10 dagar…

Jæja þá eru bara 10 dagar í opnunina hjá mér og það er ekki hægt að neita því að það er spenna í gangi.  Ég er enn að taka á móti vörum en því miður brotnaði talsvert frá leirlistakonunni sem ég fékk í fyrradag.  Ótrúlega svekkjandi að það sé ekki hægt að senda leir á milli landa, eins og hún pakkaði þessu vel inn en það er víst ekki lengur hægt að panta sendingar sem heita brothætt.  Og ef pakki er ekki merktur hvernig á þá að vera hægt að ætlast til að það sé farið varlega með hann.

En ég er að fara á fund á eftir þar sem greinargerð verður send frá þeim til Nav uppá að ég fái styrk til að opna þessa búð, það væri að sjálfsögðu svo mikið æði og ég hef enga trú á öðru en það gangi upp.  Það er alveg sama hvert ég fer í íslenskri lopapeysu, peysunum mínum er hrósað svo mikið (sko ég á þær, þó ég hafi ekki prjónað þær) svo ég bind talsverðar vonir við það að fólk muni njóta þess að geta gengið inní búð og valið sér peysu eða skoðað og fengið hugmynd að peysu sem yrði sérprjónuð eftir máli.

Og þó ég sé búin að vera talsvert down yfir öllum þessum snjó sem verður ekki farinn fyrir páska þá á hann kannski eftir að verða til þess að ég selji meira af ullarvörum um páskana en annars.  Svo um að gera að halda endalaust í bjartsýnina.  Leyfa Pollíönnu að vera með í þessu alla leið.

    

Það verður enginn svikinn sem kaupir þessar vörur það er á hreinu.

Og þar sem það kemst ekkert annað að í hausnum á mér þessa dagana þá er best ég monti mig af fleiri listamönnum en það eru leir og glerlistakonurnar Asa og Guðrún Lóa eða Lovi.

Svo eru það skartgripakonurnar mínar sem svo skemmtilega vill til að heita báðar Kolla.

Og svo er það auðvitað ég sjálf og Konný systir.

Og ef þið kæru vinir lumið á einhverju sem þið mynduð vilja selja (ég set í grunninn skilyrði að listamaðurinn (konan) sé íslendingur þá endilega hafið samband.

Næsta verk hjá mér er að hanna skartgripahengjur eða hvað ég ætti að kalla þær og til þess var farið út í garð með eiginmann og sög og hann sagaði niður greinar af stóra trénu sem voru hvort eð er að vaxa í vitlausa átt og ég ætla síðan að vinna þær eitthvað og vefja með snæri til að hengja upp, festa svo koparnagla á þær til að hengja skartgripina á.

Eitthvað í líkingu við þetta.

en það er í stíl við hillurnar mínar sem eru úr gömlum eplakössum.

  

Og ein skemmtileg tilviljun er að ég á kassa sem við fengum í fyrsta húsinu sem við leigðum hérna og Þráinn bjó til skógrind úr og svo hefur annar þeirra fylgt vinnusvæðinu mínu, geymt prentara og flakkara og fleira tölvudót en núna verða þeir notaðir undir Lopapeysur og þessi skemmtilega tilviljun er að kassarnir eru úr gömlu ullarverksmiðjunni hérna í Mandal.  Þessi kassi sést hérna fyrir miðri mynd.

Eins og þið sjáið þá er komin heilmikil mynd á þetta hjá mér enda aðeins 10 dagar í opnun.  Sigga Kling vill meina að góðir hlutir muni gerast fyrir mig í mars og ég trúi henni sko alveg.

Og já var ég búin að segja ykkur að þetta er svona búð / listagallerý þar sem alltaf er boðið uppá kaffi og stundum meðþví og stundum verða uppákomur og tóm gleði.  Svo það ættu allir að koma og kíkja á mig sem eru staddir hérna í Suður Noregi að minnsta kosti.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna, ljósmyndari og verslurnareigandi.  Það hljómar nú aldeilis vel á CV þó það breyti mér ekki neitt enda hef ég aldrei skilið titlatog.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.