Við vorum minnt illilega á það um daginn hversu mikilvægt það er að gleyma ekki sjálfum sér eða hjónabandinu þar sem fólk sem við þekkjum er að skilja og eingöngu vegna þess að þau leyfðu sér að fara í sitthvora áttina. Þau höfðu ekki farið saman í frí í mörg ár og áttu orðið ekkert sameiginlegt.
Þegar við fréttum af þessu þá hrukkum við í kút því við erum dálítið gjörn að gleyma okkur og eftir gestasumarið mikla og sumarfrí til Íslands þá höfum við dálítið verið að dunda í sitthvoru horninu en snarlega ákváðum við að skella okkur næstu helgi, sem var í gær á hótel úti í sveit og bara njóta þess að vera saman, borða góðan mat og smá hvítvín í nýju umhverfi án hunds og katta. Heimasætan er nú næstum aldrei heima um helgar svo ekki vorum við að flýja hana, ha ha. Enda kannski ekki flótti frá neinu heldur meira svona að skipta um umhverfi til að láta ekki hversdaginn stela okkur.
Við pöntuðum sem sagt herbergi á Hotel Utsikt eða Hótel Útsýni þar sem við höfum nú nokkrum sinnum komið að til að skoða og sýna útsýnið og lögðum við af stað í gær morgun uppúr kl. 10 og fórum sveitaleiðina til að njóta.
Við vorum komum um hádegi á staðinn en það stóð að herbergin yrðu tilbúin kl. 3 svo við ætluðum bara að rölta í gamla bænum í Kvinesdal þangað til en viti menn herbergið okkar var bara tilbúið og við máttum bara fara upp. Og þvílík snilld þarna engin kort, engir lyklar bara kóti á hurðinni svo ekkert vesen.
Herbergið var æðislegt eins og allt hótelið og komum við dótinu okkar fyrir og keyrðum svo niður í bæinn en þar var þá hátíð og engin bílastæði að finna nema uppá vegkanti eins og allir hinir og sólin fór að skína og við nutum þessa bæjarferðar mjög vel. Þetta var matfestival þannig að þarna voru matarvagnar um allt og hvað haldiði að við höfum mest fallið fyrir eftir að vera búin að vera á lágkolvetnafæði í 7 vikur, jú jú kartöfluvagninum við sem sagt skelltum okkur á kartöflur í hádegismat og nutum vel, en samt ekki eins vel og alltaf áður svo ég velti fyrir mér hvort mér þyki kartöflur ekkert svona svakalega góðar ennþá eins og mér þótti áður. Með breyttu mataræði, breytist kannski braðgskinið líka.
En eftir bæjarferðina fórum við uppá hótel og þar töfraði ég fram hvítvín og hvítvínsglös að heiman og rétti eiginmanninum hringana sem við vorum að kaupa okkur. Við sko nefnilega pöntuðum okkur eins hringa með víkingamunstri um daginn og þeir komu akkúrat á föstudaginn svo ég faldi þá fyrir Þráni bara til að gera þetta pínu skemmtilegra. Þetta er engir giftingahringar eða neitt svoleiðis en okkur finnst þeir bara flottir og ákváðum að panta okkur eins.
Svo við settum upp hringana og skáluðum í hvítvíni.
Hótelið ber sko nafn með rentu því þetta er útsýnið úr herbergisglugganum okkar.
Og hérna erum við á leiðinni niður að fá okkur eitthvað gott að borða.
Byrjuðum auðvitað á hvítvíninu meðan matseðillinn var skoðaður. Pöntuðum okkur svo sjávarréttasúpu í forrétt, Þráinn fékk sé lamb í aðalrétt en ég nautalund. Tókum svo einn eftirétt saman. Dásemdarmatur, frábær þjónusta og skemmtilegir þjónar.
Svo sátum við aðeins frameftir og nutum samveru hvors annars og höfðum það huggulegt. Vöknuðum svo í morgun eftir ekkert allt of mikinn svefn (eini mínusinn á þessu hóteli voru rúmin eða eru rúmin okkar heima alltaf bara betri?)
Þetta var morgunútsýnið áður en við skelltum okkur í morgunmatinn sem var mjög góður og Kristín Jóna kolvetna- og brauðfíkill (hef ekki borðað brauð í 7 vikur) fékk sér ekkert brauð í morgunmatnum og hvernig er það eiginlega hægt ha ha ha.
Keyrðum svo nýja leið heim eftir dásemdar sólarhring í Kvinesdal, sátt og ánægð með sólarhringinn, hótelið, matinn og ekki síst hvort annað.
Knúsist og njótið og munið eftir sjálfum ykkur.
Þangað til næst, Ykkar Kristín á Nesan.