunum og hoppa berfætt úti á túni og reyna að ná úr mér leiðindum síðustu viku sem er ein sú erfiðasta sem ég hef átt á vinustað en það var tveimur vinkonum mínum sagt upp og enginn skilur af hverju.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

Ps. Var að taka taka myndir af Melrosesprinsinum (þ.e  nýfæddur sonur Víðis og Pálínu á neðstu hæðinni á Burknó 5) og hann er þvílíkur sjarmur og mikill karlmaður, enda 20 merkur fæddur.

kjg Athugasemd: Þetta er rétt að byrja hjá okkur Kristín þetta með kærastana og útlitið úff að hugsa sér:).
Pálina er búin að fá myndirnar og er rosalega glöð með þær.
Hafið það gott í sveitinni kæru nágrannar ég bara passa melrose place á meðan þið hin eruð í sveitinni, Sara er í geggjuðu veðri á akreyri er búin að fara í jólahúsið og á leið á dalvik núna ..

Kv , Inga á neðri. (,Inga) 31.5.2009 21:19:10 Ljósmyndarinn og fyrirsætan
Þau voru flott frændsystkinin í dag, Kristófer Darri og Ástrós Mirra en hún var fyrirsæta sem gekk hér uppá stofuborði og hann sat í sófanum með myndavélina mína og tók myndir af henni.

Margar fínar myndir sem strákurinn tók á þessum merkisdegi sem Kristófer minnti að héti Hvítur í annar, frábært nafn á degi og engin furða að börnin ruglist á þessum dagaheitum okkar íslendinga.

Við erum búin að eiga góða helgi hér í bústaðnum, það er búið að veiða fullt af sílum og flytja í plasttjörnina okkar.  Þar er Sílakeisarinn sem öllu ræður.  Það er líka búið að reyna að veiða silung en allt of mikið rok kom í veg fyrir að einhver fiskur væri dreginn að landi.

Klara, Davíð, Alexander Ísak, Kristófer Darri og ófædda krílið komu í mat í gær og var KD skilinn eftir, svo kom Siggi afi í dag og reyndi að veiða með Þráni en ég og Nói höfum mest verið að horfa á sólina og leggja okkur.  Ég held að ég hljóti að hafa verið eitthvað þreytt því ég sef svo mikið núna og í gær þá langaði mig svo á náttfötunum út í rigninguna og bara hoppa úti á túni og verða rennandi blaut en .. nei auðvitað geri ég ekki svoleiðis.  Þyrfti samt að fara að láta verða að því einhvern daginn, held það sé ótrúlega losandi og endunýjandi.

 

Eitt er gott við að vera netlaus í bústaðnum og það er að ég er læra helling í Lightroom og PSP myndvinnslu sem nýtist mér heima þegar ég ætla að vinna alveg helling af myndum í einu.

Mig vantar svo að fá kennslu í lýsingu og hvernig á að stilla ljósin og af hverju koma stundum skuggar og stundum ekki, verð einmitt að reyna að finna svoleiðis kennsluefni og downloada því og læra svo hér í bústaðnum.

En þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: gott að heyra að þú hleður batterýin í bústaðnum og lærir svona mikið á lightroomið – ég kem svo í kennslu til þín einn daginn hehhe (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 4.6.2009 21:45:57 Sumarið er komið
Eða það held ég.  Skýjað og 16 stiga hiti í dag, það er sumar.  Það er búinn að vera þvílíkur myndaskapur á þessu heimili í dag, bakaðar tvær kökur og svo bakaði ÁM smákökur en í gær bökuðu hún og vinkona hennar smákökur (við hjónin vorum í vinnu) alveg uppá eigin spítur.  Þær breyttu líka uppskriftinni og skreyttu svo með glassúr og tómatsósu.
Eldhúsið var .. 1,2,3,4,5,6. ég verð að telja uppá 10 áður en ég get talað um það, og mikið er nú leiðinlegt að þrífa svona eldhús í rúst eftir aðra.  Það fóru 3 borðtuskur í þetta verk.

En þar sem ég fékk aldrei að gera svona lagað þegar ég var krakki, þá sit ég á mér því þetta er svooooo gaman.  Ég þarf bara að kenna henni betur að ganga frá hverjum hlut strax og nota tuskuna til að þrífa um leið og það fer á útfyrir.

En líklegast hefur það svo ekkert að segja, ég held að kynslóðirnar geti ekki verið saman í eldhúsinu, ég get td. ekki unnið með mömmu, hún draslar öllu út og þrífur svo vel en ég nota bara eina skál, eina skeið, einn hníf, eina skeið osfrv.  og skola á milli.  En það er líka allt hreint og fínt þegar ég er búin að baka.  Skil hitt ekki, maður kannski orðinn þreyttur eftir baksturinn og “shit” þá á eftir að þrífa.

En við hjónin erum með háleit plön fyrir sumarið, hér skal bakað á fimmtudögum til að taka með í bústaðinn.  Ekkert bakkelsi keypt lengur.

Sjómannadagurinn er á sunnudaginn og ég ætla bara hér og nú að óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn.  Þið eruð hetjur hafsins og látið engan segja eitthvað annað.

 

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
God looks at the clean hands, not the full ones.
–Publilius Syrus
kjg Athugasemd: góða ferð í bústað – með tómatsósu kökurnar 🙂 (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 7.6.2009 16:48:58 Hvar er draumurinn
Ég fór að hugsa um drauma og þess háttar þegar á skoðaði þessa mynd.  Svo glymur í útvarpinu að ríkisstjórnin sé að semja um þessa Icesave samninga ofl. og þá einhvern veginn finnst mér eins og þessir útrásarvíkingar hafi séð til þess að maður þorir ekki einu sinni að láta sig dreyma nema draumurinn eigi ekki að rætast fyrr en eftir 15 – 20 ár.

Hugsa sér að einhverjir einstaklingar geti séð til þess að 300.000 manns (og jafnvel fleiri) þori ekki að láta sig dreyma því við þurfum að borga skuldirnar þeirra.  Af því að þeir héldu að lífið væri playstation leikur.  Hvaða framtíð er það sem ég get boðið barninu mínu?  Ekki merkileg og mikil ef ég á bara rétt fyrir mat og nauðsynjum næstu árin.  Hvernig geta þessi menn gengið um göturnar og horft framan í annað fólk?  Eru þeir alveg samviskulausir, mig langar svo að vita það.  Hvað segja þeir börnunum sínum?  Hvernig útskýra þeir fyrir fjölskyldum sínum AF HVERJU þeir gerðu það sem þeir gerðu?  Bara af því að þeir gátu það og þá hlyti það að vera í lagi.  Ég reyni að kenna Ástrós Mirru að þó maður geti eitthvað er ekki endilega víst að það sé rétt af manni að gera það.

Ég er búin að byrja 3 sinnum á nýrri setningu hér og hún byrjaði svona:  “Mér finnst svo skrítið” en svo kem ég bara ekki orðum að því sem mér finnst svo skrítið.  Samt, mér finnst svo skrítið að þetta hámenntaða fólk sem stjórnaði bönkunum hafi gert það svona.  Hvar var þeim kennt að þetta væri í lagi, hver kenndi þeim að fólk skipti ekki máli, heldur einungis peningar?

Ég hugsa stundum að hann afi minn var heppinn að lifa þetta ekki, hann átti alltaf mjög erfitt með að skilja af hverju launin væru orðin svona há hjá svo sumum en öðrum ekki.  Hann var verkamaður alla sína ævi og gat ekki skilið af hverju einhver þurfti að vera með margföld árslaun verkamannsins í mánaðarlaun.

Mér verður líka stundum hugsað til hans Jón afa mín sem barðist fyrir hönd verkalýðsins á Íslandi fyrir því að fá vinnu, já bara að fá vinnu og fá laun fyrir hana.  Hann var einu sinni handtekinn fyrir utan alþingishúsið vegna þess að það brutust út slagsmál.  Ég er stolt af þeim báðum og veit að það sem ég hef í dag, er þeim að þakka, þeir börðust fyrir því að við gætum lifað mannsæmandi lífi.  En þessir útrásarmenn áttu líklega enga afa sem börðust fyrir lífi þeim mannréttindum að fá næg laun fyrir vinnu sína til að geta brauðfætt fjölskylduna sína, já og kannski leyfa þeim að fara í skóla til að læra.

Ástrós Mirra sagði einu sinni að henni langaði svo að verða eins og langamma þegar hún yrði stór og ég spurði hana út af hverju og þá svaraði hún:  “Af því að hún á svo mikið af peningum”.

Já, hún langamma sem hefur um hundraðþúsund krónur í ellilaun á mánuði á svo mikið af peningum.  Ég reyndi að útskýra fyrir henni hvernig stæði á því.  Það er vegna þess að langamma er nægjusöm.  Það er af því að hún hendir ekki mat, heldur nýtir allt sem hún á.  Hún hendir ekki sokkum þó það sé lítið gat á þeim, hún stoppar í gatið.  Hún kaupir ekki nýja húfu ef sú gamla er skilin eftir eftir einhvers staðar, hún fer og finnur húfuna.

Þangað til næst;
Ykkar Kristín Jóna

 

Quote of the Day:
Honk off, bozo.
–Eno, The Duplex
kjg Athugasemd: Já – hvar er draumurinn……. (rakel72@mac.com,Rakel Guðmundsdóttir) 11.6.2009 07:40:10 Fann hann!
. drauminn, eða þannig.  Fór á Grease í gær og það er æðisleg sýning.

 

Eina sem ég hef út á að setja er að hitinn í húsinu fór örugglega uppí 60 stig þarna uppi á 17 bekk og ég er ekki að fýla ljóshærðann Danny.  Veit samt ekki hvort það er háraliturinn eða hvort það er strákurinn sjálfur.  Ég man bara eftir John Travolta í þessu hlutverki og hann var svo frábær töffari en samt svo viðkvæmur en ég fann hvorugt af þessu í gær hjá honum Bjarti.  Það truflaði mig ekkert að Sandy hafi verið dökkhærð, líklega vegna þess að hún Ólöf Jara er bara alveg eins og Sandy og skilaði sínu vel.

Og það gerðu þetta allir mjög vel, sumir bara svo miklu betur en aðrir.  Ég vil þó sérstaklega nefna Ævar Þór Benediktsson sem lék kærastann hans Georgs Bjarnfreðarson í Dagvaktinni, hann fer algjörlega á kostum.

En bottom line.  Sýningin fær **** frá mér og ég get lofað ykkur því að hún fær ***** frá Ástrós Mirru og Söru sem voru með þarna í gær, þær ætla aftur, ekki spurning.

Takk fyrir mig

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
Life is hard. It’s even harder if you’re stupid.
–Anonymous
kjg 14.6.2009 20:57:39 Fjölskyldudagur Maritech
Í gær var fjölskyldudagur hjá Maritech haldinn í Þjóðhátíðarlundi í Heiðmörkinni, frábær staður, frábært fólk, frábært veður (sól og rigning) og allt vel heppnað í alla staði.

Það eru fleiri myndir hér fyrir þá sem vilja skoða.
Í dag fórum við í afmæli til Kötlu Dísar sem er þá orðin 2ja ára gömul.  Það fór nú ekki mikið fyrir afmælisbarninu, hún sat bara við borðið og tók á móti pökkum og saug á sér puttann.  En Ástrós Mirra varð skyndilega lasin, eins og hún hefði fengið vírus í augun og beinverki og höfuðverk, svo við stoppuðum örstutt og svo ældi hún í bílnum á leiðinni heim.  En nú er hún betri og ætlar galvösk á reiðnámskeiðið á morgun.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
Everything that can be invented has been invented.
–Charles H. Duell

kjg 15.6.2009 22:06:40 Litla hestastelpan mín
Jæja þá er byrjað tveggja vikna reiðnámskeið hjá Ástrós Mirru í Íshestum, fyrsti dagurinn var í dag og fannst henni að venju, mjög gaman.

Þetta kallar á smá aukaskutl og vesen fyrir mig en hvað gerir maður ekki fyrir litla engilinn sinn.

Ég var að mála aftan á rúllugardínuna sem ég nota fyrir bakgrunn áðan eða þannig.  Nei, við skulum hafa þetta rétt ég byrjaði að mála (við áttum bláa málningu sem ég ákvað að nota) og kláraði eina umferð, sem var ekki alveg nógu góð, en ég hélt (vonaði) að það myndi lagast þegar það þornaði svo ég fór fram að bardúsa.  Þráinn sat í tölvunni inni í herbergi og var að hlusta á músík, bað mig að loka svo kötturinn færi ekki í málninguna.  Ég gerði það.

Svo sit ég hér frammi og hugsa, þetta var ekki nógu vel gert, vonandi er ég ekki búin að eyðileggja gardínuna.  Vonandi tekur Þráinn bara pensilinn og reddar þessu fyrir mig.

Svo kemur Þráinn fram og ég spyr hvort þetta sé alveg ómögulegt hjá mér.  Hann sagði bara: “Ja, ég gat ekki horft á þetta”.  Og þá hugsa ég shit, ég er búin að eyðileggja þetta.  En nei, þá var Þráinn minn, elskan búinn að mála yfir klúðrið mitt, af því að hann gat ekki horft á þetta.

Love you baby.

Og já, þessi mynd af MirruSkottu er tekin við þennan bláa bakgrunn sem mér sýnist ætla að koma vel út.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
Life is hard. It’s even harder if you’re stupid.
–Anonymous
kjg 16.6.2009 18:18:15 17. júní á morgun

 

og við erum að hugsa um að taka hann á þjóðlegu nótunum og skella okkur í Árbæjarsafnið.  Þar verða þjóðdansar, fornbílar o.m.fl.

Ég er á leið í stelpu(kveðju)partý í vinnunni hjá mér og hlakka svo til.  Það eru ár og dagar síðan svoleiðis hefur verið haldið og það er nú einhvern veginn þannig að þegar við erum bara stelpurnar þá er það aðeins öðruvísi en þegar bæði kynin mæta.  Svo skemmir ekki að ég veit að við erum allar að koma með eitthvað gott í kroppinn svo maður fer saddur og sæll heim í kvöld

Jæja, Gunnar Birgisson ætlar loksins af fatta það að hans tími er liðinn.  Kall greyið skyldi bara ekki fólk var að röfla yfir þessum viðskiptum bæjarins við dóttur hans.  Hann skildi heldur ekki hvað allir voru að röfla þegar hann átti Klæðningu og þeir fengu alla gatnagerð í Kópavogi, það er eins og sumir skilji ekki svona tengsl séu ekki æskileg.  Ég er ekkert að segja að það hafi eitthvað ólöglegt átt sér stað en ég hélt nú bara að menn væri farnir að fatta það að það hefði verið æskilegra fyrir dóttur Gunnars að eiga sín viðskipti við aðra en pabba sinn til að hafa allt sitt á hreinu.  Ég vona alla vega að fyrirtækið hafi verið samkeppnishæft.

Ástrós Mirru finnst mjög gaman á hestanámskeiðinu og fékk nýjan hest í dag, því Stjarna sem hún var með í gær, gengdi svo illa.  Í dag fékk hún Nökkva og hann er víst miklu betri, svo er hún með allt að 11 ára krökkum í hóp og það finnst henni frábært.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
If you haven’t got charity in your heart, you have the worst kind of heart trouble.
–Bob Hope
kjg 21.6.2009 18:42:17 Hestalíf
Já það er hálfgert hestalíf hjá okkur þessa dagana.  Þ.e. Ástrós Mirra er á hestanámskeiði núna í 2 vikur og svo förum við í sveitina og ég dreg hana með mér að mynda hesta.

Ég varð að taka hana með, því ég er ennþá frekar hrædd við hesta, þó ég hafi lagast mikið.  Ég klappa þeim á snoppuna (eða hvað heitir það á hestum) og eins og þið sjáið á myndunum sem ég tók í gær, þá leggst ég líka niður á bakið til að ná sem bestum myndum af þeim.  Það var reyndar girðing á milli okkar en ég er samt ánægð með mig.  Ástrós Mirra fór aftur á móti inní girðinguna til hestanna og ég var smá smeyk á meðan því þarna voru 6 hestar sem hún þekkir ekki og þeir þekkja ekki hana en auðvitað voru þeir bara ánægðir með hana.

Við áttum fína helgi í bústaðnum, fengum óvænta heimsókn á föstudaginn, Konni, Drífa, Birta og Pétur komu og tjölduðu á lóðinni hjá okkur, við grilluðum saman, drukkum nokkra bjóra og hvitvín og spjölluðum til kl. 3 um nóttina.  Skelltum okkur svo öll í sund á Minniborg í gær og svo drifu þau sig í bæinn til Andra gæa, en við vorum áfram í sveitinni og höfðum það kósí par exelans.

Svo erum við bara komin heim, í kósíheitin þar og vonandi frábær vinnuvika framundan hjá okkur.  Svo styttist í sumarfrí en við ætlum í frí 15. júlí og þá verður sko gaman því við ætlum að skreppa norður og hafa tjaldið með okkur og njóta landsins okkar.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
If at first you don’t succeed, skydiving is not for you.
–Francis Roberts
kjg 29.6.2009 07:29:03 Tíminn
Það er alveg með ólíkindum að það sé að koma júlí eftir 2 daga, og sumarið var að byrja nú um helgina.  Reyndar æðíslegt veður þessa helgi og fyrsta skiptið sem við kveikjum upp í arninum.  Við Mirra skruppum uppá Miðfell í dag og vá hvað það var fallegt að horfa yfir vatnið, algjörlega spegilslétt.  Mér datt nú í hug að þetta hefði verið fullkominn bakgrunnur fyrir brúðarmyndatöku en lét mér nægja að mynda Mirru Skottu.

Við erum að leggja drög að ferðalaginu okkar norður til Maddýjar og við erum að spá í keyra í Skagafjörðinn og tjalda þar í eina nótt, fara svo að Mývatni og tjalda þar í eina til tvær nætur og skella okkur svo á Reabenhavn og fara svo þaðan í styttri ferðir í Ásbyrgi, Hljóðakletta, Melrakkasléttuna og fleira sem okkur dettur í hug að skoða og mynda.

Það verður gott veður í þessu ferðalagi og þetta verður frábært ferðalag það er ég viss um.

Ástrós Mirra er búin á hestanámskeiðinu og við tekur leikjanámskeið hjá ITH sem ég vona að hún verði ánægð á, það er eitthvað að angra hana þessa dagana og hana langar að skipta um skóla og fara aftur í Hvaleyrarskóla.  Segir að þar séu hennar sönnu vinir sem sakna hennar jafn mikið og hún þeirra.  Hún virðist ekki ná að vinganst við neina aðra stelpu en Söru hér, en þær eru að sjálfsögðu miklar vinkonur en að einhverjum ástæðum er það ekki nóg fyrir okkar dömu og þetta virðist liggja þræl þungt á henni.  Ég sagði henni að við skyldum nú byrja haustið í Hraunvallaskóla og sjá hvernig lífið og tilveran verður þá.  Það á held ég að skipta upp bekkjunum og það koma nýjir kennarar svo vonandi verður þetta allt í lagi hjá henni.

 

Það er greinilegt að Mirran hefur ljósmyndahæfileika því þetta er ekkert smá flott mynd sem hún tók í dag.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
Civilization begins with order, grows with liberty, and dies with chaos.
–Will Durant
kjg 2.7.2009 18:35:37 Geisp

 

Það er nú meira hvað ég er þreytt þessa dagana, ég fór nú að sofa milli 10 og 11 í gærkvöldið og vaknaði 6.30 en sit hér núna og geyspa og geyspa.  Langar ekkert að gera, eyri mér ekki einu sinni í ljósmyndunum mínum og horfi bara á skjáinn og hugsa hvort ég ætti kannski bara að leggja mig.

Hvað þýðir þetta?  Er bara kominn tími á sumarfrí eða er þetta eitthvað annað?  Mér finnst ég allt of oft vera þreytt þegar ég vakna sem er náttúrulega bara skrítið og þó.

Það eru reyndar allir að tala um að þeir séu þreyttari núna en venjulega, líklega vegna þess að það sé kominn tími á sumarfrí osfrv.  Jæja vonandi að það sé bara málið.

Ég held alla vega að ég hrjóti ekki, andi bara eðlilega á nóttunni svo líklega er ég ekki með kæfisvefn eða annað þess háttar og þarf þar að leiðandi ekki að fá mér hjásvæfu sem er stungið í samband, en ef ég þyrfti þá myndi ég bara gera það því góður svefn er fyrir öllu.

Siggi Stjúpi fór í hjartaþræðingu í gær og kom bara ágætlega út úr henni, það var blásið út úr einni æð og hún fóðruð og svo á hann að fara á blóðþynningarlyf og málið dautt, eða þannig.  Við vorum smá áhyggjufull yfir þessu svo við erum bara ánægð með kallinn.  Mamma aftur á móti er alltaf að drepast í löppinni og hún virðist ekki ætla að gróa en hún á að þola þetta til 1. ágúst en þá verður tekin ákvörðun hvort hún verði brotin upp og nelgd eða ekki.  Þetta er búið að vara frá 17. apríl svo hún er ansi þreytt á þessum verkjum og bólgum.

Geisp, geisp,

Ætla að kíkja á fréttirnar og fer svo bara snemma í háttinn aftur og sé til hvort ég verði ekki hress á laugardaginn, því jú, þá er nú frí.

Þangað til næst,
Ykkar Geisp, Kristín Jóna

kjg 5.7.2009 15:01:54 Hvíld
Jæja, við Mirra skotta erum búnar að vera einar heima (hálf asnalegt að segja einar heima þegar bara vantar einn í hópinn) um helgina en það er af því að SARA vinkona á afmæli í dag og hélt uppá það í gær.  Þráinn gat ekki hugsað sér að fara ekki uppí bústað svo ég “fórnaði” mér fyrir dóttur okkar.  Eða þannig.  Sara var alsæl á afmælisdaginn sinn, fékk gjafabréf frá mér uppá myndatöku kl. 12 í gær og æðislegt pöddurannsóknarsett frá Mirru í afmælisgjöf.  Við erum einmitt að bíða eftir að Sara komi heim svo við getum farið saman að Ástjörn að týna pöddur, þær til að setja í rannsóknarkrukkuna og ég til að mynda macromyndir.  Og gott ef sólin er ekki farin að skína.

Ég er lítið sem ekkert búin að gera alla helgina nema mynda Söru (og það var bara gaman) talsvert reyndar af þvottum (sem er alls ekki gaman) og horfa á sjónvarp (The curious case of Benjamin Button, æðisleg mynd, Mirra horfði á hana með mér í 3 tíma og skildi enskuna algjörlega) og lesa.

Svo nú er pæling að það þurfi að fara út og fá sér frískt loft og gera eitthvað skemmtilegt, spurning hvað það ætti að vera því við vorum rétt í þessu að frétta að Sara sé ekkert á leiðinni heim svo þá þurftum við Mirra að hugsa upp “Plan B”.

Annars finnst mér allt einhvern veginn allt í lagi núna, kannski af því að ég hef ekki séð fréttir í 3 daga og þær eru þá ekki að draga mann niður.  Það er nú meira hvað hægt er að tönnslast á þessari kreppu og þessum hörmungum okkar.  Hvernig væri að fara að upphugsa leiðir til að láta okkur líða vel, hvernig væri að leyfa Evu Joly að sjá um að koma svikahröppunum bak við lás og slá og við bara að reyna að gera gott úr því sem við höfum og reyna að njóta lífsins.  Fjölmiðlamenn takið bara eina frétt um kreppuna í kvöldfréttunum en reynið að hafa daginn skemmtilegann.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
What I hear, I forget. What I see, I remember. What I do, I understand.
–Confucius

kjg 9.7.2009 20:09:34 1 dagur í sumarfrí
Ég hef sjaldan eða aldrei verið eins spennt fyrir því að fara í sumarfrí eins og núna.  Ekki veit ég af hverju, því við erum svo sem ekki að fara til útlanda en við ætlum nú í útilegu norður og ætlum að tjalda á nokkrum stöðum s.s. Hvammstanga, Skagafirði og Mývatni og svo endum við á Raufarhöfn hjá Tengdó sem á semi stórafmæli 23. júlí.

Ég held reyndar að þessi þreyta í mér og næstum öllum sem ég tala við sé tilkomin vegna ástandsins í þjóðfélaginu, við erum öll þreytt eftir þennan vetur.  Mér finnst reyndar margt gott vera að koma út úr þessari kreppu en það tekur á að vera endalaust að hugsa um peninga, hvort maður geti keypt þetta og hitt og hvernig við getum sparað meira svo hægt sé að leyfa sér eitthvað annað.  Það er af sem áður var að manni þótti ekki tiltökumál að kaupa 1 til 2 tíuþúsundkrónahluti í mánuði.  Að kaupa hjóla handa Ástrós Mirru var gert bara af því að við fórum framhjá búð, núna ætlum við að bíða eftir útsölum og skoða vel og vandlega svo það sé á hreinu að við séum að kaupa rétta hjólið.

Hvað á að hafa í matinn, var innkaupaferðin í þessari viku of dýr osfrv.  en svo á móti er maður að gera svo margt skemmtilegt sem kostar ekki neitt, ss. fjöruferðir og aðrar ferðir út í náttúruna, vera bara saman oþh.

En sem sagt ég er að fara í frí uppúr hádegi á morgun og er mjög spennt fyrir því, við ætlum að skreppa í bústaðinn og Ástrós Mirra og Sara ætla að sofa í tjaldi í svefnpokum og bara þær tvær, gaman.  Svo á mánudag eða þriðjudag ætla ég að fara með stelpurnar og Hrefnu skvís á neðri hæðinni að Kleifarvatni til að taka myndir af Hrefnu fyrir sýninguna í Kringlunni í haust en þemað er kvenleiki eða karlmennska og ég ætla að reyna að ná góðum myndum af henni stökkvandi í fjörunni þarna.  Sé þetta allt fyrir mér og vonandi að ég nái því á mynd.  Ástrós Mirra og Sara verða bara að vaða og sulla þarna og líklega tökum við með nesti.

Nú svo ætla ég með Kollu frænku að skoða gardínur fyrir stofuna því hana langar í nýjar þar en það voru keyptar ódýrar til bráðabirgða þegar hún flutti inn.

Að lokum ætla ég á miðvikudaginn til Óla Bogga í hársnyrtingu og ég ÆTLA  að láta lita á mér hárið rautt núna.  Alveg ákveðin og ef hann ekki vill þá verð ég bara að skipta um hárgreiðslumann.

Nú svo fer fimmtudagurinn í að undirbúa útileguna sem við ætlum í norður og svo vonandi leggjum við af stað á föstudaginn, eða strax á laugardagsmorguninn.

Jæja, þangað til næst
Ykkar, Kristín Jóna
Quote of the Day:
Commonsense and good nature will do a lot to make the pilgrimage of life not too difficult.
–William Somerset Maugham

 

kjg Athugasemd: Ég samgleðst þér innilega Kristín vegna sumarleyfisins sem þú ert nú byrjuð í… Það er ljúft að fara í frí 🙂
Ég er að berjast við að gíra mig inn fyrir vinnu 🙂
Væri gaman að sjá mynd af þér þegar hárið verður orðið RAUTT 😉
kv
Hafrún Ósk (,Hafrún Ósk) 16.7.2009 13:47:36 Fríið hafið
Jæja gott fólk þá er hún orðin rauðhærð þessi kona, aftur og er bara að fíla það vel.
og byrjuð í sumarfríi og er þvílíkt að njóta þess að gera ekki neitt.  Valið stendur á milli þess að týna til útilegubúnaðinn, fara út á svalir í smá sólbað, ryksuga og tölvast.  Og vitiði hvað, ég geri þetta bara allt.  Er núna í tölvunni, búin að leggja mig með bók, og byrjuð á geymslunni og ætla að skreppa út á svalir þegar ég er búin að skrifa þetta.  Sjáum til hvort ég og ryksugan gerum eitthvað saman í dag.

Fór líka með bílinn í morgun að setja undir hann ný dekk í staðinn fyrir þessi ónýtu svo við getum keyrt hringveginn.  Fyndið við ætluðum að reyna að kaupa notuð dekk hjá Vöku, þá selja þeir ekki stærðina sem er undir okkur og þá mundi Þráinn eftir því að við ættum eitt ónotað dekk sem fylgdi bílnum og ég hringdi á eitt dekkjaverkstæði í Hafnarfirði sem átti eitt alveg eins dekk og það er hætt að framleiða þau svo við erum í góðum málum fyrir 25.000 í staðinn fyrir 50.000.

Á morgun ætlum við Ástrós Mirra að hafa svipaðan dag og í dag, finna til matarlista og kaupa inn fyrir útileguna og pakka í bílinn því sem við erum búnar að finna til í dag.  Ég held ég hafi aldrei gefið mér eins góðan tíma í undirbúning og reikna því með að eitthvað gleymist eða klúðrist þess vegna.  En aðalatriðið er að okkur verði ekki kalt, það er alls staðar hægt að kaupa sér að borða og svo sýnist mér að við séum bara að fá fínasta veður, ekki endilega sól en það er bara betra í ferðalögum því þá er ekki of heitt.

Fysti viðkomustaðurinn er Hómavík og verður tjaldað á tjaldstæði við hliðina á læk en það er draumur heimasætunnar á bænum að vera í tjaldi við hliðina á læk.  Svo áætlum við að fara næst í Skagafjörðinn og hitta Adda og co í bústaðnum hjá hans tengdó og vera þar eina nótt.  Svo er það Mývatn og svo líklega bara Raufarhöfn og þar ætlum við að vera í nokkra daga og keyra svolítið útfrá Raufarhöfninni.  Ss. Vopnafjörð, Melrakkasléttan, Ásbyrgi, Dettifoss og það sem okkur dettur í hug að skoða og höfum ekki skoðað lengi.

Vonandi að Ástrós Mirra verði ánægð með þetta því hún er búin að bíða í allt sumar eftir því að fara í útilegu með okkur.  Sofa í tjaldi og vera bara við þrjú saman að gera eitthvað skemmtilegt.  Svo er það alltaf spurning hvort henni þyki skemmtilegt sem mér þykir og öfugt.  Það er nefnilega ekki alltaf, ég er til dæmis meira fyrir að lesa en spila en hún og Þráinn eru meiri spilafólk en það kemur allt í ljós, ég gæti kannski lesið fyrir þau meðan þau spila. Svo getum við sungið, dansað og velt okkur í grasinu.  Hlaupið á eftir bolta, skoðað náttúruna og verið kát.

Ég ætla ekki að hafa áhyggjur af þjóðfélagsmálum meðan ég er fríinu og ég ætla ekki að hafa áhyggjur af peningamálum þó ég ætli heldur ekki að sukka í þeim efnum.  Eða hreinlega bara ekkert að sukka í neinu.

 

Ég fór á Kleifarvatn á mánudaginn með henni Hrefnu minni á neðri hæðinni og Ástrós og Sara komu með en tilgangurinn var að taka kvenlega mynd af Hrefnu í fallegri náttúru til að nota á sýningu í haust sem verður í Kringlunni en að henni stendur félagsskapur sem kallar sig Konur og ljósmyndir.  Þessi mynd varð fyrir valinu og er ég mjög ánægð með hana, og held að hún sýni bæði kvenleika og karlmennsku en það er þema sýningarinnar.  Hrefna er eins og lítil hafmeyja eins kvenleg og hægt er að verða og svo er sjórinn og klettarnir hrjúfir og karlmannlegir í kringum hana.

Jæja eigið gott sumar elskurnar mínar, ég ætla alla vega að gera það.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
Quote of the Day:
WARNING: Repeated brain usage may be harmful to others.
–rdude
kjg 25.7.2009 20:34:51 Sumarfríið 2009
Við byrjuðum á að keyra til Hvammstanga og tjalda þar í eina nótt.  Ástæðan er sú að við fréttum að tjaldstæðið þar væri við læk og hana Mirru hefur alltaf langað til að tjalda við læk.

 

Við vorum komin þangað kl. 13.30 á laugardaginn og það var ekkert spennandi veðrið.  Frekar kalt og ekki nógu fallegur himinninn fyrir myndatökur.  En við skelltum upp tjaldinu og gengum frá öllu dótinu og vorum komin í Kaupfélagið klukkutíma seinna.  Þar fengum við spilið sem við fréttum að væri til í öllum Kaupfélögum á landinu (en ekki í ToysRus).  Svo lögðum við í einskonar hringferð þarna um svæðið.  Skoðuðum Hvítserk, Selátur og lentum fyrir aftan hrossastóð á ferð sem seinkaði ferðinni okkar talsvert.

 

Við komum svo í tjaldið glorhungruð og ætluðum að fá okkur núðlur, brauð og kaffi en prímusinn er eitthvað skrítinn og hitnaði svo lítið en við gátum alveg satt hungrið.  En… þá var svo kalt og ég gat eiginlega ekki beðið eftir að mega bara fara að sofa svo það kæmi nýr dagur sem fyrst sem vonandi yrði hlýrri.
Við þurftum að greiða kr. 2.000 fyrir að fá að tjalda tjaldinu okkar þarna.  Ég spyr bara af hverju hafa tjaldstæði hækkað svona í verði?  Ekki er það vegna gengismála?  Hvaða þjóðnustu erum við að fá þarna, jú ég held að við höfum pissað 6 sinnum og gert númer 2 einu sinni, reyndar tvö pissuskipti án pappírs svo ekki var hann notaður nema 5 sinnum.  Það var ekki þrifið á klósettinu meðan við vorum þarna og við sáum ekkert starfsfólk á tjaldstæðinu fyrir utan manninn sem kom þarna í hálftíma til að rukka.  Mér finnst þetta vera svífirða að rukka svona mikið fyrir tjaldstæðin og held að sveitarfélögin ættu að endurskoða þetta.  Ef þú ert með tjaldvagn og færð að stinga honum í samband þá borgar þú 500 krónur fyrir það.  Bíddu ég borga 3500 á mánuði heima hjá mér fyrir rafmagn og þar er ég með þvottavél, þurrkara og uppþvottavél í stanslausri notkun, þetta er náttúrulega ekki í nokkru samhengi við það.

En við erum reyndar búin að komast að því að það er leyfilegt að tjalda hvar sem er á íslandi án þess að biðja um leyfi ef einugis er tjaldað til einnar náttar, held við gerum það næst, finnum okkur læk og pissum bak við tjald, kaupum okkur eina klósettrúllu, plastpoka fyrir pappírinn og gerum bara númer tvö í næstu sjoppu.  Þetta ætti ekki að kosta okkur neitt.

En aftur að ferðasögunni, við vöknðum snemma daginn eftir á vindlausri dýnu og pökkuðum saman og vorum lögð af stað kl. 9 og ætluðum í sund en þá opnaði sundlaugin á staðnum ekki fyrr en klukkan 10 svo við ákváðum að keyra á Blönduós og fara í sund þar.  Já góð ákvörðun, þar er engin sundlaug, þrátt fyrir að vera vandlega merkt á öll kort.
Okkur var bent á að fara í sund á Húnavöllum sem við héldum þá að væri kannski í 5  mín. fjarlægð en Ó, nei, þetta var alveg 40 mín keyrsla til baka í litla skólasundlaug sem í sjálfu sér væri allt í lagi nema fyrir það að þú þarft að labba í gegnum matsal til að komast í sundklefana.  Ók, við getum það alveg og ég og Mirra skellum okkur í kvennaklefann en, Úps   þar er karlmaður að ryksuga.  Já, við kíkjum nú aftur á hurðina til að athuga hvort þetta sé ekki kvennaklefinn sem það var svo við förum bara aftur inn og setjumst og bíðum eftir að HANN klári að ryksuga.
Ok, hann klárar og við Mirra lítum hvor á aðra með hissafurðusvip og drífum okkur úr fötunum en ó ó ó, HANN kemur inn aftur og fer að skúra líka og ég á brókinni og hann horfir á mig og heldur áfram.  Ég er orðlaus og sest bara og set fötin yfir mig og Mirra horfir á mig með þvílíkum undrunarsvip.
En jú hann klárar að skúra og við tvítryggjum að hurðin sé lokuð og hann komi ekki aftur inn.  Drífum okkur úr fötunum, í sturtu og út.  Við segjum Þráni frá þessu og hann er alveg jafn undrandi og við.  Við stoppuðum mjög stutt í þessari laug því mér leið bara alls ekki vel og var þeirri stund fegnust þegar ég komst út, eftir að vera búin að láta hótelstjórann vita af þessu ankanalega atviki.

Við leggjum bílnum svo í vegkant til að borða nestið okkar sem bragðaðist mjög vel og hringdum svo í Adda og Önnu Sif til að athuga hvort þau væru ekki í bústaðnum í Skagafirðinum, sem þau og voru og við drifum okkur þangað.

Þegar í Skagafjörðinn kom, var þetta fínasta veður, sól og rok eins og vera ber á Íslandi.  Jón og Sigrún ábúendur í þessum bústað voru á leið í bæinn og okkur var boðið að gista.  Við áttum frábæran sólarhring með Adda, Önnu Sif, Önnu Dögg, Jóni Andra og Sigrúnu Evu prinsessu.  Fórum í fjöruferð á Kríuvarpslóðir, sáum flottustu steina í heimi (Við Ástrós Mirra hefðum viljað taka með okkur slatta heim).  Við fórum svo og skoðuðum Hofsós og nágrenni í 24 stiga hita og blíðviðri.
Addi grillaði svo nautasteik sem bragðaðist mjög vel og krakkarnir fengu sér pulsu að eigin ósk.  Svo var setið og spjallað og leikið sér þar til allir fóru dauðþreyttir í háttinn.  Aðallega var Jón Andri orðinn eitthvað ruglaður á svefni og fríi og átti erfitt með að ná sér niður, greyið.
Daginn eftir vöknuðum við og fengum okkur morgunmat á pallinum, gengum frá dótinu okkar í bílinn og keyrðum sem leið lá til Akureyrar en þar átti að endurskoða ferðaáætlunina.
En við ákváðum á síðustu stundu að skella okkur í ævintýraferð í Hrísey sem var sko talsvert upplifelsi.  Byrjuðum á að hitta Eyjamenn í skipinu, svo var Eyjakona að afgreiða í minjaversluninni og svo hittum við aðra Eyjamenn í skipinu á leið til baka.
Við röltum aðeins um þarna og sáum tvo fræga menn.  Árna Tryggvason og Hallgrím Helgason.  Svo skelltum við okkur í traktorsferð um Eyjuna sem var hin ágætasta og svo aftur í skipið á leið til Akureyrar.
Þá var tekin ákvörðun að fá sér að borða á Akureyri og keyra beint til Raufarhafnar þar sem hitastigið átti ekki að fara yfir 10 stig sem er allt of kalt fyrir útilegu.

Við vorum komin á Raufarhöfn um kl. 22 um kvöldið og það urðu fagnaðarfundir hjá Forstjóranum á Gistiheimilinu Sólsetri á Raufarhöfn og okkur þegar við hittumst.

 

Við fórum í mjög skemmtilegan bíltúr um nágrenni Raufarhafnar daginn eftir, eftir að hafa fengið okkur góðan morgunmat.  Fundum dásamlegan stað sem heitir Skinnalón og er heilt ævintýri út af fyrir sig.  Tvö eyðibýli, rústir af útihúsum, og rekaviður um allar fjörur fyrir utan annan fjársjóð sem hægt væri að finna þarna.  Frábær dagur og skemmtilegt.

Svo daginn eftir fórum við snemma af stað því leiðin lá í “The Golden Triange” sem er Ásbyrgi – Dettifoss – Mývatn.  Við byrjuðum á Ásbyrgi í leiðinda skyggni sem rættist svo úr.  Við fórum svo í Hljóðakletta og keyrðum þaðan þvílíkan veg að Dettifossi.  Dettifoss var mikill um sig og það varð allt rennandi blautt sem kom nálægt honum.  Löbbuðum aðeins um þarna í furðulegasta landslagi ever.
Ákváðum svo að skella okkur bara á Mývatn fyrst við vorum komin þarna sem við og gerðum og úps, ekki var vegurinn skárri þá leiðina og var Þráinn farinn að ákalla malbikið.  Svo komum við á malbikið og sáum þarna hverasvæði og svo Mývatn sem var ekki neitt sérstakt þennan daginn svo við stoppuðum ekkert þar heldur keyrðum sem leið lá til Húsavíkur svo Maddý gæti verslað og við svo öll fengið okkur að borða sem við og gerðum og fórum svo aftur til Raufarhafnar.  Aftur frábær dagur með ekki alveg eins góðu veðri og daginn áður.

Jæja þá er runninn upp 23. júlí og Frú Magnea Magnúsdóttir á afmæli í dag.  Frúin er 65 ára og ætlum við að vera hér heima við í dag í rólegheitum með henni og enda daginn á að elda góðan mat (þ.e hún bíður uppá hrygg og við ætlum að hafa Frost og Funa í eftirrétt).

Svo þarf að gera nýtt ferðaplan eftir veðurspánni.

Jæja, eftir frábæran afmæliskvöldverð var nýtt plan gert og ákváðum við að skipta liði.  Ástrós Mirra og amma yrðu heima og myndu heimsækja Prins og Tönju og jafnvel endurnar og hafa það huggulegt saman.  Við hjónakornin færum aftur á móti tvö í bíltúr til Þórshafnar og Vopnafjarðar.

Gott plan og virkaði vel á alla, alla vega okkur hjónin, sem áttum frábæran dag saman og skoðuðum okkur um, hittum frábært fólk á frábærum stað sem heitir Burstafell en það er torfbær sem búið var í til ársins 1966 og hittum við frúna á staðnum sem bjó þarna sem barn.  Frábær kona og frábær staður.
Við sáum líka nokkur eyðibýli sem eru sérstakt áhugamál hjá mér og eins eitthvað af kirkjum.  Komum svo heim til ömmu og Þráinn eldaði sinn víðfræga þynnkurétt úr afgöngum, þó var enginn þunnur á staðnum.

Í dag var keyrt keyrt beint alla leið frá Raufarhöfn til Hafnarfjarðar og sitjum við hér núna öll dauðþreytt og andlaus.

Þingvellir á morgun og já, það spáir rigningu þar.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Algjör snilld. Hlökkum til að hitta ykkur um helgina. Kv. Íris, Lalli, Stína og Emma. (,Íris) 6.8.2009 16:20:13 Framhaldið af sumarfríinu okkar 2009
Jæja þá er vallargengið mætt í Gjábakka á Þingvöllum og ýmislegt að gerast.  Við (Þráinn, Kristín, Ástrós Mirra og Sara) mættum hér á sunnudagskvöldi og áttum fínasta kvöld saman.
Svo á mánudagsmorguninn var ákveðið að taka sumarfríið með trompi og taka aðeins á því og hlupum niðrað vatni og gengum meira en hlupum, til baka.  Svo var farið í byggingavinnu, það var hannaður og smíðaður fuglakofi til að setja út í garð, hann var málaður blár og vonandi að fuglunum líki við hann.

Doddi var einnig þrifinn hátt og lágt að innan en það var sko þörf á því eftir ferðalagið, svo er bara spurning hversu lengi það endist.

Veðrið er pínu skrítið, það var víst bara eins stigs hiti í nótt á Þingvöllum en það fór uppí 15 stiga hita í dag með 15 metrum á sekúndu og nú er lögst yfir þoka og trúlegt að það rigni í kvöld. (27. 07)

 

Það var líka smíðaður pallur við Mirrukot og kotið klætt að framan en það var alltaf eftir, mikill munur að sjá húsið.  Svo mætti mamman og málaði kotið hvítt, því ekki er hægt að vera með kot í sveitinni sem er ómálað.

Við erum búin að fá ýmsa gesti til styttri eða lengri tíma meðan við vorum hér á Gjábakka.  Sara var með okkur í 5 daga, svo mætti amma Steina (eða var sótt, réttara sagt) og hún var með okkur í 3 daga.

Á laugardaginn kom svo Inga niðri með 4 börn og við grilluðum saman og fórum á brennuna niðri við vatnið.  Það var ljómandi skemmtilegt og þar hittum við Ingu og Werner sem voru hjá öðru vinafólki sem líka á bústað hérna við vatnið.  Við hjónakornin kíktum svo til þeirra eftir miðnætti á laugardeginum og amma Steina og Mirra Skotta voru hér á Gjábakka á meðan.  Þetta var pínu absúrt heimsókn því þau voru þarna 4 í pottinum með rauðvín á meðan við Þráinn sátum í lopapeysum, með húfur og vettlinga og drukkum bjór.  En okkur var nú boðið í pottinn en við afþökkuðum.

Nú svo á sunnudaginn skrapp frúin í bæinn, keyrði ömmu heim, og fór svo að setja í þvottavél og fara á netið til að borga reikninga oþh. en viti menn, fartölvan var batteríslaus þegar frúin var búin að koma sér vel fyrir og ekkert hægt að gera því snúran var skilin eftir á Gjábakka.
Svo hringdi Klara syst og ég var að segja henni hvað ég hefði verið óheppin að gleyma snúrunni og þá spurði hún af hverju ég notaði ekki heimilistölvuna og .. Oh, my God, ég mundi ekki eftir henni.  Stupid girl.

 

Svo ég gat klárað það sem þurfti að gera og mætti hrein og fín aftur í bústaðinn til Mirru Skottu og Þráins með Önnu Dögg 9 ára skvísu með mér því ég sótti hana í leiðinni svo hún gæti fengið að leika við frænku sína í Mirrukoti og gista eina nótt.  Anna Dögg sætti sig við að fara ekki þjóðhátíð með pabba sínum fyrst hún fékk að koma til okkar.  Það sýnir nú glögglega hvað það er gaman á Gjábakka.

Svo var Anna Dögg sótt í gær og við vöknuðum hér 3 í morgun og þá sagði Ástrós Mirra, æ, hvað það er gott að það eru engir gestir núna og svo færði hún okkur kaffi í rúmið.  Dekur og lúxus.

Það er búið að veiða mikið og sleppa aftur því við viljum ekki taka fiskana ef þeir eru litlir.  Það er búið að fara út á bát, oft í sund, hlaupa og margt fleira.  Við eigum eftir að fara í fjallgönguna okkar uppá Miðfell og þar sem ég sit og skrifa þetta eru feðginin að tefla.

Um næstu helgi eigum við von á Írisi, Lalla, Kristínu Maríu og Emmu ásamt Caroline, Steinari, Lauru og Ívari í grill, vonandi að það verði aftur komið gott veður og svo förum við Mirru til Eyja á sunnudaginn en Þráinn þarf að fara að vinna í næstu viku.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 6.8.2009 16:33:01 Smá skrepp heim
View Full Album
Það er eiginlega hálf fyndið ástand núna.  Ekki beint ástand en samt, við skruppum heim til að þvo okkur og þvott svo við Mirra Skotta verðum tilbúnar til Eyjaferðar á sunnudaginn og hér sitjum við og líður eins og gestum því hér er ekki til mjólk, ekkert að borða og allir orðir svangir en við erum sko á netinu.

Það er ótrúlegt hvað maður er orðinn háður þessu neti, það er hreinlega ekkert hægt að gera án þess.  Hlakka til þegar ég þarf ekki að kaupa pung og vera með ársáskrift til að geta farið á netið í bústaðnum þessa 3 mánuði sem við erum mest þar.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 7.8.2009 17:04:22 Ást og óþægð

 

Ég er búin að vera að velta fyrir mér hvernig stendur á því að hlutirnir verði eins og þeir eru.  Af hverju barnið mitt svarar mér oft með hroka og fyrirlitningu og hún er bara 8 ára.  Við erum búin að vera í smá stappi, aðhaldi eða hvað á að kalla það, nú í sumarfríinu okkar og ég veit ekki hvort það hafi borið árangur.  Alla vega rifumst við Mirra heiftarlega í gær, aftur í dag og allt út af smámunum.
Er þetta ég eða er þetta hún?  Er ég alltof stíf á reglum og því að mér sé hlítt strax eða er hún með svona heiftarlega gelgju að það verði ekki við neitt ráðið?

Mér er skapi næst að leita ráðgjafar í haust ef ekkert lagast.  Ég skil ekki af hverju hún sýnir okkur foreldrum sínum ekki virðingu.  Við þurftum að taka hana á eintal og útskýra fyrir henni að ömmum og öfum sárnaði ef hún væri ekki vinalegri við þau.  Það er enginn að segja að það eigi allir að fá að kyssa hana og kjassa, en að faðma ömmu sína er voða auðvelt og ætti ekki að vera 8 ára stúlku um megn.

Í fyrradag fékk hún 2 kjóla frá okkur, í gær fórum við á McDonalds af því að hana langaði svo (okkur þykja borgararnir þar ekki góðir en látum okkur hafa það hennar vegna og McFlurry vegna) og í dag er eins og hún muni ekkert af þessu.  Er ég að ætla henni um of, hún er bara 8 ára ennþá eða ætti hún að ráða við þetta.  Erum við of líkar í okkur eða verð ég svona pirruð af því að við erum svo ólíkar?

Það að við séum svo ólíkar vekur upp spurningar hjá Mirru minni, ertu ekki bara stúpmamma mín fyrst þú þurftir að fá gefins egg annars staðar frá?  Er hún þá ekki mamma mín?  Ég er lík pabba í útliti og sumum hlutum en þér aldrei.

Er það þess vegna sem hún er svona við mig stundum af því að henni finnst ég ekki vera alvöru mamma sín?  En af hverju er hún þá svona við pabba sinn?

Við horfðum á SuperNanny um daginn og vorum voða ánægð með okkar dóttur eftir þáttinn en þó voru atriði þarna sem við könnumst við og það var bara óþægilegt.  Erum við kannski of kröfuhörð og ætlumst til að barnið okkar sé fullkomið?  Að sjálfsögðu því við eigum bara þetta eina og ættum að sjálfsögðu að geta séð um að ala það vel upp.

Þegar hún var lítil var ég svo ánægð þegar fór að labba, hlaupa og hoppa.  Í dag þá þoli ég ekki þegar hún hoppar.  Af hverju?

Nú situr hún og horfir á fræðsluþátt um  leyndardóma undirdjúpanna og er alveg heilluð og ég er svo stolt af því hvað hún er gáfuð og fróðleiksfús en hversu lengi man ég eftir því?  Verð ég ekki búin að gleyma því um leið og hún hoppar næst því það fer svo í taugarnar á mér.

Annað er athyglisýkin sem hún Mirra mín er með og sem dæmi þá er hún að horfa á þennan fræðsluþátt núna og segir mamma sjáðu þetta, mamma af hverju þetta, mamma sléttbakur, mamma, mamma, mamma.  (pabbi er ekki heima)

Ég skil núna þegar mamma sagði einu sinni, ég þoli ekki að hlusta á þetta mamma, mamma.  Hún átti 5 börn.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg Athugasemd: Ég skil þig mjög vel, Kristín mín. Er í sömu pælingar gagnvart Lauru og oft að hugsa: er þetta út af söguna hennar? er þetta af því að ég tek hana ekki eins og hún heldur eins og lifið kringum hana er búið að vera erfitt.
Ég vil gjarnan ræða þetta við þig, það getur bara gert okkur gott að fá útrás…
Sjáumst hress á morgun.
Kv.
Caroline (caroline@internet.is,Caroline) Athugasemd: Eitt ráð:

ÞÚ RÆÐUR !
Þú ert mamman og þú ræður ALVEG SAMA HVAÐ !

🙂 – maður getur alveg verið skemmtilegur og góður þrátt fyrir að maður ráði.

Gangi þér vel 🙂
(,Hafrún Ósk) 10.8.2009 00:41:01 VEÐUR
Já það er furðulegt þetta veðurfar á Íslandi og ef allar samræður um veður væru skrifaðar niður þá ættum við stærsta rit í heimi líklega.

Í gær til dæmis, þá áttum við von á fullt af gestum og vorum búin að fylgjast með veðurspám síðustu 3 daga, því það skiptir svo miklu máli að það sé alla vega þurrt þegar fullt af börnum eru með okkur hér á Gjábakka, þar sem plássið er lítið.  Við vorum svo búin að sjá spá um að það ætti að vera þurrt þennan dag og vorum bara ánægð með það.

Í fyrradag rigndi eldi og brennisteini, það var hreinlega allt á floti og við báðum bara til Guðs að það myndi klárast um nóttina.  En nei ekki aldeilis, við vöknuðum í svo mikilli rigningu og leist nú ekki mikið á blikuna.  En ég sagði við Þráin að við yrðum þá bara að sitja inni og spila Trivial Pursute eða eitthvað álíka, því gestirnir ætluðu að koma uppúr kl. 14 og eyða deginum og kvöldinu með okkur.  Það væri þröngt fyrir 10 manneskjur í 28 fm. í 8 tíma.

Og um klukkan 12 þá rigndi sem aldrei fyrr en þá heyrði ég að það væri hætt að rigna í Grafarvoginum og ákvað að við værum ábyggilega klukkutíma á eftir þeim með góða veðrið og viti menn, klukkan tvö var sólin farin að skína og veðrið í gær var æðisleg, smá vindur en engin rigning og við meira að segja enduðum kvöldið á að kveikja upp í arninum og kósíheit.

Ég þakka bara almættinu því þegar ég lít út um gluggann núna daginn eftir þá rignir aftur eldi og brennisteini, það var greinilega bara gert hlé á rigningunni fyrir okkur.  Frábært, ég vissi ekki að við hefðum þessi ítök þarna uppi.

Ég gerði tilraun að taka mynd af rigningunni en það tekst ekki svo þið verðið bara að reyna að ímynda ykkur þetta.  Ég bíð bara eftir þrumunum.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 16.8.2009 17:08:10 My girl
View Full Album
Aðeins að henni dóttur minni aftur, ég frétti að eitthverjir hefðu lesið bloggið mitt Ást og hamingja og eitthvað misskilið hvað ég var að tala um, það finnst mér leiðinlegt, en ég er ekkert að hætta að blogga, því mér finnst gott og gaman að gera það.  Td. þarna um daginn, eftir að ég bloggaði og sá að þetta gæti alveg eins verið mér að kenna eins og henni, þá leið mér betur og ég hef verið að bæta mig og reyna að sýna meiri þolinmæði gagnvart henni.

Lífið væri auðveldara ef hún væri ekki svona gáfuð, því gáfurnar  orsaka margar þræturnar okkar en ekki vildi skipta á svona gáfuðu barni og minna gáfuðu barni bara svo lífið verði auðveldara.

Við Mirra vorum 5 daga úti í Eyjum um daginn og hún var ekkert auðveld við mig þar.  En ég var líka rosalega upptekin af að vera með Konný og gera það sem okkur þykir skemmtilegt.  Dagurinn sem við fórum í sund var ábyggilega besti dagurinn hennar þarna úti, hún hafði heldur engan til að leika við sig allan tímann.

Í gær komum við með Herjólfi og átti Þráinn að sækja okkur en gerði gott betur, í felum í bílnum var Sara bestavinkona og eru þær búnar að vera þvílíkt góðar saman og skemmta sér vel án þess að horfa á sjónvarp (sem já verður stillt í hóf í vetur) og bara verið meira úti að leika og spila inni.

Reyndar lékum við þrjár okkur í morgun saman og bjuggum til tískusýningu, þær voru sýningardömurnar og ég að sjálfsögðu ljósmyndarinn.  Ég kom nefnilega með fullan poka af húfum, treflum og þess háttar frá Eyjum og svo áttum við fullt af húfum hér þannig að haldin var húfu og treflatískusýning sem heppnaðist þvílíkt vel og á ég núna fullt af flottum myndum af Mirru og Söru sem verða settar á flickrið (og í albúm hér) í næstu viku þegar ég verð komin heim í nettengingu.

Alla vega vil ég bara segja það við ykkur sem eruð að misskilja bloggið mitt að þó ég tali um vandamál hér þá eru þau bara til að leysa og ekkert annað.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 24.8.2009 12:44:55 Lífið í sumarfríi
View Full Album
Ja, hérna þá er 6 vikna sumarfríi að ljúka og ég er svo sem alveg tilbúin í vinnu en ég gæti alveg verið lengur í fríi.

Síðasta vika var nú bara talsvert erilsöm (en vá, skemmtileg) þar sem ég og Mirra Skotta vorum að undirbúa skólann sem hefst á morgun og ég var með 4 myndatökur.  Reyndar voru 3 planaðar en einn ljóshærður nágranni kom í heimsókn, nýklipptur og sætur, svo ég stóðst ekki mátið og myndaði hann líka.

Svo er ein á morgun þriðjudag en þá er þessi törn búin.  Eins og mér þykir þetta skemmtilegt þá má ofgera öllu.  Ég er alveg til í að vera með eina myndatöku á viku, því svo á eftir að vinna myndirnar og sinna karli og krakka.

 

Við skruppum öll á menningarnótt, tókum strætó, klæddum okkur vel og vorum með kakó og teppi í tösku.  Sátum í grasinu í Hljómskálagarðinum og hlýddum á fína tónleika en í lok þeirra var ÁM svo mál að pissa að við ætluðum að fara á kamarinn en hún stakk sér inní runna og Þráinn á eftir en missti sjónar á henni og var hún týnd í um 10 mín.  Það voru ekki skemmtilegar 10 mín. en mikil var gleðin þegar ég sá fjólubláa útprjónaða peysu koma hlaupandi.  Og ég lét hana sko vita að það að hún var ekki í flíspeysu eins og hundruðir barna heldur í einstakri prjónaðri peysu hefði hjálpað okkur að finna hana.  Þarna varð litla skottan mín líka hrædd og fer örugglega ekki aftur frá okkur í svona mannfjölda.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 29.8.2009 09:22:04 Að eldast
Ég hef verið að hugsa um það hvernig það verði að eldast og þess háttar undanfarið og ég verð að segja að ef ég verð eitthvað í líkingu við hana ömmu mína þá get ég bara hlakkað til.

Mamma og amma komu í myndatöku til mín í vikunni sem leið og það var æðislegt.  Við áttum mjög skemmtilega stund saman og mér fannst gaman að sjá hvað þær eru miklar vinkonur og mikil ást ríkir á milli þeirra.  Mamma verður kannski hálffeimin ef hún fréttir af þessu bloggi en það er óþarfi mamma því þetta er bara fallegt.

Amma vildi nú líka leika sér fyrst hún var komin í litla stúdeóið mitt og vildi hafa bangsa og lét mömmu hafa blóm oþh. enda sagði hún að “Tvisvar verður gamall maður barn” sem er gamalt íslenskt máltæki sem átti vel við þarna.

 

Í gær fórum við Þráinn svo í áttræðisafmæli hjá henni Hólmfríði (Snúllu frænku) systur hennar Steinu tengdó og þá sá ég enn og aftur kornungan táning sem nýtur lífsins.  Hún er mikill unnandi tónlistar og reyndar allrar listar og hún fékk að gjöf söng frá Signýju Sæmundsdóttur og einnig hafði sonur hennar samið vísur þegar hún varð sjötug og færði henni þær aftur í gær og þá búinn að semja lag við þær og búinn að taka upp á geisladisk, það var æðislegt, og gaman að sjá hvað þessi atriði gáfu henni mikið.  Eins naut hún sín vel í fjöldasöngnum sem var í restina á afmælinu og þá sá maður hvað hægt er að halda sér ungum lengi, bara með lífsgleði og því að njóta alls sem lífið bíður uppá.

Vá nú er ég orðin væmin en það er bara svona stundum, það þarf eitthvað til að minna mann á að þrátt fyrir kreppu (hvað ætli þessar tvær konur séu ekki búnar að lifa um ævina, margt verra en þessa kreppu sem er í dag) bara ef maður er opinn fyrir því sem lífið getur gefið okkur og það er allt fullt af fólki að gera svo frábæra hluti bara svo við getum notið þess.

Þangað til næst,
Ykkar, Kristín Jóna
Quote of the Day:
Your heart often knows things before your mind does.
–Polly (Pearl) Adler
kjg 4.9.2009 17:25:25 Kominn september
Það er kominn september og allt á fullu.  Vinnan byrjuð á fullu og Maritech vikan framundan með námskeiðshaldi og gleðskap.  Þráinn á leið á árgangsmót í Eyjum og Ástrós Mirra komin í handbolta og að læra á blokkflautu.  Það er nú bara heilmikið mál bara að læra umhirðu blokkflautunnar en hún þurfti að kaupa sér tréflautu sem þarf að bera á sérstaka olíu og það má aðeins spila á hana í 10 mín. á dag til að byrja með því það þarf að tilkeyra hana eins og góða pípu.

Ástrós Mirra er búin að vera smá lasin og með hálsbólgu en dreif sig samt á handboltaæfingu núna 20 mín of seint þegar uppgötvaðist að hún átti að vera farin.  Það segir mér að henni þyki skemmtilegt á hanboltaæfingum og henni þykir mjög gaman í tónlistaskólanum og er alveg búin að ná fyrsta laginu sem hún átti að æfa.  Enda vissi ég alveg að hún væri tónviss og þetta myndi eiga vel við hana.

Það er enn talsvert að gera í stúdeómyndatökunum og bara gaman sérstaklega þegar maður fær svona gullfalleg börn eins og ég fékk í gær.  Alveg ókunnugt fólk og ég vissi ekkert hvað biði mín, en vá, þau voru æðisleg og ég er mjög ánægð með myndatökuna.

Sit hér nú og er að fara yfir myndirnar og vinna þær til að geta afhent þær á mánudaginn.

Afmæli hjá Óskari Orra á morgun, gæti ekki verið betri dags. því afi Óskar hefði átt afmæli á morgun, blessuð sé minning hans.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 16.9.2009 09:49:48 Flensan
Jæja haldið þig að konan hafi ekki náð sér í magaflensu, líklega smitast af Ástrós Mirru sem var lasin á föstudaginn en reyndar búin að kvarta um í maganum í marga daga.

En allavega ég lá eins og slitti í rúminu í gær, með þvílíka beinverki og magaverki, hafði alveg matarlyst en ..

En nú finn ég að ég að skárri og ætla að smella mér á síðari hluta Dale Carnegie námskeiðsins eftir hádegi.  En fyrri hlutinn var í síðustu viku.  Maður verður alla vega ekki verri af því að sækja svona námskeið.  Jú, og þó mér var sagt að Reynir Traustason hafi ekki þagnað síðan hann fór á svona námskeið í denn.  Ég ætla alla vega ekki að fá mér hatt, það er á hreinu.

Haustið er greinilega komið, maður þarf að fara í regnkápu til að komast út í bíl og Eyjamenn eru fastir á eyjunni góðu.  Skrítið hvað fólki hér uppi á landi er uppsigað við Eyjamenn og verða fúlir ef þeir kvarta yfir fáráðanlegum samgöngum.  Klisjur eins og þeir kusu að búa þarna fljúga yfir netheima núna.  Þetta sama fólk ætti að gera sér grein fyrir verðmætunum sem koma frá þessari litu eyju og fólkinu sem þar býr.  Þetta sama fólk ætti að prófa að hafa Suðurlandsveg lokaðann í einhvern tíma og þurfa að fljúga til að komast til Hveragerðis og greiða fyrir það 5000 kr. aðra leiðina.

Já ætli það myndi ekki heyrast í ansi mörgum þá.  Og engar vistir kæmust á milli staða, því það verður mjólkurlaust í Eyjum ef enginn ferja er.

Annað sem mig langar að ræða eru tryggingarfélögin.

Við ákváðum að prófa að fá tilboð í tryggingarnar okkar frá Verði (þeir voru með kynningu uppí vinnu og tilboð í framhaldi af því) og fengum yfirlit frá Sjóvá sem við erum “nota bene” búin að vera hjá síðan við vorum 18 ára og völdum Rikka umboðsmann í Eyjum til að sjá um okkar tryggingarmál.

Yfirlitið kom og kom mér ekkert á óvart, ég vissi alveg að ég væri að greiða helling í tryggingar en ég hélt að aðrir væru að gera það líka.

Ok, ég sendi Verði yfirlitin mín og fékk tilboð til baka.

100.000 króna lækkun á ári

Hallóóóóóóóóóoooooooooooooo er þetta í lagi?

Við vorum að greiða af Dodda (Dodge) 146000 á ári með kaskó, 99000 í ábyrgð og 47000 í kaskó.  Hjá Verði greiðum við 91.000 með kaskó af honum.

Við vorum að borga af Lansernum árg. 98, 95.000 hjá Sjóvá en hann dettur niður í 71.000 hjá Verði, og svona get ég haldið áfram.

Heildarmunurinn er 100.000 á ári og nákvæmlega sömu kjör ef ekki betri hjá Verði.  Það er greinilegt af hverju Sjóvá gat keypt þessar íbúðir í Japan, ég borgaði þær.

Konný systir ákvað að hringja og athuga með sínar í framhaldi af þessu hjá okkur og ..

.. hann sagði “þetta er nú eitthvað skrítið, það hafa allir afslættir dottið af ykkur og það er greinilega einhver hugbúnaðarvilla”.  Jamm líklega er það málið.  Hugbúnaðarvilla.  Svo sagði maðurinn líka að það væri nú bara þannig að þeir sem borguðu reikningana sína væru kannski ekki að fá eins góða díla og þeir sem alltaf væru að kvarta eða vesenast.

Ég er búin að tala við fullt af fólki síðan þetta var og allir segja að maður eigi að skipta um tryggingafélag á 3 – 5 ára fresti til að fá sem bestu samningana.  Maður sem sagt bara tapar á því að vera trúr sínu fyrirtæki.

Ég held nefnilega að svona verði þetta með lánin okkar núna, við sem herðum sultarólina til að geta borgað af lánunum okkar, munum ekki fá krónu niðurfellda en þeir sem ekki nenna að greiða af sínum lánum og skella sér bara London á U2 tónleika í staðinn og eyða út á Visakortið því það fer hvort sem er bara í Gjaldþrotið þeir munu græða.

Er það ekki alltaf svoleiðis, meðaljóninn borgar alla skatta í þessu þjóðfélagi og hann mun borga kreppuna og lánin hjá fólki sem æddi út í allt of mikið og allt of margt.  Því hvaða hemja var það að ungt fólk keypti sér 2 ára gamla íbúð og skipti út öllum innréttingum því þær sem voru, voru ekki í réttum lit?

Hvaða hemja er það að þurfa að byggja sér hundruða fermetra sumarbústaði?

Hvaða hemja er það að eiga 8.000.000 króna bíl með kannski 4.000.000 í árstekjur?  Og jafnvel 2.

Jæja, best að hætta þessu núna, það er endalaust hægt að pirra sig á heimsku fólki en ég ætla ekki að gera meira af því.

Þakka bara fyrir að eiga fólk í kringum mig sem er skynsamt og ráðleggur manni rétt.

Jæja, þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

kjg 20.9.2009 16:11:00 Ýkt viðbrögð
Ekki var hægt annað en verða sammála Mirrunni í dag þegar hún sagði að viðbrögð okkar Þráins væru svo mikil og ýkt þegar eitthvað gerist.

Þannig var að við hjónakornin sátum í leti yfir sjónvarpi/tölvu þegar þvílíkir skarkarar og læti heyrast innan frá baðherberginu þar sem Mirran átti bara að vera að bursta í sér tennurnar.  Þráinn stekkur inn og kemur svo út af sótrauður í framan og hundreiður.  Kötturinn hafði stokkið uppá hillu inná baði og velt um koll styttu sem stóð þar uppá og er úr járni þannig að það stórsér á baðkaranu og eins og Þráinn segir, það er ónýtt.  Ég rýk upp og skoða og æsi mig uppúr öllu valdi líklega líka og kenni Mirrunni um þetta því mig grunaði að hún hefði verið að setja köttinn þarna uppá.  Hún er allt of mikið að lyfta honum uppí glugga, lyfta honum uppí stól, lyfta honum uppí rúm osfrv.  Allt á staði sem búið er að segja að kötturinn eigi alls ekki að vera á, ja nema þá helst gluggarnir, hann má vera þar.  En alla vega verður Mirran hrædd og heldur að ég muni núna skila kettinum aftur uppí Kattholt og ég veit ekki hvað!

Ég fór til hennar og sagði henni að það myndi ekki gerast en hún yrði líka að hætta að haga sér svona með köttinn.  Þá segir hún að það sé nú stundum þannig með okkur að þó eitthvað lítið gerist þá látum við eins og himinn og jörð séu að farast.  Ef til dæmis eitthver smá fingraför komi á vegg, þá þurfi bara hreinlega að mála hann aftur, með tilheyrandi kostnaði og vinnu, þegar það er bara allt í lagi að vera smá fingraför á veggnum.  Sama sé með baðkarið, það sé nú ábyggilega hægt að laga þetta en við segjum að það sé ónýtt og verði bara að kaupa nýtt sem kosti svona og svona mikið.

OK, líklega alveg rétt hjá dömunni.  Það slasaðist enginn, en jú það stórsér á baðkarinu en það er alveg hægt að fara í bað, það lítur bara ekki vel út.  Við megum ábyggilega stundum slaka á í stóru orðunum og þess háttar.   En að sama skapi á hún kannski eftir að fatta hvað við erum að tala um þegar hún stækkar og kaupir sína eigin hluti fyrir sína peninga, sem hún vann sér inn með svita og tárum.

En að öðru, ég var í mjög skemmtilegri myndatöku í gær sem átti sér stað í Hellisgerði.  Ein sem vinnur með mér kom með krakkana sína 4 ára tvíbura og 12 ára stelpu.  Ég náði fullt af fínum myndum af þeim og við áttum öll skemmtilega stund.  Ég sagði þeim frá álfunum í Hellisgerði og þau fóru að leita að álfum, og vissu að þau yrðu að fara mjög hljóðlega.  Eins fórum við í skóginn hennar Rauðhettu en þá vildu þau nú leiða mig og mömmu sína ef ske kynni að refurinn kæmi.

Þetta var skemmtileg myndataka með frábærum krökkum og vonandi að þau verða ánægð með afraksturinn.

Þetta minnti mig á gamla tíma þegar við Þráinn vorum alltaf að bulla eitthvað í annarra manna krökkum, við förum kannski að fara þá leið aftur, þar sem okkar krakki lætur ekki plata sig enda dóttir okkar.

Í dag er bara búið að vera leti og ég er ekki enn komin úr náttfötunum kl. 16 en svona eiga sunnudagar stundum að vera án þess að maður sé þunnur eða veikur.  Bara glaður í náttfötum.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 26.9.2009 17:41:30 Ja hérna hér!
Við vorum að fá tilboð frá Sjóvá í tryggingarnar okkar og þeir bara lækkuðu þær um 100.000 krónur.

Já, það var hægt af því að við fórum frá þeim.  Hvað með fólkið sem er búið að vera í viðskiptum eins og við í 27 ár.  Tekin í rassgatið eins og ekkert sé!  Ég get bara ekki orðað þetta penna, sorrý.

Nei, við höfnum þessu tilboði og höldum okkur við Vörð sem var tilbúinn að gera okkur svona lágt tilboð að fyrra bragði.  Kannski af því að þá vantar viðskiptavini, það skiptir bara ekki máli.  Það er svo greinilegt að það er ekkert til sem hyglar góður viðskiptavinum sem hafa verið trúir sínu félagi, hjá Sjóvá.

Annars skilst mér á fólki að eina leiðin til að halda tryggingunum lágum hjá sér, sé að skipta nógu ört um tryggingafélag.  Abbababb.

Skrítið veður í dag.  Nú er sól og þá fæ ég fiðring að ég ætti að drífa mig út og fara að taka haustmyndir eða gera eitthvað af viti.  Rétt áðan var haglél og það eru öll fjöll orðin hvít, ohh.  Leiðinlegt, nú sé ég fram á 7 mánuði í leiðindaveðri.  Nú þarf ég að fara að nota úlpu aftur.  Eins og það er æðislegt að geta labbað út á peysunni.  Nú þarf ég að fara að ganga í lopapeysunni innanundir, ekki sem utanyfirflík.  Æi, ég hlakka aldrei til vetrarins.  Ég hlakka til vorsins, vorið gefur manni von.  Veturinn er bara leiðinlegur og vondur.

Ef tölvur eru keyrðar á neti þá er sagt að þú fáir aldrei betri afköst en lélegasta tölvan ræður við, það má segja að þetta sé svona svipað á okkar heimili núna.  Við horfum ekki lengur á dvd fyrir okkur Þráin og svo aukamyndin tekin í barnadeildinni.  Nei, nú horfa bara allir á Hanna Montana, eða Spy kids oþh.

Mér skilst að þetta verði svona í næstu 4 – 5 árin eða þar til Mirran verður farin að horfa á fullorðinsmyndir.  Ekki það að ég viti ekki að við getum alveg tekið 2 nýja diska en því tímum við ekki svo við lifum við það frekar að sjá Seventeen again og svoleiðis myndir, enda má segja að við munum bara verða unglingar aftur.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

kjg Athugasemd: Þið verðið að hafa það eins og ég hafði, ein mynd tekin fyrir ykkur, næsta fyrir Ástrós. Hún á nú heldur ekki að ráða alltaf. (,lkg) 11.10.2009 16:54:08 Jæja
Þá er stúlkan mín orðin svo stór að hún er farin að taka að sér heimilisstörf og fá greitt fyrir.

Hún ryksugaði alla íbúðina áðan og fram á stigagang.  Ég átti nú hálferfitt með að liggja uppi rúmi og hlusta á ryksuguna og skarkalann þegar hún færði húsgögnin til.  En ég hamdi mig og hún gerði þetta með sóma svo við hjónin getum með góðri samvisku sagt að þetta sé letidagur eftir árshátíð án þess að íbúðin sé skítug, notalegt það.

En talandi um árshátíð, þá vorum við sem sagt í gærkvöldi með G&G á árshátíð á Lækjarbrekku, fínn staður, ágætis matur (hef alveg fengið betri) frábær þjónn, hún Olga frá Rússlandi.  Hún færði mér meira að segja gleraugu þegar farið var að syngja og allir voru að gera grín að því hvað Þráinn hélt söngbókinni langt frá svo ég sæi.  Svo kom Bjössi trúbador þarna og spilaði og söng fyrir okkur og var hann mjög fínn, hann setti okkur svo á gestalista á Spot í Kópavogi en ohhhhhhhhh ekki var það nú spennandi staður og við fórum þaðan heim eftir hálftíma.  En árshátíðin var fín og fólkið skemmtilegt og það situr eftir.

Lífið er bara ágætt við okkur, næg vinna G&G eru með verkefni fram í febrúar svo þar gengur þetta flott.  Ástrós Mirra lærir á blokkflautu og tekur að sér heimilisþrif svo við kvörtum ekki.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg 18.10.2009 10:28:59 Vikubyrjun eða vikulok
Einhvern veginn finnst mér sunnudagurinn vera vikulok en ekki vikubyrjun, en það skiptir svo sem engu máli.

Stærsta frétt vikunnar er að Maritech flytur í mars á næsta ári.  Frábært, við erum búin að bíða eftir því í 3 ár.  En við flytjum niður í Borgartún, ekki eins frábært að því leiti að vinnudagurinn lengist um 30mín og bensínkostnaður eykt talsvert mikið.
En jákvætt er að (je wright) að þetta er víst nýja “Wall Street Íslands” og þarna eru allir sagði einhver, en ég get ekki alveg skilið það því ég hef ekki átt erindi í Borgartúnið síðan Bílanaust flutti.

Fór samt í bíltúr í gær að skoða og þetta er glæsilegt hús og vá, hvað það verður mikið meira pláss hjá okkur og í húsinu eru Vínbúðin, 10-11, bakarí á móti og fullt af stöðum sem ég hef engan áhuga á, ss. Maður lifandi, Sushi oþh.

Við mældum leiðina í gær og þetta eru 10 km og góðar 20 mín í engri umferð svo það verður breyting á.

En ég hlakka samt til, nýtt umhverfi og nýtt hús.

Annars hefur lífið bara gengið sinn vanagang, samt einhvern veginn alltaf svo mikið að gera en samt ekki.  ég veit ekki hver sagði að lífið yrði einfaldara þegar börnin yrðu eldri, mér finnst það alltaf verða flóknara og flóknara.

Þegar ÁM var lítil þá dröslaði ég henni bara með hvert sem ég fór en nú er hún á fullu í skóla og tómstundum og mikill tími fer í passa uppá að ekkert gleymist og heimanám, æfa sig á flautuna (sem við erum sko ekki nógu dugleg við, úps) og svo er náttúrulega áhugamálið mitt sem tekur ákveðinn tíma en þó ekki neitt of mikið, held ég allavega.  Þráinn alltaf að vinna frá fyrir 7 á morgnanna til 6 á daginn svo það er lítið verið að gera annað.

En nú ætlum við að gera svolítið sniðugt næstu 3 laugardaga, það verða óvissuferðir fyrir hvern og einn fjölskyldumeðlim og við ætlum að byrja á Þráni um næstu helgi.  Ég og Ástrós erum að byrja að plana hvað við ætlum að gera fyrir hann og með honum.  Hlakka til.

Svo erum við Mirra Skotta að fara með Klöru og Kristófer á eftir á Kardemommubæinn sem ég hef ekki séð síðan ég var pínu lítil fyrir utan upptökur af okkar eigin uppfærslu í Eyjum.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg 22.10.2009 16:57:41 Litli flautuleikarinn minn
Jæja haldið þið ekki að Ástrós Mirra sé alveg að standa sig í flautunáminu, gengur mjög vel, pabbi hennar mjög ánægður og kennarinn held ég líka.

Svo var hún að byrja á leiklistanámskeiði áðan í skólanum og það var víst geðveikt gaman.  Ég man samt eftir stúlku í síðustu viku sem skammaðist yfir því að ég væri að ákveða alls konar hluti fyrir hana og panta hitt og þetta án þess að spyrja hana.  En hún sagði mér í dag að hún hélt ég hefði verið að panta eitthvað allt annað námskeið.  Jeiiiiiiiiiiii mamma ekki svo galin.

Kellan ætlar bara að vera í fríi á morgun, því hún er búin að vinna umfram vinnuskyldu undanfarinn mánuð og svo er vetrarfrí hjá MirruSkottu í næstu viku og þá er aftur frí hjá mér.  Líður eins og algjörri letibykkju núna en samt ánægð með að vera í fríi.  Svo eru óvissuferðinar á næstunni, sú fyrsta á laugardaginn og okkur hlakkar til.  Svo er það Eagles tónleikar og afmæli hjá MirruSkottu á næstunni líka, svo það er nóg framundan.

 

Jæja þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 24.10.2009 20:02:30 Óvissuferðin hans Þráins
Jæja þá er óvissuferðinni hans Þráins lokið og allir þvílíkt ánægðir með daginn.

Þetta byrjaði kl. 9 í morgun þegar Mirran vakti hann og kom með hann fram í morgunmat, egg og beikon að breskum sið.

Næst fóru hann, Mirra og Sara (sem fékk að fljóta með okkur í dag) í göngutúr og enduðu í Europris að kaupa gos og kex.  Þegar þau komu út, beið ég fyrir utan og var svo ekið af stað sem leið lá suður með sjó.  Tók ég smá útúrkróka til að rugla manninn aðeins en við enduðum í Ytri Njarðvík til að skoða Víkingaheima, en þar er skipið Íslendingur til sýnis.  Glæsilegt safn og húsið sem byggt er utan um skipið er frábær hönnun og passar vel þarna.  Skipið er náttúlega meistarasmíð og gaman að skoða það, sérstaklega þar sem við könnumst við smiðinn.

Næst keyrðum við í gegnum Hafnirnar og sem leið lá að brúnni milli tveggja heimsálfa sem Þráinn hafði aldrei séð.

Þá lá leiðin í Bláa lónið (ég á gjafakort þar svo við þurfum ekki að borga 4150 á mann) þar sem við nutum þess að vera til í um tvo klukkutíma.

Enduðum ferðina heima þar sem boðið var uppá Amerískar pönnukökur með ís, rjóma, sírópi og súkkulaðisósu.

Frábær ferð og kom Þráni vel á óvart.

Um næstu helgi verður svo mín óvissuferð og það er sko spennandi.  Ég hef aldrei átt auðvelt með að leyfa öðrum að koma mér á óvart en ég held ég treysti Þráni þokkalega til að gera þægilegt og spennandi fyrir mig.

Á morgun skal breytt í íbúðinni og svo bara slakaaaaaaaððððð á.

Eigið góða helgi öll sömul.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

 

 

kjg 31.10.2009 17:16:52 Óvissuferðin mín
Jæja ég veit að Þráinn minn var undir mikilli pressu að standa sig eftir hans óvissuferð um síðustu helgi, og vitiði hvað!  Hann stóð sig með mestu prýði.

Morguninn byrjaði á morgunmat og það var nú ekki egg og beikon hjá mér, enda vel ég það ekki þegar við erum í útlöndum heldur ristabrauð með osti og grænmeti, ávaxtasafi og kaffi.

Svo var smá dól, sturta og drifið sig síðan í fötin og út.  Leið lá uppeftir frá Völlunum svo ég var nú alveg viss um að við værum  að fara að Kleifarvatni en nei nei, minn beygði inná Bláfjallaveg og þá var ég alveg pass.  Það er ekkert þar.

En jú, jú minn maður sýndi mér eitthvert listaverk sem er eins viti með ljósi efst og hafði ég bara aldrei heyrt um það, hvað þá séð það.

Svo við fórum út úr bílnum og ég myndaði þetta listaverk á alla kanta og viti menn þegar við erum að fara í bílinn aftur þá kemur þessi rosalegi regnbogi, vá.

 

Jæja þá keyrði hann út á suðurlandsveg og í átt til RVK en beygði síðan inn á Rauðhólana og þar var næsta stopp.  Ég hef aldrei áður labbað þar um, eingöngu keyrt framhjá þeim.  Rosalega flottir litir þarna, grænn mosi og rauðir hólar, hefði mátt vera betra veður því það fór að hellirigna, en auðvitað gat Þráinn lítið gert í því.

 

Við fórum þá sem leið lá niður í bæ, og þá var ég nú viss um að við værum að fara úti Gróttu en nei, hann beygði inná Suðurgötu (já kirkjugarðurinn) en nei, hann rúntaði þarna um og leitaði að bílastæði í kringum Ráðhúsið.
Við sem sagt fórum þangað inn næst og þar var æðisleg handverkssýning þar sem fullt af frábæru fólki var að sýna og selja það sem það er að gera.
Við meira að segja keyptum sængurgjöf handa Klöru og Davíð þar.  Heilluðumst alveg og létum það eftir okkur.
Svo var sest á kaffihús og við fengum okkur kaffi og kökur, með skemmtilegasta útsýni sem ég hef lengi séð.  Fyrst voru það svanirnir í snyrtingu beint fyrir utan gluggann okkar og þegar einhver kallaði í þá (því þeir fóru allt í einu allir) þá komu Stokkendurnar og snyrtu sig líka, þannig að þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt.

Næst lá leiðin niður í Nauthólsvík þar sem við löbbuðum um og skoðuðum í smá tíma.
Þá formlega var óvissuferðinni minni lokið en henni er í raunn ekki lokið ennþá því við skelltum okkur í sund á Álftanesi og svo erum við hjónin á leiðinni á Eagles tribute tónleikana í Háskólabíó á eftir, svo held ég sé að fá flottasta pakkann.

 

Takk Þráinn og Takk Ástrós Mirra fyrir að gefa mér þennan frábæra dag og mest takk Ástrós Mirra fyrir þolinmæðina, því ég veit að það er erfitt að vera bara 8 ára og eyða heilum degi í það að gera eitthvað sem öðrum þykir skemmtilegt.
En þinn dagur verður næsta sunnudag svo þá verður geggjað stuð og gaman fyrir þig (og okkur líka).

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 8.11.2009 18:31:04 Óvissuferð Ástrósar Mirru Þá er 3ju og síðustu óvissuferðinni okkar lokið.  Þessi var tileinkuð henni MirruSkottu og heppnaðist mjög vel.

Við byrjuðum á að gefa henni góðan morgunmat, ristað brauð með tómat og steiktum lauk og spældu eggi.  Súkkulaðimuffins með ís og rjóma í eftirrétt.

Svo var bara slakað á til hádegis en eftir hádegi mættu stelpurnar útí Haukaheimili því þær leiddu meistaraflokks stelpurnar inná völlinn í dag í beinni útsendingu á RÚV.

Eftir það var ekið af stað sem leið lá niður í Nauthólsvík og þar fórum við í eins konar brennó, mikil spenna og mikið gaman.

 

Svo var farið í Skautahöllina og allir á skauta, mikið gaman þar líka fyrir utan hvað þessir HELV. skautar sem þeir leigja út eru óþægilegir og lappirnar á okkur Þráni eru í rúst eftir þetta.

 

Að endingu fórum við í Perluna og fengum okkur kaffi, meðþví og ís og stelpurnar fengu að kaupa sér dvd mynd á markaðnum sem er þar.

Og nú sitjum við hér alveg dösuð og sæl eftir góðan dag.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 15.11.2009 09:32:21 Afmæli
Jæja, þá er Ástrós Mirra orðin 9 ára.  Hún er nú reyndar búin að vera það í huganum heillengi og skammaði mig ef ég sagði hana 8 ára.  Sagði bara “Mamma, þú getur alveg sagt strax 9 ára, ég er alveg að verða það.”.

Á miðvikudaginn var öllum bekknum hennar boðið í afmæli út í Ásvallalaug.  Það mættu 22 börn þangað og þó við Þráinn hefðum verið með 2 aðstoðarmenn, þá var þetta of mikið, engin spurning en samt gaman.

Aðalatriðið var að við vorum pínu stressuð að þau færu sér eitthvað að voða og svo þekktum við þau ekki öll í sjón og það gerði þetta erfitt.  Þau voru samt alsæl og Ástrós Mirra líka.

Í gær, 14. nóvember var svo fjölskylduafmælið haldið hér heima og það mættu um 30 manns sem er náttúrulega full mikið fyrir okkar íbúð en voða gaman að sjá og hitta alla í einu það gerist bara einu sinni á ári.

Ástrós Mirra fékk fullt af fallegum gjöfum og þökkum við ykkur öllum fyrir okkur.

Í gær spilaði Ástrós Mirra á sínum fyrstu tónleikum og var það skemmtileg tilviljun að það væri á sjálfan afmælisdaginn.  Hún stóð sig þvílíkt vel og ég verð að segja að blokkflauta er greinilega vanmetið hljóðfæri því þarna sáum við alls konar flautur sem við höfum aldrei séð áður, og þvílíkt flottur hljóðfæraleikur hjá krökkunum hennar Helgu Aðalheiðar.
Í lok tónleikanna spilaði samspilshópurinn afmælissönginn fyrir Ástrós Mirru, ég klökknaði nú bara við þetta.

Í dag er svo 3ji í afmæli og þá koma Hugrún, Baldur og Inga og Óli og þeirra fylgjifiskar í afganga.

Góðri afmælisviku að ljúka og allir alsælir.

 

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

kjg 23.11.2009 20:10:20 Arion
Það er orðið langt síðan síðast.  Mirran er orðin 9 ára, Kaupþing heitir Arion, Þráinn hættur að vinna yfirvinnu og farinn að taka til í skápunum, ég vissi að það væri út af einhverju sem ég varð svo hrifin af honum.
Svo er hann algjör snillingur þegar kemur að hugviti.  Hann fann upp aðferð fyrir mig að geta sett regnhlíf framan á Bykoljósin mín svo þetta er orðið enn líkara stúdeó en áður.  Gaman, gaman.

Við erum komin á fullt í jólaundirbúningi eða þannig, jólakortin tilbúin, dagatöl komin í gorma, búin að gera jólakort fyrir alla aðra sem báðu um það, nema Klöru systur því okkur vantar mynd af nýjasta prinsinum sem á að fæðast núna á næstunni.

MirraSkotta var í samræmdum prófum fyrr í haust og vorum við að fá niðurstöðu úr þeim í síðustu viku.  Við erum bara mjög ánægð með þau.  Hún fékk 6 í stærðfræði (51%, sem þýðir að hún er jafngóð eða betri en 51% nemenda), svo fékk hún 7,5 í íslensku (81%).  Þannig að eftir að við áttuðum okkur á þessari prósentu vorum við mun ánægðari með þetta en þegar við horfðum bara á einkunina sjálfa.  Það er þá greinilegt að talsverður hluti nemenda í 4 bekk eru alls ekki góð í stærðfræði.

 

Það er búið að vera talsvert af myndatökum undanfarið, ég fór að bjóða uppá svokallaðar jólakortamyndatökur sem eru ódýrari en hinar og það er bara gaman að hafa eitthvað að mynda í hverri viku.  Fínt að fá smá vasapening líka.

Amma Maddý var hjá okkur um helgina, var að passa Mirruna á laugardagskvöldið því við fórum í æðislegt matarboð til Írisar og Lalla og hittum þar líka Caroline og Steinar, við erum voða skemmtilegur hópur saman og ætlum að halda þessu áfram, getum alveg kallað okkur matarklúbb eða eitthvað álíka.
Alltaf gaman að hafa ömmu hjá okkur og hún er að verða svo heimavön að hún tekur til eftir sig og þegar við komum heim í dag, þá var ekki að sjá að hún hefði verið með rúm inní stúdeói. Takk fyrir helgina amma Maddý.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna
kjg 29.11.2009 22:14:16 Alveg að koma
Jæja líklega á sama tíma á morgun verður fjölskyldan búin að stækka um einn, því Klara systir er á leið á fæðingardeildina og ætlar sér að koma með “Litla prins”.

Kristófer Darri og Alexander Ísak eru hjá okkur og gista í nótt.  Vonandi að Litli prins láti ekki bíða eftir sér þannig að við þurfum að gera þetta aftur og aftur.

Hlakka þvílíkt til að sjá hann og vona að allt gangi vel.  Sendi góða strauma til Klöru og Davíðs.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

kjg 4.12.2009 23:21:54 Moli litli er fæddur Jæja hann Moli litli er fæddur, fæddist 29. 11. 2009 kl. 23.35
kjg 10.12.2009 21:25:10 Jólabarnið okkar
Jólin koma, jólin koma brátt.

Svei mér þá, jólin eru alveg að koma og það er alveg sama hvað ég þykist ætla að njóta aðventunnar og vera tibúin snemma, mér finnst alltaf svo mikið að gera.  Núna er reyndar mikið að gera í myndatökunum og svo er maður að fara frábærar leiksýningar, tónleika og ég veit ekki hvað og hvað.

En af því að það þarf að líka að fara og versla og “Guð minn góður hvað það er leiðinlegt að fara í búðir” þá verður aðventan aldrei eins skemmtileg í mínum huga.  Ég vildi gjarnan geta farið bara á tónleika, út að borða, leikhús og fleira.  En þá þarf líka að eiga peninga því þetta kostar ekkert smá.

En auðvitað er þetta ekki allt eitthvað leiðinlegt, það má ekki misskilja mig.  En það er eitthvað svo mikið myrkur og umferðin svo rosaleg að ég nenni ekki niðrí bæ nema Þráinn sé með mér.

En við fórum á alveg æðislega leiksýningu í dag, hjá leiklistarhópi 4. bekkjar í Hraunvallaskóla.  Ástrós Mirra lék álfadísina Snæbjörtu og Sara lék galdranornina Hexiu.

Við skellihlógum á sýningunni og skemmtum okkur vel og við foreldrarnir viljum endilega að þau haldi þessu áfram og verðum bara að sameinast í beiðni til Námsflokkanna að endurtaka þetta eftir áramótin.

Mirran okkar hefur að sjálfsögðu ekki langt að sækja þessa leikhæfileika og það var gaman að sjá að hún kunni texta allra sem voru í sýningunni og var í því að ýta við þeim sem áttu næsta leik osfrv.  Þannig að einhvern veginn virkaði hún á mig sem upprennandi leikstjóri.

Talandi um Mirruna mína, því eins og hún er nú frábær þá er hún svo óþæg stundum og virðist ekki geta gert það ég bið hana um þegar ég bið hana um það.  Eins og að fara í rúmið, ég er alveg að koma og rétt bráðum eru setningar sem ég heyri ansi oft, þ.e. ef ég heyri þá eitthvað því oftast er manni ekki einu sinni svarað fyrr en maður missir sig í pirring og reiði.  Eins og áðan, þá var ég búin að biðja hana 4 sinnum að fara í náttföt, greiða, bursta tennur osfrv. og svo að kalla á mig til að breiða yfir hana en nei, eftir 4 skipti og eitt hávært þá kom, fyrirgefðu, fyrirgefðu en ég sagði að það væri bara of seint.  Þá fór hún að greiða sér og bursta tennur og bað mig svo að koma og breiða yfir sig og þá sagðist ég myndu bara koma þegar hún væri sofnuð því þá fyrst myndi ég fatta að ég hefði átt að koma fyrr.  Þá kom að sjálfsögðu elsku mamma og allt það svo auðvitað fór ég og breiddi yfir hana því helst vil ég ekki að við förum að sofa ósátt, hvorki hún eða við Þráinn.

En ég hef notað jólasveinana alveg helling núna, held meira að segja að hún trúi á þá ennþá en það er eins og áhuginn fyrir því að vera stillt út af þeim sé ekki eins sterkur og áður.  Kannski trúir hún ekki eins sterkt en vill láta okkur halda að hún trúi svo hún fái í skóinn.  Það kemur í ljós.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

kjg 20.12.2009 09:15:42 Styttist í jólin
Þá erum við Ástrós Mirra komnar í jólafrí og ætlum að hafa það gott, fara í leikhús, þrífa íbúðina, skreyta meira og kannski baka og undirbúa…. já greinilega ekkert frí framundan þó ég hafi haldið það. Og þó. Það þarf þá ekki að gera þetta allt eftir vinnu.

 

Það er búið að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim inn, ég er svo heppin að Mirran pakkaði inn öllum krakkagjöfunum og Þráinn öllum hinum.  Ég stjórnaði þessu og skipulagði, mjög þægilegt.

Það er búið að vera heilmikið að gera í myndatökum líka en þó duttu tvær út í síðustu viku (frekar fúlt, sérstaklega þegar maður er að safna sér fyrir þvottavél og vill fá meira að gera þess vegna). En ég er alveg á því að það verður ekki oftar 5000 kr. myndatökur hjá mér, allt of lítill peningur fyrir þetta og fólk að fá allt að 80 myndir stundum.  Enda verð ég orðin enn betri og færari næstu jól og sel mig þá ekki svona ódýrt, en það er líka gaman að hafa haft talsvert mikið að gera bæði til að æfa sig og kynnast alls konar krökkum og kringumstæðum.

 

Jæja það er nú ekkert djúpt sem ég hef að segja þennan daginn, hef helst viljað sleppa öllum hugsunum þessa dagana, og var að óska þess áður en ég fór í jólafrí að ég gæti fengið verkefni sem jafnaðist á við það að vinna á færibandinu í Freyju.  En nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því þar sem ég er komin í frí og má gera það sem mér sýnist eða þannig.

Hlakka til jólanna, vona að þið gerið það líka.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.