Af hverju fylgir ekki manual hverju barni….


Jæja þá er ég búin að vera um mánuð að vinna í skólanum hérna uppí sveit og búin að átta mig á því hvað ég ræð við og hvað ekki. Fyrst sagði ég bara já við öllu en núna er ég búin að láta vita að ég treysti mér ekki að kenna á norsku krökkum eldri en í 4. bekk og hana nú. Það eru nú nokkrir kennarar og starfsfólk sem treysta mér betur en ég sjálf en ég fann það bara að þetta fór ekki vel í mig þe. að gera eitthvað sem ég gæti ekki gert vel. Ég er bara þannig gerð að allt þarf að vera vel gert sem ég geri.

En ég er líka búin að komast að því að mér finnast 8 og 9 ára börn auðveldari en 6 og 7 ára. Þessi yngri gera grín að því hvernig ég tala út í eitt og eru mörg þeirra (auðvitað ekki öll) hreinlega óþekkt við mig en það er eitthvað sem ég sé ekki gerast þegar kennarinn þeirra er hjá þeim. En það er eitthvað sem ég hefði (væri ég með reynslu) átt að geta komið í veg fyrir en ég veit hreinlega ekkert hvernig ég fæ krakka sem finnst ég tala mjög skringilega til að bera virðingu fyrir mér, sérstaklega þar sem ég fæ ekki að velja verkefnin sem þau eru að vinna hjá mér, það væri að sjálfsögðu auðveldara ef ég fengi að velja þau. En jú þessi sem eru aðeins eldri þau eru farin að hafa áhuga á svo mörgu og svo gaman að spjalla við þau og einhvern veginn virðist ég ekki tala neitt skringilega þegar ég tala við þau ha ha ha. Ég horfi svolítið á þennan tíma minn í skólanum þarna núna til sumarfrís sem tíma sem ég get lært af.


En jú ég ætlaði reyndar að tala um það að mér finnst hreinlega vanta leiðarvísi með hverju barni því á hverjum degi er verið að segja mér frá þessu og hinu barninu sem er svona eða hinsvegin. Það er ekkert endilega að þeim en eins og norðmaðurinn segir svo mikið “Vi må være forskjellige” eða við megum vera mismunandi og því er ég svo sannarlega sammála en ég hugsa bara ef þetta væri venjuleg stærð af bekk þá er ekki möguleiki fyrir kennara að taka tillit til allra sérþarfa eða sérkrafna barnanna. Þessi er mjög viðkvæm og má ekki skamma, þessi á það til að slá frá sér ef hann fær ekki það sem hann vill, þessi borðar ekki svona og hinn vill ekki hlaupa í íþróttum. Þetta er auðvitað ekki mikið mál í svona litlum skóla og litlum bekkjum en enn og aftur finnst mér þjóðfélagið í dag vera allt of mikið, vera að láta hópinn fara eftir einstaklingnum í staðinn fyrir að einstaklingurinn fari eftir hópnum.

Fyrstu dagarnir mínir í skólanum voru bara einkennilegir en núna er ég farin að eiga daga (vinn ekki á hverjum degi núna svo ég fæ hvíld á milli) sem fylla mig gleði og hamingju. Bara það þegar ein 7 ára kemur hlaupandi og knúsar mig þegar hún sér mig, bara það að einn 9 ára kemur og spyr hvort ég hafi ekki ætlað að kenna þeim meira um Ísland og sýna þeim myndband frá gosinu í Eyjum. Bara það að kennarinn í 4. bekk samþykki að ég syngi fyrir krakkana á dönsku “det bor en bager” þegar hún var að kenna þeim mismuninn á framburði í dönsku, sænsku og norsku. Og þá vildu krakkarnir líka að ég myndi prófa að þýða textann á íslensku og það varð bara skellihlátur í bekknum við það. En mest þegar strákurinn sem ég samþykkti að vera aðstoð við 2x 2 øktir á viku (en hann er með aðstoð allan daginn alla daga) situr heilan tíma með bekknum og gerir sömu verkefni og þau hjá mér en það er hann ekki vanur að gera. Að sjálfsögðu er það auðveldrara þegar maður er minna með hann en samt…..


Draumurinn minn (ef launin væru hærri) væri að vinna eins og ég geri núna á þriðjudögum og fimmtudögum og fá svo fast á miðvikudögum með skóladagheimilið því í þessum skóla eru yngstu börnin ekki í skólanum á miðvikudögum. En það eru nú engar líkur á að fá neitt fast þar sem ég er ekki lærð og engin reynsla. Sjáum til eftir 3 ár í afleysinum. Draumar geta ræst en draumar geta líka breyst. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en þetta myndi passa perfekt með Mirra fotograf og kunst því ég er hvergi hætt þar, þó ekki sé nóg að gera til að gefa lifað af því.

En af því að ég var að tala um hérna áðan að mér finnist ég þurfa að gera allt vel og kunna allt fullkomlega áður en ég get miðlað því þá minnir það mig einmitt á þegar ég vann sem hugbúnaðarráðgjafi að ég átti alltaf erfitt með að halda námskeið og svaf illa sem ekkert fyrir þau og miklaði allt fyrir mér því “hvað ef það kæmi nú spurning sem ég gæti ekki svarað”! Er öruggt að ég muni geta kennt allt það sem ég átti að kenna osfrv. En þá kom ein gáfuð kona og sagði við mig: “Mundu það bara Kristín að af öllum þarna inni kannt þú langmest og þó þú getir ekki svarað einni spurningu þá hefur þú alltaf aðgang að öðru fólki sem getur svarað. Og segir þá bara ég þarf að fá að athuga þetta betur og kem með svarið seinna.” Þetta hefur reynst mér vel í lífinu og sýnir hvað það er gott að þekkja gáfað fólk sem hjálpar manni að sjá hlutina rétt.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.