Mirra fotograf og kunst….

Featured Post Image - Mirra fotograf og kunst….

Jæja gott fólk, þið sem eruð ekki búin að átta ykkur á því sem er að gerast hjá mér þá er best ég segi frá.  Ég er að fara að opna búð, svona lítið listagallerý eða kunstbutikk eins og það heitir á norsku.  Ég er búin að fá til liðs við mig hvorki fleiri né færri en 10 konur sem ætla að hafa handverkið sitt til sölu í búðinni minni.  Ég verð svona umboðssali fyrir þær þar sem ég kaupi ekki vöruna af þeim fyrr en hún selst eða þannig.

Þetta er svoooooo spennandi verkefni sem ég er farin af stað með og það skemmtilegasta er að þessar konur eru allar líka svo spenntar eða flestar alla vega.

Ég hef undanfarið verið að deila svona kynningarauglýsingum um þessar konur og hvað þær eru að gera og þegar hver auglýsing birtist þá verð ég svo stolt og ánægð að fá að hafa þessar konur með mér.

Búðin verður í 27 fm herbergi sem við ljósmyndararnir í Marnastudio vorum komin með á leigu en þar sem við höfum ekki nóg að gera til að réttlæta það að stækka við okkur þá ákvað ég að opna þessa búð í staðinn fyrir að segja upp leigunni.

Allt sem gert er í búðinni er gert fyrir pening sem til er og nú fer að verða lítið eftir af peningum en búðin er líka alveg að fara að opna svo þetta verður bara frábært.

Ég keypti parket á útsölu í Ikea og fékk minn heittelskaða til að leggja það fyrir mig ókeypis, eins var ég búin að kaupa fyrir jólin gamla eplakassa sem minn heittelskaði er líka búinn að festa á veggina eftir mínu höfði.  Öll önnur húsgögn eða dót sem er í búðinni er annað hvort lánað eða keypt í bruktbutikk.  Auðvitað kostar það samt fullt af pening að græja þetta allt saman og það er drjúkt sem fer í merkimiða, fána með logo, Logo á glugga, plastpoka, bréfpoka, posa, bókhaldskerfi og ég veit ekki hvað en allt reynt að fá sem ódýrast þannig að kostnaður sé í lámarki.

Ég keypti 2 stóla og borð í bruktbutikk því eitt af einkennum búðarinnar verður að það er alltaf boðið uppá kaffi, öllum sem koma inn.  Það verður meira að segja boðið uppá að lita í fullorðinslitabók, taka í hekl eða skoða ljósmyndabækur.  En auðvitað er aðalatriðið að þeir sem setjist niður og fái sér kaffi gefi sér betri tíma til að skoða það sem ég er að bjóða uppá og það er ekkert lítið.

Eins og ég sagði áðan þá eru þetta 10 konur allar íslenskar, flestar búsettar í Noregi en nokkrar á Íslandi með tengsl við Noreg, þ.e eiga systur í vinahópnum mínum eða dóttur.

Það sem verður á boðstólnum eru ljósmyndir, tölvuunnar ljósmyndir, málverk, glerlistaverk, leirlistaverk, handprjónaðar íslenskar lopapeysur, sokkar og vettlingar, heklaðir vettlingar, ullarkragar og skartgripir af ýmsu tagi þó svolítið þjóðlegir með hraunsteinum, úr þæfðri ull og fiskiroði svo eitthvað sé nefnt.

Hér er yfirlit yfir það helsta í myndaformi:

 

Þvílíkt flott allt saman og hver og ein af þessum konum snillingur í sínu fagi.  Vá ég er orðin svo spennt að opna og bakaði 4 falda uppskrift af flatkökum því hvað annað er flatkökur og pönnukökur með sykri verður boðið uppá í opnuninni þann 24. mars nk.

Ein listakona á eftir að bætast í hópinn en hún er íslensk en býr í Danmörku og er listahandverkskona sem ætlar að einbeita sér að húfum og einhverju fleiru til að selja í búðinni, þessi kona heitir Anna Fanney og er stjúpsystir mín.  Þá er ég með eina alsystur og eina stjúpsystur á mínum snærum.

Ég vona svo sannarlega að þið vinir mínir sem eruð hérna í Noregi látið sjá ykkur á opnuninni eða þá bara í heimsókn á fyrstu dögum búðarinnar.  En planið er að hafa opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá 11-17 og í vikunni fyrir páska og að sjálfsögðu eitthvað meira í desember.  Sjáum til hvernig sumarið verður því Mandal fyllist af túristum og kannski sé ég hag í því að hafa meira opið.

Hérna fáiði svo að sjá myndir af hvernig búðin er að fæðast, hún er ekki tilbúin en allt á að vera einfalt, hrátt og second hand.

Svona leit þetta út þegar Þráinn var búinn að parketleggja.

Ég fór svo strax á mánudaginn með allan lagerinn sem ég var komin með hérna heima og fór að raða upp og svo kom hún Kolla með eitthvað af skartgripum og  María vinkona kom í gær í heimsókn með gler- og leirlistaverkin frá Guðrúnu Lóu eða LOVI og hjálpaði mér að breyta og raða uppá nýtt og fá hugmyndir í viðbót og þá lítur þetta svona út.

Við ætlum svo að hittast nokkrar þarna á föstudaginn kl. 14 og þá verður líklega lögð lokahönd á röðunina í búðinni en þá eru heilar 2 vikur í opnun svo ég hef nægan tíma til að endurraða og líma logo á glugga og festa fánastangir á húsið (eða sko það er Þráinn sem græjar það) áður en opnunin verður.

Vildi bara leyfa ykkur að fylgjast með og endilega kæru vinir verið nú svolítið dugleg að deila auglýsingunum mínum svo orðið berist sem víðast.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Fotograf og butikksjef 🙂

2 comments Mirra fotograf og kunst….

Helga Gunnlaugs says:

Vá hvað þetta er spennandi hjá ykkur.
Mikið væri gaman að koma og sjá.
Það verður víst að bíða betri tíma
En mikið hlakka ég samt til.
Gangi ykkur rosalega vel og njótið.
Baráttukveðjur frá Íslandi

kjona says:

Já það er mikil spenna í gangi, hlakka til að sýna þér næst þegar þú kemur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.