Heyrnarleysi miðaldra fólks….

03.03.2016

Við Þráinn getum endalaust hlegið að sjálfum okkar þegar kemur að heyrnarleysi og að misheyra.  Við hlæjum líka að því hvernig þetta gæti orðið hjá okkur um sjötugt fyrst þetta er svona hjá okkur um fimmtugt.  Ég held það hljóti að verða bara svona tuð og röfl í sitthvoru herberginu og hvorugt heyrir hvað hitt segir.

Alla vega þá vorum við á leið í vinnu í morgun klukkan hálf sex og eftir snjókomu síðustu daga og kuldann sem var í nótt þá var undurfallegt á að líta hér í Marnardal og sérstaklega voru tréin falleg svona hvít og þegar við keyrum inn í bæinn þar sem eru götuljós þá stirnir á snjóinn á trjánum og þetta verður svo fallegt og ævintýralegt og ég segi við Þráin:  “Oh þetta er svo fallegt hérna núna og þegar ég horfi á þessi fallegu tré þá finnst mér eins og ég muni sjá einhyrning undir þeim til að fullkomna ævintýrið”.  Ha segir Þráinn, hvað sérðu undir trjánum?  Einhyrning segi ég aftur, hátt og skírt.  Hann fer þá að skellihlæja og segir: “Veistu hvað mér heyrðist þú segja”?  Nei svara ég.  “Mér heyrðist þú segja: “Oh þetta er svo fallegt hérna núna og þegar ég horfi á þessi fallegu tré þá finnst mér eins og ég muni sjá englending undir þeim til að fullkomna ævintýrið”.

Ha ha ha, við erum búin að hlæja svo mikið að þessum englending sem stendur undir trjánum hérna í noregi og gerir veröldina svo ævintýralega, ég er alveg viss um að hann hafi hatt og þverslaufu.

En svo fór Þráinn að segja mér að hann hafi verið að spjalla í vinnunni um daginn og af því að hér í Noregi eru svo margar mállískur og norðmaður skilur ekki annan norðmann ef þeir koma frá sitthvoru héraðinu (eitthvað sem okkur finnst alveg fáráðanlegt) og hann er eitthvað að tala um þetta í vinnunni og segir svo:  “Ég skil til dæmis stundum ekki konuna mína”.  Ha segja vinnufélagarnir er hún frá öðrum stað á Íslandi en þú.  “Nei nei segir Þráinn, við erum frá sama svæði en ég skil hana samt ekki”.  Hvað meinarðu segja þeir, talar hún aðra mállísku en þú?  “Nei nei segir Þráinn aftur, það er bara oft þannig að ég sit inní stofu og hún er eitthvað að bardúsa í eldhúsinu og byrjar svo að tala eitthvað og ég heyri bara svona smá suð, greini alls ekki orð eða setningar og skil bara ekkert hvað hún er að segja”.

Þá skellihló einn eða tveir á staðnum sem föttuðu húmorinn.  Það voru sko ekki allir sem gerðu það.

Ha ha ha ha

En það er sem sagt alveg til í dæminu að norðmenn skilji ekki hvern annan og þeir hafa mjög lítinn málskilning og margir hverjir geta ekki giskað á hvað þú ert að segja þegar þú berð orðið vitlaust fram.  Eins og td. ski er borið fram sji og ef ég segi ski þá er fullt af fólki sem veit ekkert hvað ég gæti verið að segja.  Samt segja þeir Ko fyrir Ká og Joð fyrir joð og Ess fyrir ess, en það er bara mjög oft sem þeir sleppa Káinu algjörleg og setja joð í staðinn sem dæmi og ef áherslan á að vera á öðru atkvæði en ég er með hana á fyrsta atkvæði þá vita þeir oft ekkert hvað ég er að segja og í vinnunni hjá Þráni er einn maður sem hann er alveg hættur að reyna að tala við því þeir skilja ekki hvort annan.

En nú er ég svo heppin að vera að vinna með tveimur konum önnur er ekki fljót að fatta ef ég segi vitlaust og kann litla sem enga ensku og er samt á mínum aldri á meðan hin er mjög opin fyrir því hvað ég segi og ég get alltaf skellt inn einu og einu ensku orði (eins og í morgun þegar ég sagði söguna af einhyrningnum sú fyrri áttaði sig á því hvaða dýr ég var að tala um en hafði ekki hugmynd um hvað það heitir á norsku en hin kveikti um leið (enhjørning) sem sagt bara eins og á íslensku.  En það er einmitt líka svo gaman að því að tala við þá sem er svona opin í málinu því ég þarf ekkert að hugsa allt of mikið og get bara talað og hún fattar hvað ég er að segja og ef ég slæ um mig flottum norskum orðum þá fæ ég HighFive frá henni.  Ég var td að nota orðið Insperret í gær, sem þýðir innilokaður og ég lærði það bara af sjónvarpsþættinum okkar ófærð sem heitir þetta á norsku og það virkaði vel á mína og sem gaf mér high five fyrir orðið.  Så gøy.  Eða svo gaman.  🙂

ykkar Kristin Jona

ps. ég fór að leita að mynd af einhyrningi og fann þessa, sem nánast eins og myndin í hausnum á mér í morgun

En þetta með englending undir tré í snjó er bara ekki til, alla vega finnur google engan mann með hatt og slaufu í snjó en ég fann þennan aftur á móti og gæti alveg hugsað mér að sjá hann standa hérna bara úti á götu eða sitja með kaffibolla í garðinum mínum svona helv. huggulegur sem hann nú er.

þangað til næst, ykkar Kristin Jona

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.