Allt og ekkert

Featured Post Image - Allt og ekkert

Ég er búin að vera að hugsa það í dálítinn tíma að koma mér í blogg gírinn aftur og þá meina ég að blogga að minnsta kosti einu sinni í viku. En akkúrat núna á þessum skrítnu tímum sem við lifum á er nú ekki mikið að gerast eða frétta og þó. Ég veit ekki hvort ég geti eitthvað kennt covid um það að hausinn á mér sé kannski bara meira dofinn núna en þegar ég vann með honum. Núna vinn ég með höndunum og leyfi hausnum að snúast bara hring eftir hring, ekkert markvisst og bara bara eins og Norðmenn segja.

En kannski ef ég ákveð að byrja og bara byrja á einhverju sem er kannski ekki neitt, þá kemst ég í gírinn. Mér er svo sem alltaf sama þó enginn lesi bloggin mín því ég skrifa þau mest fyrir mig sjálfa. Þó er alltaf gaman þegar einhver hefur á orði að þetta og hitt bloggið sé skemmtilegt og ég vil nefnilega frekar vera skemmtileg en pólitísk og með miklar skoðanir. Samt er ég með miklar skoðanir og þarf mjög oft að koma þeim á framfæri.

Ég veit ekki hvernig þetta er með ykkur hin sem hittið nánast aldrei fólk nú orðið eins og við hjónin á Nesan en ég þakka Guði fyrir að Þráinn minn nennir að hlusta eða er svona klár að feika það, því þörfin fyrir að tala hefur bara ekkert minnkað hjá mér, bara fólkinu fækkað sem er nálægt til að hlusta. Af hverju ætli við sumar manneskjur þurfum að segja nánast allt upphátt sem við hugsum á meðan aðrar geta haft þetta bara fyrir sig? Alla vega er ég ein af þeim sem tala mikið og ef ég er ein þá tala ég bara við sjálfa mig. Ég reyndar þurfti helst alltaf að lesa upphátt þegar ég var að læra í gamla daga svo kannski er eitthvað í mér finnst að hugsanir séu ekki raunverulegar fyrr en ég heyri þær, ég veit ekki.

En daglegt líf á Nesan er í dag bara þannig að við förum í vinnu og komum heim, rennum kannski við í nærbútikkinni til að kaupa eitthvað smotterí, komum við á pósthúsinu og skjótumst til Mandal bara svona 2svar í mánuði og kaupum inn eins og um DK ferð væri að ræða, fyllum allar frystikistur og njótum þess að eiga nóg að bíta og brenna.

Ég er ein af þeim heppnu hérna úti núna, því þegar atvinnuleysið verður meira og meira þá fæ ég meiri og meiri skúringarvinnu því þó fólk sé atvinnulaust þá þiggur það ekki skúringarvinnu, þannig er það bara. Dæmi engann enda kannski ekki raunhæft að ætlast til að einhver taki 20% skúringarvinnu sem hefur verið í 100% skrifstofuvinnu og kerfið hérna er svo bilað að oft missir fólk svo stóran part af atvinnuleysisbótunum ef það fer að vinna eitthvað smá. Svo ég er alla vega komin í 80% vinnu fram að sumarfríi en þar sem ég er bara svokallaður tilkallingsvikar eða lausráðin í afleysingar þá veit ekkert lengra. Samt er ég alveg með þetta fast þar til….

Ég sem sagt skúra alla daga íþróttahús hérna uppí sveit, eitt lítið skóladagheimili, tvær deildir á einum leikskóla og svo tvisvar í viku sambýli. Þetta virkar kannski mikið en er ekkert svoooooo, en ég þarf samt að fara núna á fætur á morgnanna og eins og í dag, leggja af stað í vinnu kl. 8. Ótrúleg breyting á A manneskjunni Kristínu Jónu sem alltaf var fyrst á fætur og fyrst í vinnu að koma sér ekki á fætur í dag fyrr en undir kl. 10 á morgnanna en þetta er áunnið, þar sem ég vann svo mikið heima með netbúðina og ljósmyndunina eingöngu í svolítinn tíma. En alla vega, breytingar eru góðar og enginn á að festast á einum stað. Þess vegna eru áhugamál svo mikilvæg en ég ætla kannski að tala um þau seinna, þarf að fara að koma mér af stað að handskúra íþróttasalinn þar sem allar græjur sem eiga að vera þar eru bara ekki komnar

Svo þangað til næst, ykkar Stína á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.