Stjörnuspár og Sigga Kling

Featured Post Image - Stjörnuspár og Sigga Kling

Sko ég hef alltaf haft trú á stjörnuspám, stjörnumerkjum og þess háttar og hafði í gamla daga mjög gaman af að gera stjörnukort fyrir fólkið í kringum mig.  Mjög margt passar bara strax en oft þurfti maður að skoða betur tungl og fleira til að skilja af hverju þessi og hinn voru ekki alveg eins og stjörnumerkið sjálft sagði til um.  Ég hef alltaf sagt að ég er sko HRÚTUR og les mín dýpstu leyndarmál þegar ég les um hrútinn og ég elska Siggu Kling en hræðist hana stundum líka því ég veit ekki hvaða sambönd hún hefur en ansi oft veit hún um allt sem er að gerast í mínu lífi eins og núna með febrúarspána.  Þið sem þekkið mig vel og vitið hvað er að gerast í mínu lífi sjáið tenginguna en ég set inn skýringar fyrir þá sem ekki vita eins vel hvað er í gangi.
———————–

Elsku hjartans Hrúturinn minn, þú ert svo miklu sterkari persóna en þú getur ímyndað þér og allir í kringum þig sjá þig sem svo sjálfsöruggan og kraftmikinn, en í hjarta þínu er mikil feimni en þú passar svo vel að enginn sjái þitt innra eðli. Stundum er erfiðast að vera sterkastur og hafa ekki í sér að biðja aðra um ráð eða dómgreind vegna þess að allir halda að þú sért svo sterkur. Styrkleiki þinn felst svo miklu meira en þú heldur í því að vera einlægur og leyfa barninu í þér blómstra.  (þetta með feimnina hef ég oft verið að segja fólki að grípi mig reglulega en mjög margir trúa því ekki, en jú ég er nefnilega feimin en það er með það eins og svo margt annað að maður lætur ekki veikleikana stjórna lífi sínu).

Þú ert fyrirmynd svo margra og heldur fólki oft á floti í kringum þig með uppörvandi orðum og heillandi framkomu, en núna undanfarið hefurðu dottið inn í svartholið og þú gerir þér fulla grein fyrir því og veist alveg hvað þú þarft að gera til að koma þér út úr því. Ég elska hvað þú ert drepfyndinn og ég myndi segja að fyndnasta merkið væri akkúrat falið í þér. Þessi húmor kemur þér nefnilega út úr svartnættinu og þegar líður á febrúar er eins og þú fáir kraft vorsins og finnist allt svo spennandi og auðvelt.  (Fyrirmynd svo margra veit ég nú ekkert um en það getur alveg verið, af hverju ekki?  En janúar er erfiðasti mánuður ársins með kulda, myrkri og ja bara er mér alltaf erfiður en núna í gær var ég akkúrat að sjá sólina, það er orðið bjartara alveg klukkutíma lengur og ég fékk fyrstu vortilfinninguna sterkt inní mig og tilhlökkun fyrir lífinu).

Miklar breytingar eru þó að mæta þér, þó aðallega í líðan og að þú sjáir að þú hefur fullkomna stjórn á aðstæðum og í þeirri orku líður þér best.  (Ég er að fara að opna kunst búð í Mandal, það er aldeilis breytingar í mínu lífi).

Í þér býr orðasnilld. Þá er ég ekki að segja að þú þurfir að vera fullkominn í íslensku, heldur dregurðu alla með þér um leið og þú sérð að þú ert frábær ræðumaður og hefur svo sterka og áhrifaríka rödd, burtséð frá tungumáli. (Ég er nú svo ofboðslega glöð að hún skuli segja þetta um mig því mér finnst gaman að skrifa og tala og hef oft langað að fara á rithöfundanámskeið en aldrei gert neitt úr því).

Það eru spennandi tímar fram undan en þú ert að missa þolinmæðina á því að það gerist eitthvað sem er nógu spennandi, því að þú vinnur best undir spennu og þegar brjálað er að gera. Þessi tími er að koma, svo þú skalt svolítið njóta þín núna, því það er ekkert svo mikið að gerast – það er líka dásamlegt, því þá nær maður núllpunktinum. Á þessum tíma safnarðu ótrúlegum krafti til að spyrna við fótum og standa fast á þínu. Ef þú ert á lausu þá býr í þér mikill veiðimaður, en mundu það að veiðimaðurinn vill oft veiða og sleppa, það mun ekki henta þér elskan mín, það er innantómt hjakk sem gefur þér ekkert.  (Tíminn fram að opnun búðarinnar og þangað til ég get farið að græja og stansetja búðina er heill mánuður, næstum heill mánuður sem ég er bara að bíða, en sem betur fer kemur undirbúningur þorrablóts og þorrablótið sjálft ásamt ferð til London með dótturinni þarna inná milli sem mun stytta biðina mína til muna).

Þið sem eruð í sterkum samböndum hafið valið ykkur manneskju sem gefur ykkur öryggi og jarðtengir ykkur eins og sterkt tré. Þegar þú ert kominn á þann stað að finna öryggi í ástinni skaltu halda þig við þann stað því þá blómstrarðu miklu betur. Þú þarft að umvefja tilfinningarnar, bæði jákvæðar og neikvæðar og muna að þú ert fullkominn. – Perfect (Ed Sheeran)  (Að vera gift honum Þráni er bara svo stórkostlegt og hann styður mig alltaf og sér oft betur en ég sjálf hvað ég get gert, svo þarna hefur hún rétt fyrir sér líka).

Kossar og knús – þín Sigga Kling
———-

Kossar og knús til þín Sigga Kling, þín Kristín Jóna

ps. ætli hún lesi kannski bara bloggið mitt áður en hún skrifar?

Smá sýnishorn af því sem ég er að fara að selja.

  

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.