Sameining og kosningar

Featured Post Image - Sameining og kosningar

Jæja nú styttist í að við förum að kjósa í sveitarfélagakosningum hérna þar sem á næsta ári verður sveitarfélagið okkar orðið mun stærra þar sem 3 sveitarfélög eru að sameinast. Mandal, Marnardal og Lindesnes sem munu heita Nye Lindesnes með ca. 22.500 íbúum í .

Það verður að segjast eins og er að þeir sem búa í mínu sveitarfélagi (Marnardal) hafa verið mjög ósáttir við þessa sameiningu og var henni hafnað tvisvar eða þar til þingið sagði bara hingað og ekki lengra þið verðið að sameinast því sveitarfélögin í Noregi eru of mörg og of lítil.

Ég hef beðið spennt eftir þessari sameiningu því sakna þess að búa í Mandal þar sem fólkið í sveitarfélaginu fær þjónustu en hérna er hún ansi lítil og eftir því sem mér skildist þegar ég flutti að þá átti sveitarfélagið okkar fullt af peningum sem munu bara detta inn í sameinuð sveitarfélög núna. En því í fjáranum eyddu ekki Marnardælingar þessum peningum í að gera bæinn okkar betri á þeim tíma sem þeir vissu af sameiningunni en höfðu ennþá fullt forræði yfir peningunum sínum? Líklega vegna þess að þeir sem stjórna hérna kunna ekki að veita þjónustu og eru orðnir svo vanir að spara og safna frekar en að gera eitthvað. Hérna eru götur nánar ókeyrandi en ekkert gert. Hérna eru nánast engar samgöngur og alls ekki byggilegt ef þú átt ekki bíl og er það eitt af mínum stærstu spurningum til flokkanna núna, hvað og hvernig ætla þeir að beita sér fyrir bættum samgöngum innan þessa nýja, stóra sveitarfélags.
Norðmaðurinn er svo vanur að segja alltaf ef einhver vill breytingar “en svona hefur þetta alltaf verið” og ekkert gerist og ef maður hefur skoðanir þá segir fólk, vá þú ættir bara að fara í framboð. Ég hef ekkert erindi í framboð en ef fólki finnst ég frábær kostur þá er ekki nema von að ekkert hafi gerst hérna hjá því fólki sem var kosið síðast og þar síðast og þar á undan líka.

Jú jú það eru skólar hérna og allt í góðu þar, börnin fá kennslu, skóladagheimili og íþróttir eins og annars staðar (íþróttakennsla sem sagt í lámarki). En það búa fleiri hérna en barnafólk og hérna getur þú ekki búið ef þú átt ekki bíl því öll þjónusta er í Mandal eða alla leið í Kristiansand og strætó gengur bara 5 sinnum á dag og miðar sínar ferðir við Menntaskólann í Mandal. Þannig að ef þú býrð hérna en vilt vinna í Mandal þá þarf vinnutíminn þinn að rúmast innan stundarskrár menntaskólans ef þú ætlar að nota almenningssamgöngur og síðasti vagninn úr Mandal og hingað uppeftir er klukkan 15. Svo aldrei láta þér detta í hug að ætla að versla eða kósa þig eftir vinnu eða skóla því þá kemstu ekki heim.

Ég reikna með að samgöngur hafi verið betri þegar þessi strætó gekk

Í fyrra þegar Ástrós Mirra var í Menntaskólanum þá byrjaði hún ekki alltaf kl. 8 og var til 3 eins og strætó gerir ráð fyrir. Hún byrjaði stundum kl. 9.30 og var 2svar í viku búin kl. 11 og til að taka strætó í skólann 9.30 þurfti hún að taka hann kl. 8 og hanga í skólanum í klukkutíma áður en hennar tími byrjaði. Og ef hún var búin kl. 11 þurfti hún að bíða til kl. 14 þegar næsti strætó fór. Þetta fannst mörgum allt í lagi, getur hún ekki bara lært á bókasafninu þennan tíma? Hvaða óskapa tíma heldur fólk að heimanám í menntaskóla taki? Alla vega ekki þennan tíma hjá dóttur minni sem “by the way” var langt yfir meðallagi í einkunum en þar fyrir utan þó að hún hefði haft meira heimanám þá er þetta lítilsvirðing við tíma fólks að finnast bara í lagi að maður hangi einhvers staðar bara af því að samgöngur eru ekki betri. Og þegar maður minnist á samgöngurnar þá kemur alltaf já en það eru allir á einkabílum og af hverju tók stelpan ekki bílprófið bara strax við 18 ára aldur. Ohhhh ekki var sveitarfélagið að borga bílprófið, ekki var henni boðin aðstoð við það nám svo hún gæti sparað sveitarfélaginu strætó, nei það er bara ekki í boði samgönguþjónusta hérna og ég get alveg sagt ykkur það að ef ég hefði verið í fullri vinnu í fyrra þá hefði dóttir mín ábyggilega hætt í skóla ef hún hefði þurft að hanga svona dag eftir dag.

En sem betur fer gat ég keyrt og sótt og suma daga ef hún vildi hitta vini seinnipartinn eða fara í bíó um kvöldið fór ég 3 ferðir fram og til baka. Talandi um umhverfisvernd sem allir þykjast vera svo góðir í núna, þetta er ekki umhverfisvænt, fyrir utan hvað það er leiðinlegt að þurfa endalaust að vera að skutla fram og til baka.

En jæja þá að kosningunum, ég er búin að bíða spennt eftir bæklingunum frá flokkunum því ég þekki ekkert til pólitíkur hérna og er ákveðin í að lesa mig til og helst að fá tækifæri til að spyrja hver er ykkar stefna í samgöngumálum í nýju sveitarfélagi.

Ég gerði könnun á netinu sem hjálpaði mér að komast niður í 3 flokka og svo las ég bæklingana en átti reyndar erfitt með að lesa bæklinginn hjá þeim sem komu best út í könnuninni hjá mér en það eru umhverfisverndarsinnar, þeir spara svo mikið að ég gat ekki lesið bæklinginn þó ég væri með gleraugu á nefinu. Ég reyndar fletti þeim þá bara uppá netinu og las þar.

Ég er eiginlega alveg búin að ákveða mig. Ég ætla ekki að kjósa flokk sem setur í stefnuskrána sína að þeir séu á móti einelti. Hver er ekki á móti einelti og hversu lélega stefnuskrá ertu með ef þú þarf að tilgreina þetta.

Það er ekki einu sinni mynd af öllum frambjóðendum á heimasíðunni þeirra.

Ég vel heldur ekki flokk sem minnist ekki á samgöngumálin. En ég er alveg opin fyrir því að hlusta ef einhver vill segja mér eitthvað og þá kem ég að aðaltilgangi þessa bloggs. Hér bankaði nefnilega einn flokkur uppá áðan og ég greip það fegins hendi að fá að ræða við þau en til að byrja með talaði konan svo hratt að ég skyldi ekki einu sinni frá hvaða flokki þau voru og þegar ég náði því sagði ég þeim frá því að ég væri að fara að kjósa í fyrsta sinn og vildi einmitt heyra hvað allir hefðu að segja til að vita hvað ég ætti að kjósa og þau bara eitthvað já auðvitað og svo kom ekkert.

Ha! Svo ég sagði næst að samgöngumál væru mér ofarlega í huga og þau bara já ok. Og ekkert meira. Svo ég hélt áfram og sagði að það væri ekki byggilegt hérna án þess að eiga 1-2 bíla og þau já en hvað með byggðarútuna? Jú jú það er rúta sem hægt er að panta af og til (og hvernig getur maður lært hvenær?) og þá þarf að hringja í einhvern mann uppí sveit og panta. Og ef þú pantar þá verður þú að fara. Um helgar er hægt að panta þessa rútu kl. 7 til að fara inní Mandal og 11.30 til baka svo jú jú þú átt möguleika að kíkja á lífið án þess að vera edrú á bílnum en þá þarftu að vera búinn að ákveða það með smá fyrirvara. Ég svaraði þessu nú að þessi byggðarúta væri nú örsjaldan og það þyrfti að hringja til að panta. Það væri árið 2019 og ég myndi nú bara vilja fara á app og velja hvenær ég vildi fara. Ég bætti líka við, það er ekki lengur árið 1965. Og strákurinn samþykkti allt sem ég sagði en enn kom ekki píp frá þeim hver þeirra stefnumál væru og þá hreinlega af hverju þau væru að banka uppá hjá mér. Þessi heimsókn endaði á því að ég spurði eruði með einhverja bæklinga til að skilja eftir og jú jú ég fékk einn en OH MY GOD ég kýs ekki verkamannaflokkinn hérna í þessari kosningu ef fólkið sem á að kynna hann getur ekki stunið upp orði við einhverja útlenska kellingu sem svo sem veit ekki neitt.

Ég að hringja í bóndann sem keyrir byggðarútuna

Hver vill giska hvað ég hef ákveðið að kjósa?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.