Sumarið er komið…

Featured Post Image - Sumarið er komið…

og er reyndar búið að vera hjá okkur í heilan mánuð með sól og hita og núna heldur það bara áfram dag eftir dag sól og 28 stiga hiti, ég elska það ekki meðan ég er að vinna, því það er skelfilegt að vera að þrífa og skúra og svitna bara eins og andskotinn og ráða ekkert við það. En ég lifi það vel af og myndi sko alls ekki vilja skipta svo ég er ekki að kvarta heldur bara segja frá, en á fimmtudaginn byrja ég í sumarfríi og þá er þetta það besta veður sem ég gæti hugsað mér.

Hérna fyrir nokkrum árum kom skjóapar og byggði sér hreiður í einu tré hjá okkur, síðan hafa ungar frá þeim byggt sér hreiður í öðru tré hér hjá og fleiri í trjám nágrannanna og þegar mest er þá hef ég talið yfir 24 skjói á einu túni hérna á nesinu og þetta er dásamlegir fuglar, minna á hrafninn í háttum, eru glysgjarnir og víst einu fuglarnir sem þekkja sjálfs síns spegilmynd eeeenn, þeir hata ketti og þetta sumarið var greinilega mikið af ungum eða ég giska á að þeir hafi orðið svona kreisí vegna unganna sem voru að fara úr hreiðrunum og þeir görguðu stanslaust alla nóttina, við komum einn morguninn hérna niður og kíktum út í garð, héldum að þar væru kisurnar og skjóirnir þess vegna svona trítilóðir en nei nei, allir kettir inni, og lágu á gólfinu fyrir framan svalahurðina og skjórinn kominn uppá pall og alveg við gluggann gjörsamlega að fríka út. En kvöldið áður ákváðum við að loka kattalúgunni til að sjá hvort þetta yrði eitthvað skárra ef við héldum kisunum inni en nei nei það varð ekki.

Hérna á milli okkar og eins nágranna er mikið búið að diskutera hvernig við getum losað okkur við eitthvað af þeim og stungið var uppá að skjóta bara, en ég hélt nú ekki, það er ekki löglegt og svoleiðis gerum við ekki, þá datt mér í hug að saga ofanaf trénu þar sem fyrsta parið sem kom er með hreiður, tréið er orðið allt of hátt hvort eð er og þá verða þeir bara að finna sér nýtt heimili og þetta var samþykkt en verður gert eftir sumarfrí. En í millitíðinni eru þeir bara enn á garginu og við þurfum að sofa með opna svalahurð til að hafa þægilegan hita í herberginu.
Þá kemur einn vinur okkar með þær fréttir að skjórinn sé drulluhræddur við höggorma og hafði heyrt að það virkaði að setja gerviorma í garðinn og það var farið og keypt og viti menn, hér hefur verið þögn að mestu leiti undanfarna daga, eina sem hefur truflað er nýji eigandinn að einu húsinu hérna sem er að taka allt í gegn. 😉 Svo, þó ég elski skjóann, þá get ekki samþykkt það að enginn sofi fyrir hávaða í honum svo ég er alsæl með þetta, það verður samt sagað ofan af trénu því það er svo sannarlega of hátt en engar aðrar hættulegar aðgerðir verða framkvæmdar. Þeir velja sér bara vonandi tré hérna rétt hjá sem hefur enga höggorma í garðinum. Svona næturlæti hafa ekki verið hérna síðan Nala var að breima og þið vitið hvernig fór fyrir henni? Jú jú hún var geld í kjölfarið, því svoleiðis læti og dónaskap vil ég ekki í garðinum mínum ha ha ha.

En annað nafn fyrir Skjóann er Pica pica og það segir nú eitthvað, ha ha ha.

Það styttist í sumarfríið okkar og erum við að plana að fara um 1600 km hérna um Noreg, gista á hótelum og hyttum hingað og þangað og ég segi ykkur meira frá því seinna.

Þangað til næst,
Ykkar Stína úr sumrinu á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.