Sumarfrí 2021 – Á leið í Sogndalen

Featured Post Image - Sumarfrí 2021 – Á leið í Sogndalen

Dagur 7 og við skelltum okkur bara snemma á fætur þar sem leiðin lá frá Åndalsnes yfir í Sogn og Fjordene eða Sogndalen eins og það er kallað í dag. Þegar ég gerði þessa hringleið og planaði fríið var ég ekki búin að panta gistinguna og valdi bara staðina og því fékk ég út hringleið eins og sést á þessu korti.

En það furðulega gerist þegar ég set svo inn nákvæma staðsetningu sem við erum og þangað sem við ætlum að ég sé ekki betur en við séum að keyra til baka í hátt í klukkutíma sem er afskaplega skrítið en jú jú ég margtékka á Google vini mínum og hann er alveg viss um að við séum á réttri leið.

Þetta var akkúrat kaflinn sem ég var að keyra en það varði stutt því Þráinn er bara ekki alveg eins flinkur á kortinu og ég og ég ekki alveg eins flink að keyra og hann svo við skiptum aftur því þegar þarna er komið við sögu erum við að fara að keyra malarveg. Humm, skrítið! Og komum svo að svona bommhliði og það kostar 100 nok. að keyra þennan veg sem við erum að fara að keyra og tekið fram á skilti að akstur sé á eigin ábyrgð. Shit! Hvað erum við nú búin að koma okkur útí?
En fljótlega fer landslagið að líkjast Íslensku landslagi og við vorum að djóka með að það væri helvíti hart að villast alla leið heim til Íslands, þegar við tækjum uppá því að villast á þessu ferðalagi.

En við ákveðum bara að slappa aðeins af þar sem malarvegurinn var alveg ágætur og kannski stundum betri en margur malbikaður vegurinn.

En svo fer landslagið að breytast aðeins meira og við sjáum að við erum komin uppá hálendið og við gátum sko alveg tekið okkur orðin hans Konna afa í munn og slegið á lær og sagt: “Ég sé sko ekki eftir að hafa komið hingað.”

Þessi fallega fjallasýn var þess valdandi að við vorum alltaf að stoppa og vorum þvílíkt ánægð að hafa lagt snemma af stað og ekki verið með neitt plan þennan daginn nema koma okkur á milli staða.

Svo allt í einu eru farnir að birtast bústaðir þarna lengst uppi á hálendinu eða við töldum okkur alla vega ennþá mjög hátt uppi. Og kindur út um allt og þar á meðal þessar þarna sem lágu eins og dauðar á veginum, ég fór að sjálfsögðu út og ætlaði að athuga með þær en nei nei þá lágu þær bara þarna að sleikja veginn og nú vissum við að fjallalamb er líka til í Noregi, verst að geta ekki keypt það sérmerkt í búðunum.

Að sjálfsögðu urðum við að taka selfie uppá hálendinu til minningar um þessa ferð.

Eitt sem við tókum sérstaklega eftir þarna upp og niður leiðina okkar er að árnar eru svo sérstakar á litinn, næstum því ísbláar svo okkur datt í hug að þetta væru ár sem kæmu frá jöklum og við íslendingar köllum jökulsár. Og mikið eru þær fallegar þarna með hvíta steina allt í kring og svo allur þessi græni litur sem einkennir Noreg.

Jæja fyrst fórum við upp, svo niður og svo aftur upp og þá aftur niður og núna þegar ég fer yfir myndirnar þá veit ég bara ekkert alveg hvar við erum svo ég leyfi bara myndunum að njóta sín en ég held samt að þetta sé allt í réttri röð og myndirnar sem ég sýni ykkur næst, koma úr einum dalnum sem við keyrðum í og þá birtist þetta stórkostlega listaverk.

Og hvað haldiði ekki að við höfum séð þarna in the middle of nowhere, en ekki slátt uppá gamla mátann, karlinn á traktornum og konurnar að raka.

Áfram höldum við og yfir fjöll og firnindi.

Og sjáum svo þennan útsýnisstað sem við að sjálfsögðu stoppuðum á og tókum myndir.

Útsýnið var svo oft svo magnað að ég mátti til að taka svokallaðar panorama myndir en þá tek ég kannski allt að 6 myndir og byrja lengst til vinstri og færi myndavélina smá til hægri þar til ég hef náð öllu því sem við sjáum.

Og aftur keyrum við uppá fjall og þá birtist þessi sýn.

Þetta landslag minnar á engann hátt á Noreg, þannig að þarna erum við búin að keyra í norsku landslagi, uppá hálendi í Íslenskt landslag, niður í dal í norskt aftur og svo aftur upp og þá er þetta útsýnið. Skv. korti gæti þetta verið nálægt Jötunheimum ef þetta er þá bara ekki það. Og eftir smá googl þá fann ég út að þetta eru Jötunheimar svo við komum óvart þangað. Ekki slæmt það.

Svo er keyrt áfram og þá komum við að þessari stórkostlegu fjallasýn og þarna á einum útsýnispallinum er skífa sem þú getur beint að öllum fjallstindunum þarna í kringum þig til að sjá hve há þau eru.

Og þetta er útsýnið frá skífunni í aðra áttina.

Og þetta útsýnið hinum megin.

Hérna erum við svo komin niður, og Kristín fann nú alveg fyrir smá bílhræðslu að keyra niður og niður og niður og niður mjög þrönga vegi þar sem ekki er hægt að mætast og þú sérð alls ekki hvar og hvenær þessi vegur endar.

En hérna erum við greinilega komin niður af hálendinu og búin með þessa stórfenglegu fjallaferð okkar á lága litla sæta Volvóinum okkar sem ég hreinlega klappaði og strauk og þakkaði fyrir þessa konunglegu ferð. Nafnið Guðni forseti hæfir sko þessum bíl, það er alveg á hreinu.

Að lokum komumst við á gististaðinn okkar þar sem endalausir firðir taka við en meira um það í næsta bloggi.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.