Skyndihjálparnámskeið

mynd fengin að láni á internetinu

Já það var aldrei að ég þyrfti ekki að skella mér á skyndihjálparnámskeið í vinnunni, ég var meira að segja í sérstökum hópi sem átti að læra á hjartastartarann þar sem það er einn svoleiðis í íþróttahúsinu sem ég er að skúra í. Það er alltaf svona “sikkerhetsuka” (öryggisvika) á haustin hjá okkur og námskeið alla dagana en sko maður fær ekki frí í vinnunni, heldur verður bara að reyna að vinna vinnuna sína rosalega hratt til að komast síðan inn í Mandal 20 mín frá Øyslebø og 45 mín frá mínum vinnustað. Sumt í þessari viku er bara að læra að færa athugasemdir inní eitthvað tölvukerfi, hvernig á að meðhöndla hættulegt avfall (reyndi að googla þetta orð sem ég held reyndar að allir skilji og fæ bara upp sóun) og svo var brunaliðið með æfingu og kennslu á slökkvitæki og þannig. Já og svo skyndihjálparnámskeiðið. Ég ætlaði nú á brunaæfinguna en var bara upptekin við að verða norskur ríkisborgari þá svo ég var ákveðin að fara á skyndihjálparnámskeiðið. En svo í gær, þá rigndi eldi og brennisteini hérna hjá okkur og mér fannst bara ekki vera ferðaveður til Mandal (ha ha ha) og var eiginlega bara að finna allar þær afsakanir sem mér duttu í hug til að skrópa en þá sagði Þráinn að það væri nú kannski allt í lagi að ég lærði eitthvað af þessu svo ég mögulega gæti bjargað honum ef eitthvað kæmi nú uppá. Úff já auðvitað verð ég að fara, ég er náttúrulega löngu komin með titillinn versta hjúkrunarkona í heimi og ég gæti nú kannski bætt fyrir það eitthvað með því að fara á þetta námskeið.

mynd fengin að láni hjá freepik

Svo ég fór og fór jákvæð og faldi mig ekki úti í horni þegar ég kom heldur kom með látum inn og sagði hérna þekki ég einhvern og tróð mér inná milli kvennanna sem ég kannast við og vinna í dalnum hérna. En ég á það nefnilega til að verða feimin þegar er mikið af fólki og enginn sem segir að fyrra bragði Hæ þegar ég kem inn en ég leyfði þeirri leiðinlegu hugsun ekki að koma fram í gær og tók bara sjálf af skarið. Auðvitað var ég velkomin í hópinn og er það ábyggilega alltaf það gerist stundum bara eitthvað skrítið í hausnum á mér þegar ég verð “ein”.

mynd fengin að láni á internetinu

Námskeiðið byrjaði með norskum námskeiðshádegismat. Baguett með skinku og osti og vatn eða kók. Ég hlæ alltaf, getum við sparað þennan tíma að bíta í harða langloku og drifið námskeiðið bara af en nei , þetta er sjálfsagt eitthvað sosial dæmi hjá þeim sem virkar ekki fyrir mig. En jæja sá sem átti að halda námskeiðið fer að gera sig klárann og ég tek það fram að námskeiðið er haldið í áhaldahúsinu og risastórum bílskúr með 5 metra lofthæð og engin einangrun. Hljóð eru einkennileg þarna inni og ég heyri oftast ekki neitt. Nema þessi hafði microfón, geggjað þá kannski skil ég eitthvað. En Guð minn góður maðurinn talaði svo hratt að ég náði ca 5 hverju orði og glærurnar voru bara með myndum en ekki texta svo ég gat ekki bjargað mér að lesa bara textann. Og það sem hann gat talað og gantast við kellingarnar. Hallóooooo getum við haldið áfram með námskeiðið og farið að prófa að lífga við einhverjar dúkkur og setja smá stuð á þær? Nei nei, svona hélt þetta áfram í góða 2 klukkutíma, úff það sem það reynir á heilann að vera að reyna að hlusta, reyna að skilja og með allt skvaldrið í kellingunum á bakvið þig að trufla og alls konar önnur hljóð. Svei mér þá það var stutt í að ég yrði alvöru meðvitundarlausi sjúklingurinn þarna því ég var bara að “fade out” þarna.

mynd fengin að láni á internetinu

Loksins er byrjað að sýna okkur hvernig á að gera þetta á dúkkunum og starta hjartastartaranum og nota hann og allt og já okkur skipt í hópa og eigum að vera tvær og tvær og auðvitað stóð ég eins og illa gerður hlutur því ég á enga vinkonu í vinnunni þannig séð, kannast við nokkrar, finnst ein ótrúlega leiðinleg og hún sækir svo í mig en þá kallar á mig ein lítil sorrý ekki neinir kynþáttafordómar hér, hún er pínulítil og snaggaraleg og hún kallar í mig en ég get því miður aldrei munað nafnið hennar sem er Thang Sing Nam (ég fletti því upp núna) og nú verð ég bara að fara að muna það. Hún var alveg þrælflink að opna öndurnarveginn á mér og setja mig í læsta hliðarstöðu og mér tókst vel upp með hana en þá tók við kallinn á gólfinu sem átti að gefa hjartahnoð og blása lífi í. Hann lifði ekki af. Hann lifði ekki af 4 sinnum hjá mér. Ég fékk aldrei að vita úr krufningunni hvað hefði verið að hrjá hann en endurlífgun virkaði alla vega ekki. Ég held hann hafi fengið veikan púls eftir að Thang prófaði að endurlífga hann svo það er á hreinu að hún er betri hjúkka en ég.

mynd fengin að láni á internetinu

Svo áttum við að prófa hjartastuðtækið og þá fór allt til helvítis. Heyrði ekki neitt hvað tækið var að reyna að garga á mig, ég reyndi að fanga athygli kennarans og spurði hvað þetta þýddi og var bara engu nær með svarið hans, reyndi að fylgjast með hinum stelpunum en veit svo sem ekki hvort þeim hafi gengið nokkuð betur. Sko ég setti púðana hárrétt á kallinn, blés þannig að græjan sýndi súrefni koma inn í hann, blés reyndar svo fast að ef hann hefði haft neðri part hefði hann örugglega prumpað. En svo var það hjartatækið það bara gargaði sömu orðin aftur og aftur og ég hamaðist að hnoða aumingjas manninn en ekkert gerðist. Sama var nú með Thong, kannski tækið okkar hafi verið bilað eða kannski erum við bara bilaðar. Alla vega hefði þetta verið próf þá væri ég fallin. Og nokkuð ljóst að ef þú ætlar að hníga niður nálægt mér, passaðu að það sé þá að minnsta kosti að það sé einhver annar þarna líka sem getur tekið stjórnina og sagt mér fyrir.

mynd fengin að láni á freepik

Ég gæti mögulega verið sú manneskjan sem hringir í 113 af því að ég elska að tala við ókunnuga í síma (not) en jú jú ég myndi gera það. Og ég gæti hlaupið út á móti sjúkrabílnum til að sýna honum hvar sjúklingurinn er osfrv. Yrði ekki alveg gagnslaus en plís ekki treysta á mig aleina, það yrði ekki sigur fyrir neinn. Og sko ykkur að segja að ég átti að mæta á þetta námskeið af því að það er hjartastuðtæki í íþróttahúsinu mínu …en sko ég er alltaf alein þar þegar ég er að skúra og yfirleitt að klára þegar fyrstu bekkirnir koma í leikfimi svo kannski hefðu nú frekar kennararnir átt að vera á þessu námskeiði því það eru nú meiri líkur á að þeir þurfi kannski að bjarga einhverjum heldur en að það verði ég.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan

One thought on “Skyndihjálparnámskeið

  1. Hahaha fràbær pistill Kristín sem kitlaði hláturtaugarnar😁skellti uppúr yfir kaffibollanum😁😁

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.