Áfram Ísland…

04.07.2016

Ég hef aldrei verið stoltari af því að vera íslendingur eins og þessar síðustu vikur og ég er svo jafn stolt af því að vera íslendingur í dag og ég var í gær þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki unnist, því við unnum svo margt annað í þessari keppni.

Við unnum hug og hjörtu allrar evrópu, Norðmenn hafa ekki haldið vatni yfir gengi íslenska liðsins og eru endalaust að reyna að eignast eitthvað smá í okkur og finna tenginguna sem virðist nú ekki vera kennd hér í skólum og alls staðar sem maður kemur er talað um fótbolta og gengi íslenska liðsins.

Það var nú líka meira en evrópa sem fylgdist með, hvatningaskilti í NY og ég veit ekki hvað.  Því þessir strákar hafa sýnt heiminum hvað hægt er að gera og komast langt með samstöðu og samvinnu.

Og Íslendingar allir með stuðningi og hvatningu. Held ég hafi aldrei verið eins stolt af því að vera íslendingur og þessar síðustu vikur.

Og víkingaklappið og fögnin það var svo gaman að fylgjast með þeim.

Ég sá viðtal við englending eftir England – Ísland leikinn og hann sagði að þetta væri mjög eðlileg úrslit þar sem í enska liðinu væri fullt af stjörnum sem hver og einn spilaði sig sem stjörnu en íslenska liðið spilaði sem ein heild og sýndi svo mikla samstöðu og það væri málið í fótbolta.  Fótbolti snýst um liðsheild og samstöðu og hefur ekki pláss fyrir primadonnur.

Ég horfði í fyrsta sinn á leik í gær og veit ekki hvort ég eigi að sjá eftir því, ég gæti alveg eins haldið að þetta væri mér að kenna og það er auðvelt að taka það á sig en samt hallast ég að því að þetta tengist búningunum.  Við eigum ekki og megum ekki keppa í einhverjum hvítum nærfötum þegar við gætum verið að keppa í fallegustu búningum veraldaldarinnar bláir, rauðir og hvítir aðallega bláir.  Ég hefði gaman að sjá tölfræðina á því hvernig leikirnir fara eftir því hvort við fáum að vera okkar búningum eða þurfum að fara í aukabúningana.  Og hvað með þessa aukabúninga af hverju þurfa þeir að vera svona skelfilega ljótir?  Ég skil það alveg að ekki geta tvö lið keppt í bláum búningum en þá þarf að hanna og útbúa einhverja fallegri búninga fyrir okkar menn því kúlið fer hreinlega af þeim við þetta.  Takið eftir að það verða engar myndir frægar af þeim án bláu búninganna svo ég stend með því að það sé málið.

Hlakka til að fylgjast með móttökum liðsins í dag og vil bara segja við ykkur öll að strákarnir okkar eru bestir hvernig sem á þetta er litið.  Flottara lið hefur bara ekki sést með þennan stórkostlega fyrirliða. 

Fyrsti í sumarfríi hjá mér í dag og sýnist það verði lítil sem engin rigning svo ég kannski finn mér eitthvað skemmtilegt að gera.

Ykkar Kristin Jona

Ps. ég man eftir öðru tímabili í fótbolta sem mér fannst jafn skemmtilegt og það var ÍBV liðið sem þá fór á kostum og áttu svo skemmtileg fögn þegar þeir skoruðu mörk, gott ef hann frændi minn Leifur Geir hafi ekki verið upphafsmaðurinn að þeim og gerði það að verkum að ég fylgdist með fótbolta þá og hann átti svo flott orð í hálfleik í gær sem ég ætla að vitna í hérna:

“Það eru gæði í þessu franska liði. Allt topp afgreiðslur. Refsa miskunnarlaust. Á móti öðru liði væri staðan 1-0, 2-0 eða 2-1. Kannski ekki við öðru að búast í ÁTTA LIÐA ÚRSLITUM á stórmóti, gleymum því ekki. Hálfleikur eftir og svo er það bara ÞAKKLÆTI gott fólk. Þvílíkar vikur sem við höfum fengið að upplifa og þvílíkt sem þetta hefur minnt okkur á hvað er dýrmætt að tilheyra svona dásamlegri þjóð. Ástarkveðja og ÁFRAM ÍSLAND!!”

Áfram Ísland!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.