Að sakna

Síðasta ár var svo skrítið með veikindum mömmu og andláti og ég hef engan veginn verið ég sjálft í meira en hálft ár. Eiginlega bara verið hálf manneskja og svo margir hlutir sem ég gerði hérna fyrir þennan tíma geri ég ekki í dag eða gerði ekki í gær en nú ætla ég að venda mínu kvæði í kross enda ekki í anda mömmu að láta þetta breyta mér til frambúðar.

Svo það fyrsta sem ég ætla að gera aftur er að byrja að blogga og þegar ég blogga er það oftast meira fyrir sjálfa mig en ykkur en ég gat alveg stundum verið fyndin og þá fannst mér skemmtilegt að leyfa ykkur að njóta líka. Já ég sé það að ég blogga kannski fyrir ykkur miðað við hvernig ég skrifa þetta eða kannski líkar mér betur að skrifa bréf en gera dagbók svo ég held mínum stíl áfram og skrifa eins og ég sé að skrifa til ykkar.

Þessi jól og áramót voru að mörgu leiti skrítin og mest fyrir það að hitinn hefur verið þetta frá 4 gráðum uppí 10 gráður og á gamlársdag labbaði maður hérna út á stuttermabol og alles og ég man bara aldrei eftir að hafa gert það áður. Eins voru þetta fyrstu jólin sem Ástrós Mirra býr ekki hjá okkur, þó hún hafi komið og verið í nokkra daga og enginn Erro heldur. En við vorum nú svo heppin að hafa ömmu Steinu svo það varð aldrei tómlegt húsið en hún fór svo heim í gær þannig að nú sit ég hér ein og býð eftir að Þráinn vakni. Ekki það að amma Steina hafi verið vöknuð svona snemma eins og ég en einhvern veginn finnur maður strax að það hefur fækkað í húsinu.

Það er oft svo skrítið hvað það er sem maður saknar, ég til dæmis sakna Erro stundum en alls ekki alltaf og svo þegar ég fæ hann lánaðann þá er ég svo glöð þegar hann fer aftur heim til sín. En þessi hundur er svo sannarlega partur af fjölskyldunni og hans yrði nú sárlega saknað ef hann væri það ekki lengur. Ég til dæmis sakna ekki hárlossins og hárflyksanna hérna um allt hús þó kettirnir sjái til þess að það er ekki hárlaust hérna á gólfunum. En ég sakna þess að hafa’nn, tala við hann og finna að einhver þarf á manni að halda. Það er nefnilega svo skrítið með okkur mannfólkið að við virðumst hafa þörf fyrir að finna að maður er mikilvægur einhverjum. Og hundur sér sko alveg til þess. En Erro leiðist ekki á nýja heimilinu því þar eru 4 ungmenni sem skiptast á að klappa honum og leika við hann og jafnvel fara út að labba með hann og það er svo augljóst þegar hann kemur í heimsókn að hann veit alveg að hann á ekki lengur heima hérna og bíður við dyrnar eftir að fara heim.

Svo sakna ég dóttur minnar mjög mikið, þó við höfum ekkert alltaf sitið saman og verið eins og vinkonur (enda erum við mæðgur) þá sakna ég þess að vita af henni uppi sofandi eða í tölvuleik eða bara úti með vinum, nú veit ég ekki hvort hún er sofandi eða hvað hún er að gera og það er kannski meira það sem ég sakna þe. að vita ekki. Mamma sagði alltaf “þarftu að vita allt sem barnið gerir?” og ég svaraði að sjálfsögðu, “já”. Það er nefnilega bara þannig með mig að ég þarf að vita allt sem hún gerir og tæknin í dag er betri en ekki því þá fær maður þó af og til snöpp og veit að hún fór í göngutúr eða hún er úti með vinum eða, eða eða……

En já svo er það mamma, ég sakna hennar svo ótrúlega mikið og hef eiginlega ekki getað talað um það eða sagt frá því áður en ætla að reyna að geta talað um hana án þess að fara að gráta, því ég þarf að geta farið að rifja upp skemmtilegu hlutina eða líka bara hlutina sem fóru í taugarnar á mér því það er eðlilegt og þannig er samband dóttur og móður það er nefnilega ekki bara góðar stundir það er líka pirringur og ergelsi og hvort tveggja er gott að muna og geta talað um.

Svo já þannig byrjar árið mitt, ætla að láta mér líða betur og ég veit að mér líður oftast vel eftir að skrifa eitthvað hvort sem það er djúpt eða alls ekki, þá finnst mér nefnilega bæði skemmtilegt. Og já nýtt ár, ný tækifæri og vonandi kemur bara enginn vetur því ég er strax byrjuð að bíða eftir vorinu, þoli illa veturinn með öllu sínu myrkri og kulda.

Þangað til næst, ykkar Kristin á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.