Já þegar það hittist á sama tíma og ég er eitthvað að taka til í sjálfri mér að þá fengum við loksins tíma hjá löggunni til að ljúka ferlinu við að sækja um norskan ríkisborgararétt. Kannski er það ákveðin tiltekt líka, ég veit ekki.
Alla vega við hjónin áttum tíma í gær, það stóð vinsamlegast mætið tímanlega og auðvitað gerðum við það, vorum mætt meira en hálftíma áður en Þráinn átti að mæta og klukkutíma áður en ég átti að mæta. En það er allt í lagi, nema það stórvantar þarna í nýja lögguhúsið þar sem allt er svo flott og fínt, vatnsdúnk og glös svo fólk geti nú fengið sér sopa ef það þarf að bíða lengi. Já bíða lengi því þó þetta hafi verið í norsku umráði þá komst Þráinn ekki inn fyrr en hálftíma eftir að hann átti að mæta og þetta þekkist varla hérna í Noregi. En svona var þetta í gær og á endanum komst hann inn og svo ég. Ég var með fullt af pappírum sem ég átti að hafa tilbúna og svo var ég spurð að kennitölu, hvað lengi ég hefði búið í noregi og síðan átti ég að staðfesta símanúmer og tölvupóst. Búið meira var ekki sagt við mig, fyrr en allt var frágengið og þá tilkynnti hún mér að innan viku fengi ég digipost og eftir það gæti ég pantað aftur tíma til að sækja um nýtt rautt vegabréf. Hummm ók, ég hélt allir aðrir hefðu fengið vegabréfið á sama tíma og þetta en jú jú það gæti verið misskilningur og alls konar. Skiptir mig engu máli þetta bláa er í gildi og ég ekkert á leiðinni úr landi svo ég bíð bara í viku og sæki svo um.
Held að við höfum verið búin að keyra í ca. 15 mín þegar ég fékk tilkynningu í póstinum að ég væri komin með norskan ríkisborgararétt.
Þráinn fékk meldingu eftir 2 tíma, hummm hvað stóð svona í þeim með hann, ha ha !
Jæja svo 19.09.23 fengum við bæði hjónin norskan ríkisborgararétt og höldum okkar íslenska að sjálfsögðu, fáum semsagt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt. Við hefðum annars aldrei skipt. Sá íslenski er mikilvægastur þó við búum í öðru landi.
Og svona á þriðjudegi þá varð ég nú ekki vör við að ég breyttist neitt við þetta, fór að skúra, svitnaði alveg jafn mikið og í síðustu viku þegar ég var bara íslensk. Ég veit að þetta breytir því að ég má loksins kjósa til alþingis hérna, við höfum mátt kjósa til sveitarstjórna en ekki alþingis hingað til og heldur ekki til alþingis á Íslandi því eftir 10 ára búsetu í öðru landi þá missir þú konsningaréttinn þinn í heimalandinu.
Hvað annað breytist veit ég ekki, nema að norðmenn bera virðingu fyrir þeim sem skipta um ríkisfang en það skiptir mig engu máli. Við ferðumst ekki svo mikið eða til landa þar sem ísland hefur ekki sendiherra svo það er ekki þess vegna sem við gerum þetta. Og mér finnst persónulega blátt vegabréf fallegra en rautt. Hvort ég fái hærri lífeyrissjóð eða tryggingabætur þegar ég fer á eftirlaun efast ég um, enda kerfið hér svipað og heima, allir fá sem allra minnst eða þannig. Svo kannski var þetta mest prinsippmál fyrir mig þar sem dóttir mín er komin með norskan ríkisborgararétt og gift norskum manni, þannig að við munum (ef við munum) eignast norsk barnabörn (sem verður kennd íslenska og alltaf töluð íslenska hjá afa og ömmu).
Alla vega hef ég ekki fundið neina breytingu, hef ekki heyrt um neitt sem breyttist hjá þeim sem hafa tekið norskan ríkisborgararétt nema jú vegabréfið er ódýrarara og hægt að sækja um nýtt hérna í Kristiansand en þurfum ekki lengur að fara til Oslo og eyða nótt á hóteli til að sækja um það. Djö…. væri næs ef launin myndu hækka ha ha. Dream on kona!
Annars er bara búið að rigna eldi og brennisteini mánudag og þriðjudag og það er ekkert hætt að rigna, ég er samt að hugsa um að skella mér í úlpu í dag og taka göngutúr á mínum forsendum. Tók nokkra svoleiðis í síðustu viku og það var ljúft. Ekki fara í göngutúr með Erro þar sem tilgangurinn er að leyfa honum að hreyfa sig, ekki fara í göngutúr með Þráni (nema hann vilji vera með á mínum forsendum) því hann labbar alltaf of hratt og kröftuglega fyrir minn smekk. Nei fara í göngutúr, horfa upp, horfa niður, stoppa og horfa betur, horfa til hægri og til vinstri og stoppa aftur og skoða umhverfið. Taka myndir ef það passar. Setjast niður ef hægt er að anda inn og anda út. Skilst að það sé nýtt orð yfir þetta á Islandi og það heiti “núvitund” eða tankefullhet á norsku. Aldrei heyrt þetta orð áður.
Þarf að fá mér stígvél aftur ef þetta verður rigningarhaust, get ekki komið alltaf blaut í fæturna heim.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.
ps. mér datt í hug í gær hvort við ættum að taka upp eftirnafn en gat ekki fundið neitt sem væri svo við. Svo endilega ef ykkur dettur eitthvað í hug þá endilega skjótið á mig tillögum, það gæti nú auðveldað lífið hérna í Noregi ef maður hefði ættarnafn. Og já það verður að vera pínu íslenskt/norskt.