Sumarfrí 2021 – Romsdalen og Åndalsnes

Dagar 5 og 6 voru teknir í Romsdalen og Åndalsnes. En frá Jessheim var 5 tíma akstur þangað sem við ætlum að gista.

Og að sjálfsögðu er tekin selfie þegar svona stór kafli er framundan. Þe. við tvö, villingarnir (þe. fólk sem getur villst allstaðar) förum í stæðsta road trip 39 ára sambúðar, eða um 1700 km..

Þegar við erum kannski rúmlega hálfnuð með aksturinn þá fer landslagið að breytast svo mikið og ég skaut með myndavélinni út um bílrúðuna nokkrum sinnum og fékk kannski eina og eina mynd sem er nothæf eins og þessi hérna.

Þarna á leiðinni ákváðum við að stoppa hjá þessari fallegu kirkju sem er umvafin fjöllum og fossum á alla kanta.

Við gistum svo á Lensmannsgarðinum í Åndalsnes sem er algjörlega yndislegur staður. Við gistum nánar tiltekið í fjósinu númer 3.

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í bústaðnum, drifum við okkur bara niður í bæ í Åndalsnes til að athuga með Romsdalsgondólinn því ég sá að það átti ekki að vera eins bjart og gott veður daginn eftir og þegar stóra planið er að borga margar krónur til að sjá útsýni þá er það gert í björtu veðri.

Þó ég hafi verið adrenalín fíkill þegar ég var yngri þá hef ég hef verið lofthrædd og hrædd í rússíbana og eiginlega öllum tívolítækjunum síðustu árin eða alla vega frá því að Ástrós Mirra fæddist, en í sumar upplifði ég enga lofthræðslu, minni bílhræðslu en vant er og er að giska á að þetta tengist sem sagt móðurhlutverkinu sem er að sjálfsögðu er ekki lokið en stúlkan flutt að heiman, á yndislegan kærasta og er bara að brillera í lífinu svo ég get bara greinilega slappað meira af. Alla vega fékk ég ekki eitt einasta kvíðakast í þessu fríi og naut mín bara alveg í botn.

Romsdalsgondolen er nýtískuleg rafferðalest sem tekur þig 1679 metra frá firðinum og upp fjallshlíðina og fyrsta kláfferja Noregs byggð á meginreglum sjálfbærni.

360 gráðu útsýni yfir tilkomumikið Romsdalshorn, Vengetindene, miðbæ Åndalsnes, gróskumikla dali og smaragðgræna ána Rauma bíður þín efst. Á veitingastaðnum (sem átti að opna í júlí 2021 en seinkar eitthvað) geta gestir notið útsýnisins ásamt dýrindis máltíð. Kannaðu svæðið efst, með stuttum og vel undirbúnum stígum að nokkrum útsýnisstöðum.

5 mínútna löng kláfferjuferð frá firðinum til Nesaksla. Kaffi, köku, hádegismat eða góðan kvöldmat er hægt að kaupa á toppnum.
Þú hefur tíma til að njóta frábæra útsýnisins og ganga eftir hinum ýmsu hellulögðu stígum áður en þú heldur aftur niður í miðbæinn. Þú getur einnig keypt miða bara upp, sem þýðir að þú getur auðveldlega valið að ganga yfir Romsdalseggen eða framhjá Rampestreken nú eða kaupa báðar leiðir og taka kláfinn aftur niður, eins og við völdum að gera.

Þegar heim í hytte var komið, fórum við að grilla á gamla mátann sem heppnaðist bara svona rosalega vel.

Þetta var alveg hreint stórkostlegt og við heppin að drífa okkur strax því morguninn eftir var þoka og smá rigning.

Dagur 6 og við tókum honum rólega á Lensmannsgarðinum fram að hádegi þar sem það var smá suddi og þoka en eftir hádegi var ferðinni heitið á svokallaða Romsdalströppu og vissum við að það væri smá fjallganga en í bók sem við vorum að skoða í bústaðnum stóð að þetta væri meðal erfitt og ég hef alveg farið í svoleiðis göngur.

Ferðin upp Romsdalstrappa að útsýnisstaðnum Rampestreken (537 m.o.h.) er orðin ein vinsælasta ferðin á svæðinu. Ferðin er vel skipulögð og býður upp á frábært útsýni stendur í umsögn um þessa gönguferð.

Þetta byrjaði ósköp vel þó ég hefði nú fljótt gert mér grein fyrir að ég væri kannski í versta formi sem ég hef nokkurn tíma verið og þá er nú rosalega gott að hafa myndavél svo maður geti bara þóst vera að mynda allt í kringum sig, sem ég svosem geri líka en gott að ná andanum aðeins inná milli.

Það er heitt og það er rakt og ég svitna og svitna og það dropar niður úr hausnum á mér fyrir allan peninginn, nánast vindi hárið inná milli og ég er alveg komin þangað að vilja ekki horfa framan í annað fólk því ég hljóti að líta hræðilega út í þessari fjallgöngu.

Svo þegar við erum komin rétt hálfa leiðina upp sé ég að …. já því á fjöllum í Noregi sérð þú ekki neitt fyrr en þú ert komin alla leið upp eða nálægt því. En jú þá sé ég að þetta er bara nákvæmlega sama útsýnið og daginn áður þegar ég gat borgað fyrir að fara upp og enn hærra með kláf. Úff þetta var nú ekki gott fyrir konu sem er að andast, því í helv. ætti ég að fara lengra en jú jú ég reyni aðeins meira, það getur ekki verið svo mikið eftir.

Og minn maður vill ekki heyra á það minnst að ég klári þetta ekki, enda komin svo langt.

Svona kona, þú getur þetta alveg, ég bíð og ég hjálpa eins og ég get.

En nú er ég bara alveg búin á því svo ég segist bara ekki geta meira en bíði að sjálfsögðu þarna eftir honum þar sem ég sé upp á tröppuna sem allir ganga út á til að njóta útsýnisins og láta taka mynd af sér.

Ég lít meira að segja aðeins betur út en mér leið, sá nú ekki mikið þegar ég tók þessa selfie en vildi bara vera hreinskilin og sýna að það geta ekki allir allt.

Ég fékk nú að heyra það frá vinkonu minni sem er sosial media marketing kona, að ég væri hreinskilnasta manneskjan sem hún þekkti á sosial media. Ég hló dáldið þegar hún sendi mér þessa mynd því til staðfestingar.

En þarna sem ég stoppa og anda stoppaði einn maður með mér þar sem hann var farinn að finna fyrir svo mikilli lofthræðslu, ha ha ha já já maður getur alltaf afsakað sig með því. Það var alla vega ekki mín ástæða. En konan hans og Þráinn löbbuðu bara í samfloti restina af leiðinni upp og sko já þegar komið er næstum því upp, þá er bara biðröð að komast á tröppuna og máttu þau bíða í góðan hálftíma og svo er skilti að einugis megi hver og einn stoppa þarna í 2 mín. svo röðin verði ekki of löng.

Því miður var myndin ekki í fókus hjá konunni sem tók fyrir hann mynd á tröppunni en myndin er til og hún sannar að hann fór alla leið.

Og ég náði nokkrum myndum af Þráni uppá tröppu neðanfrá og það eiga fæstir svona mynd af sér á þessari tröppu svo eitthvað gott hlaust af því að ég væri úthaldslaus.

Niðurferðin gekk bara nokkuð vel en tók á nokkra vöðva. Heim í bústaðinn eftir þetta með øl og mat á grillið og gott kósíkvöld hjá okkur hjónum.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.