Hár þröskuldur eða smámunasemi…

14.03.2016

Já gott fólk, við vorum að skila af okkur íbúðinni á Store Elvegate 131 á föstudaginn og okkur grunaði nú alveg að það yrði eitthvað vesen því eigendurnir eru einhvern veginn þannig fólk.  Þe. svona fólk sem virkar voða næs þegar það getur fengið eitthvað út úr þér en verður ekki alveg eins næs þegar eitthvað er ekki alveg eftir þeirra höfði.

Sbr. þegar við fengum húsið á leigu þá var það viðbjóðslega skítugt og fullt af ógeðslegum húsgögnum og drasli frá fyrri leigjanda, við fengum niðurfellda leigu í 1,5 mánuð gegn því að moka út úr húsinu og þrífa.  Fyrst ætluðu þau að bjóða okkur hálfan mánuð en Arnfinn vinur okkar sagði það allt of lítið og stakk uppá 2 mánuðum en þá fórum við þennan milliveg.  Vinnan var gríðarlega mikil en okkur fannst við alveg vera að fá greitt fyrir hana og fannst að þetta fólk yrði voða næs sem þau voru þegar við vorum að gera eitthvað fyrir þau og húsið en svo þegar við segjum upp leigunni þá byrjaði strax smámunasemin, þau vildu ekki sleppa okkur fyrr frá samningnum því samningur er samningur en sko samt 10 dögum fyrr af því að þá væru þau hvort eð er að koma til Mandal.  Við vorum alveg ánægð með það þó við hefðum viljað sleppa fyrr en eitthvað er betra en ekki neitt.  Svo sendi kallinn email um að þau vildu gjarnan sleppa okkur fyrr því þau væru að fara til útlanda um páskana og því hentaði þeim bara vel að hitta okkur 11. mars kl. 12.  Við sögðumst ekki komast fyrr en kl. 15 þar sem Þráinn væri að vinna.  OK svo hitti Þráinn þau á föstudaginn en já rétt áður þá hringdi kallinn og sagði að þau væru alls ekki ánægð með þrifin okkar og ég vissi einhvern veginn að það yrði svo en gott að fá þá bara vita að hvað þrifum við ekki nógu vel svo Þráinn fer einn að hitta þau, því ég hefði orðið alveg ómöguleg og tekið þetta inná mig.

Jú jú sumt var rétt hjá þeim og hafði greinlega bara farið fram hjá okkur eins og loftlistarnir og einn hurðarkarmur sem hefur gleymst að þrífa neðst, einhverjar slettur sjáanlegar þar og svo eitthvað smotterí meira svona eins og ekki nógu vel pússað glerið, það var auðvitað hreint en ekki alveg blankt eins og þau vildu hafa það og eins þrifum við ekki inná milli glerja á gluggunum en hér í Noregi er oft hægt að skrúfa gluggana þanni að þú kemst á milli glerja og já inní gúmmíinu á ísskápnum og ekki nógu vel pússaðar glerhyllurnar þar.  Þráinn segir þetta bara ekkert mál við munum koma á sunnudaginn og þrífa allt betur en þau ætluðu að vera á laugardaginn að setja inn húsgögn sem þau áttu og kaupa eitthvað nýtt því húsið verður ekki sett í leigu aftur heldur notað sem sumarbústaður.

Jæja svo kemur laugardagurinn og þá fær Þráinn sms frá kallinum um að það vanti 2 ljósaperur í loftljós og 4 í ljósin undir innréttingunni í eldhúsinu og við bara:  Humm ok, kostar ekki neitt og þau moldrík (en það er nú einmitt oft fólkið sem lætur alltaf aðra gera allt fyrir sig) svo við sendum til baka sms og sögðumst myndum kaupa ljósaperur og setja í ljósin á morgun (sunnudag) en við erum varla búin að svara smsinu þegar kallinn hringir í Þráin (og við erum sko að versla í matinn) og segir að við höfum eyðilagt ryksuguna þeirra, hún hafi verið ný þegar við fluttum inn og í fyrsta lagi væri pokinn fullur af drullu og svo enginn kraftur í henni.  Þráinn sagði það vera kjaftæði því við hefðum ekki notað ryksuguna þeirra, við ættum okkar eigin ryksugu og við hefðum ekki heldur notað húsgögnin þeirra sem hann kvartaði yfir að við hefðum ekki þrifið áður en við afhentum íbúðina, en við höfðum ekki áttað okkur á því að þessi niðurgreiðsla á leigu hefði verið fyrir þrif á húsgögnum sem við settum inní geymslu því þau þvældust fyrir okkur.  En þarna í búðinni er Þráinn að tala við kallinn um ryksuguna og hann gefur sig ekki og heldur áfram að væna okkur um að hafa eyðilagt nýja ryksugu og ég heyri að Þráinn hækkar róminn svo ég skrapp bara í aðra deild í búðinni á meðan og ég heyri að Þráinn segir Einar, þú veist að við erum ekki svona fólk sem gengur um og eyðileggur hluti sem aðrir eiga og kallinn hélt ennþá áfram og sagðist þá ekkert skilja í því af hverju ryksugan væri full (sko konan sem leigði á undan okkur notaði öll húsgögnin þeirra og sjálfsagt ryksuguna líka) og svona kraftlaus og Þráinn sagðist bara heldur ekkert vita um það og hann (Einar) skyldi bara finna út því, það væri ekki okkar mál og svo skellti minn maður bara á kallinn.

Ja há, nú fékk ég nett fyrir hjartað því sko við eigum 3 mánaða leigu hjá kallinum sem ábyrgð (deposit) og fáum ekki greidda út nema báðir aðilar samþykkja og ég er nú ekki tilbúin að gefa þessu fólki það.

En svo hringir kallinn einu sinni enn þegar við erum í bílnum á leiðinni heim og sagði, heyrðu þetta var nú rétt hjá þér þetta er gömul ryksuga og greinilegt að þið hafið ekkert eyðilagt hana.  Já sagði Þráinn, ég sagði þér það og ég skal láta þig vita af því að ég er ekki ánægður með að vera vændur um að eyðileggja fyrir fólki en nú erum við búin að kaupa þessa ljósaperur sem kosta 5 krónur og ég ætla einnig að láta þig vita það að við pússuðum upp úti mublurnar ykkar í fyrra og máluðum og vorum í marga daga að því en við sendum ykkur engan reikning fyrir því.

Jæja svo mætum við í gær til að þrífa og þá er listi á borðinu þar sem búið er að tilgreina nánast allt húsið sem þurfi betur að þrífa og meðal annars var hnífaparaskúffan sem má vera og svo strikað yfir það og skrifað getur verið betur pússuð.  Fataskáparnir uppi á lofti þurfa að vera þrifnir og við bara bíddu þeir eru þrifnir en þetta eru gamlir innbyggðir skápar með málningu og við þurrkum bara rykið úr þeim en jú jú það var alveg rétt hjá þeim að flísarnar á baðinu voru ekki gljáandi eins og spegill svo við tókum allt húsið aftur í gegn eða sko þessi atriði sem þau tóku fram og allar flísar pússaðar með ediki (ætli verði þá ekki kvartað yfir lyktinni næst) og notuðum meira að segja gleraugu til að vera viss um að það væri ekki rykarða sjáanleg og svo héldum við að við værum búin þá sneri ég óvart listanum við og þar stóð stórum stöfum, ÞRÍFIÐ Í DAGSBIRTU.

Þarna fann ég þvílíkan hroka og frekju og var alveg að missa mig en jú við kláruðum þrifin og þrifum húsgögnin þeirra betur og kíktum svo á vini okkar í næsta húsi sem urðu orðlaus og Arnfinn sagði bara við Þráin þú ferð ekkert einn að hitta þau næst, ég kem með og þið gerið ekkert meira í þessu húsi.  Hjúkk og gott að eiga ákveðna vini, reyndar er hún Liv sem vinnur með mér sama týpa og Arnfinn og baust til að koma með Arnfinn og Þráni ha ha ha

En eins og mér leið vel í þessu húsi þá gekk ég út úr því í gær með reiði og vonbrigðum og sagði þegar ég skellti hurðinni að vonandi kæmi ég ekki aftur inní þetta hús og já eins gott að Arnfinn tók af okkur völdin og gróf upp plönturnar sem við ætluðum nú bara að skilja eftir.  Ha ha ha, þær verða sko gróðursettar á Nesan í staðinn.

En já þá er ekki allt búið enn því svo kom sms þar sem kallinn stakk uppá tíma til að hittast næst og það er á miðvikudaginn en Þráinn sendir til baka og segist vera að vinna til 18 á miðvikudögum.  En það hentar okkur mjög illa segir kallinn þvi við erum að koma i Mandal í hyttuna okkar um hádegið, getur þú bara ekki tekið þér frí þá og hitt okkur?  Nei sagði Þráinn ég er að vinna í Heddeland og get ekki tekið frí.  Þú verður bara að finna annan tíma.  Og kallinn sendir enn eitt smsið og segist munu verða í sambandi seinna með það.

Herre Gud.

 

Og akkúrat svona viðskipti fá mann til að vera svoooooooo glaður að eiga sitt eigið hús og mega laga, bæta og breyta eins og okkur sýnist en ekki einhverjum öðrum.

Vertu bless Store Elvegate 131.

Ykkar Kristin á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.